Eldri færslur eftir merkjum fyrir RH – Útlit

Fyrir og eftir með nýja farðanum frá YSL

Farðann fékk ég í gjöf frá YSL á Íslandi

Það er nú heldur betur langt síðan ég gerði fyrir og eftir færslu með farða! Það er því kominn tími til að bæta úr því og tilvalið að sýna ykkur nýja farðann frá YSL í leiðinni. Farðinn sem um ræðir að þessu sinni er Touche Éclat All-In-One Glow sem er eins og ég nefndi nýr í úrvali hjá Yves Saint Laurent.

Farðinn er eiginlega mitt á milli þess að vera litað dagkrem og meik en hann er alveg ofboðslega léttur og gefur ljómandi meðalþétta þekju á húðina. Farðinn inniheldur SPF 23 sem verndar húðina fyrir hættulegum geislum sólarinnar á sama tíma og hann jafnar lit hennar, birtir yfir henni og fyllir upp í fínar línur. Þessi dásamlegu orð eru eflaust ástæðan fyrir því að hann kallast All-In-One!

Farðinn er laus við olíu, paraben og talc svo formúla hans er mjög létt og þægileg á húðinni en 70% af innihaldsefnum hans er vatn! Hann inniheldur líka hyaluronic sýru sem bindur raka í húðinni og E-vítamín sem getur hjálpað gegn ótímabærri öldrun.

Þetta hljómar allt rosalega vel en við skulum nú skoða aðeins hvernig hann lítur út á húðinni.

Eins og ég skrifaði hér fyrir ofan er farðinn mitt á milli þess að vera litað dagkrem og meik en þekja hans er uppbyggjanleg og getur farið frá því að vera létt yfir í að vera meðal. Ef þið eruð að leita ykkur að vel þekjandi farða þá er þessi eflaust ekki fyrir ykkur þar sem aðal markmið hans er að gefa húðinni náttúrulegt, heilbrigt og ljómandi yfirbragð.

Hér getið þið svo séð mynd af mér hlið við hlið. Vinstra megin er ég ekki með neitt á andlitinu mínu en hægra megin er ég einungis með farðann á mér. Takið sérstaklega eftir þeim stöðum sem ég merkti inn á myndina. Þar má sjá roða og annað í húðinni. Eins og þið sjáið þá hefur farðinn hresst töluvert upp á húðina mína á myndinni hægra megin og gefið henni fallegra yfirlit.

Hér er ég svo búin að klára förðunina mína með því að setja á mig hyljara og létt púður til að festa hann.

Endingin á farðanum er MJÖG góð en ég prófaði hann á venjulegum 8 tíma vinnudegi og tæplega 2 tíma ferðalagi fram og tibaka frá heimilinu mínu. Í lok dags var farðinn ennþá fallegur á mér en hann var aðeins búinn að safnast saman í kringum nasirnar mínar en það getur líka verið út af hyljaranum mínum. Þess vegna finnst mér það ekkert eftirtektarvert. Farðinn er rosalega léttur og þægilegur en hann leyfði húðinni minni að anda vel yfir daginn. Eina sem ég get í rauninni fundið að honum eru umbúðirnar. Svona túpu pumpur eru ekki í uppáhaldi hjá mér en það er að sjálfsögðu mjög persónubundið.

Virkilega fallegur farði sem kom mér skemmtilega á óvart. 

-Rannveig/@rannveigbelle

Bleikt fyrir vorið

Vörurnar í færslunni fékk ég í gjöf

Það er komið sumar í Danmörku… vonandi! Dagurinn í gær var allavega æði. 15 stiga hiti og heit gola, íslenskt sumar at it’s finest. Dagurinn var því nýttur úti í sólinni en dagurinn í dag á víst að vera enn betri, bara verst að vera föst í vinnunni! En að máli dagsins, vorsýnikennslan með Love You So Mochi pallettunni frá NYX Proffessional Makeup sem ég var búin að lofa. Eins dásamlega bleik og vorleg og það gerist held ég bara.

Ég var búin að sýna ykkur Love You So Mochi pallettuna í færslu í síðustu viku en þið getið lesið allt um þá dásemd HÉR. Bleiku litirnir í pallettunni heilluðu mig strax og mig langaði að gera eitthvað flott og vorlegt lúkk með henni sem gaman væri að skarta í sólinni. Ég notaði einungis fingurna þegar ég gerði augnförðunina en þessir augnskuggar virka best með fingrunum finnst mér.

