Eldri færslur eftir merkjum fyrir RH – DIY

DIY: Choker

TEXT HERE (1)

faerslan_er_ekki_kostudÞað er ótrúlegt hvað hlutirnir ganga alltaf í hringi þegar kemur að tískunni. Núna er til dæmis allt að verða vitlaust aftur í kringum hin svokölluðu Choker hálsmen. Það er auðveldast í heimi að búa til þannig hálsmen án þess að eyða miklum tíma eða pening í verkefnið svo mig langaði að sýna ykkur hvernig ég fer að því að búa til Choker hálsmenin mín þar sem það þarf ekki að sauma eitt né neitt 🙂

DIY- CHOKER

Þegar kemur að föndri er um að gera að vera eins frumlegur og maður getur og hugsa langt út fyrir boxið. Ég skrapp í Föndru um daginn til að kaupa efnivið í nokkur Choker hálsmen og kom út með miklu meira en ég ætlaði mér. Þeir eru með rosalega gott úrval af allskonar skrautborðum, listum og bendlaböndum sem er sjálfsagt að nota í þessi hálsmen.

Ég keypti 7 mismunandi tegundir af böndum, 50 cm hvert og borgaði 1084 krónur fyrir allt saman sem er nánast ekki neitt fyrir 7 hálsmen. Sumar tegundir af böndum eru að sjálfsögðu dýrari en hinar svo verðið fer allt eftir því hvað þið veljið. Ég átti líka til franskan rennilás heima svo ég þurfti ekki að kaupa hann en hann fáið þið eflaust líka í Föndru eða getið jafnvel endurnýtt gamla franska rennilása af fötum sem þið eruð hætt að nota.

_MG_7735

Til að gera hálsmenið skuluð þið byrjið á því að mæla böndin utan um hálsinn ykkar og klippa þau sirka tveimur til þremur cm lengri en mælingin ykkar var. 

_MG_7736

Ef þið keyptuð einhver bönd úr plasti getið þið brennt smá fyrir sárið sem myndaðist þegar þið klipptuð svo að borðinn rakni ekki upp. Passið ykkur samt á því að kveikja ekki í bandinu! Ef bandið sem þið keyptuð er ekki úr einhverskonar plasti þá getið þið borið smá fatalím á endana og leyft því að þorna áður en þið haldið lengra. Þetta mun koma í veg fyrir að bandið rakni upp.

Næst skuluð þið taka sirka 1 cm af franskum rennilás og sníða hann eftir bandinu ykkar svo að hann muni ekki fara út fyrir það og sjást aftan á hálsinum. Eftir það tek ég límbyssu og lími hvorn helming franska rennilásins innan á annan enda bandsins og utan á hinn endann. Passið ykkur bara á því að þið séuð með réttu hluta franska rennilásins sitthvoru megin við bandið svo þið límið ekki tvo eins helminga á og getið þar af leiðandi ekki fest hálsmenið saman 🙂

_MG_7762

Festingin mun þá líta svona út að aftan eftir að þið hafið límt á franska rennilásinn.

_MG_7773

Það er hægt að kaupa nokkuð breitt flauelsband sem þið sjáið mig skarta hér en flauels chockerar eru víst aðal fylgihluturinn þessa dagana.

_MG_7828

Það er líka fallegt að prófa sig áfram með allskonar borða en hér sjáið þið fallega hvíta blúndu sem kemur skemmtilega út á hálsinum.

Nude litir koma líka svolítið öðruvísi út og er til dæmis fallegt að hafa þá undir blúnduborðanum.

_MG_7792

Ég prufaði líka að kaupa mér leðuríkisband sem er þá eins og andstæðan við flauels chokerinn en kom rosa vel út 🙂

_MG_7782

Ég keypti mér líka tvö venjuleg hvít og svört bómullarbönd svo ég myndi eiga sitthvorn litinn af því.

Ótrúlega einfalt og skemmtilegt verkefni sem tekur mann enga stund að gera. Ég mæli alveg klárlega með þessu og ef þið farið út í það að búa til ykkar eigin Choker-a þá megið þið endilega merkja myndirnar ykkar á Instagram með myllumerkinu #Belleis! Mér þætti nefnilega rosalega gaman að sjá ykkar útgáfur 😀

-Rannveig H.

Fylgdu mér á Facebook til að fá nýjustu færslurnar beint í æð!

