
Það er ótrúlegt hvað hlutirnir ganga alltaf í hringi þegar kemur að tískunni. Núna er til dæmis allt að verða vitlaust aftur í kringum hin svokölluðu Choker hálsmen. Það er auðveldast í heimi að búa til þannig hálsmen án þess að eyða miklum tíma eða pening í verkefnið svo mig langaði að sýna ykkur hvernig ég fer að því að búa til Choker hálsmenin mín þar sem það þarf ekki að sauma eitt né neitt 🙂

Þegar kemur að föndri er um að gera að vera eins frumlegur og maður getur og hugsa langt út fyrir boxið. Ég skrapp í Föndru um daginn til að kaupa efnivið í nokkur Choker hálsmen og kom út með miklu meira en ég ætlaði mér. Þeir eru með rosalega gott úrval af allskonar skrautborðum, listum og bendlaböndum sem er sjálfsagt að nota í þessi hálsmen.
Ég keypti 7 mismunandi tegundir af böndum, 50 cm hvert og borgaði 1084 krónur fyrir allt saman sem er nánast ekki neitt fyrir 7 hálsmen. Sumar tegundir af böndum eru að sjálfsögðu dýrari en hinar svo verðið fer allt eftir því hvað þið veljið. Ég átti líka til franskan rennilás heima svo ég þurfti ekki að kaupa hann en hann fáið þið eflaust líka í Föndru eða getið jafnvel endurnýtt gamla franska rennilása af fötum sem þið eruð hætt að nota.

Til að gera hálsmenið skuluð þið byrjið á því að mæla böndin utan um hálsinn ykkar og klippa þau sirka tveimur til þremur cm lengri en mælingin ykkar var.

Ef þið keyptuð einhver bönd úr plasti getið þið brennt smá fyrir sárið sem myndaðist þegar þið klipptuð svo að borðinn rakni ekki upp. Passið ykkur samt á því að kveikja ekki í bandinu! Ef bandið sem þið keyptuð er ekki úr einhverskonar plasti þá getið þið borið smá fatalím á endana og leyft því að þorna áður en þið haldið lengra. Þetta mun koma í veg fyrir að bandið rakni upp.
Næst skuluð þið taka sirka 1 cm af franskum rennilás og sníða hann eftir bandinu ykkar svo að hann muni ekki fara út fyrir það og sjást aftan á hálsinum. Eftir það tek ég límbyssu og lími hvorn helming franska rennilásins innan á annan enda bandsins og utan á hinn endann. Passið ykkur bara á því að þið séuð með réttu hluta franska rennilásins sitthvoru megin við bandið svo þið límið ekki tvo eins helminga á og getið þar af leiðandi ekki fest hálsmenið saman 🙂

Festingin mun þá líta svona út að aftan eftir að þið hafið límt á franska rennilásinn.

Það er hægt að kaupa nokkuð breitt flauelsband sem þið sjáið mig skarta hér en flauels chockerar eru víst aðal fylgihluturinn þessa dagana.

Það er líka fallegt að prófa sig áfram með allskonar borða en hér sjáið þið fallega hvíta blúndu sem kemur skemmtilega út á hálsinum.
Nude litir koma líka svolítið öðruvísi út og er til dæmis fallegt að hafa þá undir blúnduborðanum.

Ég prufaði líka að kaupa mér leðuríkisband sem er þá eins og andstæðan við flauels chokerinn en kom rosa vel út 🙂

Ég keypti mér líka tvö venjuleg hvít og svört bómullarbönd svo ég myndi eiga sitthvorn litinn af því.
Ótrúlega einfalt og skemmtilegt verkefni sem tekur mann enga stund að gera. Ég mæli alveg klárlega með þessu og ef þið farið út í það að búa til ykkar eigin Choker-a þá megið þið endilega merkja myndirnar ykkar á Instagram með myllumerkinu #Belleis! Mér þætti nefnilega rosalega gaman að sjá ykkar útgáfur 😀
-Rannveig H.
Fylgdu mér á Facebook til að fá nýjustu færslurnar beint í æð!