Eldri færslur eftir merkjum fyrir ysl

Maskari sem þolir ýmislegt!

Vörurnar í færslunni eru sýnishorn

Það er löngu komið að þessari færslu hjá mér þar sem þessi maskari og maskaragrunnur er búinn að vera í stanslausri notkun hjá mér í nánast allt sumar! Næsta færsla sem ég mun hinsvegar skrifa er færsla um sumarið mitt. Hún er í vinnslu og er á leiðinni en ég var nokkuð MIA í sumar hérna á blogginu og það er ekki það að mér finnst ég þurfa að skrifa einhverja útskýringu á því hvers vegna heldur langar mig að gera það, deila með ykkur sumrinu mínu og reyna að koma mér á full skrið á blogginu hérna aftur 🙂

En þá að þeirri dásemd sem þessi færsla er um, Volume Effect Curler maskaragrunninn og maskarann frá Yves Saint Laurent. Ef ykkur vantar að prófa nýjan maskara… þá ættuð þið að prófa þennan – no joke!

Þær hjá YSL á Íslandi voru svo yndislegar að senda mér maskarann og maskaragrunninn fyrr í sumar og eru báðir tveir búnir að vera í stöðugri notkun hjá mér síðan þá. Ég lagði meira að segja tvennuna í almennilegt test þegar ég var stödd úti á Spáni í miiiiiklum raka og 30+ stiga hita. Spoiler-alert…. hann hélst á sínum stað! Tvennan á að lengja, þykkja og krulla augnhárin og hún gerir það svo sannarlega eins og þið munuð sjá hér eftir smá.

Byrjum að fara aðeins yfir The Curler maskaragrunninn sem er bleikur… jebb ég sagði BLEIKUR! Ég hef aldrei notað eða jafnvel heyrt um bleikan maskaragrunn áður svo þegar ég opnaði túpuna þá var ég mjög hissa að sjá bara ljósbleika formúlu blasa við mér.

Bleiki liturinn á þessum myndum er ekki bara útaf bleiku gúmmígreiðunni heldur er formúlan líka bleik. Greiðan er frekar beisik, hún hylur hvert og eitt augnhár með grunninum og bætir alveg svakalega við lengdina á augnhárunum.

Hérna getið þið séð annað augað mitt með maskaragrunninum og hitt augað hreint. Þið sjáið alveg greinilega mjög mikinn mun enda er grunnurinn alveg frábær.

Ég var hissa þegar ég opnaði maskaragrunninn en ég var líka hissa þegar ég opnaði maskarann. Og nei hann er ekki líka bleikur þó að gúmmíburstinn er bleikur en lögunin á greiðunni er rosalega óvanaleg.

Hér getið þið séð greiðuna aðeins betur en það var frekar erfitt að ná henni á mynd svo lögunin og broddarnir á henni sjáist sem best. Undir boganum er að finna tvær línur með broddum sem eru eins og á burstagreiðu en það er frekar langt á milli línanna. Á hliðunum eru síðan breiðari gúmmíbroddar og ofan á sveignum er fullt af svona greiðu-broddum eins og á burstagreiðu. Vá ég veit ekki hvort þetta sé skiljanlegt hjá mér en næst þegar þið farið á sölustað YSL þá þurfið þið eiginlega bara að kíkja á hann og skoða. Hann er mjög forvitnilegur og ég þurfti alveg að læra á hann – það tekur svona tvö skipti og þá er það komið. Þú notar sem sagt sveiginn til að krulla upp á augnhárin og hliðarnar með breiðu broddunum til að skilgreina augnhárin betur.

Hér er ég búin að setja maskarann yfir maskaragrunninn þegar hann var þornaður. Þið sjáið mikla muninn á augunum mínum! Tvennan gerir ekkert smá mikið fyrir augnhárin mín og það er ástæðan fyrir því að ég er búin að nota hana í allt sumar.

Það er hægt að nota maskarann einan og sér en mér finnst betra að nota hann með grunninum til að vera alveg hreinskilin. Það er líka auðveldara að taka maskarann af þegar maður notar grunninn, afhverju það er veit ég ekki því maskarinn með grunninum molnar ekki neitt og ekki maskarinn einn og sér heldur. En ég er alltaf ógeðslega nojuð á það að þurfa að nudda af mér maskara því augnsvæðið mitt er svo viðkvæmt. Þess vegna fær tvennan stóran plús frá mér bæði fyrir að endast ótrúlega vel og lengi, molna ekki af, smitast ekki til og það er auðvelt að taka hana af!

Hvet ykkur til að kíkja á þessa tvennu ef ykkur vantar nýjan maskara eða þið viljið bara prófa eitthvað nýtt og spennandi þetta haust!