Fyrst tók ég eina matta augnskuggann sem er í pallettunni, þennan hvíta, og grunnaði allt augnlokið mitt með honum.

Næst tók ég aftasta litinn í fyrstu röðinni en eins og þið sjáið þá er þessi litur algjör glimmer koparbomba og einn af uppáhalds litunum mínum í pallettunni.

Litinn setti ég á allt augnlokið mitt og vel af honum inn í innri augnkrók.

Næst tók ég ljósbeika litinn sem er númer 2 í efstu röðinni og smelli honum á mitt augnlokið. Liturinn blandast rosalega fallega við kopar glimmer litinn og gefur æðislega áferð á augnlokið.

Til þess að gefa förðuninni pínu svona ombré lúkk tók ég næst seinasta litinn í neðri röðinni og setti hann meðfram augnháralínunni og aðeins út á ytri augnkrók. Litunum blandaði ég síðan varlega saman með hreinum litla putta.

Og þar hafið þið það! Ótrúlega einföld og fljótleg bleik vorförðun sem hægt er að gera hvar sem er og tekur fáránlega stuttan tíma. Bleikir tónar á augunum heilla mig alltaf þegar það fer að vora. Hvaða litir finnst ykkur vera fallegastir á vorin?

-Rannveig /@rannveigbelle

Gullpenninn frá YSL… hvernig á að nota hann!

Ég á bæði Touche Éclat penna sem ég fékk í gjöf til þess að prófa og penna sem eru í einkaeigu

Ég veit þið trúið ekki hversu lengi þessi færsla er búin að vera í kollinum á mér! Við erum örugglega að nálgast svona tvö ár svo það er ekki seinna vænna en ég fari að hysja upp um mig buxurnar og skrifi hana loksins! Gullpenninn frá YSL eða Touche Éclat eins og hann heitir nú er ein af þessum snyrtivörum sem á það til að rugla marga í ríminu. Penninn gerði það svo sannarlega við mig fyrst þegar ég prófaði hann en ég bjóst bara við venjulegum hyljarapenna en síðan þá hef ég sko heldur betur lært að nota hann rétt. Touche Éclat penninn kom fyrst á markað árið 1992 svo hann er hvorki meira né minna en jafn gamall og ég blessaður! Penninn var hugverk Terry de Gunzburg sem var fengin af YSL til þess að byggja upp snyrtivörulínu merkisins. Núna er hún reyndar eigandi sinnar eigin línu, By Terry ef einhver af ykkur kannast við hana. Terry hefur stundum verið nefnd Steve Jobs snyrtivörubransans þar sem hún fann upp á vöru sem var á undan sínum samtíma en fyrst um sinn hafði enginn áhuga á gullpennanum því enginn skildi í raun hvað hann átti að gera. Það tók hana til dæmis þrjú ár bara til þess að sannfæra stjórn YSL um að setja pennann á markað!

En hvað gerir eiginlega þessi frægi Touche Éclat gullpenni? Penninn er í sjálfu sér ekki hyljari heldur ljómapenni. Fyrst um sinn kom hann einungis í einum lit en síðan þá hefur litaúrvalið sem betur fer breikkað og núna fæst hann í fleiri litum. Pennann á að nota til þess að færa andlitinu birti á nákvæmlega þá staði sem viðkomandi kýs. Penninn inniheldur ekki shimmer heldur ljómandi agnir sem eru í nógu þunnri formúlu til þess að liggja létt á yfirborði andlitsins og formúlu sem hægt er að nota í pennaformi! Ástæðan fyrir að Touche Éclat er í pennaformi er svolítið skemmtileg en Terry vildi eitthvað auðvelt sem hægt væri að nota með einni hendi. Hún var sjálf að sjá um ung börnin sín á þessum tíma og hafði því oftast bara eina hendi til þess að gera hluti með og því vildi hún geta klikkað ofan á pennan en ekki skrúfa vöruna niður eins og tíðkast oft. Penninn er síðan með bursta að framan en Terry fékk burstann sendan fyrir slysni af verksmiðjunni en framan á pennanum átti að vera svampur. Eðlilega veltur maður því fyrir sér hvað kemst mikil vara í svona litlum penna en YSL segir að það þarf um 200 klikk til þess að tæma pennann.

