Eldri færslur eftir merkjum fyrir RH – Útlit

Janúar uppáhöld

Færslan er ekki kostuð – Sumir af hlutunum sem ég nefni eru í einkaeigu en aðra fékk ég í gjöf

Betra seint en aldrei ekki satt? Hér eru þeir hlutir sem ég notaði mest í janúar!

L’Oréal Colorista Silver Shamopoo – Besta fjólubláa sjampó sem ég hef prófað! Ef þú ert með ljóst hár þá get ég ekki hvatt þig nógu mikið til þess að prófa það. Ég skrifaði grein um sjampóið HÉR.

Bobbi Brown Pot Rouge í litnum Fresh Melon – Æðislegur kremkinnalitur sem að gefur heilbrigðan kórallitaðan ljóma á kinnarnar ásamt því að endast allan daginn.

NYX Professional Makeup Intense Butter Gloss í litnum Tres Leches – Virkilega fallegt og náttúrulegt gloss sem mér finnst æðislegt að skella á varirnar við hvaða lúkk sem er. Glossið ilmar dásamlega, endist lengi og er ekki svona klessu klístursgloss.

Rimmel Breathable Foundation – Þessi farði er bara æðislegur! Hann gefur náttúrulega þekju sem að endist allan daginn og mér líður ekki eins og ég sé með farða á húðinni þegar ég er með hann á mér. Eina sem ég get sett út á hann er sprotinn sem hann kemur með. Ég vildi að það væri pumpa á honum en ég missti einmitt sprotann á nýju peysuna mína um daginn og setti þá meik í hana og eyðilagði 🙁 En formúlan í farðanum sjálfum er æðisleg!

L’Oréal True Match Mineral Powder Foundation – Æðislegur púðurfarði sem ég elska að setja yfir aðra fljótandi farða á þau svæði sem ég vill fá meiri þekju á. Ég nota alltaf burstann sem L’Oréal er með í sölu fyrir púðrið og hann er æðislegur! Elska að nota hann til þess að blanda púðrið við farðann minn og líka til þess að blanda eins og kinnaliti og sólarpúður og annað við púðurfarðann. Virkilega þéttur og góður bursti sem er fullkominn til þess að nota með þessu æðislega púðri. Ég nota litinn Ivory Rose fyrir þá sem eru forvitnir um það 🙂

Maybelline x Gigi Hadid Fiber maskarinn – Ég veit að þessi lína kom í takmörkuðu upplagi en ég er ekki búin að nota annan maskara en þennan allan janúar! Ég nota oftast bara svörtu hliðina á maskaranum en hún gerir augnhárin mín mjúk og falleg.

Maybelline x Gigi Hadid Cool pallettan – Þessi palletta! Ég gæti grátið að hún kom bara í takmörkuðu upplagi – ég er ekki að grínast! Þetta er uppáhalds pallettan mín þessa stundina en ég elska að skella bara einum af shimmer augnskuggunum í henni yfir allt augnlokið mitt áður en ég fer í vinnuna á morgnana. Augnskuggarnir eru svo mjúkir og það er svo þægilegt að vinna með þá og litatónarnir henta mínum húðlit fullkomlega. Ég ætla að reyna að sjá hvort það eru ekki nokkur eintök eftir einhverstaðar á netinu hérna úti í DK því ég verð að eiga backup af þessari ég er komin svo langt með mína! Ef einhver veit hvar ég get fengið hana látið mig þá endilega vita takk!

-RH / @rannveigbelle

Hvernig þú getur náð auðveldum Ombré liner

Vörurnar í færslunni fékk ég í gjöf

Ég er ekki frá því að það sé smá sumarfílingur í þessari færslu… eins steikt og það kann að hljóma í frostinu hérna í DK og óveðrinu heima á IS! Mig langaði að gera einhverja einfalda sýnikennslu þar sem ombré liner yrði í aðalhlutverki en ég átti einmitt pallettu frá Max Factor sem var tilvalin í verkið og hún er smá sumarleg.

