Eldri færslur eftir merkjum fyrir rh-útlit

Maskari sem þolir ýmislegt!

Vörurnar í færslunni eru sýnishorn

Það er löngu komið að þessari færslu hjá mér þar sem þessi maskari og maskaragrunnur er búinn að vera í stanslausri notkun hjá mér í nánast allt sumar! Næsta færsla sem ég mun hinsvegar skrifa er færsla um sumarið mitt. Hún er í vinnslu og er á leiðinni en ég var nokkuð MIA í sumar hérna á blogginu og það er ekki það að mér finnst ég þurfa að skrifa einhverja útskýringu á því hvers vegna heldur langar mig að gera það, deila með ykkur sumrinu mínu og reyna að koma mér á full skrið á blogginu hérna aftur 🙂

En þá að þeirri dásemd sem þessi færsla er um, Volume Effect Curler maskaragrunninn og maskarann frá Yves Saint Laurent. Ef ykkur vantar að prófa nýjan maskara… þá ættuð þið að prófa þennan – no joke!

Þær hjá YSL á Íslandi voru svo yndislegar að senda mér maskarann og maskaragrunninn fyrr í sumar og eru báðir tveir búnir að vera í stöðugri notkun hjá mér síðan þá. Ég lagði meira að segja tvennuna í almennilegt test þegar ég var stödd úti á Spáni í miiiiiklum raka og 30+ stiga hita. Spoiler-alert…. hann hélst á sínum stað! Tvennan á að lengja, þykkja og krulla augnhárin og hún gerir það svo sannarlega eins og þið munuð sjá hér eftir smá.

Byrjum að fara aðeins yfir The Curler maskaragrunninn sem er bleikur… jebb ég sagði BLEIKUR! Ég hef aldrei notað eða jafnvel heyrt um bleikan maskaragrunn áður svo þegar ég opnaði túpuna þá var ég mjög hissa að sjá bara ljósbleika formúlu blasa við mér.

Bleiki liturinn á þessum myndum er ekki bara útaf bleiku gúmmígreiðunni heldur er formúlan líka bleik. Greiðan er frekar beisik, hún hylur hvert og eitt augnhár með grunninum og bætir alveg svakalega við lengdina á augnhárunum.

Hérna getið þið séð annað augað mitt með maskaragrunninum og hitt augað hreint. Þið sjáið alveg greinilega mjög mikinn mun enda er grunnurinn alveg frábær.

Ég var hissa þegar ég opnaði maskaragrunninn en ég var líka hissa þegar ég opnaði maskarann. Og nei hann er ekki líka bleikur þó að gúmmíburstinn er bleikur en lögunin á greiðunni er rosalega óvanaleg.

Hér getið þið séð greiðuna aðeins betur en það var frekar erfitt að ná henni á mynd svo lögunin og broddarnir á henni sjáist sem best. Undir boganum er að finna tvær línur með broddum sem eru eins og á burstagreiðu en það er frekar langt á milli línanna. Á hliðunum eru síðan breiðari gúmmíbroddar og ofan á sveignum er fullt af svona greiðu-broddum eins og á burstagreiðu. Vá ég veit ekki hvort þetta sé skiljanlegt hjá mér en næst þegar þið farið á sölustað YSL þá þurfið þið eiginlega bara að kíkja á hann og skoða. Hann er mjög forvitnilegur og ég þurfti alveg að læra á hann – það tekur svona tvö skipti og þá er það komið. Þú notar sem sagt sveiginn til að krulla upp á augnhárin og hliðarnar með breiðu broddunum til að skilgreina augnhárin betur.

Hér er ég búin að setja maskarann yfir maskaragrunninn þegar hann var þornaður. Þið sjáið mikla muninn á augunum mínum! Tvennan gerir ekkert smá mikið fyrir augnhárin mín og það er ástæðan fyrir því að ég er búin að nota hana í allt sumar.

Það er hægt að nota maskarann einan og sér en mér finnst betra að nota hann með grunninum til að vera alveg hreinskilin. Það er líka auðveldara að taka maskarann af þegar maður notar grunninn, afhverju það er veit ég ekki því maskarinn með grunninum molnar ekki neitt og ekki maskarinn einn og sér heldur. En ég er alltaf ógeðslega nojuð á það að þurfa að nudda af mér maskara því augnsvæðið mitt er svo viðkvæmt. Þess vegna fær tvennan stóran plús frá mér bæði fyrir að endast ótrúlega vel og lengi, molna ekki af, smitast ekki til og það er auðvelt að taka hana af!

Hvet ykkur til að kíkja á þessa tvennu ef ykkur vantar nýjan maskara eða þið viljið bara prófa eitthvað nýtt og spennandi þetta haust!