Þar sem þetta er ljómapenni skuluð þið ekki nota pennan eins og hvern annan hyljara! Ef þið gerið það munuð þið verða fyrir vonbrigðum. En hvernig á eiginlega að nota þennan fræga gullpenna?!

Ég mæli með að byrja alltaf á því að klikka pennan nokkrum sinnum og setja vöruna á handarbakið. Þannig hefur þú miklu meiri stjórn á vörunni sem er í burstanum á pennanum og ert ekki að setja of mikið af vöru á hvern stað. Ég legg síðan alltaf bara burstann í vöruna á sem er á handarbakinu mínu ef ég þarf meira.

Þar sem að gullpenninn er ekki beint hyljari, eins og ég nefni hér fyrir ofan, byrja ég alltaf á grunninum mínum, set á mig farða/hyljara eða bæði áður en ég set á mig Touche Éclat. Passið ykkur samt á því að setja ekki neitt púður á ykkur áður en þið setjið á ykkur gullpennann þar sem að, líkt og með aðrar fljótandi vörur og púður, þá blandast þær ekki vel saman.

Næst set ég vöruna úr gullpennanum á öll þau svæði andlitsins sem mig langar að birta yfir. Hérna er mikilvægt að hafa í huga að ég skrifa birta yfir, ekki hylja. Ég set því pennan yfir og undir augabrúnina, inn í innri augnkrók, á kinnbeinin mín og aðeins innar, yfir efri vörina mína, aðeins undir hliðarnar á neðri vörinni minni (sleppi undir miðjunni), mitt á hökuna, aðeins undir kinnarnar (undir þar sem ég myndi setja skyggingarvöru) og smá á milli augabrúnanna og rétt þar niður. Þetta eru allir þeir staðir á andlitinu mínu sem ég vil draga fram.

Næst tek ég fingurna eða blöndunarbursta úr gervihárum og dreifi úr vörunni. Hér á myndinni dreifði ég ekki alveg fullkomlega úr vörunni til þess að þið mynduð sjá svona sirka hversu mikið hann birtir yfir þeim stöðum sem ég set hann á.

Hér er ég síðan búin að blanda vöruna almennilega við húðina og þið sjáið hvað andlitið mitt er miklu meira mótað ef þið berið þessa mynd saman við fyrstu myndina, þar sem ég var ekki með gullpennan á andlitinu.

Nú hugsa eflaust margir hvað er öðruvísi við pennann og einfaldlega ljósan hyljara. Munurinn felst einna helst í formúlunni þar sem að hyljarar eru oftast þéttari og þykkari í sér, sitja meira ofan á húðinni og sjást þannig meira. Touche Éclat hefur það að markmiði að vera hvað náttúrulegastur og því er formúlann léttari og hann hylur ekki heldur birtir yfir húðinni ykkar. Það er svo ykkar að meta hvort þetta sé vara sem að hentar ykkar þörfum. Fyrir mig sem elskar að vera með hvað náttúrulegasta húð er Touche Éclat mjög hentugur.

Vonandi hef ég aðeins getað svipt hulunni af vöru sem vefst oft fyrir mörgum en séuð þið með einhverjar spurningar þá skuluð þið ekki hika við að senda mér athugasemd hér fyrir neðan eða línu í pósti <3

