Eldri færslur eftir merkjum fyrir Ráð

Frábæri 2 ára aldurinn!

Ég trúi ekki á the terrible two’s, ekki það að ég hafi ekki upplifað mikinn mótþróa frá mínum 2 ára og nei virðist oft vera orð dagsins. Heldur er það út af því að ég veit að þessi mótþrói er ekki hræðilegur, hann er bara partur af því að minn maður er að verða sjálfstæður og er að prófa sig áfram í heiminum með ýmislegt. Minni ég mig á það reglulega til að missa ekki vitið og hef ég lært mikið á stuttum tíma um þetta skemmtilega tímabil í lífi barna. Hér vil ég fara í nokkra punkta. Minni á að þetta er bara mín reynsla og það sem virkar vel fyrir okkar fjölskyldu. Hvert barn og fjölskylduaðstæður eru mismunandi og ekki víst að allt virki fyrir alla.

 

Rútína, rútína, rútina. Þá tala ég um svefnrútínu. Mjög mikilvægt er að börn fái sinn svefn til að vera glöð og minnka pirring yfir daginn, alveg eins og við fullorðnu þurfum okkar svefn. Því tel ég að svefnrútínur eru eitt það mikilvægasta í lífi barns til að líða vel. Með rútinu líður barninu öruggu og veit hvað kemur næst. Tel einnig mikilvægt að gera þetta í skrefum. Til dæmis fyrsta skref: náttföt og taka til leikföngin sín ( með mömmu og/eða pabba ) , annað skref: tannbursta og þrífa hendurnar, þriðja skref: drekka smá vatn og segja góða nótt við alla ( úti, dýr og alla heima ) síðan upp í rúm. Fá stórt knús og koss, jafnvel syngja góða nótt lag ( syng eitt vers úr Dvel ég í draumahöll og minn er byrjaður að syngja með ) síðan góða nótt, elska þig og loka hurðinni. Ástæðan fyrir því að ég tel að skref eru mikilvæg í rútínu er að ef mótþrói kemur upp, þá er betra að hann komi við fyrsta, annað eða þriðja skref, ekki við því að fara að upp í rúm að sofa. Enda erfitt að halda 2 ára barni í rúminu ef það vill ekki vera þar. Ef við segðum við okkar strax: jæja nú förum við að sofa, beint upp í rúm, þá kæmi bara strax NEI og það yrði barátta hvert kvöld. Vanalega þegar við höfum farið í gegnum heilu rútínuna og það kemur að síðasta skrefinu hjá okkur er hann svo fastur í rútínunni að hann fer glaður að sofa.

Þolinmæði þrautir vinnur allar og ákveðni! Nei, nei, nei, nei, nei virðist vera svarið við flestum spurningum eða staðhæfingum frá foreldrunum stundum og sérstaklega þegar það kemur að því að fara í föt, útiföt og fara á leikskólann. Það er mikill mótþrói hjá okkur á morgnanna og ég er stundum alveg á því að gefast upp. Búin að prófa allar aðferðir með þolinmæðina að vopni en barnið er alveg á því að vera bara heima nakinn helst. Þá gildir það bara að vera ákveðin og vera samkvæm okkur. Við sögðum að barnið hefði 5 mín, og 5 mín eru búnar. Þá segjum við það og gerum það sem gera þarf ef barnið er ekki samstarfshæft sjálft. Já það verður grátur og jafnvel spörk út í loftið en það gengur yfir og við þurfum að vera þolinmóð. Barnið er komið í útifötin og í vagninn sinn, frekar fúll, en hann gleymir þessu á næstu mínútum strax og komið er út. ( gengur allaveganna vanlega þannig hjá okkur). Þetta er fáránlega erfitt en sumir dagar eru betri en aðrir og fer ég í það í næsta punkti.