Pallettan er lítil og nett og inniheldur fjóra matta augnskugga. Þó það eru bara fjórir augnskuggar í pallettunni þá er samt hægt að gera nokkuð mörg lúkk með henni, hvort sem það eru venjuleg hversdagsleg lúkk eða lúkk með popp af bláum.

Til þess að byrja ombré linerinn minn tek ég lítinn bút af límbandi og kem því fyrir frá endanum af auganu mínu til endans á augabrúninni minni. Þetta verður þá einskonar skapalón fyrir mig þegar ég byrja að gera eyelinerinn með augnskugganum. Næst grunna ég allt augnlokið mitt með hvíta augnskugganum úr pallettunni.

Ég tek næst brúna augnkuggan upp á lítinn snöggskorinn bursta (Shading burstinn frá Real Techniques er fullkominn í verkið) og kem honum fyrir á endann á augnlokið og dreg hann upp meðfram límbandinu.

Dökkbláa litinn úr pallettunni tek ég síðan á sama bursta og kem honum fyrir á mitt augnlokið. Ég blanda síðan þessa tvo liti saman svo engin skil sjáist þeirra á milli.

Ljósbláa litinn set ég síðan innst á augnlokið og blanda honum saman við dökkbláa litinn alveg eins og ég gerði við dökkbláa og brúna litinn.

Næst tek ég límbandið af og þá erum við kominn með hinn fullkomna ombré liner!

Ótrúlega einföld og falleg förðun sem allir ættu að geta gert 🙂

-RH / @rannveigbelle 

Besta fjólubláa sjampó sem ég hef prófað!

Færslan er ekki kostuð – Sjampóið keypti ég mér sjálf

Vá hvað ég var ekki viðbúin þessu! Ég hef prófað svo brjálæðislega mörg fjólublá sjampó frá því að ég litaði mig aftur ljóshærða fyrir einu og hálfu ári síðan og ég er alveg búin að læra það að búast ekki við miklu. Fyrsta fjólubláa sjampóið sem ég prófaði var frá Lee Stafford og það var rosalega gott, náði fram ljósa litnum mínum aftur, kostaði ekki mikið en svo komst ég að því að ég væri með ofnæmi fyrir því þar sem það inniheldur paraben. Síðan þá hef ég flakkað í gegnum ótrúlega mörg fjólublá sjampó og aldrei hafa þau virkað neitt sérstaklega vel fyrir mig. Ef þið viljið vita hvað fjólublá sjampó gera fyrir ljóst hár þá skrifaði ég um það HÉR einu sinni. Í stuttu máli sagt þá losa þau hárið við þessa leiðinlegu appelsínugula tóna sem vilja oft koma í ljóst hár eftir litun. 

Eftir þessa heilmiklu leit mína að góðu fjólubláu sjampói fékk ég þær fréttir að L’Oréal var að byrja að selja eitt slíkt. Sú staðreynd að þrjú önnur fjólublá sjampó eru í sturtunni hjá mér hér í Danmörku og eitt annað í sturtunni hjá mömmu og pabba heima á Íslandi, stoppaði mig ekki og ég ákvað að kaupa Colorista Silver sjampóið frá L’Oréal bara til þess að prófa það. Ég var sko heldur betur óundirbúin fyrir það hversu fáránlega vel það virkaði! Ég tók ekki before mynd svo ég get ekki tekið after mynd til þess að sýna ykkur muninn en sjámpóið bókstaflega strokaði alla appelsínugula tóna úr hárinu mínu. Hárið mitt varð aftur kaldtóna eins og það var rétt eftir litun og mér fannst það því lýsast aðeins líka. Leit minni er því loksins lokið! Ég er búin að finna hið fullkomna fjólubláa sjampó 😀 Ég mæli klárlega með þessu sjampói ef þið eruð í sömu vandræðum og ég var, það mun án djóks breyta hárinu ykkar!

-RH /@rannveigbelle

Hvernig á að nota FIX+ frá MAC – Nú með lykt!