 

Lítið Ikea make-up hack

image1 (9)

Vorur_eru_i_einkaeigu_ekki_kostudMig langaði að deila með ykkur þessu litla og auðvelda DIY verkefni sem ég gerði um daginn úr skrifstofuvöru frá Ikea. Ég veit ekki með ykkur en þegar ég er að gera mig til fyrir einhvern viðburð og sest niður við snyrtiborðið mitt þá er eins og það verði sprenging þegar ég er búin að farða mig og stend upp. Ég er nefnilega ekkert sérstaklega dugleg að ganga frá eftir mig jafn óðum og ég mála mig. Ég legg förðunarvörurnar bara niður einhverstaðar þegar ég er búin að nota þær og svo næst þegar ég kem að snyrtiborðinu veit ég ekkert hvar neitt er. Einstaklega skemmtilegt alveg og ég bölva sjálfri mér alltaf í hvert einasta skipti þegar ég byrja að gramsa á ný eftir dótinu mínu. Þetta Ikea hack er því tileinkað öllum þeim sem eru eins og ég og vilja koma aðeins meira skipulagi á snyrtidótið sitt! 🙂

_MG_1191

Ég er nýbúin að breyta aðeins heima hjá mér til að reyna að koma betra skipulagi á hlutina og var því í einni af mörgum Ikea ferðum þegar ég tók eftir þessum bakka í skrifstofudeildinni. Þessi bakki heitir því brjálæðislega fyndna nafni (allavega ef þú ert í svefngalsa) RISSLA hirsla og kostar 1890 krónur. Um leið og ég sá hann datt mér í hug að þessi gæti nú hjálpað mér við það að koma skipulagi á snyrtiborðið mitt í eitt skipti fyrir öll! Það er svo oft svoleiðis að besta nýtingin á hlutum er þegar að hlutirnir eru nýttir í eitthvað allt annað en  þeir eru ætlaðir fyrir.

_MG_1189

Ég á þetta típíska hvíta MAlM Ikea snyrtiborð og var ekki alveg á því að stilla upp svörtu geymsluboxi á hvítt borðið svo ég ákvað að mála það. Þess vegna skýri ég færsluna „lítið“ Ikea make-up hack því að í rauninni getið þið bara keypt bakkann og notað hann svartan alveg um leið og þið komið heim.

_MG_1190

Ef þið eruð hinsvegar eins og ég og verðið að hafa allt í stíl þá notaði ég hvíta Flugger Interior High Finish málningu til að mála bakkan glansandi hvítan. Ég þurfti að fara alveg þrjár umferðir yfir bakkann til að ná fullri þekju en það hefði klárlega hjálpað mér að grunna hann fyrst svo að svarti liturinn myndi ekki sjást jafn mikið í gegn og ég hefði þar af leiðandi ekki þurft að mála jafn margar umferðir með málningunni.

_MG_1620

Hér sjáið þið svo lokaútkomuna eftir að ég raðaði í bakkann! Ég er svo brjálæðislega sátt með þetta að ég gæti gargað! Aftasta röðin í bakkanum er bara ein heil lengja með engum skilrúmum svo hún er fullkomin til að geyma uppáhalds palletturnar ykkar sem þið grípið oft í.

_MG_1599

Næstu röð er skipt í fjögur skilrúm sem hentar fullkomlega til að geyma alla förðunarburstana. Ystu skilrúmin í röðinni eru aðeins lengri en þessi tvö í miðjunni svo ég geymi alla andlitsburstana mína í þeim tveimur og svo litlu augnskuggaburstana mína í innstu tveimur hólfunum.

_MG_1564

Fremstu röðinni er svo skipt í þrjú jafnstór hólf sem eru grynnri en hin þar sem brúnirnar ná ekki jafnt hátt upp. Mér finnst þessi hólf henta fullkomlega til að geyma mest notuðu vörurnar mínar sem ég gríp í daglega eða oft í viku, hvort sem það er farðinn minn, maskarinn, hyljarinn, kremin mín eða naglalökk 🙂

_MG_1583

Ég veit ekki með ykkur en mér finnst þetta tær snilld og vonandi getur þessi litla hugmynd mín hjálpað ykkur að koma skipulagi á snyrtiborðið ykkar. Ég veit að mitt snyrtiborð myndi örugglega þakka mér ef það væri á lífi því það er enginn smá munur á því eftir að ég útbjó þetta litla kraftaverk 🙂

Að lokum langaði mig að hvetja ykkur til að þátt í afmælisgjafaleik síðunnar með því að smella á myndina hér fyrir neðan og fylla út formið neðst til að geta fengið tækifæri á því að vinna heilan helling af glæsilegum vörum til að fylla í snyrtiborðið ykkar ❤️

risa_afmælisleikur

-Rannveig H.