Gefðu barninu val, með flest allt: Þegar barnið fær val þá gengur það oft betur að fá það að gera eitthvað sem það kannski ekki vill. Til dæmis fara í nýja bleyju, fara í föt og svo framvegis. Ég gef Emil val að taka bleyjuna á 2 mismunandi stöðum ( eða fara úr sjálfur) , eða stundum fara á koppinn og taka hana sjálfa ( ef það er ekki sprengja í henni). Ég sýni oft Emil 2 mismunandi buxur/boli og spyr hvorar hann vilji fara í og hvort hann vilji fara í þær sjálfur eða hvort mamma eigi að hjálpa. Þegar við erum að fara í vagninn út, þá er það sama mál, viltu fara sjálfur upp í vagninn eða á mamma að hjálpa ( það verður oft samanblanda af bæði). Þessi spurning er mjög mikið notuð, viltu koma/gera sjálfur eða á mamma að hjálpa. Það er auðvitað oft nei við þessari spurningu, en þá er bara að halda áfram að spyrja og vera samkvæmur sjálfum sér. Sumir dagar ganga eins og í sögu og það er lítill sem enginn mótþrói. Oftast er það þó einhver.

Leyfðu barninu að ráða för í leik og komast í flæði. Við getum verið þáttakendur og áhorfendur til skiptis, látum tilfinninguna ráða för. Við þurfum ekki að ráða hvaða leik við leikum við barnið og spurjum barnið hvað það vilji leika með og leyfum því síðan að leika sjálft ef það vill, en getum samt verið til staðar hjá því þegar það vill að við séum með. Það er jafn mikilvægt að leyfa því að leika sjálft og komast í flæði í leik og að við séum með. Reynum að finna gott jafnvægi í þessu.

Lítill sem enginn skjátími. Reglan hjá okkur er að það er enginn skjátími fyrir kl 15/16 á daginn. Hjá engum af okkur ( fyrir utan að foreldrarnir stelast til þess þegar barnið tekur hádegislúrinn ) Við leikum frekar, lesum, hlustum ef til vill á tónlist og förum út. Þetta er eitthvað sem lætur okkur öllum líða vel og barnið fær að nota extra orkuna sem það hefur nóg af. Síðan ef barnið horfir á sjónvarp seinni partinn þá er það helst í minna en hálftíma ( en kemur auðvitað fyrir að það er lengri tími )

Ekkert stress á matartíma. Þú ræður hvað barnið borðar, það ræður hve mikið það borðar. Las þetta um daginn og fannst þetta passa vel hjá okkur. Það var oft mikið stress á matartímanum ef hann var ekki sáttur við það sem er í matinn og við reyndum að neyða í hann matinn og það gekk náttúrulega ekki vel. Núna leyfum við honum að borða svo mikið sem hann vill en reynum að gera það að reglu að hann verði allaveganna að prófa 1 bita áður en hann ákveður að hann vilji ekki meira. Stundum verður það til þess að hann fattar að þetta er ekki svo slæmt og endar á að borða heilmikið. Ef ekki þá er það bara þannig og hann fær einn ávöxt fyrir svefninn ef hann er svangur.

Leyfðu barninu að gráta og vertu bara til staðar fyrir það. Við skulum ekki fara í keng ef barnið grætur, við þurfum ekki að stoppa það af og við eigum helst ekki að segja, þú þarft ekki að gráta, engin ástæða til þess og gera lítið úr ástæðunni fyrir að barnið gráti. Það grætur og hefur sínar ástæður fyrir því. Við skulum því bara sýna barninu að við skiljum og vera til staðar fyrir barnið. Þetta er mjög mikið RIE eða respectful parenting ef ég skil aðferðina rétt og maður á frekar að sportcasta og segja til dæmis: já þú ert leiður vegna þess að þú fékkst ekki að leika meira og svo framvegis. Ég segi oft, já ég veit, Emil er leiður og það er allt í lagi að gráta. Stundum þarf maður að gráta, en mamma er hér fyrir þig. Þetta virkar vel hjá okkur og gráturinn gengur fljótt yfir. Aftur á móti ef hann byrjar að gráta að nóttu til, hugga ég hann, strýk bakið og segi shhhh shhhhh þar sem það er það sem við höfum gert síðan hann var lítill og er partur af næturrútínunni. Það er mjög sjaldgæft að það gerist en það róar hann.

