Eldri færslur eftir merkjum fyrir Ís

Besti ísinn í Köben!

 

Færslan er ekki kostuð

Ég smakkaði besta ísinn í bænum i gær en Heiðrún systir hefur verið í heimsókn í danaveldi þessa helgina. Það kom ekki annað til greina en að segja ykkur frá ísnum, svo góður er hann! Ég er búin að heyra um þennan blessaða ís frá því að Magnús flutti á undan mér út til Köben síðasta sumar. Þá keypti hann sér ísinn á matarmarkaði og síðan þá kemur hann reglulega upp í samræðum hjá okkur.

Um helgina smakkaði ég svo ísinn unrædda þegar við systurnar skruppum í Fields mollið en ísinn fæst í búðinni Kjærstrup og ég verð að segja að ég varð ekki fyrir vonbrigðum! Besti rjómaís sem ég hef smakkað!

Í botninum á ísnum er að finna svona danskar kókosbollur sem ég man ekki fyrir mitt litla líf hvað heita núna… Flødeskumsboller kannski? En maður getur valið um nokkrar bragðtegundir og að sjálfsögðu fékk ég mér lakkrís… en ekki hvað! Í botninum er sem sagt þannig lakkrísbolla hjúpuð hvítu súkkulaði og ofan á hana er rjómaísinn settur ásamt sósu og kurli. Þetta salmíakskurl sem er á ísnum er líka bara nokkrum númerum of gott!

Ég held ég sé alveg búin að ná að selja ykkur þennan ís, er það ekki? Ef þið eruð að versla í Fields takið ykkur þá smá pásu og smakkið þennan, þið munuð ekki sjá eftir því!

-RH / @rannveigbelle

Dásamleg eftirréttarkaka

Jæja ekki nema þrír mánuðir frá síðustu færslu! Afsakið þetta bloggleysi, stundum þarf maður bara smá pásu. Ég skal alveg viðurkenna það að ég var eiginlega komin með smá leið á því að vera endalaust að baka og elda og taka myndir fyrir síðuna. Þessi bloggpása var einmitt það sem ég þurfti því eins og staðan er í dag er ég full af hugmyndum og ætla að reyna að vera dugleg næstu vikur að koma þeim í framkvæmd, baka eitthvað skemmtileg fyrir jólin og þess háttar. Ég ætla að byrja á því að deila með ykkur uppskrift af ljúffengri eftirréttarköku sem gæti verið tilvalin um jólin! Ég hef prófað kökuna bæði frosna (ískaka) og kalda (geymd í ísskáp). Persónulega fannst mér hún betri frosin og mæli því með henni þannig.

Ísterta
Skrifa umsögn
Prenta
Marengsbotninn
 1. 4 eggjahvítur
 2. 250 gr sykur
 3. 1 tsk eddik
 4. 2 tsk Maizena
 5. 4 msk kakó
Ísinn
 1. 600 ml rjómi
 2. 1 dós condensed sykruð mjólk (400g) (sæt mjólk, sjá á mynd hér að ofan)
 3. Korn úr 1x vanillustöng
 4. 3 msk kakó
 5. 100 gr súkkulaðidropar (konsum) - saxaðir
 6. 50 gr súkkulaðidropar sem skraut - saxaðir
Marengsbotninn
 1. Hitið ofninn í 150 °C.
 2. Þekkið smelluform með smjörpappír, ca 20 cm breitt. Látið smjörpappírinn ná uppá hliðarnar alveg.
 3. Stífþeytið eggjahvítur og bætið sykri smátt og smátt í meðan þið hrærið.
 4. Bætið við Ediki og maizena.
 5. Hellið kakó í gegnum sigti í stífþeyttar eggjahvíturnar og hrærið saman með sleif, blandið vel.
 6. Setjið marensinn í formið og bakið í 1 klst.
 7. Látið kóna alveg í forminu þegar botninn er tilbúinn. Þegar marensinn er orðin kaldur þá byrjið þið á ísnum.
Ísinn
 1. Þeytið saman rjómann og mjólkina (stundum betra að þeyta rjómann fyrst til hálfs og blanda svo mjólkinni við) þar til orðið stíft.
 2. Hrærið fræinn úr vanillustönginni við blönduna.
 3. Skiptið ísnum í tvo hluta.
 4. Hrærið súkkulaðidropana við annan hlutann og sigtað kakóið í hinn hlutann.
 5. Setjið hvíta hlutann fyrst á marensinn og síðan þann brúna varlega ofan á.
 6. Hrærið aðeins í ísblöndunum með prjóni til að blanda þeim saman, sjá mynd hér að ofan.
 7. Setjið plast yfir kökuna og frystið í minnst 8 klst eða lengur.
Annað
 1. Mjög gott að bera fram með einhversskonar sósu, ég hef til dæmis búið piparmintusósu (uppskrift kemur seinna)
BELLE | Allt milli himins og jarðar http://www.belle.is/