Stafamerki á jólapakkana

IMG_0360

Ég ákvað að fara óhefðbundnu leiðina í ár þegar kemur að því að merkja jólagjafirnar. Oftast hef ég merkt alla mína pakka með merkispjöldum sem ég kaupi í Ikea eða álíka en í ár langaði mig að gera eitthvað öðruvísi svo ég kom sjálfri mér í föndurgírinn. Mig langaði að gera merki sem að fólk gæti endurnýtt í eitthvað annað því að þessum hefðbundnu spjöldum er oftar en ekki bara hent í ruslið.

IMG_0002

Ég ákvað því að búa til persónulegt jólaskraut fyrir hvern og einn sem fær gjöf frá mínu heimili og eftir miklar pælingar ákvað ég að búa til stafaskraut. Hugsunin á bakvið skrautið var að sjálfsögðu sú að stafirnir myndu merkja gjafirnar en bónusatriðið er að á komandi árum væri hægt að skreyta jólatréið eða annað með upphafsstöfum fjölskyldumeðlimanna. Eini gallinn er sá að viðtakendurnir verða bara að muna frá hverjum pakkarnir koma! Það er líka hægt að redda því með að merkja aftan á hvern staf með svörtum penna frá hverjum gjöfin er.

Stafina bjó ég til úr köldu postulíni eftir uppskrift sem ég fann á netinu nema ég skipti maísmjöli út fyrir kartöflumjöl. Það er að sjálfsögðu hægt að nota hvað sem er til að búa til stafina hvort sem það er fimo leir, trölladeig eða venjulegur leir svo lengi sem að efniviðurinn verður harður þegar hann þornar. Mótið fyrir stafina keypti ég í Tiger en það inniheldur ekki íslenska stafi. Ég bjó nú samt til Þ með því að breyta aðeins P-inu sem fylgdi í pakkanum svo það er vel hægt að redda sér 🙂

IMG_0355

Þegar að kalda postulínið þornar verður það hálfglært ef að þið hafið ekki bætt málningu við deigið, en það er hægt að bæta við nokkrum dropum af hvítri málningu (eða hvaða lit sem er) til að losna við þennan hálfglæra eiginleika. Ég ákvað hinsvegar að mála mína stafi með gylltri málningu sem ég fékk í A4 eftir að þeir voru þornaðir og fór svo létt yfir stafina með glimmernaglalakki til að það myndi glitra fallega á þá undir jólatréinu. Það sést ekkert alltof vel á þessum myndum en það er einstaklega fallegt þegar að marglituðu jólaseríurnar lýsa upp glimmerið á stöfunum, mjög jólalegt!

IMG_0361

Götin gerði ég í stafina áður en þeir þornuðu og þegar þeir voru tilbúnir þræddi ég í gegnum þau gróft band sem ég fékk líka í Tiger. Það er síðan hægt að þræða fallegan borða í gegnum þau í staðin, fer allt eftir ykkar smekk og í hvernig stíl pakkarnir ykkar eru.

Ég er ótrúlega ánægð með skrautið og vona svo sannarlega að þetta endi á jólatréinu hjá fólkinu mínu en ekki í ruslinu eftir að pakkinn hefur verið opnaður 😉

Ég sýni ykkur svo hvernig pakkarnir líta út hjá mér þetta árið en fyrst þarf ég bara að koma mér í það að byrja að pakka inn! Jólin eru bara allt í einu komin og það er ekki seinna vænna en að byrja!

-Rannveig H.

Aðventukransinn með aflituðu könglunum

IMG_9800

faerslan_er_ekki_kostudJæja það hófst! Í gærkvöldi kláraði ég fyrsta aðventukransinn minn. VÚHÚ! Eins og sést notaði ég aflituðu könglana sem ég sýndi ykkur hér á síðunni um daginn í miklu magni enda ótrúlega hátíðlegir og sérstakir. Kransinn var ekki dýr þegar upp var staðið og þið getið alveg bókað að svona krans úti í búð myndi líklegast kosta annan handlegginn, enda gullfallegur – þó ég segi sjálf frá 😉

IMG_9829

Könglana tíndi ég sjálf og aflitaði heima með aðferð sem ég skrifaði um HÉR. Þá límdi ég síðan með límbyssu á stráhring sem ég keypti í Söstrene Grene fyrir mjög lítinn pening. Ég keypti miðjustærðina af hringnum og ef þið ætlið að búa til svipaðan krans og þennan þá mæli ég með þeim hring frekar en öðrum. Ef þið kaupið svamphring (sem er líka miklu dýrari) þá fá könglarnir ekki nógu gott viðnám þegar þið límið þá á svo sparið ykkur peninginn og kaupið bara stráhringinn. Vonandi er hann bara ennþá til 🙂

IMG_9810

Litlu glimmer snjókornin sem þið sjáið á kransinum fékk ég einnig í Söstrene Grene en þau eru kökuskraut sem voru límd á tannstöngul. Ég braut bara tannstöngulinn af og lagði snjókornin á kransinn þar sem birtan frá kertunum endurvarpast svo fallega af silfurlitaða glimmerinu. Ég ákvað að líma þau ekki niður svo ég gæti tekið þau af kransinum seinna skyldi ég fá leið á þeim.