Útivera er lífsnauðsynleg. Hvern dag, allaveganna í klukkutíma í senn, það er svo gott fyrir barnið og þig að komast út. Farið út á leikvöll, út að labba, bara hvað sem er og njótið útiverunnar. Sýndu barninu öll fallegu smáatriðin þarna úti, litlu laufin, berin, skordýrin og segðu barninu frá öllu. Útskýrðu og sýndu áhuga, þetta er allt voða nýtt fyrir barnið og skilningurinn á heiminum vex með hverri útiveru.

Leiktu og grínast! Kítla, eltingaleikur, feluleikur, bara name it! en vertu tilbúinn að leika sama leik 10-20 sinnum í röð ef að barninu finnst hann skemmtilegur.

Þú getur ekki sagt of oft: ég elska þig. Þetta er það sem ég segi oftast á dag við minn litla og ég tel að maður getur ekki sagt of oft ég elska þig við barnið sitt. Því tek ég mörg tækifæri til þess að segja þetta við hann, oftast þegar hann situr hjá mér. Knúsa hann og kyssi, strýk bakið og sýni ástúð. Hann hefur sagt tilbaka nokkrum sinnum ég elska þig og það er besta tilfinning í heimi!

Elska þennan aldur og á eftir að sakna þessa tímabils uppgötvunar! Hlakka til að sjá litla minn þróa sinn persónuleika frekar og er glöð að geta verið með í ferðalaginu 🙂

Þegar þynnkan bankar uppá…..

Ertu búin að skemmta þér vel um helgina? Fjörið er ekki búið enda er sunnudagskvöldið oftast talið vera aðal kvöldið um verslunarmannahelgina.

Hér er samansafn af nokkrum þynnkubönum víðsvegar um heiminn!
(fann þessar upplýsingar á buzzfeed.com og tek ekki ábyrgð á að þær virki) 😉

England

Bretarnir kunna þetta! Enskur morgunverður eins og hann gerist bestur. Þeir vilja meina að þessi morgunmatur leggi línurnar fyrir daginn og þynnkan svífur á braut.

Pólland

Gúrkusafi eða (pickle juice) á víst að vera allra meina bót eftir drykkjukvöld. Inniheldur vinegar, vatn og sodium sem á að hjálpa til við að ,,vökva“ líkamann.

Ítalía

Ekkert kjaftæði á ferð hér á Ítalíu. Skelltu í þig tvöföldum espresso og þú ert í góðum málum!

Danmörk

Afréttarinn er vinsæll í Danmörku. Flestir hafa nú einhverntíman skellt í sig einum afréttara í útlilegu og við vitum að það virkar! En til langtíma? Nei eflaust ekki….

Bangladesh

Kókosvatnið góða lagar allt sem laga þarf. Fullt af góðum næringarefnum og hjálpar líkamanum að komast á rétt ról.

Suður Afríka

Ommuletta er þynnku lækning í Suður afríku. Stútfull af prótíni og fer vel í viðkvæma maga.

 

Nokkur ráð sem ég hef heyrt eða prófað sjálf í gegnum tíðina.

  1. After Party lyfin sem seld eru í Hagkaup. Tekur tvær áður en þú færð þér fyrsta drykk og tvær fyrir svefn.
  2. Borða feita máltíð áður en byrjað er að drekka eins og Pizzu eða hamborgara.
  3. Taktu eina lóritín fyrir svefn.
  4. Fyrir eitt vínglas skaltu drekka eitt vatnsglas.
  5. Fáðu þér feita máltíð eftir djammið.
  6. Þegar þú vaknar morguninn eftir skaltu fá þér hollann mat en ekki láta eftir ,,kreivings“ í subbumat.
  7. Geymdu tvær Treo á náttborðinu og skelltu þeim í þig um leið og þú vaknar.
  8. Sund á að vera allra meina bót.
  9. Passaðu uppá að borða á meðan þú ert að drekka. Fáðu þér millimál þó þú sért að tjútta.
  10. Ef þú hefur tök á því – sofðu þetta úr þér!

En eftir margra ára reynslu í útilegutjútti þá er bara eitt sem virkar ef maður ætlar að halda áfram…….. fáðu þér annann drykk og skemmtu þér súper vel!