-RH / @rannveigbelle

Að verja hárið fyrir mengun

Vörunar í færslunni fékk ég sendar til þess að prófa

Frá því ég flutti til Köben síðasta haust er ég orðin miklu meðvitaðri um mengun. Núna er ég farin að vinna alveg í hjarta Köbens, bara beint á Strikinu, og því er ég farin að finna miklu meira fyrir mengun en mig hefði grunað. Auðvitað hjóla margir í miðborg Köben en bílatraffíkin er þrátt fyrir það mikil en mengunin sem ég er að tala um er ekki einungis tengd bílunum. Þið sem hafið komið til Köben hafið eflaust tekið eftir því hversu fáránlega margir reykja hérna! Ég hef bara aldrei séð annað eins satt best að segja en það er ekkert minna hressandi en að labba á eftir einhverjum að reykja sígarettu klukkan 8 á morgnana þegar maður er að labba í vinnuna. Allavega fyrir mig sem er ekki reykingarkona, finnst mér þetta alveg hræðilegt. Það er svo sannarlega ys og þys í Köben og mengunin fylgir því. Mér finnst því ekki koma til greina að fara að sofa án þess að þrífa hárið mitt á hverju kvöldi en ég get bara ekki hugsað mér að leggjast á koddann á kvöldin án þess að vera með hreint hár. Það er því orðið mikilvægara fyrir mig að finna sjampó sem er ekki of sterkt fyrir hárið og heldur því mjúku og glansandi. Ég fékk tækifæri til þess að prófa sjampó og hárnæringu frá Charles Worthington en merkið er nýkomið til Íslands og vörurnar voru nákvæmlega þær sem ég var að leita að! Því langaði mér að segja ykkur meira frá sjampóinu og hárnæringunni sem ég er búin að vera að nota upp á síðkastið til þess að verja hárið mitt fyrir mengun. 

Sjámpóið og hárnæringin kemur úr Radience Restore línunni frá Charles Worthington en báðar vörurnar innihalda lyfjakol eða activated charcoal eins og maður segir á ensku en kolin draga að sér öll óhreinindi. Kol eru oft notuð í andlitsmaska fyrir einmitt þennan eiginleika sinn þar sem þau virka eins og segull fyrir óhreindindi og því gera þau slíkt hið sama þegar kemur að hárumhirðu. Þegar maður skolar sjampóið úr skolar maður einnig kolagnirnar og óhreinindin sem hafa fest sig við þau. Eftir verður síðan silkimjúkt og glansandi hár. Þetta hljómar eiginlega of gott til að vera satt en þetta hefur svo sannarlega gert töfra fyrir mitt hár. Hér sjáið þið vörurnar á hendinni minni en sjampóið er til vinstri og hárnæringin til hægri. Eins og þið sjáið eru báðar vörurnar svartar. Ekki láta það hræða ykkur samt því að hvorki sjampóið né hárnæringin skilur eftir lit í hárinu. 

Hér sjáið þið mynd af hárinu mínu þegar ég er búin að vera að nota sjampóið í nokkrar vikur. Hárið mitt er ótrúlega glansandi og heilbrigt og mér finnst liturinn í því einhvern veginn vera skarpari og dýpri – líklegast vegna þess að hárið glansar svona vel. Það kom mér svakalega á óvart hvað sjampóið og hárnæringin virkar vel en ég þarf einhvern veginn að finna út úr því hvar ég get nálgast þessar vörur úti í DK því mig langar að halda áfram að nota þær þegar ég er búin með þessa brúsa! Einnig er í línunni hitavörn sem inniheldur lyfjakol og ver hárið fyrir mengun, hana verð ég að eignast!

Ef þið eigið í vandræðum með flatt og líflaust hár eða ef þið viljið losna við mengun og óhreinindi úr hárinu ykkar þá get ég ekki mælt nógu mikið með þessari tvennu!

-RH /@rannveigbelle

Lúkk gærkvöldsins!

Jii það var svo gaman hjá mér í gær! Ég var svo heppin að fá boð í launch partí hjá NYX Professional Makeup hér í Köben þar sem nýju Love You So Mochi línunni var fagnað ásamt nýju Powder Puff varalitunum! Ég er ástfangin af Mochi línunni, hef aldrei prufað neitt henni líkt áður… ótrúlegt en satt! Ég sýni ykkur og segi ykkur meira frá viðburðinum sjálfum í annarri færslu en í þessari langaði mig að sýna ykkur förðunina mína í gær og segja ykkur hvernig ég náði henni.

Ég bar á mig Express brúnkukremið frá St. Tropez fyrr í vikunni svo ég var vægast sagt sólbrún um kvöldið og því langaði mig að gera einhverja sjúka gyllta goddess (en not to much) förðun þar sem ég er aldrei svona brún! Mér fannst mér bara takast mjög vel til enda leið mér rosalega vel um kvöldið og fannst lúkkið alveg draga það besta fram í mér😊 Svona getur makeup látið manni líða vel!