Færslan er ekki kostuð – Vöruna (Fix+ með lykt) fékk ég í gjöf

Ef það er einhver vara frá MAC sem mér finnst vera algjört „must“ og ég tel að allir geti notað þá er það FIX+ spreyið. Mig langaði því að gera litla færslu um hvernig hægt er að nota spreyið í tilefni þess að núna er búið að bæta FIX+ með lykt við fast vöruúrval hjá MAC!

Núna er því hægt að fá FIX+ með Coconut, Lavender og Rose lykt en þessar lyktir voru fyrst hluti af takmarkaðri sumarlínu árið 2015. Þar sem spreyin slógu svona líka rækilega í gegn hafa þau hjá MAC ákveðið að gera nokkra af þeim ilmum ávalt fáanlega héðan í frá. Í sumarlínunni 2015 var einnig að finna Cucumber og Yuzu ilm en þeir eru því miður ekki með endurkomu að þessu sinni. Ég man að ég lyktaði af þeim árið 2015 í Sephoru í Frakklandi. Þá voru bara sýnishornin eftir af þeim ilmum sem að hafa komið til baka núna í ár en Yuzu og Cucumber voru ennþá til og mér fannst lyktin af þeim bara ekki góð svo ég keypti mér þá ekki. Ég græt þá því ekki þar sem kókos og lavender voru hvort sem er í uppáhaldi! 😀

En eigum við ekki aðeins að fara yfir hvernig má nota spreyið góða og hvað gerir það svona einstakt?

FIX+ er í eðli sínu rakamist þar sem það inniheldur bæði vítamín og steinefni ásamt grænu tei, kamillu og gúrku. Það róar því húðina ásamt því að næra hana og gefa henni ákveðið orkubúst. Ég elska til dæmis að úða einhverjum svona rakamistum yfir andlitið þegar líða tekur á daginn en það hressir mig alltaf við og hleður batteríin til þess að geta klárað daginn með trompi. Eitt af aðal innihaldsefnunum í FIX+ er Glycerin sem er efni sem er oftast notað í farðagrunna því það grípur í farðann og sér til þess að hann haldist fullkominn allan daginn ásamt því að veita húðinni raka í leiðinni. Þess vegna hentar FIX+ svona rosalega vel til þess að úða yfir förðun eftir ásetningu eða þá sem rakamist yfir daginn til þess að hressa húðina eða förðunina við.

Hér eru nokkrar af mínum uppáhaldsleiðum til þess að nota FIX+

Úða á hreina húðGefur henni aukinn raka og ferskleika.

Úða yfir augnskugga á augnskuggaburstaGerir augnskuggann ennþá litsterkari við ásetningu.

Úða yfir farða og púðurBræðir allt saman svo að grunnurinn verður algjörlega lýtalaus.

Úða yfir andlitið seinni part dagsLífgar upp á vitin.

Úða aftur yfir förðunLífgar upp á förðunina eftir langan dag.

Bæta við farðaEf að ég vil þynna farða og gefa honum minni þekju.

Bleyta upp í Paint PotEf að Paint Pot frá MAC eða kremaugnskuggi sem ég á er orðinn þurr úða ég alltaf smá FIX+ í dolluna og blanda upp í litnum með litlum spaða. Kremaugnskugginn verður þá eins og nýr.

Vonandi getið þið nýtt ykkur þessi litlu ráð eitthvað þegar kemur að FIX+ en ef þið hafið ekki prófað spreyið ennþá þá hvet ég ykkur eindregið til þess. Ég hef farið í gegnum ófáar flöskur og mun eflaust fara í gegnum mun fleiri í lífinu. Sú næsta mun vera með kókoslykt!

