Eldri færslur eftir merkjum fyrir RH – Annað

Fyrstu dagarnir í Köben

Hér situr ein þreytt dama segi ég og skrifa! Fyrstu dagarnir okkar í Köben hafa heldur betur EKKI verið rólegir enda ekki lítið að gera þegar maður flytur á milli landa. Ég er fyrst núna aðeins að geta andað og ég væri alveg til í að sofa bara næstu þrjá dagana í gegn! Svo hef ég eiginlega bara ekki tíma í það… en það er annað mál.

Ferðalagið til Köben gekk bara furðuvel þrátt fyrir nokkur tár á flugvellinum… ég sver það er eins og ég hafi verið að flytja hinumegin á hnöttinn svo mikið grenjaði ég. Ætli það hafi ekki bara verið því ég veit að ég mun sakna fólksins míns svo mikið en það er sem betur fer stutt að fara ef ég fæ brjálæðislega mikla heimþrá.

Minn maður tók síðan á móti mér á flugvellinum og jemundur eini hvað það var gott að sjá hann aftur. Tvær vikur líða eins og tvö ár þegar við erum ekki saman. Um leið og ég var komin upp í íbúð var farið að sofa og strax daginn eftir þurfti ég að henda mér í próflestur enda að fara í próf næsta dag og ekkert búin að geta lært vegna anna í flutningum. Ég get alveg sagt ykkur að það að vera flutt út til annars lands og þurfa að byrja dvölina á próflestri frekar en að skoða sig um í nýja landinu var EKKI gaman. Sem betur fer gekk mér helvíti vel í prófinu því annars hefði þetta örugglega ekki verið þess virði 😉

Við tóku síðan heldur margar Ikea ferðir og við erum svona rétt núna að ná að koma okkur fyrir. Ég held að það hafi allt smollið þegar við fengum rúmið okkar og gátum kastað þessum ljótu vindsængunum sem við sváfum á inn í geymslu! Það að fá góðan nætursvefn er sko ekki ofmetið skal ég segja ykkur.

Ég var búin að skoða mig um aðeins í miðborginni með góðri vinkonu og síðasta föstudag gat ég svo gert það með mínum manni og við fórum á smá búðarráp (að sjálfsögðu), röltum um Nýhöfn og enduðum á stórglæsilega streetfood markaðinum sem ég mæli klárlega með að allir kíki á þegar þeir fara til Köben. 

Núna fer vonandi að komast smá rútína á okkur þar sem ég þarf að fara að hella mér yfir lærdóminn og ná upp því sem ég hef misst úr hingað til en mig langaði bara aðeins að líta við hérna inni og deila með ykkur hvað hefur verið í gangi hjá mér síðustu daga 😀

Þar til næst!

 Rannveig H.

Fylgdu mér á Facebook og Instagram (rannveigbelle)

 

Spennandi tímar… og stressandi tímar

Þið verðið að afsaka mikið bloggleysi hjá mér undanfarið elsku lesendur en ég er bara alveg búin að vera á haus undanfarnar vikur og núna er loksins komið að því að segja ykkur hvers vegna! Eins og þið hafið mögulega tekið eftir hefur allt verið á hvolfi hjá mér undanfarið en ég hef aðeins komið inn á það í nokkrum færslum hér í sumar. Í þessari viku mun ég nefnilega flytja af landi brott með betri helmingnum mínum þar sem sá síðarnefndi er að hefja mastersnám í Danmörku!🇩🇰 

Meirihlutinn af sumrinu mínu er því búinn að fara í það að reyna að græja skóla fyrir sjálfa mig svo ég væri nú ekki að gera ekki neitt þegar ég loksins kæmi út til Danmerkur. Þið sem þekkið mig vel vitið að það er einfaldlega ekki í boði enda verð ég að hafa fullt fangið af hlutum til að gera… alltaf! Það hófst sem betur fer eftir mikið maus svo ég mun ekki sitja auðum höndum úti í DK heldur byrja að vinna upp í mastersnámið mitt líka sem ég er gríðarlega spennt fyrir 🙂 Þetta er því vægast sagt búið að vera stressandi ferli en small allt saman að lokum.