Katrín

  Þú finnur mig á Instagram & facebook
(katrinbelle.is)

 

Topp Trix: Burstar

Síðasta vika var ekki eins og nokkrum manni hafði grunað. Atburðir undanfarna daga eru vægast sagt búnir að liggja þungt á manni og því fannst mér ekki við hæfi að birta í liðinni viku þær færslur sem ég var búin að skipuleggja og lofa. Mig langar að byrja þessa færslu á því að votta öllum ættingjum og vinum hennar Birnu mínar innilegustu samúðarkveðjur og vona ég með öllu mínu hjarta að þau finni fyrir kærleikanum frá þjóðinni og með tímanum finni frið.

– – –

Það er komið að annari Topp Trix færslu hjá mér! Í síðustu færslu tók ég fyrir maskara og ég algjörlega elskaði að heyra frá ykkur hvaða maskaratrix þið höfðuð lært sem voru ekki á listanum mínum. Þið megið endilega endurtaka leikinn og bæta við trixum í athugsemdir hér við þessa færslu en eins og þið eruð eflaust búin að sjá á heiti færslunnar þá ætlum við að fara yfir mín topp trix þegar kemur að förðunarburstum! Það er mikið af trixum sem ég hef lært tengt þeim og vonandi munu einhver af mínum trixum nýtast byrjendum í förðun jafnt og þeim sem eru lengra komnir. Maður getur nefnilega alltaf lært eitthvað nýtt sjáðu til!

22a88e2a2a8bd55f8cfac1f4844e8c9b

Sjálf kynntist ég ekki förðunarburstum fyrr en ég var á svona þriðja ári í menntaskóla. Þangað til hafði ég alltaf gert allar farðanir með puttunum og er þar af leiðandi svolítið þjálfuð í því en það opnaðist svo sannarlega fyrir mér nýr heimur þegar að burstarnir komu til sögunnar. Fyrsta settið sem ég eignaðist var 11 bursta settið frá elf en það eru ennþá nokkrir burstar úr því sem ég nota enn þann dag í dag og þá sérstaklega blævængsburstinn. Eftir að ég kynntist förðunarburstum var ekki aftur snúið og núna í dag á ég vægast sagt stórt safn af þeim og mér finnst alltaf jafn gaman að geta bætti nýjum burstum í safnið mitt. Hér eru því mín topp trix þegar kemur að förðunarburstum 🙂

7fdb01dba77a64de6977a330dd072ed3

Að þvo burstana

Það er lítið sem ekkert sem er jafn mikilvægt og þvotturinn þegar kemur að förðunarburstum. Margir hverjir þvo aldrei burstana sína, þvo þá ekki vel eða sjá ekki tilganginn með því en góður burstaþvottur getur bæði lengt líf burstanna og komið í veg fyrir óhreina húð. Bakteríur þrífast rosalega vel í óhreinum burstum, þeim finnst þeir vera voða kósí, svo þið getið rétt ímyndað ykkur hversu illa það getur farið með húðina að smyrja alltaf bakteríunum í andlitið við notkun vegna þess að burstinn er óhreinn. Ég skal gera lengri færslu þar sem ég fer algjörlega yfir burstaþrif frá a til ö en í millitíðinni getið þið googlað ykkur til um málið 🙂

e8ed10126e1a29b688bab00b102874a1

Lengri hár léttari þekja

Því lengri sem burstahárin á burstanum eru því léttari verður þekjan á förðuninni. Þeir sem vilja til dæmis einungis létta þekju af farða á andlitið ættu að leita til bursta sem eru með lengri hár.

Styttri hár þéttari þekja

Að sama skapi gefa burstarnir með styttri hár meiri og þéttari þekju. Þeir sem vilja hafa farðann þéttan og þekjandi ættu því að leita til bursta sem eru með styttri hár.

