Eldri færslur eftir merkjum fyrir reynsla

Frábæri 2 ára aldurinn!

Ég trúi ekki á the terrible two’s, ekki það að ég hafi ekki upplifað mikinn mótþróa frá mínum 2 ára og nei virðist oft vera orð dagsins. Heldur er það út af því að ég veit að þessi mótþrói er ekki hræðilegur, hann er bara partur af því að minn maður er að verða sjálfstæður og er að prófa sig áfram í heiminum með ýmislegt. Minni ég mig á það reglulega til að missa ekki vitið og hef ég lært mikið á stuttum tíma um þetta skemmtilega tímabil í lífi barna. Hér vil ég fara í nokkra punkta. Minni á að þetta er bara mín reynsla og það sem virkar vel fyrir okkar fjölskyldu. Hvert barn og fjölskylduaðstæður eru mismunandi og ekki víst að allt virki fyrir alla.

 

Rútína, rútína, rútina. Þá tala ég um svefnrútínu. Mjög mikilvægt er að börn fái sinn svefn til að vera glöð og minnka pirring yfir daginn, alveg eins og við fullorðnu þurfum okkar svefn. Því tel ég að svefnrútínur eru eitt það mikilvægasta í lífi barns til að líða vel. Með rútinu líður barninu öruggu og veit hvað kemur næst. Tel einnig mikilvægt að gera þetta í skrefum. Til dæmis fyrsta skref: náttföt og taka til leikföngin sín ( með mömmu og/eða pabba ) , annað skref: tannbursta og þrífa hendurnar, þriðja skref: drekka smá vatn og segja góða nótt við alla ( úti, dýr og alla heima ) síðan upp í rúm. Fá stórt knús og koss, jafnvel syngja góða nótt lag ( syng eitt vers úr Dvel ég í draumahöll og minn er byrjaður að syngja með ) síðan góða nótt, elska þig og loka hurðinni. Ástæðan fyrir því að ég tel að skref eru mikilvæg í rútínu er að ef mótþrói kemur upp, þá er betra að hann komi við fyrsta, annað eða þriðja skref, ekki við því að fara að upp í rúm að sofa. Enda erfitt að halda 2 ára barni í rúminu ef það vill ekki vera þar. Ef við segðum við okkar strax: jæja nú förum við að sofa, beint upp í rúm, þá kæmi bara strax NEI og það yrði barátta hvert kvöld. Vanalega þegar við höfum farið í gegnum heilu rútínuna og það kemur að síðasta skrefinu hjá okkur er hann svo fastur í rútínunni að hann fer glaður að sofa.

Þolinmæði þrautir vinnur allar og ákveðni! Nei, nei, nei, nei, nei virðist vera svarið við flestum spurningum eða staðhæfingum frá foreldrunum stundum og sérstaklega þegar það kemur að því að fara í föt, útiföt og fara á leikskólann. Það er mikill mótþrói hjá okkur á morgnanna og ég er stundum alveg á því að gefast upp. Búin að prófa allar aðferðir með þolinmæðina að vopni en barnið er alveg á því að vera bara heima nakinn helst. Þá gildir það bara að vera ákveðin og vera samkvæm okkur. Við sögðum að barnið hefði 5 mín, og 5 mín eru búnar. Þá segjum við það og gerum það sem gera þarf ef barnið er ekki samstarfshæft sjálft. Já það verður grátur og jafnvel spörk út í loftið en það gengur yfir og við þurfum að vera þolinmóð. Barnið er komið í útifötin og í vagninn sinn, frekar fúll, en hann gleymir þessu á næstu mínútum strax og komið er út. ( gengur allaveganna vanlega þannig hjá okkur). Þetta er fáránlega erfitt en sumir dagar eru betri en aðrir og fer ég í það í næsta punkti.

Gefðu barninu val, með flest allt: Þegar barnið fær val þá gengur það oft betur að fá það að gera eitthvað sem það kannski ekki vill. Til dæmis fara í nýja bleyju, fara í föt og svo framvegis. Ég gef Emil val að taka bleyjuna á 2 mismunandi stöðum ( eða fara úr sjálfur) , eða stundum fara á koppinn og taka hana sjálfa ( ef það er ekki sprengja í henni). Ég sýni oft Emil 2 mismunandi buxur/boli og spyr hvorar hann vilji fara í og hvort hann vilji fara í þær sjálfur eða hvort mamma eigi að hjálpa. Þegar við erum að fara í vagninn út, þá er það sama mál, viltu fara sjálfur upp í vagninn eða á mamma að hjálpa ( það verður oft samanblanda af bæði). Þessi spurning er mjög mikið notuð, viltu koma/gera sjálfur eða á mamma að hjálpa. Það er auðvitað oft nei við þessari spurningu, en þá er bara að halda áfram að spyrja og vera samkvæmur sjálfum sér. Sumir dagar ganga eins og í sögu og það er lítill sem enginn mótþrói. Oftast er það þó einhver.