Ofan á þetta bættust síðan flutningar en í byrjun sumars fluttum við úr íbúðinni okkar en það gátum við með hjálp frábæra fólksins míns sem ég er svo þakklát fyrir en það er nú meira hvað þau eru búin að létta undir hjá okkur parinu undanfarnar vikur. Það tekur á að vera á svona flakki en þeim hefur tekist að gera það eins auðvelt fyrir okkur og hægt er❤️

Maður hleypur síðan ekkert að því að finna íbúð í Danmörku ekki frekar en hérna heima… svona fyrst að skólinn úti í DK gleymdi öllum íslensku stúdentunum sem áttu að fá forgang inn á stúdentagarða… en við vorum ótrúlega heppin og erum komin með íbúð í úthverfi Kaupmannahafnar 🙂

Breytingar hræða úr mér líftóruna enda er ég ótrúlega vanaföst og vil helst að allt haldist bara eins og það er akkúrat núna til eilífðar. Ég veit samt að breytingar eru bara af hinu góða og þótt ég sé fáránlega stressuð og jafnvel pínu kvíðin fyrir flutningunum af Íslandinu góða þá er ég líka brjálæðislega spennt. Þetta verður bara ævintýri sem ég er þakklát fyrir að geta upplifað með mínum manni sem er nú þegar kominn út til Danmerkur og ég get ekki beðið eftir að fá í minn faðm aftur!

Ég hef aldrei verið neitt sérstaklega persónuleg hérna á blogginu, aðalega haldið mig við snyrtivöruheiminn en það mun kannski breytast smá hér eftir þar sem mig langar að leyfa fólkinu mínu að fylgjast aðeins með mér þegar ég er úti. Ekki samt halda í eina sekúndu að ég muni hætta að flytja ykkur hreinskilnar snyrtivörufréttir því það mun ég svo sannarlega halda áfram að gera! Ég held ég gæti ekki hætt því þó ég myndi reyna – allavega ekki á næstunni eins og staðan er í dag! Svona líka því að það er Sephora úti í Danmörku… TVÆR! Ég mun því halda áfram að fræða ykkur og tilkynna ykkur um allt það nýjasta þó svo að sniðið á greinunum mínum breytist kannski örlítið 🙂

Ég ætla mögulega líka að endurvekja Snapchattið mitt og snappa frá einhverjum skemmtilegum hlutum úti í DK – bara svona af því bara 🙂 Þið finnið mig undir notendanafninu rannveigbelle þar.

Næsta vika mun væntanlega vera jafn brjáluð hjá mér og þessi en ég ætla nú samt að reyna að setja inn allavega eina færslu þar sem ég fékk svo mikið af spennandi MAC og Max Factor nýjungum um daginn að ég get hreinlega ekki setið á mér!

Þar til þá❤️

 Rannveig H.

Fylgdu mér á Facebook og Instagram (rannveigbelle)

 

Haustjakki og haustfögnuður

Fyrir stuttu skrapp ég á stórglæsilegan haustfagnað Bestseller þar sem við fengum að fá smjörþefinn af haustinu hjá þeim en haustfagnaðurinn var haldinn á Mathúsi Garðabæjar. Ég hef ekki farið leynt með skoðanir mínar á matnum þar enda ekki annað hægt en að vera hrifin/n af honum! 🙂 

Við fengum litla kynningu á nýrri línu sem var að koma í Vero Moda en sú lína heitir Aware og leggur áherslu á klassískar gæða og tímalausar flíkur sem eru unnar úr endurnýjan- eða endurnýtanlegum efnum. Við fengum einn bol úr Aware línunni með okkur heim frá boðinu og ég er varla búin að fara úr mínum síðan hann er svo þægilegur. Mig langaði síðan að sýna ykkur betur nýja haustjakkann minn úr Vila sem ég féll einmitt fyrir á haustfagnaðinum ásamt Aware bolnum mínum en fyrst langaði mig að sýna ykkur nokkrar myndir sem ég smellti af á fagnaðinum sjálfum. Þið getið smellt á myndirnar til að stækka þær.

Dressið mitt er síðan mjög mikið ég þar sem það einkennist af klassískum og þægilegum sniðum og er að sjálfsögðu svart og hvítt… en ekki hvað!

Objcarol Coatigan var bara að lenda í Vila en hann er hinn fullkomni haustjakki fyrir mig. Hann er ekki of hlýr og ekki of kaldur enda er hann fóðraður að innan og loðinn að utan. 