Rannveig / @rannveigbelle

Smá sumarglóð

Halló halló! Það er vel kominn tími á nýja færslu frá mér! Í hreinskilni sagt þá eru síðustu vikur/mánuðir búnir að vera pretty *shit*. Fer kannski út í það seinna en það er búin að vera ástæðan fyrir litlum innblæstri hjá mér þegar kemur að blogginu og þar af leiðandi fáum færslum. Svona er lífið víst bara. Til þess að koma mér aftur á létt ról þá langaði mig að deila með ykkur sólarpúðri sem ég er búin að vera að nota á hverjum degi núna í sumar… eðlilegur stökkpallur ég veit! 😉

Vöruna í færslunni fékk ég sendar til að prófa

Sólarpúðrið kemur frá Becca og kallast Gradient Sunlit Bronzer í litnum Sunrise Waves. Í sumar hef ég farið svolítið frá því að nota kremkinnaliti, sem ég nota annars alltaf, og notað þetta sólarpúður/bronzer í staðin.

Púðrið samanstendur af þremur litum af sólarpúðrum sem eru í stöku úrvali hjá Becca en í litnum Sunrise Waves eru það sólarpúðrin Bali Sands, Capri Coast og Bronzed Bondi. Út til hliðanna er síðan að finna Shimmering Skin Perfector, sem er heitið á ljóapúðrunum hjá Becca, í litnum Opal. Þannig maður er svolítið að fá tvennt fyrir eitt í þessu púðri – sólarpúður og ljómapúður.

Hér getið þið séð prufu af hverjum lit fyrir sig. Efstur er Bronzed Bondi næst er Capri Coast þar á eftir er Bali Sands og síðast er ljómapúðrið Opal. Það er hægt að blanda öllum litunum saman til þess að fá vel ljómandi bronzer en þar sem sólarpúðrin sjálf innihalda léttan ljóma nota ég alltaf bara alla litina í miðjunni saman og síðan Opal einan og sér til þess að setja efst á kinnbeinin ef ég vil vera extra ljómandi. Opal er oftast of dökkur fyrir mig en þar sem sólin hefur leikið við okkur í Danaveldi í allt sumar (sorrí Íslandsbúar) þá er húðin mín sólkysst og brún þannig að loksins get ég notað litinn á kinnbeinin.

Hérna getið þið séð mig með sólarpúðrið á mér. Það þarf voðalega lítið af því til þess að fá fallegan lit þar sem það er mjög litsterk. Hérna setti ég þó nógu mikið á mig svo það væri nú sýnilegt á mynd og eins og þið getið séð gefur það húðinni minni virkilega náttúrulega og fallega sumarglóð.

 Ég verð nú að segja að því meiri vörur sem ég prófa frá Becca því hrifnari verð ég af merkinu. Það er svo þægilegt að vinna með vörurnar frá þeim hvort sem þú ert að sækjast eftir náttúrulegu lúkki eða einhverju aðeins ýktara. Án efa eitt uppáhalds merkið mitt enda fer safnið mitt sístækkandi. Látið mig vita ef þið viljið sjá frá mér „must have“ lista frá merkinu. Þá hendi ég í hann með glöðu geði! 🙂

– Rannveig / @rannveigbelle

Þessi ilmur!

Ilmvatnið fékk ég í gjöf. Færslan er ekki kostuð.

Það er ekki oft sem að ilmur heillar mig alveg upp úr skónum. Ég þjáist því miður af miklu mígreni og því allar lyktir alls ekki fyrir mig þar sem bara einn þefur af rangri ilmvatnslykt getur gefið mér blindandi höfuðverk. Þegar ég finn því ilm sem veldur ekki þeirri aukverkun þá er bókstaflega eins og himnarnir hafi opnast. Ókei kannski full dramatískt en þið sem þjáist af mígreni þekkið þetta eflaust!

Ilmurinn sem um ræðir er enginn annar en La Nuit Trésor À la folie frá Lancôme en ég var svo heppin að fá senda litla prufu af honum til mín til DK frá Lancôme á Íslandi. Herregud hvað hann er dásamlegur! Ilmurinn samanstendur meðal annars af vanillu, bergamot, viðarnótum og perum sem saman skapa virkilega mjúkan, seiðandi og sætan ilm sem hentar vel hversdags sem og við betri tilefni. Ég er án djóks búin að spara mína prufu og nota hana bara þegar mig vantar aukið búst og ég vil lykta extra vel!