-Heiðrún

Áramótabomba

Jæja, vonandi eruð þið búin að eiga yndisleg jól og borða nóg af góðum mat. Ég er allavega búin að því 😉
Mér finnst alveg við hæfi að hafa síðustu uppskrift ársins af eftirrétt sem er tilvalinn í áramótapartýið! Eftirrétturinn, sem kallast Baked Alaska (hér getið þið skoðað mismunandi tegundir af réttinum) er vinsæll eftirréttur sem samanstendur af ís og marengs. Rétturinn er virkilega bragðgóður og auðveldur. Ef þið skoðið myndir af eftirréttnum sést að oftast er einhverskonar botn undir marengsnum, ég ákvað hinsvegar að sleppa því að gera botn og hafa bara ísinn. Það góða við þennan rétt er að það er hægt að leika sér að honum og prófa það sem manni dettur í hug, til dæmis bæta við botni, hafa mismunandi tegundir af ís undir marengsnum eða bæta ávöxtum við ísinn, í raun bara hvað sem ykkur dettur í hug 🙂  Ég ber réttinn fram með Mars-sósu og læt uppskrift af henni fylgja með en þið getið auðvitað notað þá sósu sem ykkur finnst best.

1
2
3
5-1
6-2
7-1
8-2

9-1

Áramótabomba
Skrifa umsögn
Prenta
Áramótabomba
 1. 1.5 L ís af eigin vali (ég notaði Daim ís og hef líka prófað að nota súkkulaðiís).
 2. 3 eggjahvítur
 3. 160 gr sykur
Mars-sósa
 1. 2 stykki mars
 2. 120 ml rjómi
 3. Smá salt
Áramótabomba
 1. Stífþeytið eggjahvíturnar.
 2. Hrærið sykrinum við stífþeyttar eggjahvíturnar þar til blandan verður þykk og gljáandi.
 3. Finnið skál og leggið plastfilmu að innri hluta hennar. Setjið ísinn í skálina, ofan á plastfilmuna. Best að láta ísinn standa í smástund svo auðveldara sé að setja hann í skálina og móta hann þar.
 4. Setjið skálina inn í frysti, það er mikilvægt að ísinn sé alveg frosinn þegar marengsinn fer ofan á.
 5. Þegar ísinn er frosinn takiði hann þá úr skálinni, fjarlægið plastfilmuna og komið honum fyrir á fati sem má fara inn í ofn.
 6. Smyrjið marengsnum jafnt yfir ísinn. Mér finnst alltaf fallegast að hafa marengsinn aðeins óreglulegan, það kemur svo vel út.
 7. Stillið ofninn á 290 gráður.
 8. Bakið ísinn í ca ca 3-4 mínútur eða þar til marengsinn verður fallega brúnn á litinn. Ekki vera stressuð þó að ísinn byrji aðeins að bráðna og leki undan marengsnum, hann er vel frosinn inni í honum.
 9. Ef þið eigið brennara þá er líka gott að nota hann til að brúna marengsinn. Í raun á marengsinn ekki að eldast þannig það skiptir eiginlega ekki máli hvort ísinn fari inn í ofn eða ekki.
Mars-sósa
 1. Mars er skorið niður í litla bita
 2. Súkkulaðið er sett í pott með rjómanum.
 3. Ég bæti örlitlu salti við blönduna en það er ekki nauðsynlegt.
 4. Blandan er hituð við vægan hita. Leyfið blöndunni aðeins að sjóða til að þykkja sósuna.
Annað
 1. Uppskriftin er fyrir ca 4-5 manns.
 2. Auðvelt að stækka uppskrift.
BELLE | Allt milli himins og jarðar http://www.belle.is/