Styttri hár meiri stjórn

Því styttri sem burstahárin í burstanum eru því meiri stjórn hefur þú á ásetningu förðunarvörunnar. Ef þú vilt stjórna nákvæmlega hvar varan á að lenda á andlitinu þá skaltu leitast við að nota bursta með styttri hár.

rBVaEFdH4T6AQ3foAAMKC2PVwcE543

Stærri bursti minni þekja

Því stærri sem burstinn þinn er því minni þekju mun hann gefa. Það er því til dæmis gott að nota stóran púðurbursta til þess að seta létt lag af púðri á andlitið en ef þið viljið byggja upp vöru á húðinni skuluð þið nota bursta sem er með minni burstahaus. Því minni sem burstahausinn er því þéttari verður þekjan.

f395e2eef962f2f0d6789d61ea64197f

Fimm fræknu

Maður þarf ekki að eiga alla burstana í heiminum til að gera flotta förðun, þó það geti svo sannarlega verið skemmtilegt ef þið eruð jafn miklir safnarar og ég. Það er þó nauðsynlegt að eiga allavega fimm lykilbursta til að geta gert allt sem gera þarf. Þessir burstar eru, farðabursti, púður-/kinnalitabursti, sólarpúðurs-/skyggingarbursti, augnskuggabursti fyrir ásetningu og augnskuggabursti fyrir blöndun. Með þessum fimm ættuð þið að geta gert hvaða förðun sem er.

320c26f8114dccc7453a85f2a64518ad

Rétt stærð fyrir ykkar augnumgjörð

Því miður virka ekki allir augnskugga-/blöndunarburstar jafn vel fyrir öll augnsvæði svo besta ráðið sem ég get gefið í þeim efnum er að finna bursta sem er nógu stór/lítill fyrir ykkar augnsvæði. Ef að blöndunarburstinn ykkar er of stór fyrir ykkar augnsvæði getur hann dreift úr augnskugganum þar sem þið viljið ekki fá hann. Ef þið hinsvegar eruð með stærð á bursta sem að hentar ykkur er auðvelt að koma skugganum fyrir nákvæmlega þar sem þið viljið hafa hann og förðunin verður töluvert hreinni og skarpari.

bridal-makeup

Ekki ýta of fast

Þetta eru algeng „förðunarmistök“ sem ég var alltof lengi að venja mig af en ef þú ert ein/n af þeim sem að ert mjög harðhentur við farða ásetningu þá skaltu hætta því ekki seinna en núna! Þrýstingurinn á burstanum við ásetningu á að vera lítill sem enginn enda á burstinn að sjá um alla vinnuna ekki þú. Ef að of mikill þrýstingur er settur á burstann, það er að segja ef þú ert of harðhent/ur getur það skaðað húðina og valdið óþægindum. Það er því algjört lykilatriði að nota léttar strokur og leyfa burstanum að sjá um verkið.

4-font-b-Beauty-b-font-font-b-Blenders-b-font-Professional-Cosmetic-Makeup-Sponge-font

Rakur svampur VS. Þurr svampur

Það er hægt að nota alla förðunarsvampa bæði raka og þurra en munurinn þar á felst í áferðinni sem að svampurinn gefur húðinni. Ef að svampurinn er rakur eftir að hann hefur verið bleyttur mun svampurinn gefa létta áferð og þekju og hentar því vel þeim sem ekki vilja hylja mikið en aðeins jafn lit húðarinnar. Ef að svampurinn er hinsvegar hafður þurr mun hann gefa mikla þekju og hentar því þeim sem vilja hylja meira.

92c6beb6f3c61a6196bea6e56c2d2a9a

Fljótandi förðunarvörur

Ekki vera hrædd við að nota burstana ykkar í fljótandi förðunarvörur eins og fljótandi kinnaliti og/eða fljótandi ljóma. Það er til réttur bursti fyrir hvaða verk sem er og sömu reglur gilda fyrir bursta í fljótandi vörur sem og aðrar vörur. Hér getur líka verið gott að nota raka svampa.

ab034e65cddccb74424fd9e131b22346

Hringlaga hreyfingar

„When in doubt blend it out“ eins og maður segir á góðri ensku en til að ná hinni fullkomnu blöndun er gott að nudda burstanum í hringlaga hreyfingar á húðina. Passið samt að vera ekki of harðhent eins og ég nefndi hér fyrir ofan en mjúkar hringlaga hreyfingar er allt sem þarf til að ná góðri blöndun og jafnri þekju.