Hér eru vörurnar sem ég notaði

 Díses þegar ég sé þetta allt svona saman á mynd þá lítur út fyrir að ég hafi verið með massíft mikið á smettinu en svo var alls ekki! Það er greinilegt samt að þegar maður á svona mikið til af makeup-i þá er auðvelt að missa sig.

Það fyrsta sem ég gerði var að bera á mig Backlight Priming Filterinn frá Becca til þess að gefa mér ljómandi húð. Næst tók ég St. Tropez Gradual Tan Tinted primerinn sem er eiginlega bara litað dagkrem og setti það yfir allt andlitið líka. Þá varð smettið mitt að sama lit og líkaminn minn! True Match hyljarann frá L’Oréal notaði ég síðan til þess að hylja undir augunum og festi hann síðan með lausa Mineral púðrinu mínu frá Lavera. Það sem gerði förðunina mína var samt lausa púðrið í litnum Golden Hour frá Becca!! Jemundur og bróðir hans hvað það er fallegt! Sér færsla um það coming soon en púðrið setti ég létt yfir allt andlitið. Dr. Hauschka sólarpúðrið fór svo undir kinnbeinin mín og Corolosta kinnaliturinn frá Benefit á kinnarnar. Að sjálfsögðu kom ekki til greina en að nota neitt annað ljómapúður en frá NYX Professional Makeup og gyllta púðrið úr Love Contours All pallettunni varð fyrir valinu. Svo fallegt! Förðunina festi ég svo með Lavender Fix+ spreyinu frá MAC. Á varirnar setti ég Creme Brulee butter glossið frá NYX Professional Makeup en augnförðunina mína geri ég nákvæmlega eins og í myndbandinu hér:

Í þetta skiptið blandaði ég þó saman svarta og brúna Smokissime augnskuggunum alveg upp við augnhárarótina. Á aughárin fóru svo Falsh Lash Maximizer primerinn frá MAC og Lash Sensational Extra Black maskarinn frá Maybelline.

Annars hlakka ég til að sýna ykkur fleiri myndir frá viðburðinum en ég átti dásamlegt kvöld með yndislegu fólki❣️ Þar til þá finnið þið smá brot frá kvöldinu mínu í IG story hjá mér og í IG Highlights ef það er dottið úr Story, undir nafninu LY SO MOCHI. Þið finnið mig á instagram undir @rannveigbelle.

-RH / @rannveigbelle

Sneak Peak: NÝTT frá L’Oréal

Færslan er ekki kostuð, vöruna keypti ég mér sjálf

Stundum borgar sig að búa úti í DK en ég fæ mjög oft forsmekkinn af því sem koma skal hjá L’Oréal! Að þessu sinni eru það dýrindis sykurskrúbbarnir sem eru væntanlegir til Íslands á næstu dögum bara! Fyrst var það maskinn nú er það skrúbburinn! Mig langaði að sýna ykkur eina tegundina af þeim þrem sem verða í boði en þegar ég sá þennan í verslunarferð minni í Fields um daginn gat ég ekki annað en gripið hann með. Bæði græni liturinn á maskanum og virkni hans heillaði mig svo mikið að ég valdi að prófa þennan fyrst.

En fyrst að skrúbbum yfirhöfuð! Það er að alveg nauðsynlegt að skrúbba húðina reglulega en ég mæli með að skrúbba húðina einu sinni í viku eða á tveggja vikna fresti ef þið eruð með mjög viðkvæma húð. Húðskrúbbar hreinsa í burtu dauðar húðfrumur og önnur óhreinindi af húðinni og hjálpa þannig húðinni að endurnýja sig svo hún verði ljómandi fín og falleg. Eins og þið sjáið á þessari mynd fyrir ofan má nota sykurskrúbbinn frá L’Oréal bæði á andlitið og á varirnar en mér finnst algjör nauðsyn að skrúbba varirnar annað slagið og þá sérstaklega á veturna þegar að varaþurrkur er líklegur til að herja á.

Skrúbburinn sjálfur er úr nýju Smooth Sugars línunni frá L’Oréal og sá sem ég keypti heitir Clearing Scrub en hann á að hreinsa húðina og losa hana við fílapensla! Hljómar vel finnst ykkur það ekki?

