Eldri færslur eftir merkjum fyrir RH – Prjón

Prjónuð kóróna

11798282_10207382637943727_1226892265_n

Góðan dag! Nú fer allt að fara í gömlu góðu rútínuna aftur, leikskólarnir og skólarnir eru að fara á flug og fólk er að skríða úr sumarfrísgírnum. Mig langaði því að sýna ykkur þessa fullkomnu kórónu fyrir litlar prinsessur og prinsa sem ég prjónaði í gjöf um daginn og hentar alveg einstaklega vel á litla leikskólakolla svona síðsumars.

11824000_10207382639023754_47018994_n

Það tekur bókstaflega enga stund að prjóna þessa og þið finnið uppskriftina í prjónablaðinu Ýr nr.60. Garnið sem ég notaði í kórónuna fékk ég í Rúmfatalagernum og heitir Fritidsgarn. Þetta er garn sem hentar einstaklega vel ef þæfa á stykkið og notaði ég lit númer 1042. Eins og þið kannski takið eftir þá er kórónan þæfð hjá mér og þæfi ég alltaf prjónaða hluti með því að henda þeim í þvottavélina ásamt einu eða tveimur stórum handklæðum. Passið samt að handklæðin gefi ekki frá sér neinn liti í þvotti því annars gæti verkefnið vægast sagt endað illa.

11830045_10207382638303736_1103819533_n

Ég átti reyndar ekki rétta prjónastærð fyrir kórónuna þegar ég hófst handa svo ég notaði hálfu prjónanúmeri minna. Það hafði mest áhrif á hæðina á kórónunni, að mér fannst, svo ég myndi frekar nota rétta prjónastærð ef þið hafið tök á því. Það klikkar svo aldrei að gera prjónafestuprufu áður en maður byrjar, eitthvað sem ég er voða treg til að læra.

11805920_10207382638623744_303383392_n1

Ég mæli svo sannarlega með þessu verkefni ef ykkur er óvænt boðið í afmæli eða álíka með stuttum fyrirvara því að prjóna þetta tekur ekki meira en eina kvöldstund. Svo væri að sjálfsögðu ekki leiðinlegt að sjá fullt af litlum prinsessum og prinsum skottast um bæinn 🙂

-Rannveig H.

Prjónuð ungbarnahúfa II

barnahúfaÉg get varla lýst því hvað viðbrögðin við síðustu ungbarnahúfu glöddu mig mikið! Tæplega 600 manns eru búnir að líka við færsluna hér á síðunni og svo hef ég séð margar þær húfur sem þið hafið verið að prjóna á facebook. Mér finnst alltaf svo gaman að sjá þegar fólk hefur verið að gera eitthvað sem ég hef birt hér á síðunni svo þið megið endilega myllumerkja („hashtagga“) myndirnar ykkar með #belleis eða tagga mig á instagram @belle.is svo ég missi nú ekki af neinu 🙂

En þá að færslu dagsins. Mig langaði að sýna ykkur þessar ungbarnahúfur sem ég var að gera og gefa ykkur ýmsar ábendingar um uppskriftina.

barnahúfa-4

Uppskriftina að húfunum keypti ég á Ravelry HÉR. Mér finnst oft eins og fólk reyni að halda sig frá keyptum uppskriftum og finnur sér frekar eitthvað frítt og ég viðurkenni að ég er alveg svolítið svoleiðis líka. Oft á tíðum getur samt verið aðeins betur vandað til verka í þeim uppskriftum sem maður þarf að borga fyrir (þó svo að svo þurfi ekki alltaf að vera) en það er sannarlega málið með þessa uppskrift hér. Uppskriftin er heilar 10 blaðsíður með skýringarmyndum og texta svo allt er rosalega vel útskýrt.