-RH / @rannveigbelle

Sílikonspaði fyrir maska

Færslan er ekki kostuð – vörurnar eru í einkaeigu

Ég var í Normal hérna úti í Danmörku um daginn – eigum við eitthvað að ræða það hvað ég elska þessa búð! Á rölti mínu um búðina kom ég auga á „förðunarspaða“ frá Revolution en spaðarnir voru þrír í pakka þar sem einn var ætlaður fyrir farða, annar fyrir hyljara minnir mig og sá þriðji fyrir augun. Mér fannst náttúrulega alveg út í hött að fara ætla að nota spaðana í förðun en mér fannst hinsvegar snilldarhugmynd að nota spaðana í maska! Ég nota alltaf flata burstann úr Flawless Base settinu frá Real Techniques en ég tapa þá alltaf smá af maskanum í burstann sem ég þarf síðan að skola úr. Hversu geðveikt væri bara að nota svona gúmmíbursta sem að dregur engan maska í sig! Ég ætlaði því að skreppa heim og kíkja á Ali frænda (Ali Express) og sjá hvort ég gæti ekki nælt mér í einhvern fullkomin silíkonbursta þar sem ég þurfti ekki alla þrjá sem voru í Revolution settinu og þeir voru frekar dýrir miðað við. Áður en ég komst í það rakst ég á svipaða silíkonspaða í Flying Tiger en þeir spaðar voru ætlaðir í hárlitun og kostuðu ekki nema 20kr danskar sem er um 360 kall íslenskar.

Í pakkanum var einn stór spaði og einn lítill skáskorinn spaði, sem þið sjáið hérna á myndinni. Mér fannst þessi litli virka fullkominn í maskaásetningu svo ég greip tækifærið og greip með mér einn pakka heim frá Tiger. Ég veit ekki hvort að þetta er til heima í Tiger en mér finnst það mjög líklegt þar sem ég held að úrvalið sé næstum því það sama.

Ef þið eruð að nota maska sem er í krukku er snilld að taka maskann á handabakið með endanum á spaðanum og nota síðan spaðann sjálfann til þess að dreifa úr maskanum á andlitið.

Ég þurfti smá að venjast spaðanum, enda mjög vön að nota bara bursta og hendurnar en ég hugsa að þegar ég kemst á lagið með það verði ásetningin mikið fallegri og jafnari hjá mér.

Eins og þið sjáið er varla arða eftir af maskanum á spaðanum svo öll varan er á smettinu á mér og fer því ekki í vaskinn. Hversu mikil snilld er það! Ég hugsaði líka til hreinlætis þegar ég keypti burstann en það er mun auðveldara að halda þessum bursta hreinum heldur en venjulegum gervihárabursta þar sem það er hægt að taka þennan alveg í sundur og skola hann.

Algjör snilld til þess að nýta vöruna alveg til hins ýtrasta, þá sérstaklega ef að maskinn sjálfur var ákveðin fjárfesting!

– RH / @rannveigbelle

Mitt ljómakombó og burstinn sem ég nota

Vörurnar í færslunni fékk ég í gjöf til að prófa

Mig langaði að sýna ykkur ljómakombóið sem ég er búin að vera að nota í allan desember og hefur hjálpað mér að ná alveg svakalega fallegum en eðlilegum ljóma. Það eru einhverjar tiktúrur í mér þessa dagana með ljóma, ég vil bara hafa hann sem eðlilegastan og náttúrulegastan og ég er að reyna að dreifa þeim boðskap sem víðast! Auðvitað sýnist sitt hverjum með þennan ýkta ljóma en ég hef fundið að það hentar mér og mínu andlitsfalli ekki.

Það er kannski ekki furða að í mínu GO TO ljómakombói þessa dagana er að finna vöru frá Becca en merkið hefur heldur betur slegið í gegn síðan það kom til landsins síðasta haust. Ég hef allavega ekki lagt niður vörurnar frá þeim því þær gefa svo ofboðslega fallega og fjölbreyttan ljóma. Uppáhalds formúlan mín frá þeim núna í augnablikinu er einmitt Poured formúlan en hún er mitt á milli þess að vera púður og krem.