Ég verð nú samt að fara að leita þennan ilm uppi hérna úti í Köben þar sem mér finnst hann vera algjör skyldueign eftir að ég kynntist honum. Ég veit samt að hún elsku Sigríður á Trendnet er búin að vera leita að honum hérna úti og finnur hann ekki sem veldur mér pínu áhyggjum en við erum báðar búnar að dásama ilminn við hvor aðra sem og ég ein við nánast alla sem ég kem nálægt. Er ekki annars viðeigandi að ota úlnliðnum framan í fólk og segja þeim að þefa því ég er með svo góða lykt á mér? Hélt það líka 😉

Ég mæli allavega sterklega með þessum ef þið eruð að leita ykkur að nýju ilmvatni en passið ykkur þó! Hann er án djóks ávanabindandi <3

-RH / @rannveigbelle

Árshátíðarbrúnkan

Vörunar í færslunni fékk ég í gjöf eða eru í einkaeigu

Þá fara árshátíðirnar að skella á og sumar hverjar hafa nú þegar átt sér stað. Það er því ekki seinna vænna að ég sýni ykkur nokkrar sniðugar vörur frá St. Tropez sem geta hjálpað ykkur til að ná hinni fullkomnu árshátíðarbrúnku. St. Tropez eru án efa uppáhalds brúnkuvörurnar mínar því úrvalið hjá þeim er svo gott og brúnkan sem ég fæ af þeim er alltaf rosalega náttúruleg. Það er ekkert sem ég meika minna en appelsínugula gervibrúnku og ég fæ aldrei svoleiðis þegar ég nota St. Tropez (True Story).

Það er til mjög mikið af mismunandi áferðum og tegundum af brúnkukremum í St. Tropez línunni og ég hef nú þegar fjallað um Dry brúnkuolíuna og Gradual Tan línuna svo þið getið kíkt á þær færslur ef ykkur vantar að vita meira um þær áferðir. Í þessari færslu langar mig að sýna ykkur aðrar áferðir sem ég hef ekki fjallað um áður svo það ætti að hjálpa ykkur ef þið eruð að vandræðast með hvaða áferð eða vara hentar ykkur best.

Fyrst er eitt það nýjasta sem St. Tropez býður upp á en það er In Shower Gradual Tan línan. Í stuttu máli sagt virkar línan þannig að brúnkuvaran er sett á líkamann annað hvort áður en maður fer í sturtu eða þegar maður er í sturtunni. Fyrir mig er þetta mesta snilldin því þetta tekur enga stund og byggir upp mjög léttan og náttúrulegan lit. Því meira sem þú notar vöruna því dekkri verður liturinn. Þannig getur maður stjórnað almennilega hvernig liturinn verður. Það þarf samt nokkra daga notkun til þess að byggja upp litinn svo verið viss um að byrja að setja vöruna á ykkur aðeins fyrir árshátíðina.

St. Tropez In Shower kremið setur maður á sig í sturtunni og það tekur í kringum 3 daga að byggja upp litinn. Þegar maður setur kremið á sig slekkur maður á sturtunni og bera það á líkamann með hringlaga hreyfingum. Eftir það skolar maður á sér hendurnar til þess að maður verði ekki óeðlilega brúnn í lófunum. Því næst bíður maður í 3 mínútur og skolar síðan kremið af líkamanum með heitu vatni (ekki sápu).

Gradual Tan One Minute er brúnkukremið sem ég er búin að vera að nota upp á síðkastið en það er algjör snilld til þess að nota hversdagslega þar sem það tekur bókstaflega bara tvær mínútur að setja það á sig! Þetta er í rauninni brúnkufroða sem ég ber á mig með brúnkuhanska en áferðin á froðunni er svona pínu klístruð og inniheldur smá ljóma svo hægt sé að sjá almennilega hvar froðan er komin á líkamann þar sem hún er litlaus við ásetningu. Næst bíð ég í eina mínútu og skola síðan froðuna af mér í sturtunni með heitu vatni. Ótrúlega fljótlegt og þægilegt og maður lyktar ekki af brúnkukremi.

Næst er það Express brúnkofroðan sem er fullkomin fyrir allar árshátíðir þar sem það þarf ekki nema 1 til 2 tíma fyrir brúnkuna að myndast. Ég mæli með að skrúbba húðina daginn áður en þið setjið á ykkur froðuna til þess að hreinsa allar dauðar húðfrumur og önnur óhreinindi af húðinni. Ef þið eruð með einhver þurr svæði á líkamanum skuluð þið bera krem á þau áður en þið setjið á ykkur froðuna en froðuna setjið þið síðan á líkamann með brúnkuhanska og notið hringlaga hreyfingar til þess. Passið ykkur að fara ekki í föt fyrr en froðan er orðin þurr á líkamanum svo hún liti ekki fötin ykkar en þar sem þetta er Express froða þarf maður ekki að bíða nema í 1 (léttur litur/sólkysst húð), 2 (miðlungs brúnka) eða 3 (dökk brúnka) klukkutíma til þess að brúnkan myndist. Eftir það skuluð þið skola húðina með heitu vatni en brúnkan mun halda áfram að myndast næstu 8 tímana. Það er því smá meiri vinna í þessari brúnku en In Shower línunni en þetta er fljótlegasta leiðin til þess að ná fallegri brúnku fyrir einhvern viðburð.