Fjólubláa húfan sem þið sjáið á myndunum hér er í stærðinni 0-3 mánaða en ég bætti við einu mynstri í viðbót því að mér fannst hún vera svolítið stutt og breið. Húfan ætti því að vera nógu stór fyrir 3-6 mánaða gömul börn. Ég bætti sömuleiðis við einni umferð af mynstri við þá gráu því annars fannst mér hún of stutt líkt og sú fjólubláa. Gráa er er því í stærðinni 6-12 mánaða frekar en 3-6 mánaða.

barnahúfa-5

Vegna þess að húfurnar eru frekar breiðar þarf að passa sig að vera ekki með of stóra stærð af prjónum. Hér fyrir þessar húfur notaði ég prjóna númer 3 en ég myndi jafnvel nota prjóna númer 2,5 næst.

Ef þið voruð að pæla í því þá dugði ein dokka af garni í eina húfu og ég notaði Babyull Lanett sem ég keypti í Rúmfatalagernum. Þar sem að uppskriftin er á ensku þá langaði mig að láta fylgja með hér nokkrar prjónaþýðingar sem gætu nýst ykkur ef ykkur langar að prjóna þessar 🙂

K = Slétt prjón

P = Brugðið prjón

Kfb = Prjónað bæði framan og aftan í lykkjuna

st(s) = lykkjur

K2tog = Prjónið tvær lykkjur sléttar saman

P2tog = Prjónið tvær lykkjur brugðar saman

SSK = Takið næstu 2 lykkjur óprjónaðar yfir á hægri prjón eina í einu eins og þið væruð að fara að prjóna þær, prjónið síðan þessar 2 saman með vinstri prjóni

 SK2P = Takið 1 óprónaða lykku yfir á hægri prjón, prjónið næstu 2 saman og takið síðan þessa óprjónuðu og steypið yfir þessar sem voru 2 saman

 (RS) = Réttan á húfunni

 (WS) = Rangan á húfunni

⌂   SK2P – Sjá skýringu ofar

O   Sláið bandi uppá prjón

☐  Slétt frá réttu og brugðið frá röngu

─   Brugðið frá réttu og slétt frá röngu

→  SSK – Sjá skýringu ofar

←  K2tog – Sjá skýringu ofar

● P2tog – Sjá skýringu ofar

◊  Slétt frá báðum hliðum

Vonandi getið þið nýtt ykkur þessa punkta eitthvað ef þið prjónið þessa. Munið svo endilega eftir að merkja myndirnar ykkar eins og ég nefndi hér efst í færslunni svo ég geti séð þær og dáðst að verkinu 🙂

undirskrift

Prjónuð ungbarnahúfa

11037083_10207057291290264_1583676580368204643_nÉg elska þessar ungbarnahúfur! Þær eru ótrúlega einfaldar og fallegar og geta verið bæði svona spari og hversdags. Ekki láta myndina blekkja ykkur því að þetta eru pínulitlar ungbarnahúfur sem sitja vel á kollinum á nýfæddum ungum. Ég sé alveg fyrir mér hversu krúttlegt það getur verið!

1511694_10207057291330265_5172592969451836850_n

Uppskriftin er frí á Pickles.no HÉR en þar er hún á ensku svo mig langaði bæði að sýna ykkur þessar einstaklega fallegu húfur og þýða uppskriftina yfir á íslensku fyrir ykkur sem eruð ekki nógu sleip í prjóna-enskunni 🙂

Hér kemur uppskriftin:

Fitjið upp 60 lykkjur á stuttan hringprjón (40cm) nr.4 eða á sokkaprjóna og prjónið í hring

1. Prjónið 5 umferðir af garðaprjóni -Byrjið á brugnu lykkjunni

2. Prjónið 5 umferðir af sléttu prjóni

3. Prjónið 5 umferðir af garðaprjóni – Byrjið á brugnu lykkjunni

4. Prjónið 5 umferðir af sléttu prjóni

5. Prjónið 5 umferðir af garðaprjóni – Byrjið á brugnu lykkjunni

Nú er túrbanhnúturinn gerður þannig:

Prjónið 30 lykkjur slétt,  strengið garnið frekar þétt á milli hægri og vinstri prjóns og vefjið utan um það sem búið er að prjóna ca. 10 sinnum.  Haldið síðan áfram og prjónið næstu 30 lykkjur slétt.