IMG_9804

Kertastjakana sem liggja ofan á silfurplöttunum fékk ég í Ilvu og eru frá Bloomingville (sem er fallegasta merki ever bæ the vei). Ég sá þá á konukvöldi Ilvu (eða ég held allavega að það hafi verið konukvöld) og ákvað að kaupa þá til bráðabirgða áður en ég gerði krans. Í staðinn ákvað ég að gera krans og nota stjakana sem hluta af honum. Persónulega elska ég þá hugsun að geta notað sprittkerti því þá get ég haft kveikt á kertunum öll kvöld í desember án þess að þurfa að kaupa nýtt og nýtt skrautkerti. Þá er líka hægt að  nota allskonar lituð kerti þar sem liturinn lýsir stjakana upp og setur skemmtilegan svip á kransinn. Mæli með þessu ef þið eruð í kransapælingum. Vasarnir kostuðu ekki mikið eða um 1500 kall á þessu kvöldi því það var afsláttur. Annars voru þeir á 1900 og eitthvað ef ég man rétt. Slifurplattana sem kertastjakarnir sitja á fékk ég í Garðheimum og klippti oddinn af þeim af með klippum til að geta notað þá undir stjakana.

IMG_9841

Ég stalst svo til að kveikja á öllum kertunum (þó að það sé ekki komin aðventa) til að skoða birtuna frá kransinum og váááááá! Núna get ég ekki beðið eftir að koma kransinum fyrir á jóldúknum á sófaborðinu mínu og komast í smá hátíðarskap.

-Rannveig H.

Aflitaðir könglar fyrir kransagerð – DIY

IMG_9579Það er nú búin að vera heldur betur tilraunastarfsemi í gangi heima hjá mér undanfarnar vikur og er þessi færsla afrakstur einnar þeirra. Það sem þið sjáið á myndinni hér fyrir ofan eru könglar sem ég er búin að aflita. Hljómar kannski svolítið steikt (sem það í rauninni er) en ég er ótrúlega sátt með útkomuna!

Þessa dagana er ég er öll í föndri fyrir hátíðirnar þó ég sé kannski ekki alveg byrjuð að leyfa mér að verða spennt fyrir jólunum strax. Þetta árið verða fyrstu jólin mín að heiman sem er mjög skrítin tilhugsun og á örugglega bara eftir að verða skrítnari þegar að desember rennir í hlað. Þar sem þetta eru fyrstu jólin mín að heiman þá þarf ég svo sannarlega að föndra eitt stykki aðventukrans! Frá því ég var lítil hef ég verið spennt fyrir að föndra minn eigin krans þar sem ég fæ að ráða nákvæmlega hverju einasta smáatriði – allt frá kertum niður í köngla. Ég er búin að fara fram og tilbaka í hausnum mínum með allskonar hugmyndir, sumar góðar, aðrar… ekki svo góðar og ég er loksins komin með ágæta mynd af honum. Ég lofa að sýna ykkur lokaútkomuna þegar ég klára kransinn en til þess að geta byrjað á honum vantaði mig hvíta köngla. Maður setur ekki markið lágt fyrir fyrsta aðventukransinn svo að sjálfsögðu þurfa könglarnir að vera hvítir en ekki bara venjulegir og brúnir.

Fyrsta skrefið var því að henda sér út og tína köngla. Þeir könglar sem mér finnst fallegastir og henta best í svona aflitun koma af furu. Þeir eru nógu sterkir og grófir til að þola aflitunina og verða einstaklega fallegir þegar þeir þorna. Áður en ég hófst handa við að gera þá hvíta lét ég könglana sem ég tíndi liggja í heitu sápuvatni í klukkutíma og skolaði þá svo vel. Þegar að könglar eru blautir þá loka þeir sér og er því mikilvægt að þurrka þá áður en lengra er haldið. Ég dreifði því úr könglunum mínum á álpappír sem ég hafði lagt á ofnplötu og setti könglana svo inn í ofn á sirka 150-200 gráður og hafði þá inni þar til að þeir voru allir búnir að opna sig. Hitinn frá ofninum þurrkar bæði könglana og drepur öll skorkvikindi sem kunna að hafa leynst í könglunum.