Rannveig / @rannveigbelle

Fyrir og eftir með nýja farðanum frá YSL

Farðann fékk ég í gjöf frá YSL á Íslandi

Það er nú heldur betur langt síðan ég gerði fyrir og eftir færslu með farða! Það er því kominn tími til að bæta úr því og tilvalið að sýna ykkur nýja farðann frá YSL í leiðinni. Farðinn sem um ræðir að þessu sinni er Touche Éclat All-In-One Glow sem er eins og ég nefndi nýr í úrvali hjá Yves Saint Laurent.

Farðinn er eiginlega mitt á milli þess að vera litað dagkrem og meik en hann er alveg ofboðslega léttur og gefur ljómandi meðalþétta þekju á húðina. Farðinn inniheldur SPF 23 sem verndar húðina fyrir hættulegum geislum sólarinnar á sama tíma og hann jafnar lit hennar, birtir yfir henni og fyllir upp í fínar línur. Þessi dásamlegu orð eru eflaust ástæðan fyrir því að hann kallast All-In-One!

Farðinn er laus við olíu, paraben og talc svo formúla hans er mjög létt og þægileg á húðinni en 70% af innihaldsefnum hans er vatn! Hann inniheldur líka hyaluronic sýru sem bindur raka í húðinni og E-vítamín sem getur hjálpað gegn ótímabærri öldrun.

Þetta hljómar allt rosalega vel en við skulum nú skoða aðeins hvernig hann lítur út á húðinni.

Eins og ég skrifaði hér fyrir ofan er farðinn mitt á milli þess að vera litað dagkrem og meik en þekja hans er uppbyggjanleg og getur farið frá því að vera létt yfir í að vera meðal. Ef þið eruð að leita ykkur að vel þekjandi farða þá er þessi eflaust ekki fyrir ykkur þar sem aðal markmið hans er að gefa húðinni náttúrulegt, heilbrigt og ljómandi yfirbragð.

Hér getið þið svo séð mynd af mér hlið við hlið. Vinstra megin er ég ekki með neitt á andlitinu mínu en hægra megin er ég einungis með farðann á mér. Takið sérstaklega eftir þeim stöðum sem ég merkti inn á myndina. Þar má sjá roða og annað í húðinni. Eins og þið sjáið þá hefur farðinn hresst töluvert upp á húðina mína á myndinni hægra megin og gefið henni fallegra yfirlit.

Hér er ég svo búin að klára förðunina mína með því að setja á mig hyljara og létt púður til að festa hann.

Endingin á farðanum er MJÖG góð en ég prófaði hann á venjulegum 8 tíma vinnudegi og tæplega 2 tíma ferðalagi fram og tibaka frá heimilinu mínu. Í lok dags var farðinn ennþá fallegur á mér en hann var aðeins búinn að safnast saman í kringum nasirnar mínar en það getur líka verið út af hyljaranum mínum. Þess vegna finnst mér það ekkert eftirtektarvert. Farðinn er rosalega léttur og þægilegur en hann leyfði húðinni minni að anda vel yfir daginn. Eina sem ég get í rauninni fundið að honum eru umbúðirnar. Svona túpu pumpur eru ekki í uppáhaldi hjá mér en það er að sjálfsögðu mjög persónubundið.

Virkilega fallegur farði sem kom mér skemmtilega á óvart. 

-Rannveig/@rannveigbelle

Gullpenninn frá YSL… hvernig á að nota hann!

Ég á bæði Touche Éclat penna sem ég fékk í gjöf til þess að prófa og penna sem eru í einkaeigu

Ég veit þið trúið ekki hversu lengi þessi færsla er búin að vera í kollinum á mér! Við erum örugglega að nálgast svona tvö ár svo það er ekki seinna vænna en ég fari að hysja upp um mig buxurnar og skrifi hana loksins! Gullpenninn frá YSL eða Touche Éclat eins og hann heitir nú er ein af þessum snyrtivörum sem á það til að rugla marga í ríminu. Penninn gerði það svo sannarlega við mig fyrst þegar ég prófaði hann en ég bjóst bara við venjulegum hyljarapenna en síðan þá hef ég sko heldur betur lært að nota hann rétt. Touche Éclat penninn kom fyrst á markað árið 1992 svo hann er hvorki meira né minna en jafn gamall og ég blessaður! Penninn var hugverk Terry de Gunzburg sem var fengin af YSL til þess að byggja upp snyrtivörulínu merkisins. Núna er hún reyndar eigandi sinnar eigin línu, By Terry ef einhver af ykkur kannast við hana. Terry hefur stundum verið nefnd Steve Jobs snyrtivörubransans þar sem hún fann upp á vöru sem var á undan sínum samtíma en fyrst um sinn hafði enginn áhuga á gullpennanum því enginn skildi í raun hvað hann átti að gera. Það tók hana til dæmis þrjú ár bara til þess að sannfæra stjórn YSL um að setja pennann á markað!

