Eldri færslur eftir merkjum fyrir maskari

Maskari sem þolir ýmislegt!

Vörurnar í færslunni eru sýnishorn

Það er löngu komið að þessari færslu hjá mér þar sem þessi maskari og maskaragrunnur er búinn að vera í stanslausri notkun hjá mér í nánast allt sumar! Næsta færsla sem ég mun hinsvegar skrifa er færsla um sumarið mitt. Hún er í vinnslu og er á leiðinni en ég var nokkuð MIA í sumar hérna á blogginu og það er ekki það að mér finnst ég þurfa að skrifa einhverja útskýringu á því hvers vegna heldur langar mig að gera það, deila með ykkur sumrinu mínu og reyna að koma mér á full skrið á blogginu hérna aftur 🙂

En þá að þeirri dásemd sem þessi færsla er um, Volume Effect Curler maskaragrunninn og maskarann frá Yves Saint Laurent. Ef ykkur vantar að prófa nýjan maskara… þá ættuð þið að prófa þennan – no joke!

Þær hjá YSL á Íslandi voru svo yndislegar að senda mér maskarann og maskaragrunninn fyrr í sumar og eru báðir tveir búnir að vera í stöðugri notkun hjá mér síðan þá. Ég lagði meira að segja tvennuna í almennilegt test þegar ég var stödd úti á Spáni í miiiiiklum raka og 30+ stiga hita. Spoiler-alert…. hann hélst á sínum stað! Tvennan á að lengja, þykkja og krulla augnhárin og hún gerir það svo sannarlega eins og þið munuð sjá hér eftir smá.

Byrjum að fara aðeins yfir The Curler maskaragrunninn sem er bleikur… jebb ég sagði BLEIKUR! Ég hef aldrei notað eða jafnvel heyrt um bleikan maskaragrunn áður svo þegar ég opnaði túpuna þá var ég mjög hissa að sjá bara ljósbleika formúlu blasa við mér.

Bleiki liturinn á þessum myndum er ekki bara útaf bleiku gúmmígreiðunni heldur er formúlan líka bleik. Greiðan er frekar beisik, hún hylur hvert og eitt augnhár með grunninum og bætir alveg svakalega við lengdina á augnhárunum.

Hérna getið þið séð annað augað mitt með maskaragrunninum og hitt augað hreint. Þið sjáið alveg greinilega mjög mikinn mun enda er grunnurinn alveg frábær.

Ég var hissa þegar ég opnaði maskaragrunninn en ég var líka hissa þegar ég opnaði maskarann. Og nei hann er ekki líka bleikur þó að gúmmíburstinn er bleikur en lögunin á greiðunni er rosalega óvanaleg.

Hér getið þið séð greiðuna aðeins betur en það var frekar erfitt að ná henni á mynd svo lögunin og broddarnir á henni sjáist sem best. Undir boganum er að finna tvær línur með broddum sem eru eins og á burstagreiðu en það er frekar langt á milli línanna. Á hliðunum eru síðan breiðari gúmmíbroddar og ofan á sveignum er fullt af svona greiðu-broddum eins og á burstagreiðu. Vá ég veit ekki hvort þetta sé skiljanlegt hjá mér en næst þegar þið farið á sölustað YSL þá þurfið þið eiginlega bara að kíkja á hann og skoða. Hann er mjög forvitnilegur og ég þurfti alveg að læra á hann – það tekur svona tvö skipti og þá er það komið. Þú notar sem sagt sveiginn til að krulla upp á augnhárin og hliðarnar með breiðu broddunum til að skilgreina augnhárin betur.

Hér er ég búin að setja maskarann yfir maskaragrunninn þegar hann var þornaður. Þið sjáið mikla muninn á augunum mínum! Tvennan gerir ekkert smá mikið fyrir augnhárin mín og það er ástæðan fyrir því að ég er búin að nota hana í allt sumar.