Prjónið næstu umferð slétt og prjónið lykkjurnar sem eru fyrir og eftir hnútinn saman til að komast hjá gati.

6. Prjónið 3 umferðir af sléttu prjóni

7. Prjónið 5 umferðir af garðaprjóni – Byrjið á brugnu lykkjunni

Affelling:

8. Prjónið 5 umferðir af sléttu prjóni, fellið af 12 lykkjur jafn yfir í síðustu umferð

9. Prjónið 5 umferðir af garðaprjóni – Byrjið á brugnu lykkjunni

10. Prjónið 5 umferðir af sléttu prjóni, fellið af 12 lykkjur jafn yfir í síðustu umferð

11. Prjónið 5 umferðir af garðaprjóni – byrjið á sléttu núna í þetta eina sinn

12. Prjónið 5 umferðir af sléttu prjóni, fellið af 12 lykkjur jafn yfir í síðustu umferð

Dragið spotta í gegn og gangið frá endum.

Screen Shot 2016-02-13 at 20.20.11

Garnið sem ég nota í húfurnar er Winter Sun frá Lotus og er það einstaklega mjúkt og hlýtt sem hentar vel á litla kolla. Ég prufaði að gera aðra útgáfu af húfunni þar sem hún er aðeins stærri en þá fjölgaði ég lykkjunum upp í 90 og bætti við umferðum svo hún yrði hærri. Túrbanhnúturinn er samt hafður á sama stað. Ef þið fitjið upp 90 lykkjur þá er húfan fyrir svona 2-3 ára gömul börn.

Vonandi getið þið nýtt ykkur þessa þýðingu og svo getið þið alltaf kíkt á upprunalegu uppskriftina á Pickles.no 🙂

undirskrift

17.júní slaufa

17.júní11

Það styttist óðum í 17.júní og prjónaundirbúningurinn hafinn hér á mínu heimili. Ég gerði sérstaka slaufu fyrir bókina Slaufur sem kallast 17.júní og er hún prjónuð útgáfa af íslenska fánanum eins og þið eflaust sjáið á myndinni hér fyrir ofan. Mér fannst vel við hæfi að sýna ykkur hana hér á síðunni þar sem hátíðarhöldin eru rétt handan við hornið 🙂

Flestar slaufurnar í bókinni eru í þremur stærðum. Það er barna-, krakka og fullorðinsstærð. Mér datt í hug að setja inn eina stærðina (krakkastærðina) af slaufunni í verslunina hér á síðunni svo nú er hægt að nálgast hana þar ef þið viljið prufa að prjóna slaufu fyrir 17.júní. Hinar tvær stærðirnar er samt eingöngu hægt að nálgast í bókinni svo ég hvet ykkur að sjálfsögðu til að fjárfesta í einni bók, þið munuð ekki sjá eftir því! Engin pressa samt 😉

Myndbandið sem ég gerði fyrir bókina finnið þið hér fyrir ofan og gæti það hjálpað ef þið lendið í vandræðum. Vonandi sé ég svo bara fullt af íslenskum slaufum niðri i bæ á 17.júní! 🙂

undirskrift

„Chunky“ teppi

Þetta verkefni mun vera næst á dagskrá hjá mér um leið og prófin eru búin! Mig hefur alltaf langað til að prjóna svona stórt og gróft teppi en aldrei lagt í það. Núna er ég þó harðákveðin í því að henda mér í djúpulaugina. Ég þarf samt mögulega að byrja á nokkrum fæðingar-/skírnargjöfum áður en ég byrja á teppinu en ég er að bíða spennt eftir að fá að heyra fréttir um hvert kynið er svo sú framleiðsla fær að sitja á hakanum í nokkrar vikur í viðbót 🙂

undirskrift

Prjónaður trefill

116

Ég skellti mér út á mjög svo grámyglulegum haustdegi í fyrra (eins og þið kannski sjáið á myndunum) og tók þessar myndir af treflinum sem ég hafði lokið við að prjóna. Myndirnar áttu bara að vera teknar fyrir saumabókina mína þar sem ég held utan um allar uppskriftirnar sem ég hanna svo ég týni þeim ekki. Ég er nefnilega ein af þeim sem nennir sjaldnast að skrifa uppskriftirnar sem ég bulla niður á blað en ég er að reyna að taka mig á í því 🙂