Eftir að ég hef sett á andlitið létt lag af farða eða smá hyljara tek ég Sigma F79 burstann og set með honum þunnt lag af Becca Shimmering Skin Perfector Poured í litnum Pearl efst á kinnbeinin mín og aðeins upp á gagnaugað og undir augabrúnina í einskonar c-lag. Þessi bursti er þéttur og góður og blandar því vel úr vörunni á húðinni svo hann er alveg fullkominn til þess að bæði taka upp og dreifa úr Becca Poured formúlunni.

Þar sem að Pearl liturinn er nánast bara hvítur og því örlítið of ljós fyrir mig ef ég er með einhverja augnförðun, eins og smokey, hef ég verið að bæta fínmalaðu gylltu ljómapúðri ofan á hann og gera þá tóninn í ljómanum aðeins hlýrri og örlítið meira áberandi. Ég mun á endanum eignast Moonstone í Poured formúlunni, ég ætlaði að kaupa mér hann þegar ég var á Íslandi en bara hreinlega gleymdi því. Þar til nota ég þetta ráð og til þess gyllta ljómapúðrið úr Love Contours All pallettunni frá NYX. Þau ljómapúður sem eru í þeirri pallettu eru æði þó ég var minna hrifin af augnskuggunum í henni en það er líka bleikt ljómapúður í pallettunni ásamt þessu gyllta og stundum finnst mér voða fallegt að blanda þeim saman. Til þess að bera púðrið á nota ég bara lítinn púðurbursta sem er svolítið laus í sér og ekki of stífur en ég gríp oftast bara þann sem ég hef við hendina.

Hér vinstra megin sjáið þið mig með Becca ljómann á kinnbeinunum sem ég bar á með Sigma burstanum en vinstra megin er ég búin að bera NYX ljómapúðrið yfir. Mér fannst ég ekki alveg ná þessu nógu vel á mynd en í nýrri færslu hjá mér þar sem ég skrifa um Costco kragann minn er ég með sama ljóma á andlitinu og þar er hægt að sjá betur hversu fallegur, áberandi en samt náttúrulegur þessi ljómi, þetta ljómakombó er. Færsluna getið þið séð HÉR.

-RH /@rannveigbelle

Áramótaförðunin mín 2017

Áramótaförðinin mín þetta árið var frekar einföld þar sem ég var í svo miklum glamúrkjól að ég vildi ekki að þetta yrði allt saman „too much“ ef svo má að orði komast. Ég kaus því að gera svona „lived in smokey“ þar sem að smokey förðunin er ekki of fullkomin heldur frekar svona greasy og hrá. Núna þegar ég skrifa það þá hljómar það ekkert sérstaklega geðslega en það kom samt mjög vel út! Ég setti síðan kaldtónan silfur glimmer augnskugga í innri augnkrók til þess að tengja lúkkið saman við kjólinn minn og að sjálfsögðu nóg af kolsvörtum maskara.

Ég ákvað síðan að hafa húðina mína vel ljómandi til þess að kjóllinn myndi ekki gjörsamlega gleypa mig svo lítið af farða en mikið af ljóma varð fyrir valinu! Uppáhalds ljómatvennan mín sem ég er búin að nota óspart í desember rataði því á kinnbeinin mín en ég ætla mér að sýna ykkur þessa tvennu ásamt burstanum sem ég nota betur í færslu í næstu viku. Á varirnar setti ég síðan Nuit & Jour varalitinn frá Lancome sem er minn allra uppáhalds nude litur en hefur verið týndur hjá mér í næstum því ár en ég fann hann síðan í síðustu Íslandsheimsókn í vasanum á einum pels sem ég skildi eftir heima þegar ég flutti. Mikið var ég glöð þá! 🙂

-RH (Instagram: @rannveigbelle)

Hátíðarlúkk #4 (Too Faced)

Sumar vörur í færslunni keypti ég sjálf, aðrar fékk ég í gjöf

Jæja þá er ég mætt aftur eftir stutt jólafrí og langar að halda áfram með hátíðarsýnikennslurnar mínar. Ég vona að þið hafið haft það sem allra best um jólin og notið alveg í botn með ykkar nánustu. Ég átti alveg yndisleg jól með mínu fólki þó ég át hreinlega yfir mig og er nánast bara búin að liggja síðustu daga. En nóg um jól og át nú fer að koma gamlárs og þá er ekki seinna vænna en að draga fram glamúrinn! Ég var búin að lofa sýnikennslu með Too Faced jólapalettunni sem ég fjallaði um um daginn HÉR og ég ætla mér svo sannarlega að standa við það. Hér fyrir neðan getið þið séð vörurnar sem ég notaði til þess að ná þessari förðun.