Það er hægt að nota maskarann einan og sér en mér finnst betra að nota hann með grunninum til að vera alveg hreinskilin. Það er líka auðveldara að taka maskarann af þegar maður notar grunninn, afhverju það er veit ég ekki því maskarinn með grunninum molnar ekki neitt og ekki maskarinn einn og sér heldur. En ég er alltaf ógeðslega nojuð á það að þurfa að nudda af mér maskara því augnsvæðið mitt er svo viðkvæmt. Þess vegna fær tvennan stóran plús frá mér bæði fyrir að endast ótrúlega vel og lengi, molna ekki af, smitast ekki til og það er auðvelt að taka hana af!

Hvet ykkur til að kíkja á þessa tvennu ef ykkur vantar nýjan maskara eða þið viljið bara prófa eitthvað nýtt og spennandi þetta haust!

Rannveig / @rannveigbelle

Á augnhárunum mínum

Ég er með sérstakar kröfur þegar kemur að maskörum og þess vegna tek ég mér alltaf ágætis tíma til að prófa nýja maskara þegar þeir koma á markað. Ég hef alltaf sagt að maður þarf að gefa nýjum maskörum góðan séns eftir að maður opnar þá því að oft tekur smá tíma fyrir þá til að virka nákvæmlega eins og þeir eiga að gera. Þetta er oftast vegna þess að það er mikið af formúlu í túpunni og þar af leiðandi mikið af vöru sem kemur á burstann við fyrstu notkun svo maður þarf að nota maskarann nokrum sinnum til að það minnki aðeins í túpunni og maður fari að fá eðlilegt magn af vöru á burstann. Ég er því búin að prófa þessa fegurð sem þið sjáið hér á myndinni í þó nokkurn tíma. Bold & Bad Lash er nýjasti maskarinn frá MAC og hann er búinn að vera á augnhárunum mínum frá því að ég fékk hann í hendurnar en hann er ekki bara fallegur á að líta heldur er hann einnig þrælgóður! Eigum við samt eitthvað að ræða þessar umbúðir… þær eru bara einum of flottar en orðin á umbúðunum eru skrifuð á með flauelsstöfum takk fyrir góðan daginn!

Maskarinn sjálfur er tvískiptur en hann inniheldur tvo maskarabursta! Ekki nóg með það heldur eru tvær mismunandi formúlur í maskaranum þar sem að ein formúla fylgir stærri burstanum sem er ætlaður fyrir efri augnhárin og seinni formúlan fylgir neðri burstanum sem er ætlaður fyrir neðri augnhárin. Litli burstinn er staðsettur í lokinu á maskaranum og stingst niður í stóra burstann. Ég nota sjaldan maskara á neðri augnhárin nema þá bara þegar ég er að gera smokey augnförðun svo ég nota alltaf minni burstann til að bera maskara alveg yst á efri augnhárin mín og greiða þannig vel úr þeim þegar að ég er búin að nota stærri burstann. 

Hér getið þið séð mig með maskarann á augunum. Ég vil alltaf að maskarar gefi mér smá þykkt og mikla lengd og Bold & Bad Lash frá MAC gefur mér það svo sannarlega. Maskarinn smitast ekki þegar ég er með hann yfir daginn og svo er mjög auðvelt að taka hann af sér á kvöldin. Það eru einhverjar allra mestu tiktúrur sem ég er með þegar kemur að maskörum – ég vil að hann haldist á allan daginn en að það sé auðvelt að taka hann af sér þegar að því kemur. Ég þoli ekki að þurfa að nudda maskara af mér og því finnst mér þessi æðislegur. Mæli með!

Eruð þið búin að prófa þennan?

 Rannveig H.

Fylgdu mér á Facebook og Instagram (rannveigbelle)

 

Lengri augnhár með drottningu maskaranna!

IMG_2964

3_synishorn_send_til_profunar_ekki_kostudÞá er komið að einni splunkunýrri og sjóðheitri umfjöllun um nýja uppáhalds hversdagsmaskarann minn sem hefur gert ó svo mikið fyrir mín augnhár. Eruð þið ekki alveg örugglega til í þetta því ég get alveg lofað ykkur því að þessi maskari mun hitta beint í mark hjá mörgum ykkar?!