En hvað gerir eiginlega þessi frægi Touche Éclat gullpenni? Penninn er í sjálfu sér ekki hyljari heldur ljómapenni. Fyrst um sinn kom hann einungis í einum lit en síðan þá hefur litaúrvalið sem betur fer breikkað og núna fæst hann í fleiri litum. Pennann á að nota til þess að færa andlitinu birti á nákvæmlega þá staði sem viðkomandi kýs. Penninn inniheldur ekki shimmer heldur ljómandi agnir sem eru í nógu þunnri formúlu til þess að liggja létt á yfirborði andlitsins og formúlu sem hægt er að nota í pennaformi! Ástæðan fyrir að Touche Éclat er í pennaformi er svolítið skemmtileg en Terry vildi eitthvað auðvelt sem hægt væri að nota með einni hendi. Hún var sjálf að sjá um ung börnin sín á þessum tíma og hafði því oftast bara eina hendi til þess að gera hluti með og því vildi hún geta klikkað ofan á pennan en ekki skrúfa vöruna niður eins og tíðkast oft. Penninn er síðan með bursta að framan en Terry fékk burstann sendan fyrir slysni af verksmiðjunni en framan á pennanum átti að vera svampur. Eðlilega veltur maður því fyrir sér hvað kemst mikil vara í svona litlum penna en YSL segir að það þarf um 200 klikk til þess að tæma pennann.

Þar sem þetta er ljómapenni skuluð þið ekki nota pennan eins og hvern annan hyljara! Ef þið gerið það munuð þið verða fyrir vonbrigðum. En hvernig á eiginlega að nota þennan fræga gullpenna?!

Ég mæli með að byrja alltaf á því að klikka pennan nokkrum sinnum og setja vöruna á handarbakið. Þannig hefur þú miklu meiri stjórn á vörunni sem er í burstanum á pennanum og ert ekki að setja of mikið af vöru á hvern stað. Ég legg síðan alltaf bara burstann í vöruna á sem er á handarbakinu mínu ef ég þarf meira.

Þar sem að gullpenninn er ekki beint hyljari, eins og ég nefni hér fyrir ofan, byrja ég alltaf á grunninum mínum, set á mig farða/hyljara eða bæði áður en ég set á mig Touche Éclat. Passið ykkur samt á því að setja ekki neitt púður á ykkur áður en þið setjið á ykkur gullpennann þar sem að, líkt og með aðrar fljótandi vörur og púður, þá blandast þær ekki vel saman.

Næst set ég vöruna úr gullpennanum á öll þau svæði andlitsins sem mig langar að birta yfir. Hérna er mikilvægt að hafa í huga að ég skrifa birta yfir, ekki hylja. Ég set því pennan yfir og undir augabrúnina, inn í innri augnkrók, á kinnbeinin mín og aðeins innar, yfir efri vörina mína, aðeins undir hliðarnar á neðri vörinni minni (sleppi undir miðjunni), mitt á hökuna, aðeins undir kinnarnar (undir þar sem ég myndi setja skyggingarvöru) og smá á milli augabrúnanna og rétt þar niður. Þetta eru allir þeir staðir á andlitinu mínu sem ég vil draga fram.

Næst tek ég fingurna eða blöndunarbursta úr gervihárum og dreifi úr vörunni. Hér á myndinni dreifði ég ekki alveg fullkomlega úr vörunni til þess að þið mynduð sjá svona sirka hversu mikið hann birtir yfir þeim stöðum sem ég set hann á.

Hér er ég síðan búin að blanda vöruna almennilega við húðina og þið sjáið hvað andlitið mitt er miklu meira mótað ef þið berið þessa mynd saman við fyrstu myndina, þar sem ég var ekki með gullpennan á andlitinu.

Nú hugsa eflaust margir hvað er öðruvísi við pennann og einfaldlega ljósan hyljara. Munurinn felst einna helst í formúlunni þar sem að hyljarar eru oftast þéttari og þykkari í sér, sitja meira ofan á húðinni og sjást þannig meira. Touche Éclat hefur það að markmiði að vera hvað náttúrulegastur og því er formúlann léttari og hann hylur ekki heldur birtir yfir húðinni ykkar. Það er svo ykkar að meta hvort þetta sé vara sem að hentar ykkar þörfum. Fyrir mig sem elskar að vera með hvað náttúrulegasta húð er Touche Éclat mjög hentugur.