Skrúbburinn inniheldur þrjár tegundir af sykri (brown, blonde og white) ásamt Kiwi fræjum sem sjá um að skrúbba óhreinindin burt af húðinni. Þið setjið bara smá af skrúbbinum á kinnarnar, nefið, ennið, hökuna og varirnar (ef þið viljið) og nuddið skrúbbinn á húðinni í hringlaga hreyfingar þar til flest allur sykurinn hefur bráðnað. Clearing skrúbburinn hitnar líka við það að komast í snertingu við húðina sem hjálpar til við hreinsunina.

Mér líkar rosalega vel við skrúbbinn „so far“ enda er sykurinn alls ekki of grófur og varan er mjög mjúk og þægileg á húðinni. Skrúbburinn er smá klístraður svo áferðin á honum er öðruvísi en ég bjóst við en mér finnst eiginlega vandræðalega gaman að veiða hann upp úr krukkunni og setja hann á húðina… er það skrítið eða? Annars mun ég halda áfram að prófa skrúbbinn og á endanum bæta hinum tveimur tegundunum í safnið mitt en mig langaði bara að gefa ykkur smá Sneak Peak á því sem er framundan. Líst ykkur ekki vel á?😃

-RH / @rannveigbelle

Janúar uppáhöld

Færslan er ekki kostuð – Sumir af hlutunum sem ég nefni eru í einkaeigu en aðra fékk ég í gjöf

Betra seint en aldrei ekki satt? Hér eru þeir hlutir sem ég notaði mest í janúar!

L’Oréal Colorista Silver Shamopoo – Besta fjólubláa sjampó sem ég hef prófað! Ef þú ert með ljóst hár þá get ég ekki hvatt þig nógu mikið til þess að prófa það. Ég skrifaði grein um sjampóið HÉR.

Bobbi Brown Pot Rouge í litnum Fresh Melon – Æðislegur kremkinnalitur sem að gefur heilbrigðan kórallitaðan ljóma á kinnarnar ásamt því að endast allan daginn.

NYX Professional Makeup Intense Butter Gloss í litnum Tres Leches – Virkilega fallegt og náttúrulegt gloss sem mér finnst æðislegt að skella á varirnar við hvaða lúkk sem er. Glossið ilmar dásamlega, endist lengi og er ekki svona klessu klístursgloss.

Rimmel Breathable Foundation – Þessi farði er bara æðislegur! Hann gefur náttúrulega þekju sem að endist allan daginn og mér líður ekki eins og ég sé með farða á húðinni þegar ég er með hann á mér. Eina sem ég get sett út á hann er sprotinn sem hann kemur með. Ég vildi að það væri pumpa á honum en ég missti einmitt sprotann á nýju peysuna mína um daginn og setti þá meik í hana og eyðilagði 🙁 En formúlan í farðanum sjálfum er æðisleg!

L’Oréal True Match Mineral Powder Foundation – Æðislegur púðurfarði sem ég elska að setja yfir aðra fljótandi farða á þau svæði sem ég vill fá meiri þekju á. Ég nota alltaf burstann sem L’Oréal er með í sölu fyrir púðrið og hann er æðislegur! Elska að nota hann til þess að blanda púðrið við farðann minn og líka til þess að blanda eins og kinnaliti og sólarpúður og annað við púðurfarðann. Virkilega þéttur og góður bursti sem er fullkominn til þess að nota með þessu æðislega púðri. Ég nota litinn Ivory Rose fyrir þá sem eru forvitnir um það 🙂

Maybelline x Gigi Hadid Fiber maskarinn – Ég veit að þessi lína kom í takmörkuðu upplagi en ég er ekki búin að nota annan maskara en þennan allan janúar! Ég nota oftast bara svörtu hliðina á maskaranum en hún gerir augnhárin mín mjúk og falleg.

Maybelline x Gigi Hadid Cool pallettan – Þessi palletta! Ég gæti grátið að hún kom bara í takmörkuðu upplagi – ég er ekki að grínast! Þetta er uppáhalds pallettan mín þessa stundina en ég elska að skella bara einum af shimmer augnskuggunum í henni yfir allt augnlokið mitt áður en ég fer í vinnuna á morgnana. Augnskuggarnir eru svo mjúkir og það er svo þægilegt að vinna með þá og litatónarnir henta mínum húðlit fullkomlega. Ég ætla að reyna að sjá hvort það eru ekki nokkur eintök eftir einhverstaðar á netinu hérna úti í DK því ég verð að eiga backup af þessari ég er komin svo langt með mína! Ef einhver veit hvar ég get fengið hana látið mig þá endilega vita takk!