IMG_2966

Við ætlum aðeins að fjalla um nýjustu viðbótina við maskarflóðið frá Helenu Rubinstein. Maskarinn heitir Lash Queen Wonder Black Mascara og er sérstaklega hannaður til þess að þétta og örva vöxt augnháranna við hverja notkun. Maskarinn er svartur, gefur rosalega náttúruleg augnhár, molnar ekki og endist heilan vinnudag án þess að smitast á augnlokið eða undir neðri augnhárin sem í sjálfu sér er nóg fyrir mig til að geta kallað maskarann góðan. Maskarinn gerir samt svo miklu miklu meira en ég kem betur inn á það hér rétt á eftir. Maskaratúpan sjálf er eins og hið fínasta stofustáss en túpan er alveg fagur gulllituð en endanum á henni hefur verið dýft ofan í svart lakk. Fáránlega flott hönnun.

Eitt maskaratrix sem mig langaði að skjóta hér inn í óháð þessum maskara er að vera alltaf pínu þolinmóður þegar þú ert að prófa nýja maskara í fyrsta skiptið. Við fyrstu notkun virka maskarar sjaldnast eins og þeir eiga að gera því oft er svo mikil formúla í túpunni sjálfri. Gefið nýjum maskörum því nokkur tækifæri áður en þið dæmið hann en það tók mig til dæmis næstum viku að venjast þessum. Eftir þessa viku var aðeins farið að minnka í túpunni og maskarinn var byrjaður að virka eins og hann á að gera og þá var sko ekki aftur snúið. 

IMG_2967

Bursthausinn er spíral mótaður en þið getið séð á þessari mynd að burstinn er alveg snúinn. Ég skal vera fyrst til að viðurkenna það að ég var smá stund að venjast burstanum en um leið og ég komst upp á lagið með að nota hann fannst mér hann æðislegur. Burstinn á að hjúpa hvert einasta augnhár við hverja stroku og að mínu mati nær hann því alveg ótrúlega vel. Mér finnst hann meira að segja ná að grípa öll litlu augnhárin mín sem hjálpar til við að láta augnhárin virðast þéttari og meiri. Formúlan sjálf inniheldur síðan serum sem inniheldur pro-keratin og ceramider sem auka hárvöxt augnháranna með hverri notkun. Helena Rubenstein segir að maður eigi að sjá sjáanlegan mun á augnhárunum eftir 4 vikur og ég ákvað því að taka maskarann í heilmikla prófun og prófa þessa staðhæfingu.

Fyrsta notkun og eftir fjórar vikur (engin augnhárabrettari notaður, bara maskarinn)

Ég veit ekki með ykkur en ég sé alveg heilmikinn mun á efri augnhárunum mínum og ég var ekki með stutt augnhár fyrir notkun. Ég finn líka rosalega fyrir muninum sem að gefur eiginlega bestu myndina af því hversu mikið maskarinn er búin að gera fyrir augnhárin mín. Þið getið náttúrulega ekki fundið fyrir breytingunni sem að ég finn, því miður, svo að myndin verður að duga sem sönnunargagn 😉 Augnhárin mín eru orðin töluvert lengri en þau voru og það er ekkert annað sem ég hef gert nema skipta út gamla maskaranum mínum og byrja að nota þennan. 

IMG_2965

Alveg hreint æðislegur maskari sem er búinn að eignast fastan stað í snyrtibuddunni minni og þá er sko mikið sagt því ég er mjög dugleg að svissa á milli hluta þar. Maskari sem að gerir það sem hann segist ætla að gera og maður getur hreinlega ekki beðið um meira en það! 🙂

Rannveig H.

Fylgdu mér á Facebook og Instagram (rannveigbelle) til að fá nýjustu færslurnar beint í æð!