Þetta eru svona mín helstu burstatrix svo vonandi getið þið eitthvað nýtt ykkur þau! Ég elska að gera þessar færslur og er þegar komin með lista af hlutum sem ég vil taka fyrir. Ef þið eruð hinsvegar með einhverjar óskir um hvað ég tek fyrir næst þá eru þær að sjálfsögðu velkomnar þið látið mig bara vita, til dæmis í athugarsemdunum hér fyrir neðan 🙂

Hver eru ykkar topp burstatrix?

Rannveig H.

Fylgdu mér á Facebook og Instagram (rannveigbelle) til að fá nýjustu færslurnar beint í æð!

 

Topp Trix: Maskari

big_blog_make_up_26_07_2016

Mig langaði að breyta smá af vananum og koma annað slagið með færslur sem eru kannski meira ætlaðar fyrir þá sem eru að stíga sín fyrstu skref í förðun og vita ekki alveg hvernig á að fóta sig í hinum stóra förðunarheimi. Ég ákvað því að byrja með nýjan lið hér á blogginu sem ég kýs að kalla Topp Trix þar sem ætlunin er að fara yfir allskonar góð ráð og ýmis trix sem ég hef lært þegar kemur að förðun. Margt hafið þið eflaust heyrt áður en vonandi mun ég geta deilt með ykkur nokkrum nýjum ráðum svo að þeir sem eru lengra komnir í förðun geti nú nýtt sér þennan lið hjá mér líka 🙂 Maður er nefnilega alltaf að læra eitthvað nýtt svo vonandi leynist hér eitt og annað trix sem flestir geta notað.

I fyrstu færslunni í Topp Trix liðnum langar mig að fara yfir eina förðunarvöru sem er líklegast hvað mest notuð í öllum heiminum… maskari! Ég man að maskari var allra fyrsta snyrtivaran sem ég keypti mér en þá var ég að byrja í 8 bekk. Bleiki og græni Maybelline maskarinn sem margir eflaust kannast við varð fyrir valinu og vá hvað mér fannst ég vera orðin fullorðin! Eftir að hafa prófað maskara var ekki aftur snúið og núna liggur við að ég eigi maskara fyrir hvert tilefni! Hér eru því mín Topp Trix þegar kemur að honum 🙂

Byrjið að setja maskarann á neðri augnhárin

Þetta er svo einfalt ráð en samt var ég bara að læra það um daginn! Hafið þið ekki lent í því að klína maskara á augnlokið eftir að hafa borið hann á efri augnhárin? Það er ekkert meira pirrandi en þegar maður er búinn að eyða tíma og vinnu í að setja á sig flotta augnförðun og svo klúðra henni með því að klína maskara á augnlokið! Oftar en ekki er þetta vegna þess að við horfum upp þegar við berum maskarann á neðri augnhárin og því smitast blauti maskarinn sem var á efri augnhárunum á augnlokið. Til að koma í veg fyrir þetta þarf einfaldlega að byrja á því að bera maskarann á neðri augnhárinn og síðan bera hann á þau efri.

screen-shot-2016-10-12-at-20-52-23

Notið glæran maskara til að móta náttúruleg augnhár

Oft þegar ég nenni ekki að mála mig en langar samt að fá smá mótun á augnhárin mín nota ég glæran maksara á þau. Þetta gerir augnhárin aðeins meira áberandi en á sama tíma heldur þeim náttúrulegum. Síðan má einnig nota sama glæra maskarann til að móta augabrúnirnar.

screen-shot-2016-10-12-at-20-53-50

Mismunandi maskarar fyrir mismunandi lúkk

Þetta er ráð sem mér finnst að allir mega geyma bakvið eyrað þegar kemur að maskara! Það þarf ekki alltaf að nota sama maskarann við mismunandi farðanir en mismunandi greiður og formúlur í hverjum og einum maskara getur umbreytt því hvernig förðunin mun koma til með að líta út. Það er því um að gera að prófa sig á fram með nokkrar tegundir af möskurum og blanda þeim saman. Ég nota til dæmis yfirleitt sitthvoran maskara á efri og neðri augnhárin.