Augu: Too Faced Best Year Ever pallettan, NYX Lid Lingerie Matte í litnum Checkmate, Wonder’fully Real maskarinn frá Rimmel, Pure Color Kajal Eyeliner frá Estée Lauder í litnum Blackened Cocoa.

Andlit: Sólarpúður, kinnalitur og ljómapúður úr Too Faced pallettunni.

Varir: Honey Lacquer frá Max Factor í litnum Honey Rose.

Ég byrjaði á því að setja á mig farða og notaði síðan sóalrpúðrirð (Chocolate Soleil), Kinnalitinn og ljómapúðrið úr pallettunni. Ljómapúðrið er mjög kröftugt og inniheldur pínu glimmer þannig að passið að setja ekki of mikið af því í einu því það getur verið auðvelt. Annars mæli ég með því að nota verulega léttar hreyfingar þegar verið er að bera á sólarpúðrið, alveg það léttar að þið setjið varla neinn þrýsting á burstann því annars getur reynst erfitt að blanda úr því á húðinni. Sérstaklega ef þið hafið ekki púðrað farðann undir.

Ég  held að NYX Lid Lingerie í Checkmate sé búin að vera aðalstjarnan í þessum hátíðarsýnikennslum hjá mér en ég hef notað hana í nánst allar farðanirnar. Ég skellti augnskugganum á augnlokið og blandaði úr honum til þess að fá fallegan brúnan smokey grunn.

Næst tók ég dökkbrúnan eyeliner sem auðvelt er að blanda út og setti hann þétt upp við efri augnhárarótina. Ég máði síðan línuna út upp á við til þess að gera grunninn enn meira smokey.

Ég varð hreinlega að nota græna litinn sem heitir Trimmed úr Too Faced pallettunni þar sem ég var í grænum bol og liturinn hreinlega öskraði á mig. Liturinn er pínu lithverfur en hann byggir á svörtum grunni svo sumstaðar sjáið þið litinn sem grænan en annarstaðar sjáið þið hann sem svartan. Það fer allt eftir því hvar ljósið lendir á hann. Litinn tók ég upp með fingrinum og stimplaði honum yfir allt augnlokið.

Til þess að tengja augnförðunina bar ég örlítið af græna litnum meðfram neðri augnháralínunni, en alls ekki of mikið.

Næst tók ég gyllta litinn úr Too Faced pallettunni sem heitir Party Over Here! og er frekar dökk gylltur og setti hann yfir grænalitinn meðfram neðri augnháralínunni ásamt því að setja hann í innri augnkrók.

Ég setti síðan mikið af maskara á bæði efri og neðri augnhárin og setti léttbleika glossið frá Max Factor í litnum Honey Rose á varirnar.

Þetta er þá lúkkið! Grænt og glansandi glamúr smokey fyrir gamlárskvöld 🙂

-RH (Fylgið mér á Instagram undir @rannveigbelle)

Too Faced jól!

Ég keypti mér pallettuna sjálf

Ókei komið með mér í smá ferð……

Það var svartur föstudagur (black friday)… það var grenjandi rigning… ég þurfti að flýja inn úr rigninginni… í horninu á sjónsviði mínu sá ég hana… Sephora… Ég neyddist til þess að fara þangað inn… Ég hreinlega neyddist til þess að fara þangað inn… Svo sá ég jólapallettuna frá Too Faced… og aftur, það var svartur föstudagur…. það var allt á 20% afslætti… ég hreinlega neyddist til þess að kaupa hana…

Hljómar þetta ekki trúverðugt?  Eins og fín afsökun til þess að bæta við makeup safnið sitt?