 

Topp Trix: Maskari

big_blog_make_up_26_07_2016

Mig langaði að breyta smá af vananum og koma annað slagið með færslur sem eru kannski meira ætlaðar fyrir þá sem eru að stíga sín fyrstu skref í förðun og vita ekki alveg hvernig á að fóta sig í hinum stóra förðunarheimi. Ég ákvað því að byrja með nýjan lið hér á blogginu sem ég kýs að kalla Topp Trix þar sem ætlunin er að fara yfir allskonar góð ráð og ýmis trix sem ég hef lært þegar kemur að förðun. Margt hafið þið eflaust heyrt áður en vonandi mun ég geta deilt með ykkur nokkrum nýjum ráðum svo að þeir sem eru lengra komnir í förðun geti nú nýtt sér þennan lið hjá mér líka 🙂 Maður er nefnilega alltaf að læra eitthvað nýtt svo vonandi leynist hér eitt og annað trix sem flestir geta notað.

I fyrstu færslunni í Topp Trix liðnum langar mig að fara yfir eina förðunarvöru sem er líklegast hvað mest notuð í öllum heiminum… maskari! Ég man að maskari var allra fyrsta snyrtivaran sem ég keypti mér en þá var ég að byrja í 8 bekk. Bleiki og græni Maybelline maskarinn sem margir eflaust kannast við varð fyrir valinu og vá hvað mér fannst ég vera orðin fullorðin! Eftir að hafa prófað maskara var ekki aftur snúið og núna liggur við að ég eigi maskara fyrir hvert tilefni! Hér eru því mín Topp Trix þegar kemur að honum 🙂

Byrjið að setja maskarann á neðri augnhárin

Þetta er svo einfalt ráð en samt var ég bara að læra það um daginn! Hafið þið ekki lent í því að klína maskara á augnlokið eftir að hafa borið hann á efri augnhárin? Það er ekkert meira pirrandi en þegar maður er búinn að eyða tíma og vinnu í að setja á sig flotta augnförðun og svo klúðra henni með því að klína maskara á augnlokið! Oftar en ekki er þetta vegna þess að við horfum upp þegar við berum maskarann á neðri augnhárin og því smitast blauti maskarinn sem var á efri augnhárunum á augnlokið. Til að koma í veg fyrir þetta þarf einfaldlega að byrja á því að bera maskarann á neðri augnhárinn og síðan bera hann á þau efri.

screen-shot-2016-10-12-at-20-52-23

Notið glæran maskara til að móta náttúruleg augnhár

Oft þegar ég nenni ekki að mála mig en langar samt að fá smá mótun á augnhárin mín nota ég glæran maksara á þau. Þetta gerir augnhárin aðeins meira áberandi en á sama tíma heldur þeim náttúrulegum. Síðan má einnig nota sama glæra maskarann til að móta augabrúnirnar.

screen-shot-2016-10-12-at-20-53-50

Mismunandi maskarar fyrir mismunandi lúkk

Þetta er ráð sem mér finnst að allir mega geyma bakvið eyrað þegar kemur að maskara! Það þarf ekki alltaf að nota sama maskarann við mismunandi farðanir en mismunandi greiður og formúlur í hverjum og einum maskara getur umbreytt því hvernig förðunin mun koma til með að líta út. Það er því um að gera að prófa sig á fram með nokkrar tegundir af möskurum og blanda þeim saman. Ég nota til dæmis yfirleitt sitthvoran maskara á efri og neðri augnhárin.

Breytið umgjörð augnanna

Dragið augnhárin með maskaragreiðunni í mismunandi áttir til að breyta umgjörð augnanna. Ef þið eruð til dæmis með vængjaðan eyeliner þá er rosa fallegt að draga agunhárin með maskaragreiðunni í sömu átt og eyeliner-inn vísar.

whitelash

Notið augnháragrunn/primer

Það er fátt sem getur gert náttúrlega stutt augnhár jafn löng og góður grunnur. Setjið eitt lag af augnháragrunni á augnhárin og leyfið honum að þorna áður en þið setjið venjulega maskarann ykkar yfir. Þessir grunnar eru oftast hvítir og alls ekki ósvipaðir í ásetningu og maskarar en ég mæli sérstaklega með Falsh Lash Maximizer frá MAC. Hann gerir rosalega mikið fyrir augnhárin.