Breytið umgjörð augnanna

Dragið augnhárin með maskaragreiðunni í mismunandi áttir til að breyta umgjörð augnanna. Ef þið eruð til dæmis með vængjaðan eyeliner þá er rosa fallegt að draga agunhárin með maskaragreiðunni í sömu átt og eyeliner-inn vísar.

whitelash

Notið augnháragrunn/primer

Það er fátt sem getur gert náttúrlega stutt augnhár jafn löng og góður grunnur. Setjið eitt lag af augnháragrunni á augnhárin og leyfið honum að þorna áður en þið setjið venjulega maskarann ykkar yfir. Þessir grunnar eru oftast hvítir og alls ekki ósvipaðir í ásetningu og maskarar en ég mæli sérstaklega með Falsh Lash Maximizer frá MAC. Hann gerir rosalega mikið fyrir augnhárin.

eye-with-mascara-application1

Notið lítinn blævængsbursta til að bera maskara á neðri augnhárin

Ef þú ert ein af þeim sem lendir alltaf í vandræðum með að bera maskara á neðri augnhárin þá getur lítill blævængsbursti reddað málunum! Setjið smá maskara á handarbakið ykkar og takið hann svo upp með burstanum. Juggið burstanum til og frá meðfram neðri augnháralínunni þar til þið eruð sátt með þekjuna á augnhárunum. Ef þið þrýstið svo burstanum aðeins upp að augnháralínunni þá lítur út eins og augnhárin séu þéttari en þau eru í raun og veru. Þetta er tækni sem að förðunarfræðingurinn hennar Adele notar óspart.

lashcurling

Brettið upp á augnhárin áður en þið setjið á ykkur maskara!

Ef það eru einhver förðunarmistök sem gefa mér hroll þá er það þegar fólk brettir upp á augnhárin sín eftir að hafa sett á sig maskara. Ég sé alveg augnhárin fyrir mér límast við augnhárabrettarann og togast af… Úff… Gerið það því fyrir mig og brettið upp á augnhárin ykkar áður en þið setjið á ykkur maskara 😉

Notið toppinn á greiðunni til að setja maskara á erfiða staði

Ef þið eigið erfitt með að bera maskara innst í innri augnkrók eða á aðra erfiða staði getið þið prufa að snúa greiðunni og notað toppinn á henni til að bera maskarann á augnhárin.

Ekki pumpa maskarann!

Þegar ég segi pumpa þá meina ég þá hreyfingu þegar greiðunni er ýtt inn og út úr maskaratúpunni endalaust. Við þetta kemst loft inn í túpuna og maskaraformúlan þornar fyrr upp svo ekki er hægt að nota maskarann jafn lengi. Í staðin fyrir að pumpa maskarann getið þið skofið vöruna af vegg túpunnar með því að þrýsta greiðunni upp að honum og snúa henni.

screen-shot-2016-10-17-at-16-28-50

Bleytið upp í maskaranum með linsudropum

Ef maskarinn ykkar hefur þornað upp og er ekki útrunninn þá er hægt að bæta við nokkrum dropum af linsuvökva ofan í túpuna og hræra með greiðunni til að bleyta aðeins upp í formúlunni aftur.

Þetta voru nokkur af þeim topp trixum sem ég hef lært um maskara frá því ég byrjaði að farða mig. Vonandi getið þið nýtt ykkur þetta eitthvað en ég er sjálf mjög spennt að halda þessum lið áfram hér á síðunni því mér fannst alveg einstaklega gaman að skrifa þessa færslu. Þá er bara að ákveða hvað ég tek fyrir í næsta Topp Trix lið… einhverjar hugmyndir? 🙂

-Rannveig H.

Fylgdu mér á Facebook til að fá nýjustu færslurnar beint í æð!