-RH / @rannveigbelle

Hvernig þú getur náð auðveldum Ombré liner

Vörurnar í færslunni fékk ég í gjöf

Ég er ekki frá því að það sé smá sumarfílingur í þessari færslu… eins steikt og það kann að hljóma í frostinu hérna í DK og óveðrinu heima á IS! Mig langaði að gera einhverja einfalda sýnikennslu þar sem ombré liner yrði í aðalhlutverki en ég átti einmitt pallettu frá Max Factor sem var tilvalin í verkið og hún er smá sumarleg.

Pallettan er lítil og nett og inniheldur fjóra matta augnskugga. Þó það eru bara fjórir augnskuggar í pallettunni þá er samt hægt að gera nokkuð mörg lúkk með henni, hvort sem það eru venjuleg hversdagsleg lúkk eða lúkk með popp af bláum.

Til þess að byrja ombré linerinn minn tek ég lítinn bút af límbandi og kem því fyrir frá endanum af auganu mínu til endans á augabrúninni minni. Þetta verður þá einskonar skapalón fyrir mig þegar ég byrja að gera eyelinerinn með augnskugganum. Næst grunna ég allt augnlokið mitt með hvíta augnskugganum úr pallettunni.

Ég tek næst brúna augnkuggan upp á lítinn snöggskorinn bursta (Shading burstinn frá Real Techniques er fullkominn í verkið) og kem honum fyrir á endann á augnlokið og dreg hann upp meðfram límbandinu.

Dökkbláa litinn úr pallettunni tek ég síðan á sama bursta og kem honum fyrir á mitt augnlokið. Ég blanda síðan þessa tvo liti saman svo engin skil sjáist þeirra á milli.

Ljósbláa litinn set ég síðan innst á augnlokið og blanda honum saman við dökkbláa litinn alveg eins og ég gerði við dökkbláa og brúna litinn.

Næst tek ég límbandið af og þá erum við kominn með hinn fullkomna ombré liner!

Ótrúlega einföld og falleg förðun sem allir ættu að geta gert 🙂

-RH / @rannveigbelle 

Besta fjólubláa sjampó sem ég hef prófað!

Færslan er ekki kostuð – Sjampóið keypti ég mér sjálf

Vá hvað ég var ekki viðbúin þessu! Ég hef prófað svo brjálæðislega mörg fjólublá sjampó frá því að ég litaði mig aftur ljóshærða fyrir einu og hálfu ári síðan og ég er alveg búin að læra það að búast ekki við miklu. Fyrsta fjólubláa sjampóið sem ég prófaði var frá Lee Stafford og það var rosalega gott, náði fram ljósa litnum mínum aftur, kostaði ekki mikið en svo komst ég að því að ég væri með ofnæmi fyrir því þar sem það inniheldur paraben. Síðan þá hef ég flakkað í gegnum ótrúlega mörg fjólublá sjampó og aldrei hafa þau virkað neitt sérstaklega vel fyrir mig. Ef þið viljið vita hvað fjólublá sjampó gera fyrir ljóst hár þá skrifaði ég um það HÉR einu sinni. Í stuttu máli sagt þá losa þau hárið við þessa leiðinlegu appelsínugula tóna sem vilja oft koma í ljóst hár eftir litun. 

Eftir þessa heilmiklu leit mína að góðu fjólubláu sjampói fékk ég þær fréttir að L’Oréal var að byrja að selja eitt slíkt. Sú staðreynd að þrjú önnur fjólublá sjampó eru í sturtunni hjá mér hér í Danmörku og eitt annað í sturtunni hjá mömmu og pabba heima á Íslandi, stoppaði mig ekki og ég ákvað að kaupa Colorista Silver sjampóið frá L’Oréal bara til þess að prófa það. Ég var sko heldur betur óundirbúin fyrir það hversu fáránlega vel það virkaði! Ég tók ekki before mynd svo ég get ekki tekið after mynd til þess að sýna ykkur muninn en sjámpóið bókstaflega strokaði alla appelsínugula tóna úr hárinu mínu. Hárið mitt varð aftur kaldtóna eins og það var rétt eftir litun og mér fannst það því lýsast aðeins líka. Leit minni er því loksins lokið! Ég er búin að finna hið fullkomna fjólubláa sjampó 😀 Ég mæli klárlega með þessu sjampói ef þið eruð í sömu vandræðum og ég var, það mun án djóks breyta hárinu ykkar!