Nei djók… en samt ekki, hvernig gat ég ekki keypt þessa pallettu þegar hún er svona falleg?

Hér er fyrsta og í rauninni eina sönnunargagnið sem ég þarf til að sannfæra ykkur, er það ekki? Sjáið þessa fegurð! Í pallettunni er að finna 24 augnskugga, eitt ljómapúður, einn kinnalit og svo hið víðfræga Chocolate Soleil sólarpúður. Augnskuggarnir frá Too Faced hafa verið misjafnir undanfarið og þá sérstaklega þegar kemur að jólapallettunum en þegar ég potaði í þessa í búðinni fann ég að augnskuggarnir voru úr sömu Too Faced formúlu og ég elska. Ég ákvað því að gefa mér þessa pallettu í jólagjöf og ég mun að sjálfsögðu gera hátíðarsýnikennslu með henni hér á síðunni en þar til þá getum við allavega dást að litaprufunum af henni…

HALLÓ! Nei hættu nú mér finnst þetta svo fallegt. Augnskuggarnir eru allir mjög mjúkir, pínu lausir í sér en það er ofboðslega þægilegt að vinna með þá. Passið ykkur bara að dusta af burstanum áður en þið komið honum fyrir á auganu. Ljómapúðrið er pínu glimmerað samt fyrir minn smekk, kinnaliturinn minnir smá á Orgasm frá NARS og mér gengur oft svakalega illa að blanda sólarpúðrinu á andlitinu mínu. Hinsvegar hef ég fundið að ef ég nota léttar hreyfingar gengur það mun betur. En augnskuggarnir… augnskuggarnir gerðu þessa pallettu peningsins virði fyrir mig.

Ásamt pallettunni fylgir þessi dagbók og dagbókarmappa…

Afhverju veit ég ekki alveg því þetta er ekki besta dagbók í heimi en mappan sjálf utan um er mjög falleg. Hún er vel byggð og ég tók bara dagbókina úr og setti almennilega glósubók inn í. Ásamt dagbókinni, möppunni og pallettunni er síðan að finna deluxe prufu af Too Faced Better than sex maskaranum og Too Faced Melted Matte fljótandi varalitnum í litnum Sell out. Mér fannst varaliturinn mjög góður þegar ég prófaði hann en hann endist lengi á mér og þurrkar varirnar mínar ekki upp. Ég á ennþá eftir að prófa maskarann en ég eiginlega tími ekki að opna hann strax ég er með svo marga aðra maskara í gangi.

Settið getið þið fengið hér

-RH (Fylgið mér á Instagram undir @rannveigbelle)

Hátíðarlúkk #3 (Gigi) – SÝNIKENNSLA

Vörurnar í færslunni fékk ég í gjöf

Þá er komið að þriðja hátíðarlúkkinu en í þetta skiptið notaði ég vörur frá samstarfi Gigi Hadid við Maybelline! Ég fékk í gjöf frá Maybelline nokkrar vörur úr línunni og ég er varla búin að leggja frá mér pallettuna en ég fékk East Coast augnskuggapallettuna í litnum Cool. Ég notaði hana líka um daginn þegar ég var að kenna mitt fyrsta förðunarnámskeið og allar voru voða hrifnar af henni. Mig langaði að gera frekar grungy 90’s legt lúkk með vörunum hennar Gigi en hér fyrir neðan getið þið séð nákvæmlega hvernig ég náði þessu lúkki og hvaða vörur ég notaði.

Ég ætlaði nú ekkert að koma inn á það en ég held ég bara verð… HVERSU TRYLLTAR eru þessar umbúðir!!!

Hérna eru þær vörur sem ég notaði í lúkkið:

Augu: NYX Lid Lingerie í litnum Checkmate, Gigi Hadid Eyeshadow Palette í East Coast Cool, Gigi Hadid Fiber Mascara.