 

Prófljótubanar

profljotubanar2Ég held að enginn sem hafi einhverntíman verið í skóla kannist ekki við hina alræmdu prófljótu. Þegar þú ert í prófum þá borðaru óhollari mat, hefur lítinn sem engan tíma til að hreyfa þig og ert sífellt með puttana í andlitinu. Persónulega er mér alveg sama ef ég mæti í próf með útbrot í andlitinu en þegar að prófin eru búin og maður getur skriðið aftur fram í dagsljósið þá fara útbrotin að pirra mig. Þess vegna tók ég saman smá lista yfir hluti sem geta bæði frískað upp á útlitið á meðan prófum stendur og hjálpa til við að halda leiðinlegum einkennum prófljótunnar í skefjum 😉

Josie Maran Argan Infinity Cream – Gott rakakrem getur skipt sköpun þegar kemur að leiðinlegum útbrotum um prófatíðina. Þetta krem fæst reyndar ekki á Íslandi en ég get einfaldlega ekki notað neitt annað svo það fær að vera með á þessum lista. Kremið er í raun arganolía í föstu förmi, pínulítið eins og vaselín. Kremið, eða olían öllu heldur, gefur andlitinu eilítinn bjarma svo hún hjálpar til við að fríska upp á prófgráa húð. Ég hugsa að ég sýni ykkur kremið betur seinna í sér færslu þar sem ég er að verða búin með túpuna og get því tekið myndir af nýju túpunni minni þegar ég opna hana.

Clarasonic Mia 2 – Ég fékk þennan hreinsibursta í afmælisgjöf í fyrra og núna get ég eiginlega ekki verið án hans. Það er eitthvað svo frískandi við að djúphreinsa húðina sína með honum og því er hann eflaust kjörinn fyrir að hreinsa í burtu öll þau óhreinindi sem setjast á andlitið okkar í hvert sinn sem við nuddum ennið með fingrunum yfir eitthverju óskiljanlegu stærðfræðidæmi. Ég veit að burstarnir hérna heima eru frekar dýrir (ég fékk minn í USA) en þeir eru samt vel þess virði að mínu mati.

Vatn – Oftar en ekki leitar maður í óhollustu í prófunum. Samt meira svona… alltaf leitar maður í óhollustu í prófunum. Hvort sem það er nammipoki eða einn og einn Red Bull til að komast í gegnum kvöldið þá er ekkert betra fyrir líkamann okkar heldur en gamla góða íslenska vatnið. Ef þú ert komin með lærdómshausverk þá geturu prufað að þamba eitt glas af köldu vatni. Það hefur hjálpað mér rosalega oft.

Burt’s Bees Tinted Lip Balm – Fyrir ykkur sem viljið ekki mæta grútmygluð af prófljótu í prófin þá getur litaður varasalvi oft reddað málunum á engri stundu. Þessi frá Burt’s Bees er virkilega góður þar sem hann er frekar olíukenndur þegar hann bráðnar á vörunum og því er hægt að komast upp með það að láta smá á kinnarnar líka. Með lituðum varasalva fær maður þvi smá lit á varirnar og í kinnarnar svo maður er ekki alveg eins og gangandi lík úr Walking Dead þegar í skólastofuna er komið.

Svefn – Af öllum þessu reddingum þá held ég að það sé ekkert mikilvægara en svefninn. Ekki gleyma ykkur alveg í bókunum og rugla svefnvanann ykkar því líkaminn þarf sína hvíld. Líkaminn er einhvern tíma að venjast skyndilegum svefnbreytingum og því græðið þið meira á því að hvíla ykkur eins og þið eruð vön frekar en að snúa öllu við allt í einu.

La Source Hand Therapy – Síðast en alls ekki síst er gott að vera með góðan handáburð við höndina þegar þið eruð orðin bilaðislega þreytt á því að glósa. Takið ykkur tvær til þrjár mínútur og nuddið handáburðinum vel inn í húðina. Við þetta nuddið þið vöðvana sem hjálpa ykkur til við að glósa eins og brjálæðingar og nærið húðina í leiðinni.

Þetta verða mínar hjálparhellur við að halda prófljótunni í skefjum. Ef þið eruð með einhver sniðug ráð sem geta gagnast öllum þá megið þið endilega henda þeim í athugasemd hér við þessa færslu. Annars bara gangi ykkur vel í prófunum þið sem eruð að fara að standa í þeim, við rústum þessu!

keypti_sjalf

 

Fylgdu okkur á


Follow