Eldri færslur eftir merkjum fyrir mottó

Not caring at all…..

Ég verð 30 ára á þessu ári og persónulega finnst mér það stór hjalli til að fara yfir.

Væntanlega vegna þess að ég hélt að ég yrði stödd á einhverjum öðrum stað í lífinu heldur en ég er akkurat núna. Ég bjóst aldrei við því að vera einhleyp, tveggja barna móðir, með óklárað háskólanám að reyna að byrja uppá nýtt í lífinu. Ég var viss um að ég væri búin að finna sjálfan mig, væri komin í vinnu sem ég elskaði, gift draumaprinsinum og saman ættum við hús á Spáni (þið skiljð hvert ég er að fara).

Ég hræðist það ekki að eldast heldur tel ég það vera forréttindi. Sjálfsvorkun og væl er eitthvað sem ég fyrirlít og ég hef tileinkað með jákvæða hugsun í daglegu lífi. Ég hef lifað í 29 ár og lært margt á þessum tíma. Lent í hóflegum skammti af áföllum eins og svo margir aðrir og þurft að kljást við verkefni sem mér hefur þótt óyfirstíganleg.

Það er þó ein lexía sem stendur uppúr en hana lærði ég ekki fyrr en 29 ára gömul. Eftir að ég tileinkaði mér hana hef ég fundið fyrir frelsi sem ég hafði ekki upplifað áður.

Lexían er sú að vera SKÍTSAMA HVAÐ ÖÐRUM FINNST UM MIG OG ÞAÐ SEM ÉG GERI.

Ekki misskilja mig, ég er ekki að tala um að ég ætli alltaf að haga mér eins og fífl, segja það sem mér sýnist og vera hrokafull í garð annarra, alls ekki.

Ég fattaði bara einn daginn, raunverulega fattaði það, að ég get ekki þóknast öllum. Sumum á ekki eftir að líka það sem ég geri og það er allt í lagi.

Ég er mjög virk á samfélagsmiðlum þar sem ég pósta hinu og þessu úr mínu daglega lífi. Ég er með kaldhæðin húmor, er langt frá því að vera fullkomin móðir og elska allt sem tengist útliti. Það er ÉG og ég má vera sú sem ég er. Sumir fíla húmorinn minn aðrir ekki. Sumir halda að ég sé með lágt sjálfsálit vegna þess að ég elska gerviaugnhár, förðunarvörur og brúnkukrem, en þeir sem þekkja mig vita að sú er ekki raunin. Svo eru enn aðrir sem hneykslast á því hverskonar móðir ég er.

Elsku þið…. hættið að pæla í því hvað öðrum finnst! Hættið að reyna að þóknast öllum í kringum ykkur, hættið að bera ykkur saman við aðra og ekki rakka niður annað fólk!

Um leið og þú ferð að vera örugg/ur í þínu eigin skinni þá loksins geturu byrjað að lifa. Þú getur samgleðst fólkinu í kringum þig sem er að ná árangri, hrósað vinkonu þinni sem lítur vel út þann daginn og peppað vinnufélaga í að stíga út fyrir þægindarammann.

Ég get sko sagt ykkur það að mínar bestu vinkonur eru svo langt því frá að vera eins og ég. Þær spá miklu minna í útlitinu, eru alls ekki virkar á samfélagsmiðlum og eru flestar háskólamenntaðar í einhverju sem ég hef engan áhuga á. En þær myndu ekki eitt augnablik dæma mig fyrir það sem ég geri og ég myndi að sama skapi ekki dæma þær.

Það verða alltaf einhverjir þarna úti sem reyna að tala niður til ykkar og mögulega reyna að láta ykkur efast um ykkar eigið sjálf. En svo eru það ALLIR HINIR sem eiga eftir að elska ykkur nákvæmlega eins og þið eruð. Húmorinn ykkar og styrkleikana sem þið hafið að geyma innra með ykkur. Með því að vera þið sjálf laðið þið að ykkur rétta fólkið, ég get lofað ykkur því. Hinir skipta ekki máli 😉

Þanga til næst …….


Katrín Bjarka

Netfang: katrin@belle.is

Instagram: katrin.bjarkadottir

Facebook: www.facebook.com/katrinbjarkad

 

Fylgdu okkur á


Follow