Þegar öllu þessu er lokið og könglarnir búnir að kólna eftir ofninn kem ég þeim fyrir í stórri krukku með loki (þessa fékk ég í Rúmfatalagernum). Næst fylli ég krukkuna alveg upp í topp af klór og skrúfa lokið fast. Það þarf ekki endilega að nota krukku en þið getið notast við fötu eða eitthvað slíkt í staðinn en þá þarf bara að passa að könglarnir séu alveg huldir klór og fljóti ekki upp svo þeir séu ekki hálfir ofan í klórnum. Hér til vinstri sjáið þið þurrkaða könglana í krukkunni en hér til hægri er ég búin að hella klór yfir þá. Passið ykkur á klórnum samt því hann getur skemmt fötin ykkar á nokkrum sekúndum, best er að vera í fötum sem mega skemmast.

Eftir sólarhring í klórnum getið þið tekið könglana upp úr en ég kaus að láta mína liggja í tvo sólarhringa svo þeir yrðu nú alveg hvítir. Eftir sólarhring var klórinn samt orðinn rosalega skítugur hjá mér og fullt af einhverri hvítri drullu hafði sest á botninn á krukkunni. Ég skipti því um klór og lét könglana liggja áfram í nýja klórnum hinn sólarhringinn.

Eftir þann tíma skal taka könglana upp úr klórnum, skola þá og leyfa þeim að þorna á álpappír eða einhverju slíku þar til þeir opna sig aftur.

IMG_9590

Hér sjáið þið svo mun á köngli sem hefur legið í klórnum og aflitast og öðrum óaflituðum.

IMG_9587

 

Það fyndna er samt að báðir þessir könglar lágu jafn lengi í sama klórnum en þessi dökkbrúni var sá eini af öllum könglunum sem aflitaðist ekki. Frekar skrítið en mjög skemmtilegt að sjá muninn.

IMG_9602

Virkilega skemmtileg tilraun þrátt fyrir að vera pínu vesen og ég hlakka alveg rosalega til að gera gullfallegan fyrsta krans úr þessum hvítu könglum 🙂

-Rannveig H.
P.S. Munið svo endilega eftir því að hella ekki klórnum í vaskinn eftir notkun því hann getur verið skaðlegur fyrir umhverfið. Hellið frekar klórnum aftur í flöskuna og geymið til að aflita fleiri köngla því það er vel hægt að endurnýta hann eða þá fara með hann í gám fyrir spilliefni í Sorpu 🙂

Omnom merkimiðar

1-1-of-1

Ég held að umbúðirnar utan um Omnom súkkulaðið séu einar af þeim fallegustu sem ég hef augum litið! Ég elska hvað það er mikið lagt í þær. Einmitt þess vegna finnst mér alltaf frekar leiðinlegt að henda þeim bara þegar súkkulaðið klárast. Undanfarið hef ég því farið að safna umbúðunum til að geta nýtt þær í eitthvað (og já lakkrís er uppáhaldið mitt og já þær eru allar tómar!). Og hvað er sniðugara en að klippa þær niður og nota sem merkimiða á gjafir!

1-15-of-15

Mynstrin á umbúðunum eru einstaklega flott og nýtískuleg og það er logo-ið líka. Í rauninni er hægt að klippa þær hvernig sem er, miðarnir muna alltaf verða smart að mínu mati. Ef þið eruð ekki alveg að sjá þetta fyrir ykkur þá pakkaði ég inn og smellti af nokkrum myndum 🙂

Hérna klippti ég út fjallið sem má finna inni í umbúðunum. Þær eru nefnilega alveg jafn fallegar að innan og þær eru að utan.

Sjálft logo-ið kemur líka virkilega vel út. Ég sé úlfinn alveg fyrir mér á pökkum fyrir barnaafmæli 🙂

1-14-of-15

Þetta fallega hreindýr var á jólasúkkulaðinu frá Omnom í fyrra.

1-13-of-15

Ég vona innilega að þið getið nýtt ykkur þessa hugmynd því það er svo mikil synd að henda svona góðri vöruhönnun. Svo getið þið líka notað þetta sem afsökun til að kaupa ykkur súkkulaði, það er aldrei verra!

-Rannveig H.