Áferðin á honum er rosalega skemmtileg enda pínu eins og sloppur að utan – I love it!

Hvíti bolurinn er síðann hinn fallegi Aware bolur sem ég fékk í boðinu en hann er hvorki meira né minna en gerður úr trefjum sem eru unnar úr plöntum sem eru fljótar að endurnýja sig eins og Eucalyptus og kallast Tencel. Bolurinn mun brotna algjörlega niður í umhverfinu þegar honum er fargað en efnið er virkilega mjúkt viðkomu. Eins og ég segi – ég er varla búin að fara úr honum frá því ég fékk hann svo ég skellti mér í Vero Moda í gær og nældi mér í einn svartan og einn gráan Aware bol. Bolurinn er í stærð Large fyrir þá sem vilja vita en ég vil alltaf hafa svona stuttermaboli vel víða á mér.

Buxurnar sem ég er í eru síðan hinar dásamlegu Play Jeggings frá Oroblu. Þetta eru búnar að vera uppáhalds buxurnar mínar í sumar alveg klárlega! Ég var búin að lofa að sýna ykkur þær betur þegar ég keypti þær en mig minnir að ég hafi ekki gert það enn! Ég tók mínar í small og þær smellpassa eins og flís við rass. Hér er ég búin að bretta upp á þær til að sýna skóna aðeins en þær ná annars alveg niður fyrir ökla.

Klassískt og þægilegt dress – svona líður mér best! 🙂

 Rannveig H.

Fylgdu mér á Facebook og Instagram (rannveigbelle)

 

Dress up: 17.júní

Mig langaði að sýna ykkur dresið sem ég klæddist á 17.júní þegar ég fór í brunch. Daginn áður hafði ég nefnilega skroppið í Zöru í fyrsta skipti í mjög langan tíma og ég varð alveg heilluð! Ég hafði án djóks geta keypt mér heilan nýjan fataskáp bara því ég fann svo margt fallegt. Ég veit ekki hvar ég hef verið eða afhverju ég hef í rauninni ekkert kíkt í Zöru svona lengi en héðan í frá verður breyting á því!

Með mér heim í poka kom þessi dásamlegi hvíti bolur og þessar sjúku gallabuxur. Bolurinn finnst mér alveg sjúkur og svakalega sumarlegur en hann var til í allskonar litum og mig langaði eiginlega í þá alla. Ég endaði á því að kaupa mér þennan hvíta því ég keypti mér líka blóma gallabuxur sem mér fannst hann passa svo vel við. Bolurinn kostaði ekki nema 1500 krónur. 

Gallabuxurnar eru uppháar í mittið en ég hef átt þannig gallabuxur áður sem ég hef sýnt ykkur hér á blogginu en þær voru svo einlitar að því meira sem ég notaði þær því meira fannst mér þær eiginlega ekki fara mér. Þessar eru allt öðruvísi þar sem það er smá mislitur í efninu sem gera þær ekki alveg jafn flatar og mér finnst þessar bara einfaldlega fara mér betur. Þær eru síðar alveg niður en þar sem ég var í Toms skónum mínum (kemur færsla með þeim bráðum) fannst mér svo sumarlegt að bretta upp á buxurnar.

Ég setti brúnt mjótt belti úr Primark í mittið á buxunum og skellti mér svo í uppáhalds Kálfatjörn peysuna mína frá Farmers Market. Það sem ég dýrka og dái þessa flík og það sem ég er búin að nota hana mikið bæði í vetur, vor og í sumar.

Ef ykkur vantar þægilega yfirhöfn sem passar við allt saman þá mæli ég klárlega með Kálfatjörns peysunni/kápunni. Hún er líka til í nokkrum litum og ég er ekki frá því að mig langi í þá alla barasta!

Vonandi áttuð þið góðan 17.júní!

Rannveig H.

Fylgdu mér á Facebook og Instagram (rannveigbelle)

 

Dress up: Jennar skyrtukjóll

Ef þú vilt gleðja mig… gefðu mér þá góða skyrtu! Skyrtur eru bara svo bilaðislega þægilegar og svo passa þær fyrir öll tilefni. „There is nothing not to love“ þegar kemur að góðri skyrtu 😉 Þegar ég sá Jennar skyrtuna á Facebook síðu Vero Moda í gær gat ég ekki annað en brunað út í Kringlu til að ná mér í eitt eintak.

