Eldri færslur eftir merkjum fyrir minimalisk

Get ég orðið minimalisk?

Er minimaliskur lífsstíll eitthvað sem ég get tileinkað mér og vil tileinka mér?

Svarið mitt hefur alltaf verið: NEI!

Þessa dagana er ég að ganga í gegnum persónulegar breytingar eins og fólk geri svo oft í þessu lífi og það neyðir mann stundum til að skoða hlutina frá öðru sjónarhorni. Tek það fram að ég er ekki búin að móta þessar hugsanir endanlega…þær eru í skoðun.

Ég á heima í stóru einbýlishúsi með heitum potti og bakgarði á stærð við Klambratún. Það eru tveir bílar í innkeyrslunni. Sólskáli og bílskúr. Inni hjá mér eru 5 hægindastólar, sófi, sófaborð, hillur og skápar. Borðstofuborð með sex stólum, eldhúsborð með fjórum stólum, tvö risastór rúm, barnarúm, endalaust af allskonar leirtaui, tvær mottur, fjögur óhreinatau og allavega 6 kassar fullir af leikföngum!!! Það eru tvö baðherbergi, sturta og baðkar. Dóttir mín á eitt reiðhjól, annað þríhjól og risastóran bíl sem hún fékk í jólagjöf. Ég á örugglega 50 bodylotion,10 ilmvötn og ég ætla ekki að minnast á snyrtidótið og kremin. Börnin mín eiga síðan sér kassa með baðdóti og annan kassa með útileikföngum. Ég á lítinn fataskáp (sem ég get samt labbað inn í) og hann er troðfullur af fötum – helminginn nota ég ekki. Bílskúrinn hefur að geyma óteljandi kassa sem innihalda minningar og fjársóð sem ég man ekki eftir.

Ég var komin á æðislegt skrið með skipulagið fyrir jólin samt. Fór í rúmfatalagerinn og keypti fullt af allskonar hirslum, körfum og kössum til að geyma allt dótið okkur í. Þvílíkur sigur sem það var að troða öllu ,,draslinu“ í körfur útum allt hús.

En síðan gerðist það á miðvikudaginn í seinustu viku um kvöldmataleiti. Ég var búin að eyða öllum deginum í að taka til og þrífa þetta risastóra hús. Ég var að elda mat fyrir krakkana. Alexander sat í stóra dótabílnum (sem vinir á Instagram hafa fengið að kynnast) með tónlistina í botni keyrandi útum allt, klessandi á húsögn. Íris Rut var búin að skipta um föt þrisvar sinnum síðan hún kom heim úr leikskólanum og því lágu kjólar og buxur útum öll gólf. Ég gekk inní þvottahús til að athuga þvottinn og þegar ég kom til baka var Alexander búin að finna fínu kassana sem ég hafði keypt fyrir jólin sem höfðu að geyma allskonar drasl sem ég þurfti nauðsynlega að geyma og að sjálfsögðu var hann búin að sturta úr þeim á stofugólfið. Á þessum augnabliki stoppaði ég……… ég fékk nóg.

Þetta varð til þess að ég setti börnin snemma í ból og settist upp í sófa hálf gáttuð. Þetta var hálfgert ,,wake up call“ fyrir mig.

Án þess að fara of djúpt í persónulega hluti þá vissi ég allavega að þessi efnahyggja og þetta drasl í kringum var ekki að virka. Foreldrar mínir hafa aldrei verið rík eða átt mikið af hlutum. Við bjuggum ekki í stórri íbúð og ég fékk ekki sérherbergi fyrr en ég var 10 ára. Ég lærði snemma að það skipti ekki máli hversu stór pakkinn undir jólatréinu var og ég var alltaf þakklát fyrir dótið eða fötin sem ég fékk. Mig skorti aldrei neitt og fann aldrei fyrir fátækt.

Ég ætla bara að viðurkenna það að dóttir mín er ekki eins. Hún hefur alltaf fengið allt sem hún vill, sem hefur gert það að verkum að hún fer ekki nægilega vel með dótið sitt (enda er alltof mikið af dóti í kringum hana) og hún er svolítið föst í því að ef eitthvað bilar þá er hægt að kaupa nýtt. Það fer ekkert á milli mála að þetta er lærð hegðun.

Ég er komin með plan …. ég ætla að breyta þessu. Ég veit ekki alveg hvernig, en þessa dagana er ég allavega i óðaönn að grisja heimilið mitt. Losa mig við óþarfa dót og drasl.

Ef þið eruð í svipuðum hugleiðingum þá mæli ég með blogginu hennar Margrétar Bjarkar sem heitir minimalist.is.

Þið getið fylgst með þessu öllu saman á Insta Story hjá mér!


Katrín Bjarka

Netfang: katrin@belle.is

Instagram: katrin.bjarkadottir

Snapp: katrinbjarka

Facebook: www.facebook.com/katrinbjarkad

 

 

 

 

 

Fylgdu okkur á


Follow