Leyfðu barninu að ráða för í leik og komast í flæði. Við getum verið þáttakendur og áhorfendur til skiptis, látum tilfinninguna ráða för. Við þurfum ekki að ráða hvaða leik við leikum við barnið og spurjum barnið hvað það vilji leika með og leyfum því síðan að leika sjálft ef það vill, en getum samt verið til staðar hjá því þegar það vill að við séum með. Það er jafn mikilvægt að leyfa því að leika sjálft og komast í flæði í leik og að við séum með. Reynum að finna gott jafnvægi í þessu.

Lítill sem enginn skjátími. Reglan hjá okkur er að það er enginn skjátími fyrir kl 15/16 á daginn. Hjá engum af okkur ( fyrir utan að foreldrarnir stelast til þess þegar barnið tekur hádegislúrinn ) Við leikum frekar, lesum, hlustum ef til vill á tónlist og förum út. Þetta er eitthvað sem lætur okkur öllum líða vel og barnið fær að nota extra orkuna sem það hefur nóg af. Síðan ef barnið horfir á sjónvarp seinni partinn þá er það helst í minna en hálftíma ( en kemur auðvitað fyrir að það er lengri tími )

Ekkert stress á matartíma. Þú ræður hvað barnið borðar, það ræður hve mikið það borðar. Las þetta um daginn og fannst þetta passa vel hjá okkur. Það var oft mikið stress á matartímanum ef hann var ekki sáttur við það sem er í matinn og við reyndum að neyða í hann matinn og það gekk náttúrulega ekki vel. Núna leyfum við honum að borða svo mikið sem hann vill en reynum að gera það að reglu að hann verði allaveganna að prófa 1 bita áður en hann ákveður að hann vilji ekki meira. Stundum verður það til þess að hann fattar að þetta er ekki svo slæmt og endar á að borða heilmikið. Ef ekki þá er það bara þannig og hann fær einn ávöxt fyrir svefninn ef hann er svangur.

Leyfðu barninu að gráta og vertu bara til staðar fyrir það. Við skulum ekki fara í keng ef barnið grætur, við þurfum ekki að stoppa það af og við eigum helst ekki að segja, þú þarft ekki að gráta, engin ástæða til þess og gera lítið úr ástæðunni fyrir að barnið gráti. Það grætur og hefur sínar ástæður fyrir því. Við skulum því bara sýna barninu að við skiljum og vera til staðar fyrir barnið. Þetta er mjög mikið RIE eða respectful parenting ef ég skil aðferðina rétt og maður á frekar að sportcasta og segja til dæmis: já þú ert leiður vegna þess að þú fékkst ekki að leika meira og svo framvegis. Ég segi oft, já ég veit, Emil er leiður og það er allt í lagi að gráta. Stundum þarf maður að gráta, en mamma er hér fyrir þig. Þetta virkar vel hjá okkur og gráturinn gengur fljótt yfir. Aftur á móti ef hann byrjar að gráta að nóttu til, hugga ég hann, strýk bakið og segi shhhh shhhhh þar sem það er það sem við höfum gert síðan hann var lítill og er partur af næturrútínunni. Það er mjög sjaldgæft að það gerist en það róar hann.

Útivera er lífsnauðsynleg. Hvern dag, allaveganna í klukkutíma í senn, það er svo gott fyrir barnið og þig að komast út. Farið út á leikvöll, út að labba, bara hvað sem er og njótið útiverunnar. Sýndu barninu öll fallegu smáatriðin þarna úti, litlu laufin, berin, skordýrin og segðu barninu frá öllu. Útskýrðu og sýndu áhuga, þetta er allt voða nýtt fyrir barnið og skilningurinn á heiminum vex með hverri útiveru.

Leiktu og grínast! Kítla, eltingaleikur, feluleikur, bara name it! en vertu tilbúinn að leika sama leik 10-20 sinnum í röð ef að barninu finnst hann skemmtilegur.

Þú getur ekki sagt of oft: ég elska þig. Þetta er það sem ég segi oftast á dag við minn litla og ég tel að maður getur ekki sagt of oft ég elska þig við barnið sitt. Því tek ég mörg tækifæri til þess að segja þetta við hann, oftast þegar hann situr hjá mér. Knúsa hann og kyssi, strýk bakið og sýni ástúð. Hann hefur sagt tilbaka nokkrum sinnum ég elska þig og það er besta tilfinning í heimi!

Elska þennan aldur og á eftir að sakna þessa tímabils uppgötvunar! Hlakka til að sjá litla minn þróa sinn persónuleika frekar og er glöð að geta verið með í ferðalaginu 🙂

 

Fylgdu okkur á


Follow