Þó það sjáist kannski ekkert alltof vel á þessum myndum þá keypti ég skyrtuna mína í gráu en hún er líka til í ljósbláu. Ég tók myndirnar þegar það var aðeins farið að skyggja svo þess vegna virðist hún vera blárri á þessum myndum en hún er í raun og veru. Nánast allur fataskápurinn minn er grár yfirhöfuð svo það var ekki erfitt val fyrir mig að velja hvort ég myndi vilja gráa eða bláa skyrtu. Ég er bara of hrifin af gráu!

Skyrtan er úr einskonar hör efni nema það er aðeins léttara og þynnra svo ef ykkur vantar flotta sumarskyrtu þá er þessi klárlega málið! Það er síðan hægt að hneppa skyrtunni alveg upp í háls eða opna hana alveg svo það er pínu hægt að leika sér með hana.

Love it❤️

Rannveig H.

Fylgdu mér á Facebook og Instagram (rannveigbelle)

 

Laser

Í síðustu viku eftir að hafa beðið og safnað í þó nokkuð langan tíma setti ég hræðsluna til hliðar og skellti mér í laser! Fyrir þá sem ekki vita hef ég notað gleraugu frá því í þriðja bekk í grunnskóla (þó ég hafi nú þurft þau töluvert fyrr) enda talsvert blind á báðum augum með yfir -5 og mikla sjónskekkju. Ég fór í TransPRK aðgerð sem fylgir erfiðara bataferli en af hinni típísku laser aðgerð svo ég er öll að koma til og jafna mig og verð að því næstu vikurnar. Á morgun sný ég aftur í vinnu en það verður áhugavert þar sem ég er ekki alveg komin með 100% sjón strax en hún kemur smátt og smátt næstu 4-6 vikurnar. Maður verður því bara að hoppa í djúpu lauguna og sjá hvernig það gengur fyrir mig að vera í tölvunni allan daginn með svona „hrá“ augu!

Ég tók upp allt laser ferlið mitt á myndband sem ég ætla að klippa saman og birta í færslu hér á blogginu eftir nokkrar vikur þegar ég verð útskrifuð frá læknunum og get sagt ykkur alla söguna mína. Þá mun ég líka fara betur út í smáatriði og linka fyrir ykkur ýmsar greinar og annað sem ég las fyrir aðgerðina en það er að sjálfsögðu einna mikilvægast að kynna sér vel það sem maður er að fara í og taka rökrétta ákvörðun sem að maður er sáttur við. En betur um það síðar!

Núna bíð ég hinsvegar bara eftir því að mega mála mig aftur! Það bíða mín svo margar fallegar L’Oréal nýjungar að mig klæjar eiginlega bara í puttana. Svo var ég líka að kaupa mér nýja myndavél svo það er ekki að hjálpa til við að seðja löngunina! Vonandi líður tíminn bara hratt 🙂

Rannveig H.

Fylgdu mér á Facebook og Instagram (rannveigbelle)

 

Insta Lately #2

Ég er búin að vera mjög virk á Instagram upp á síðkastið og búin að birta heilan helling af myndum frá því ég gerði það opinbert. Ég hvet ykkur því að sjálfsögðu að fylgja mér þar en þið finnið mig undir rannveigbelle. Það er aldrei að vita nema ég farið að gera eitthvað spennandi fyrir fylgjendur mína þar á næstunni 😉

Rannveig H.

Fylgdu mér á Facebook og Instagram (rannveigbelle)

 