GÞS – Smarties yfirhalning

1121Mig langaði að sýna ykkur ótrúlega einfalt föndur sem ég gerði um daginn. Vandamálið við það að finnast gaman að prjóna eru allir prjónarnir! Þeir enda einhvernveginn út um allt og alltaf er jafn auðvelt að týna þeim. Mér datt því í hug að búa til einhverskonar hólk til að geyma alla sokkaprjónana mína í svo þeir yrðu nú allir á einum stað og ég gæti gengið að þeim þegar ég þyrfti. Það má segja að þetta föndur hafi verið tilraun til að reyna að koma á skipulagi í prjónahillunni í eitt skipti fyrir öll 🙂

29Þessi hólkur var svo lokaútkoman eftir miklar pælingar. Marmaramynstruð geymsla sem ég bjó til úr Smarties stauk. Virkilega sniðugt (finnst mér allavega) og svo er það ekki af verri endanum að endurvinna það sem myndi annars fara í ruslið!

Það sem þið þurfið í þetta verkefni er:

Tómur Smarties staukur (Sem þýðir aðeins eitt… Þú færð að borða Smarties-ið, JESS!)

Hvít akrílmálning

Trélím eða einhverskonar lím sem þornar glært

Svampur til að nota í límið

Útprentað blað með þessu marmarmynstri (smelltu hér til að ná í skjalið). Ég mæli með því að búið sé að prenta blaðið út sirka sólarhring áður en á að búa til staukinn svo að blekið sé alveg pottþétt þornað þegar að þið farið að líma.

71

Það fyrsta sem þið þurfið að gera er að taka tappann úr smarties stauknum. Hann málið þið hvítan með akríllitnum og einnig málið þið botninn á stauknum hvítan. Þið getið alveg sleppt þessu skrefi og haft tappann og botninn bara eins á litinn og þeir eru en mér fannst stílhreinna að hafa þá báða hvíta. Það gæti samt alveg verið töff að hafa litaðan tappa með marmaramynstrinu þegar ég hugsa út í það. Ég geri það næst!

Þegar að botninn og tappinn eru orðnir alveg þurrir þá stingið þið tappanum aftur í staukinn. Næst skuluð þið sníða blaðið eftir stauknum. Ég notaði dúkahníf og reglustiku til að línan sem ég skar yrði alveg bein. Berið vel af líminu á staukinn með svampnum og leggið blaðið varlega upp að honum. Mér fannst best að láta blaðið liggja á borði og rúlla svo stauknum yfir. Með þeirri tækni varð blaðið ekkert skakkt og huldi staukinn fullkomlega.

53

Það sést kannski ekkert brjálæðislega vel á þessari mynd en mynstrið varð pínu bleikleitt þegar að límið kom við blaðið en það er útaf því að blekið á blaðinu rann pínu til hjá mér þegar límið bleytti það en ég held að þetta sé voða mismunandi og fari eftir því hvernig prentara eða blek þið eruð að nota.

Ég leyfði líminu að þorna í einhverja klukktíma áður en ég hélt lengra. Þegar límið var orðið þurrt þá tók ég svampinn aftur og stimplaði eða bar límið yfir blaðið. Þetta gerði ég einnig við lokið og botninn en passið bara að hafa lokið opið þegar þið berið límið á svo að þið límið staukinn ekki óvart saman. Þegar límið þornar þá verður staukurinn orðinn glansandi fínn og mikið sterkari en ef þið hefðuð sleppt því að bera límið yfir pappírinn. Passið ykkur bara á því að bera límið varlega yfir svo að blekið renni ekki mikið til.

61

Svo stútfyllti ég þetta bara af prjónum! Það er að sjálfsögðu hægt að setja hvað sem er í þetta, þarf ekki endilega að vera prjónar. Ég held ég geri meira að segja annan stauk (bara svo ég geti borða Smarties-ið) til að geyma alla eyliner-ana mína í svo þeir séu nú ekki allir út um allt í snyrtiborðinu mínu 🙂

-Rannveig H.

Minnisplattar

12Ég er ein af þeim sem skrifa flest allt niður á blað. Allar hugmyndir sem mér dettur í hug, allt sem ég á eftir að gera, allt sem ég þarf að gera það skrifa ég niður á miða. Að sjálfsögðu eru þeir þar af leiðandi út um allt og eru til dæmis þessi tvö viðarbox sem þið sjáið á myndinni hér fyrir ofan stútfull af allskonar minnismiðum. Þetta GÞS (DIY) verkefni er því fullkomið fyrir þá sem eru jafn minnismiðaóðir og ég. Þessa minnisplatta bjó ég til fyrir nokkrum árum og mér datt í hug að deila þeim með ykkur hér á síðunni 🙂

1-5-of-5

Þetta föndur er ótrúlega fljótlegt og ódýrt og ætti hver sem er að geta apað það eftir. Ég verð nú samt að viðurkenna að ég tók heilmikið til á minnisplöttunum mínum áður en ég smellti af fyrir þessar myndir. Vanalega eru þeir ekki svona snyrtilegir hjá mér heldur fullir af allskonar minnismiðum en þar sem það er ekkert sérstaklega smart tók ég frá alla ljótu krassmiðana og skildi eftir þá flottustu.