-RH /@rannveigbelle

Hvernig á að nota FIX+ frá MAC – Nú með lykt!

Færslan er ekki kostuð – Vöruna (Fix+ með lykt) fékk ég í gjöf

Ef það er einhver vara frá MAC sem mér finnst vera algjört „must“ og ég tel að allir geti notað þá er það FIX+ spreyið. Mig langaði því að gera litla færslu um hvernig hægt er að nota spreyið í tilefni þess að núna er búið að bæta FIX+ með lykt við fast vöruúrval hjá MAC!

Núna er því hægt að fá FIX+ með Coconut, Lavender og Rose lykt en þessar lyktir voru fyrst hluti af takmarkaðri sumarlínu árið 2015. Þar sem spreyin slógu svona líka rækilega í gegn hafa þau hjá MAC ákveðið að gera nokkra af þeim ilmum ávalt fáanlega héðan í frá. Í sumarlínunni 2015 var einnig að finna Cucumber og Yuzu ilm en þeir eru því miður ekki með endurkomu að þessu sinni. Ég man að ég lyktaði af þeim árið 2015 í Sephoru í Frakklandi. Þá voru bara sýnishornin eftir af þeim ilmum sem að hafa komið til baka núna í ár en Yuzu og Cucumber voru ennþá til og mér fannst lyktin af þeim bara ekki góð svo ég keypti mér þá ekki. Ég græt þá því ekki þar sem kókos og lavender voru hvort sem er í uppáhaldi! 😀

En eigum við ekki aðeins að fara yfir hvernig má nota spreyið góða og hvað gerir það svona einstakt?

FIX+ er í eðli sínu rakamist þar sem það inniheldur bæði vítamín og steinefni ásamt grænu tei, kamillu og gúrku. Það róar því húðina ásamt því að næra hana og gefa henni ákveðið orkubúst. Ég elska til dæmis að úða einhverjum svona rakamistum yfir andlitið þegar líða tekur á daginn en það hressir mig alltaf við og hleður batteríin til þess að geta klárað daginn með trompi. Eitt af aðal innihaldsefnunum í FIX+ er Glycerin sem er efni sem er oftast notað í farðagrunna því það grípur í farðann og sér til þess að hann haldist fullkominn allan daginn ásamt því að veita húðinni raka í leiðinni. Þess vegna hentar FIX+ svona rosalega vel til þess að úða yfir förðun eftir ásetningu eða þá sem rakamist yfir daginn til þess að hressa húðina eða förðunina við.

Hér eru nokkrar af mínum uppáhaldsleiðum til þess að nota FIX+

Úða á hreina húðGefur henni aukinn raka og ferskleika.

Úða yfir augnskugga á augnskuggaburstaGerir augnskuggann ennþá litsterkari við ásetningu.

Úða yfir farða og púðurBræðir allt saman svo að grunnurinn verður algjörlega lýtalaus.

Úða yfir andlitið seinni part dagsLífgar upp á vitin.

Úða aftur yfir förðunLífgar upp á förðunina eftir langan dag.

Bæta við farðaEf að ég vil þynna farða og gefa honum minni þekju.

Bleyta upp í Paint PotEf að Paint Pot frá MAC eða kremaugnskuggi sem ég á er orðinn þurr úða ég alltaf smá FIX+ í dolluna og blanda upp í litnum með litlum spaða. Kremaugnskugginn verður þá eins og nýr.

Vonandi getið þið nýtt ykkur þessi litlu ráð eitthvað þegar kemur að FIX+ en ef þið hafið ekki prófað spreyið ennþá þá hvet ég ykkur eindregið til þess. Ég hef farið í gegnum ófáar flöskur og mun eflaust fara í gegnum mun fleiri í lífinu. Sú næsta mun vera með kókoslykt!

-RH / @rannveigbelle

 

Fylgdu okkur á


Follow