Heimagerðir Cannoli Cups

Processed with VSCO with v5 preset

Eitt sem ég elska við það að vera í fríi er að geta nýtt tímann í að gera eitthvað sem ég væri annars ekki vön að gera. Um páskana gerði ég einmitt það en þá ákvað ég að leika mér smá í eldhúsinu og bjó til þessa ómótstæðilegu Cannoli Cups. Ég fékk allt í einu svo fáránlega mikið craving í Cannoli en ég nennti ekki að standa í því að gera djúpsteiktu skeljarna svo ég ákvað bara að baka þær í staðin og móta þær í bolla eftir möffinsformi sem ég á. Þetta var svo fáránlega gott og sló heldur betur í gegn í páskamatnum hjá mömmu og pabba. Það má segja að ég hafi gert Cannoli-ið alveg frá grunni en ég bjó meira að segja til Ricotta ostinn sem er notaður í eftirréttinn. Þetta var því sannkallaður hátíðarréttur og ég er eignlega búin að ákveða að þegar ég fullorðnast nú og verð komin með mína eigin fjölskyldu og farin að halda mín eigin jól þá mun þetta vera eftirrétturinn sem ég mun bjóða upp á! Ef ykkur langar að prófa þá er uppskriftin hér 🙂

Cannoli Cups
Fullkomið afbrigði af hinum klassíska ítalska eftirrétti
Skrifa umsögn
Prenta
Ricotta osturinn
 1. 1 líter nýmjólk
 2. 1/2 stór rjómi
 3. 1/4 bolli sítrónusafi
 4. 1/2 - 1 tsk Maldon salt
Cannoli skeljarnar
 1. 2 bollar hveiti
 2. 1 msk sykur
 3. 1 klípa af salti
 4. 1 og 1/2 msk af mjúku smjöri
 5. 1 egg
 6. Mjólk eftir þörfum (um það bil 1/4 bolli)
Fylling
 1. Ricotta osturinn sem þið gerðuð áður
 2. Restin af rjómanum (1/2 stór rjómi)
 3. 2 plötur af suðusúkkulaði
 4. Vanilludropar eftir smekk
 5. Kanill eftir smekk
 6. Flórsykur eftir smekk (magnið fer eftir því hversu sæta þið viljið hafa fyllinguna)
Ricotta osturinn
 1. Hellið nýmjólkinni og hálfum rjómanum í pott. Bætið við saltinu. Hitið nú blönduna þar til hún nær 90°C. Passið að blandan fari ekki að sjóða og hrærið í henni annað slagið. Þegar að blandan hefur náð 90° þá skuluð þið hella sítrónusafanum út í. Hrærið honum rétt svo saman við og látið blönduna svo sitja og kólna í um það bil 5 mínútur. Nú mun blandan hlaupa í kekki. Á meðan blandan er að kólna gerið þá klárt sigti og skál. Leggið sigtið ofan á skálina og fóðrið það með ostaklút/grisjuklút. Þegar að þessar 5 mínútur eru liðnar hellið þá öllu saman ofan í sigtið og leyfið þessu að standa inni í ískáp yfir nótt. Þá mun allir auka vökvi síast frá ostinum.
Cannoli skeljar
 1. Blandið þurrefnunum saman. Hnoðið smjörinu og egginu saman við þurrefnin. Bætið við mjólk til að bleyta upp í deiginu. Deigið er tilbúið þegar öllu hefur verið blandað saman og hægt er að fletja það út. Kælið deigið í um það bil klukkustund áður en það er flatt út. Fletjið nú út deigið örþunnt og leggið það ofan á botninn á nonstick möffinsformi. Takið gaffal og stingið á víð og dreif um deigið. Bakið nú deigið við 180°C þar til það verður gullinbrúnt. Leyfið skeljunum alveg að kólna áður þær eru losaðar frá mótinu og fyllingin sett í þær.
Fylling
 1. Hrærið saman ricotta ostinum, vanilludropunum og kanilnum. Bætið við flórsykri smátt og smátt þar til þið náið þeirri sætu sem þið viljið. Saxið niður suðusúkkulaðiplöturnar og bætið súkkulaðinu saman við. Skiljið smá súkkulaði eftir til að skreyta. Þeytið nú afganginn af rjómanum og blandið honum varlega saman við blönduna. Ef ykkur finnst blandan ekki nógu sæt eftir að rjómanum hefur verið blandað saman við má bæta við meiri flórsykri.
 2. Skóflið næst fyllingunni ofan í skeljarnar og stráið restinni af súkkulaðinu yfir bollana. Kælið þar til bera á eftirréttinn fram.
BELLE | Allt milli himins og jarðar http://www.belle.is/

Rannveig H.

Fylgdu mér á Facebook og Instagram (rannveigbelle)

 

 

Fylgdu okkur á


Follow