Vonandi hef ég aðeins getað svipt hulunni af vöru sem vefst oft fyrir mörgum en séuð þið með einhverjar spurningar þá skuluð þið ekki hika við að senda mér athugasemd hér fyrir neðan eða línu í pósti <3

-RH / @rannveigbelle

TAX FREE óskalistinn

Ég er svo mikið að reyna að halda aftur af mér á Tax Free í Hagkaup núna en mig langar svo mikið að kaupa mér eitthvað til að bæta í sístækkandi snyrtivörusafnið mitt! Ég er að reyna að halda aftur af mér því ég ætla að kaupa Jaclyn Hill augnskuggapallettuna þegar hún kemur aftur í sölu og það eru alveg 35 augnskuggar í henni! Ég er búin að vera alveg vitlaus í augnskugga frá því ég losnaði við gleraugun mín (ég þarf að fara að skrifa færsluna um það ferli bráðum) og mig langar helst bara að gera einhverja svaka augnförðun á hverjum einasta degi og eiga alla augnskugga sem til eru! En það er alltaf hollt að leyfa sér að dreyma og hér sjáið þið því TAX FREE óskalistann minn 🙂

Urban decay Moondust palletta

Smashbox Cover shot palletta í litnum Golden Hour

Real Techniques Ready Set Glow

Real techniques Fresh Face Favorites

Clinique Beyond Perfecting Foundation + Concealer

Colorista Washout í litnum Purple

YSL Mon Paris ilmur

Öll sumarlínan frá Essie!

Eins og þið sjáið er nóg á óskalistanum hjá mér og þar efst á toppi trónir Moondust pallettan og öll sumarlínan frá Essie en hún er ekkert annað en tjúlluð! Mig langar svo lúmskt að skella nokkrum fjólubláum Colorista Washout strípum í mig í sumarfríinu og sjá hvernig það kemur út! Aldrei að vita nema ég geri það og sýni ykkur útkomuna 🙂

Rannveig H.

Fylgdu mér á Facebook og Instagram (rannveigbelle)

 

Sephora óskalistinn #2

faerslan_er_ekki_kostud

Eigum við eitthvað að ræða það hvað þetta er búinn að vera yndislegur dagur! Ég er búin að vera úti í allan dag að gróðursetja og koma garðhúsgögnunum í gott stand fyrir sumarið svo ég er eiginlega pínu búin á því eftir daginn sem þýðir bara að ég hafi verið að gera eitthvað af viti 🙂 En hvað um það, hér kemur annað holl af því sem leynist í Sephora körfunni minni!

Sephora_wishlish

1. Too Faced Chocolate Bar

Fyrst að yndislegu foreldrar mínir komu mér á óvart með Sweet Peach pallettunni frá Too Faced er einungis ein palletta eftir í körfunni minni frá merkinu og það er upprunalega Chocolate Bar pallettan.

2. YSL Black Opium

Þetta ilmvatn hefur lengi verið á óskalistanum mínum enda er lyktin af því alveg hreint dásamleg og höfðar rosalega til mín.

3. Laura Mercier Matte Radiance Baked Powder Compact

Ljómapúður frá Laura Mercier þrátt fyrir að í heiti þess stendur að það sé matt. Kathleen Lights dásamar þetta ljómapúður alveg fram og tilbaka og þar sem ég treysti henni alveg fullkomlega langar mig ótrúlega mikið að prófa púðrið 🙂

4. Glam Glow Powermud Dualcleanse Treatment

Youtube gúrúarnir hafa ekki undan að dásama maskana frá Glam Glow og því ratar einn af þeim á óskalistann minn. Ég skoðaði þá síðast þegar ég fór í Sephora og þeir lofuðu góðu en voru heldur dýrir að mínu mati fyrir magnið sem maður er að fá. Þessi kostar til dæmis 69 dollara fyrir aðeins 50 ml.

5. Make Up Forever Ultra HD Invisible Cover Stick Foundation

Ég er ofsalega spennt fyrir öllum förðum í stiftformi þessa dagana. Ég prófaði til að mynda einn svoleiðis frá Clinique núna um helgina og varð rosalega hrifin af honum. Þessi stiftfarði frá Make Up Forever ratar á óskalistann.

6. Becca Shimmering Skin Perfector Luminous Blush í litnum Tigerlily-Tangerine

Ljómandi kinnalitur frá Becca sem ég held að muni smellpassa við allar sumarfarðanir!

7. Makeup Eraser

Klútur sem á auveldlega að fjarlægja allan farða af andlitinu þegar hann er rakur. Mig langar rosalega að prófa þennan en er samt mjög skeptísk á hann. Hefur einhver prófað klútinn og getur sagt mér hvort hann yfirhöfuð virki eða ekki? 

Þetta var annar hlutinn af óskalistanum endalausa. Vonandi hafði þið fengið einhverjar hugmyndir ef þið eigið leið ykkar í Sephora í sumar 🙂

-Rannveig H.

Fylgdu mér á Facebook til að fá nýjustu færslurnar beint í æð!

  

 

Fylgdu okkur á


Follow