Andlit: Gigi Hadit Tinted Primer í Light/Medium + Farði og hyljari

Varir: Gigi Hadid varalitur og varablýantur í litnum Taura

Ég byrjaði á því að móta andlitið mitt með Tinted primernum. Fyrst ruglaði þessi vara mig rosalega en ég fann út úr henni á endanum. Tinted Primerinn á að nota til þess að móta andlitið áður en að borið er á það farði og hyljari. Þetta á að gefa andlitinu mótað yfirborð ásamt því að gefa því má sólarkyssta hlýju. Hér er ég því búin að móta andlitið mitt með primernum en hann setti ég undir kinnbeinin mín, aðeins upp við hárrótina á enninu og rétt meðfram kjálkanum mínum. Áður en þið haldið áfram skuluð þið leyfa primernum að setja sig inn í húðina svo að hann dreifist ekki út um allt andlitið þegar þið farið yfir hann með farða.

Síðan þegar ég var búin að því bar ég á mig farðann minn, hyljara og highlighter rétt eins og ég myndi alltaf gera. Ég passaði mig samt á því að hafa ekki mikla þekju yfir þeim stöðum sem ég setti primerinn svo hann myndi aðeins sjást.

(Sorrí að myndin er smá blörruð) Rétt eins og ég nefndi í síðustu sýnikennslu er ég ástafangin af nýju möttu Lid Lingerie kremaugnskuggunum frá NYX enda mun þessi litur sérstaklega koma mikið fram í sýnikennslum hjá mér. Þetta er liturinn Checkmate og hann setti ég yfir allt augnlokið og blandaði hann út með gervihárabursta. Þetta er þá orðinn grunnurinn okkar fyrir augnförðunina.

Næst tók ég brúnan Kohl eyeliner, hvaða brúni eyeliner ætti að virka, og setti hann alveg upp við rótina á efri augnháralínunni minni. Litinn máði ég svo út með pencil bursta til þess að skapa smokey áferð.

Smokey áferðina ýkti ég síðan enn frekar með því að taka dökkbrúna augnskuggann úr pallettunni, lagði hann yfir eyelinerinn og blandaði hann út upp á við. Passið ykkur bara á því að hafa litinn sterkastann alveg upp við augnhárarótina og látið hann svo blurrast (er það orð?) upp á við til þess að fá hina fullkomnu smokey áferð.

Til þess að gera förðunina hátíðlega tók ég ljósgyllta litinn úr pallettunni og stimplaði honum á augnlokið með fingrinum, alveg frá augnhárarótinni og upp undir augabrúnina. Þessi augnskuggi er gjörsamlega fullkominn í þetta og setur ofboðslega fallega áferð á förðunina þar sem það er smá glimmer í honum.

Að sjálfsögðu setti ég dökkbrúna eyelinerinn í efri og neðri vatnslínuna til þess að gera förðunina enn dramatískari en það má að sjálfsögðu sleppa því. Einnig setti ég á mig maskara en Fiber maskarinn frá Gigi virkar þannig að fyrst er sett ein umferð af maskaranum, síðan er sett ein umferð af trefjunum (sem eru á hinum endanum á túpunni) og að lokum er sett önnur umferð af maskaranum. Þannig verða augnhárin extra mikil um sig og flott.

Ég notaði Taura varablýantinn til þess að móta varirnar áður en ég setti varalitinn á mig.

Taura varaliturinn er síðan virkilega flottur frekar 90’s legur mauve litur sem gerir lúkkið að mínu mati. Hann er líka þægilegur á vörunum og endist rosalega lengi. Ég borðaði til dæmis humarsúpu, lambakjöt og sötraði á hvítvíni en samt var varaliturinn ennþá á mér eftir herlegheitin.

Þetta er þá lúkkið! Sjáið þið ykkur ekki fyrir ykkur skarta þessu lúkki yfir hátíðina?

-RH (Fylgið mér á Instagram undir @rannveigbelle)

 

Fylgdu okkur á


Follow