1-4-of-51

Það eina sem þið þurfið í þetta verkefni eru einhverskonar hitaplattar úr korki. Ég keypti þessa hitaplatta í IKEA. Þeir eru ódýrir, þrír í pakka og það er mjög hæfileg stærð á þeim. Einnig þurfið þið hvíta málningu eða málningu í þeim lit sem þið kjósið. Ég notaði sömu málningu og er á veggnum mínum þannig að plattarnir falla voðalega vel við vegginn. Næst þurfið þið einhverskonar festingu til að festa plattana á vegginn. Til að festa mína platta notaði ég franskan rennilás. Ég festi einn helminginn af rennilásnum á vegginn og hinn á plattann. Þetta átti eiginlega að vera svona bráðabirgða lausn hjá mér þangað til ég færi út í búð og keypti almennilegar festingar en veistu þessir plattar eru núna búnar að hanga uppi á vegg hjá mér í meira en tvö ár og þeir hafa aldrei dottið af. Franski rennilásinn er því að standa fyrir sínu og ég hef ekkert þurft að skipta um festingar.

Til að setja punktinn yfir i-ið þá eru það teiknibólurnar. Þið getið náttúrulega keypt þessar venjulegu marglitu teiknibólur eeeeen það er miklu skemmtilegra að gera eitthvað öðruvísi 😉

1-1-of-5

Þessa demanta keypti ég í Garðheimum á sínum tíma í föndurhorninu þar. Þetta voru svona langir pinnar sem eru notaðir í kransagerð eða allskonar skreytingar. Ég keypti þá til að nota þá sem títuprjóna en svo þegar ég gerði þessa platta datt mér í hug að klippa þá til og stytta svo ég gæti notað þá sem teiknibólur. Það kom líka svona rosalega vel út. Þegar það er falleg birta úti þá grípa demantarnir ljósið og lýsast upp ótrúlega fallega. Ég skrapp í föndurhornið í Garðheimum í desember og þá voru þessir demantar ekki lengur til sem kom mér í rauninni ekki á óvart þar sem það er svo rosalega langt síðan ég keypti þá. Það voru þó til svona pinnar með perlu á endanum. Þeir voru líka mjög flottir og ég gæti alveg hugsað mér að blanda þessum tveimur tegundum saman, það gæti komið vel út. Ég veit ekki hvort perlurnar eru til ennþá þar sem það var 50% afsláttur í föndurhorninu þar sem Garðheimar eru því miður að hætta með það. Ef einhver veit hvort að sá afsláttur er ennþá í gangi eða hvort perlupinnarnir eru ennþá til þá má hann endilega láta mig vita eða skrifa það í athugsemd við þessa færslu 🙂

1-3-of-5

Skrefin til að búa til þessa minnisplatta eru því einfaldlega:

Kaupa hitaplatta úr korki

Mála þá og passa að gleyma ekki að mála hliðarnar á hitaplattanum

Festa plattana upp á vegg þegar þeir eru orðnir þurrir

Skreyta með fallegum teiknibólum

Einfaldara verður það ekki! Ef þið hendið ykkur í þetta verkefni þá megið þið endilega sendið mér mynd eða myllumerkja #belleis á Instagram. Það væri gaman að fá að sjá mismunandi útgáfur af minnisplöttunum 🙂

undirskrift

DIY – Kókos baðbombur

 

142

Í þessari fyrstu alvöru færslu á síðunni langaði mig að sýna hvernig hægt er að búa til þessar baðbombur heima! Það er í rauninni ótrúlega einfalt og mjög líklega eigið þið allt sem til þarf inni í skáp hvort sem er. Baðbomburnar eru alveg án eiturefna sem þýðir að engin hættuleg aukaefni leynast í þeim svo að í rauninni mættuð þið borða þær þó svo að ég mæli alls ekki með því 😉

innihald-copy

 

Hér eru innihaldsefnin sem þið þurfið. Uppskriftin hér fyrir neðan býr til um það bil átta litlar baðbombur eða um tvær stórar:

100 gr sítrónusýra í duftformi (Ég keypti mína hér á slikkeri.is)

200 gr matarsódi

1 til 1 og 1/2 msk kókosolía í fljótandi formi

1 tsk vatn

Dropi af matarlit

210

 

Byrjið á því að blanda þurrefnunum, sítrónusýrunni og matarsódanum vel saman. Í uppskriftinni segi ég sítrónusýra í duftformi en sítrónusýran sem ég kaupi frá slikkerí.is er meira eins og sykur. Ég reddaði því með því að henda henni í matvinnsluvél í nokkrar sekúndur. Þá var hún nokkurn vegin komin í duftform og þið þurfið ekki að hafa áhyggjur af því þó að einhver korn leynist með.