Önnur nýjung frá St. Tropez er úr Express línunni en þetta er sjálfbrúnku andlitsmaski! Halló góðan daginn hvað mér finnst þetta spennandi! Ég hef ekki prófað hann ennþá en í stuttu máli sagt er þetta svokallaður sheet maski sem maður leggur yfir andlitið og bíður í 5, 10 eða 15 mínútur eftir því hversu dökka brúnku maður vill. Að sjálfsögðu byrjar maður á því að hreinsa andlitið áður en maður notar maskann og passar svo að andlitsmaskinn liggi þétt upp við húðina svo brúnkan verði jöfn og falleg. Þegar maskinn er síðan tekinn af nuddar maður restinni af því sem er á húðinni inn í húðina í hringlaga hreyfingum og skolar síðan hendurnar. Brúnkan heldur áfram að þróast í 8 klukkutíma alveg eins og hjá Express froðunni. Maskinn er því hin fullkomna lausn ef maður vill fá smá brúnku í andlitið fyrir árshátíðina. Ég hlakka allavega til að prófa 😀

Síðasta brúnkukremið sem ég er síðan með til að segja ykkur frá er Gradual Tan Everyday Tinted Moisturizer Primer. Þetta er í rauninni bara litað dagkrem sem að byggir upp brúnku á húðinni með hverjum deginum sem það er notað. Það er bæði hægt að nota kremið undir farða þar sem það býr yfir ákveðnum primer eiginleikum eins og að gefa húðinni ljóma og fullkoma yfirborð hennar en ef þið ætlið að nota það svoleiðis skuluð þið passa að kremið er búið að smjúga inn í húðina og er orðið þurrt viðkomu áður en eitthvað er sett ofan á það, alveg eins og með venjulegan primer. Ég er búin að vera að prófa þetta og ég fíla þetta mjög vel, ég er actually komin með einhvern lit í andlitið svona einu sinni! Það er ekki svona sjálfbrúnkulykt af kreminu ef þið hafið áhyggjur af því heldur lyktar það frekar eins og sólaráburður sem ég elska. Húðin verður ljómandi og tekur smá lit sem helst samt náttúrulegur og flottur. Ég nota alltaf bara hendurnar með þessu kremi en passa mig að skola þær alltaf eftir ásetningu.

Síðast en ekki síst er það flotti sjálfbrúnkuhanskinn frá merkinu. Þennan nota ég alltaf þegar ég set á mig brúnkuvörur en hann dreifir svo fallega úr brúnkunni og tryggir jafna áferð. Áður fyrr notaði ég alltaf stóran bursta til þess að setja á mig sjálfbrúnku en ekki síðan ég kynntist þessum. Hanskinn er ekki dýr svo ég mæli klárlega með að kaupa einn svona ef þið eruð að kaupa ykkur einhverja sjálfbrúnku.

Þar hafið þið það! Smá frekari leiðbeiningar um úrvalið hjá St. Tropez. Vonandi getið þið nýtt ykkur þessa færslu sem og hinar sem ég hef skrifað og nefndi hér ofar í textanum 🙂 Setjið þið alltaf á ykkur gervibrúnku fyrir árshátíðir eins og ég?

-RH / @rannveigbelle

Dior jólagjöf

Vörurnar í færslunni eru í einkaeigu

Minn elskulegi kom mér heldur betur á óvart á jólnum þegar hann gaf mér þessa Dior pallettu í jólagjöf. Hann kom mér nú reyndar meira á óvart þegar ég opnaði handprjónað eyrnaband sem hann hafði gert sjálfur en það er önnur saga – kannski ég sýni ykkur það hér við fyrsta tækifæri bara! Í ár ákváðum við að vera bara létt á gjöfunum þar sem við ætlum að fara erlendis í sumar svo Dior pallettan kom mér heldur betur á óvart. Pallettan er hluti af jólalínu Dior, er í litnum Emerald og minnir óneitanlega á glitrandi gimsteina þegar maður heldur á henni.

Ég gerði því „létta“ Dior förðun þegar ég fór í jólaboð annan í jólum en augnskuggarnir eru úr sömu silkimjúku Dior formúlu og maður er vanur. Hér getið þið séð myndir sem ég smellti af förðuninni.

Gull og Dior glamúr… klikkar ekki!

-RH (Fylgið mér á Instagram undir @rannveigbelle)

 

Fylgdu okkur á


Follow