eye-with-mascara-application1

Notið lítinn blævængsbursta til að bera maskara á neðri augnhárin

Ef þú ert ein af þeim sem lendir alltaf í vandræðum með að bera maskara á neðri augnhárin þá getur lítill blævængsbursti reddað málunum! Setjið smá maskara á handarbakið ykkar og takið hann svo upp með burstanum. Juggið burstanum til og frá meðfram neðri augnháralínunni þar til þið eruð sátt með þekjuna á augnhárunum. Ef þið þrýstið svo burstanum aðeins upp að augnháralínunni þá lítur út eins og augnhárin séu þéttari en þau eru í raun og veru. Þetta er tækni sem að förðunarfræðingurinn hennar Adele notar óspart.

lashcurling

Brettið upp á augnhárin áður en þið setjið á ykkur maskara!

Ef það eru einhver förðunarmistök sem gefa mér hroll þá er það þegar fólk brettir upp á augnhárin sín eftir að hafa sett á sig maskara. Ég sé alveg augnhárin fyrir mér límast við augnhárabrettarann og togast af… Úff… Gerið það því fyrir mig og brettið upp á augnhárin ykkar áður en þið setjið á ykkur maskara 😉

Notið toppinn á greiðunni til að setja maskara á erfiða staði

Ef þið eigið erfitt með að bera maskara innst í innri augnkrók eða á aðra erfiða staði getið þið prufa að snúa greiðunni og notað toppinn á henni til að bera maskarann á augnhárin.

Ekki pumpa maskarann!

Þegar ég segi pumpa þá meina ég þá hreyfingu þegar greiðunni er ýtt inn og út úr maskaratúpunni endalaust. Við þetta kemst loft inn í túpuna og maskaraformúlan þornar fyrr upp svo ekki er hægt að nota maskarann jafn lengi. Í staðin fyrir að pumpa maskarann getið þið skofið vöruna af vegg túpunnar með því að þrýsta greiðunni upp að honum og snúa henni.

screen-shot-2016-10-17-at-16-28-50

Bleytið upp í maskaranum með linsudropum

Ef maskarinn ykkar hefur þornað upp og er ekki útrunninn þá er hægt að bæta við nokkrum dropum af linsuvökva ofan í túpuna og hræra með greiðunni til að bleyta aðeins upp í formúlunni aftur.

Þetta voru nokkur af þeim topp trixum sem ég hef lært um maskara frá því ég byrjaði að farða mig. Vonandi getið þið nýtt ykkur þetta eitthvað en ég er sjálf mjög spennt að halda þessum lið áfram hér á síðunni því mér fannst alveg einstaklega gaman að skrifa þessa færslu. Þá er bara að ákveða hvað ég tek fyrir í næsta Topp Trix lið… einhverjar hugmyndir? 🙂

-Rannveig H.

Fylgdu mér á Facebook til að fá nýjustu færslurnar beint í æð!

 

RIMMEL vörur fyrir þig og …?

_MG_0003

verðlaunin_i_leiknum_eru_kostudHvað er betra á svona fallegum sumardegi en að henda í einn gjafaleik!? Ég var einmitt að hefja einn svoleiðis á Facebook síðu Belle.is sem þið finnið HÉR en í honum má vinna slatta af æðislegum vörum frá RIMMEL.

_MG_0011

Ég ætla að gefa tveimur heppnum vinkonum/vinum þetta fallega sett frá RIMMEL sem inniheldur…

The Only 1 Lipstick

ScandalEyes Jumbo Liquid Eye Liner

ScandalEyes Retro Glam maskarann

Glam Eyes HD í litnum 02 Golden Eye

Til að taka þátt í leiknum þarf að fara inn á FACEBOOK SÍÐU BELLE.IS og merkja eina vinkonu/vin í athugasemd sem þú vilt að fái sinn eiginn RIMMEL pakka með þér. Ég læt ykkur svo vita á Facebook hver hlýtur vinninginn 😀 Gangi ykkur vel!

-Rannveig H.