 

45

Næst blanda ég saman vökvanum í aðra skál. Kókosolían á að vera í fljótandi formi og skellti ég henni bara inn í örbylgjuofninn í nokkrar sekúndur. Passið ykkur samt að hún sé ekki sjóðandi heit þegar þið blandið öllu saman en það er í lagi ef hún er volg. Þar sem mikil olía er í þessari blöndu skilur hún sig mikið en þið þurfið ekkert að hafa áhyggjur af því.

54

 

Nú er komið að erfiðasta hlutanum í þessu öllu og hér skiptir máli að vera svolítið snöggur. Nú blöndum við saman þurrefnunum og vökvanum. Þeir sem hafa prófað baðbombur vita að þær freyða þegar þær snerta vatn og það er einmitt það sem gerist þegar vökvanum er bætt við hér. Þá verður efnahvarf og þurrblandan fer að freyða. Þess vegna skiptir máli að hella alls ekki öllum vökvanum út í á sama tíma. Byrjið á því að láta nokkra dropa renna af gafflinum á víð og dreif ofan í þurrefnin og þið heyrið strax að blandan byrjar að freyða. Þá skiptir málið að vera snöggur og blanda öllu vel saman með hendinni. Endurtakið þetta og bætið vökvanum smátt og smátt út í og blandið með höndunum.

62

 

Ekki er víst að þið þurfið að nota allan vökvan en þið vitið að blandan er tilbúin þegar að hún er eins viðkomu og blautur sandur og þið getið tekið smá í lófann ykkar, kreist og losað takið og blandan mun halda lögun sinni.

72

 

Þá er komið að því að móta baðbomburnar. Mótin sem ég er að nota eru jólakúlumót og fékk ég þau í föndurhorninu í Garðheimum um jólin. Þau eru samt eflaust til í hvaða föndurbúð sem er. Einnig ef þið eruð eitthvað að stunda fiskveiði þá getið þið prufað að nota bara flotholt 🙂

81

 

Eg byrja á því að fylla einn helminginn og þjappa blöndunni vel ofan í hann. Ég kúfylli mótið til að ég sé með nóg af blöndu til að festa báða helmingana saman.

91

 

Ég geri það sama með hinn helminginn af mótinu.

101

 

Núna legg ég helmingana tvo saman og þrýsti vel og ákveðið. Ef ekki er þrýst nógu fast munu helmingarnir tveir ekki festast saman.

113

 

Til að losa baðbombuna úr mótinu dumpa ég létt á það með gafli eða fingrunum og þá ætti hún að losna auðveldlega frá og haldast saman þegar þið opnið mótið.

122

 

Og þar hafið þið það! Fullkomin baðbomba 🙂

132

 

Haldið áfram að búa til bombur úr blöndunni þar til þið eruð komin með um það bil átta stykki og látið þær svo þorna í um sólarhring áður en þið notið þær. Ég skipti minni uppskrift í tvennt og gerði helminginn grænan og hinn helminginn bláan. Það gæti líka komið skemmtilega út að gera helminginn af einni baðbombu í einhverjum lit og hinn helminginn af henni í einhverjum öðrum. Fyrst hafði ég áhyggjur af matarlitnum, hvort hann myndi ekki bara lita baðvatnið, en svo er ekki. Það er svo ótrúlega lítið magn af matarlit í bombunum að hann hefur engin áhrif á vatnið.

krukka

 

Hversu falleg gjöf er þetta!? Ég bjó til merkimiða sem hægt er að prenta út og setja á krukkur eða önnur ílát. Mér finnst þetta alveg fullkomin vinkonugjöf eða bara svona ,,af því bara“ gjöf 🙂

Bomburnar ilma af kókos og þegar maður kemur úr baði eftir að hafa notað þær er maður silkimjúkur því þú ert alveg búin að liggja og draga í þig olíuna. Svo freyða þær líka!

undirskrift

 

Fylgdu okkur á


Follow