Mér datt í hug að deila þessum myndum og uppskriftinni að treflinum með ykkur því þetta er svo mikið uppáhalds trefillinn minn að það er ekki fyndið. Ég er sko búin að ofnota þennan og ég held jafnvel að hann sé orðinn samvaxinn við mig! Trefilinn prjónaði ég í lok síðasta sumars til að undirbúa mig fyrir veturinn og er hann eitt af því fljótlegasta sem ég hef gert þó hann líti út fyrir að hafa tekið virkilega langan tíma. Hann er mjög hlýr þrátt fyrir að hann virðist ekki vera það og miðað við það að ég vaknaði við snjókomu í morgun þá held ég að ég sé ekkert að fara að leggja hann inn í skáp bráðum.

211

Í trefilinn notaði ég einband í litnum 1762 og kláraði að prjóna úr 4 dokkum. Ég notaði hringprjóna númer 5,5 svo að trefillinn yrði pínu laus í sér sem gerir hann extra töff. Hann er rosalega langur, örugglega um 2 metrar, en ég hefði alveg viljað hafa hann aðeins lengri hefði ég nennt að prjóna meira 😉

Það sem gerir trefilinn svona fljótlegan er að ég nota hringprjóna en ekki sokkaprjóna. Þá þarf ekki að vera að prjóna fram og tilbaka slétt og brugðið heldur prjónar maður bara eins og vél! Ég prjóna samt alltaf tvær lykkjur brugðnar, eina í byrjun umferðar og eina í lok umferðar svona eins og þegar þú prjónar lopapeysu. Þegar að trefillinn er svo orðinn nógu langur sik-sakka ég með saumavél sitthvoru megin við brugðnu lykkjurnar tvær og klippi á milli. Ég notaði sem sagt sömu tækni og þegar verið er að sauma rennilás á lopapeysu. Þetta gerir trefilinn mjög fljótlegan, auðveldan og þetta er svona prjónaverkefni sem verður ekki langdregið og leiðinlegt sem er æði því ég þoli ekki svoleiðis, mig langar alltaf að byrja á einhverju nýju um leið og ég sé eitthvað spennandi!

38

Uppskrift að treflinum:

Fytjið upp 100 lykkjur með einbandi í lit 1762 á hringprjóna númer 5,5

Prjónið slétt áfram en munið að prjóna fyrstu og síðustu lykkjuna í umferðinni brugðnar

Klárið að prjóna úr 4 dokkum af einbandinu eða haldið áfram að prjóna þar til trefillinn er orðinn jafn langur og þið viljið hafa hann

Fellið af

Sikk-sakkið í saumavél báðu megin við brugðnu lykkjurnar sem þið prjónuðuð

Passið ykkur að hafa saumað lykkjurnar vel saman svo trefillinn rakni ekki upp þegar þið klippið

Þegar þið hafið tryggt að allt sé vel saumað klippið þá á milli saumanna

Og þá er trefillinn er tilbúinn!

Ég er að segja ykkur það, minnsta mál í heimi!

-Rannveig H.

Prjónaspor

Jæja þá er komið að þriðja sýnikennslumyndbandinu fyrir bókina mína Slaufur. Þetta myndband er búið að vera svona sirka mánuð á leiðinni en núna er það loksins klárt! Í myndbandinu sýni ég hvernig maður gerir prjónaspor og einnig nefni ég nokkur góð ráð sem gott er að hafa í huga þegar á að gera fallegt prjónaspor. Vonandi getið þið nýtt ykkur þetta eitthvað 🙂

P.s. Horfið endilega á myndbandið í HD, þá er það miklu skýrara og skiljanlegra.

undirskrift

 

Fylgdu okkur á


Follow