Fylgdu mér á Facebook til að fá nýjustu færslurnar beint í æð!

 

Splunkunýr maskari frá Maybelline

IMG_2483

vorur_eru_synishorn_ekki_kostudMig langaði að sýna ykkur betur nýja maskarann frá Maybelline sem var að koma á markað en svo skemmtilega vill til að þið getið einmitt unnið eintak af honum ásamt öðrum vörum í afmælisgjafaleik Belle.is! Honum fer nú alveg að ljúka svo það er um að gera að hafa hraðar hendur til að geta haft tækifæri á að eignast þennan ykkur að kostnaðarlausu.

IMG_2487

Það er svolítið síðan þessi maskari kom á markað í Bandaríkjunum svo það er ekki ólíklegt að þið hafið séð hann áður og jafnvel prófað en núna er maskarinn loksins kominn á markað hér heima. Það fyrsta sem ég verð að nefna eru umbúðirnar en mér finnst þær svo brjálæðislega fallegar! Ég veit að tæknilega séð skipta umbúðirnar engu máli en það skemmir svo sannarlega ekki fyrir ef að hluturinn sem mun sitja sem fastast á snyrtiborðinu lítur vel út 🙂

IMG_2497

Maskarinn hefur gúmmígreiðu eins og þið sjáið á þessari mynd en það sem einkennir hana fram yfir aðra maskara sem ég á með greiður er að það er svolítið langt á milli broddana á þessari. Vegna þessa getur verið auðvelt að klessa saman augnhárin sérstaklega fyrst um sinn þegar að maskarinn er nýr og mikil vara kemur á greiðuna í hvert skipti sem þið togið hana úr túpunni. Mér finnst þó eins og þetta lagist eftir því sem ég nota maskarann meira því þá er ég bæði búin að læra betur á hann og varan í túpunni hefur minnkað svo það kemur ekki jafn mikið af henni á greiðuna.

_MG_2676

Hér getið þið svo séð hvernig maskarinn lítur út á augnhárunum mínum. Ég bretti ekki upp á þau svo þið getið séð hvað maskarinn lyftir þeim svakalega mikið upp! Hann eignar sér því alveg nafn sitt með réttu en þetta er svo sannarlega „Push up“ maskari. Hann lengir líka augnhárin mín ágætlega en ég myndi segja að áherslan hjá þessum maskara sé lenging og lyfting en ekki þykking augnháranna. Það sem betra er að mér fannst hann halda þessari lyftingu og lengingu allan daginn. Þegar ég tók þessa mynd var ég búin að vera með maskarann á mér í einhverja 4 tíma og hann lítur alveg eins út og hann gerði þegar ég setti hann á mig fyrst.

Formúlan í maskaranum er frekar blaut og því myndi ég fara varlega í ásetningu svo þið smitið hann ekki upp á augnlokið þegar þið blikkið og maskarinn er ekki þornaður. Ég myndi líka úða Fix+ eða hvaða setting spreyi sem þið notið áður en þið setjið á ykkur maskarann til að vera alveg viss um að hann smitist ekki á augnlokið. Ég passa mig reyndar á þessu með hvaða maskara sem er svo þetta á ekki sérstaklega við um þennan, bara gott ráð sem mig langaði að deila með ykkur 😉

IMG_2487

Allt í allt rosalega flottur maskari sem vert er að kíkja á ef ykkur vantar nýjan. Hafið bara í huga að gefast ekki upp á honum strax þó að mikil vara sé fyrst um sinn í greiðunni, það jafnar sig eftir því sem þig notið maskarann meira 🙂

Hér sjáið þið svo styrkleikaskalann fyrir vöruna:

Untitled

P.S. Að lokum langaði mig að hvetja ykkur til að þátt í afmælisgjafaleiknum með því að smella á myndina hér fyrir neðan og fylla út formið neðst til að geta fengið tækifæri á því að vinna þennan flotta maskara ásamt fleiri glæsilegum vörum. Nú fer hver að verða síðastur! ❤️

risa_afmælisleikur

-Rannveig H.

 

Fylgdu okkur á


Follow