-Heiðrún

Bleikur piparmyntuís

img_4608

Bleikur október er runninn upp og í tilefni þess ætla ég að birta nokkrar bleikar uppskriftir í mánuðinum. Fyrsta bleika uppskriftin sem ég birti er af þessum æðislega piparmyntuís. Fyrir utan það að vera alveg ótrúlega góður þá er þetta mjög auðveld uppskrift, auðveldasta ísuppskrift sem ég hef prófað allavega. Að lokum mæli ég með því að allir skundi út í búð og fjárfesti í einni bleikri slaufu, málefnið er mikilvægt og er mörgum, þar með talið mér, hjartfólgið.

img_4606 img_4609img_4612

Bleikur piparmyntuís
Skrifa umsögn
Prenta
Hráefni
 1. 2 egg
 2. 500 ml rjómi (stór peli)
 3. 100 gr sykur
 4. 2 ½ tsk piparmyntudropar
 5. Nokkrir dropar af rauðum matarlit.
 6. 150 gr súkkulaðidropar (eða saxað súkkulaði)
Aðferð
 1. Egg og sykur eru þeytt vel saman þar til blandan verður gul og létt.
 2. Setjið piparmyntudropana í blönduna. Hrærið þá við með sleif.
 3. Stífþeytið rjómann.
 4. Blandið rjómanum varlega við piparmyntublönduna með sleif.
 5. Hrærið nokkrum dropum af rauðum matarlit út í.
 6. Að lokum er súkkulaðibitum hrært saman við blönduna.
 7. Setjið í form og inn í frysti yfir nótt.
BELLE | Allt milli himins og jarðar http://www.belle.is/

-Heiðrún

 

Salt-karamelluís

IMG_4130

Jæja enn ein salt-karamelluuppskriftin, ég bara fæ ekki nóg! Ég held samt að ég ætti að taka mér smá salt-karamellu pásu núna 😉 Ég hef gert þennan ís nokkrum sinnum, ég var til dæmis með hann í eftirrétt á áramótunum í fyrra. Hann hefur aldrei klikkað, er alltaf jafn ótrúlega góður og ég er alltaf jafn hissa á því hvað hann er auðveldur. Uppskriftina af ísnum sjálfum fékk ég frá ömmu minni, það er auðvitað hægt að leika sér með uppskriftina og búa til allskonar ís, næst langar mig til dæmis að prófa að búa til hindberjaís 🙂 Njótið!

IMG_4107 IMG_4110 IMG_4111 IMG_4114 IMG_4115 IMG_4117 IMG_4133 IMG_4135 IMG_4137 IMG_4143

Salt-karamelluís
Skrifa umsögn
Prenta
Salt-karamella
 1. 150 gr sykur
 2. 50 gr smjör
 3. 1 msk mjólk
 4. 1 msk rjómi
 5. 1 tsk sjávarsalt
Ís
 1. 2 egg
 2. 500 ml rjómi (stór peli)
 3. 100 gr sykur
 4. Salt-karamella
Salt-karamella
 1. Byrjið á því að setja sykurinn í pott. Hitið sykurinn við vægan hita og fylgist vel með honum. Sykurinn byrjar á því að mynda kekki en mun að lokum bráðna og breytast í þykkan brúnan vökva.
 2. Þegar sykurinn er alveg bráðnaður skaltu bæta smjörinu við. Gerðu það samt varlega vegna þess að þegar því er bætt við kraumar karamellan og auðvelt er að brenna sig. Hrærðu í 2-3 mínútur þar til smjörið er allt bráðnað.
 3. Að því loknu skaltu hella rjómanum og mjólkinni mjög varlega við blönduna. Vegna þess að rjóminn er mun kaldari en karamellublandan þá mun hún krauma mikið þegar rjómanum er bætt út í.
 4. Leyfðu blöndunni að sjóða í smástund, 1-3 mínútur, lengur ef hún er í þynnri kantinum. Passið ykkur bara að brenna hana ekki.
 5. Taktu blönduna af hellunni og bættu við sjávarsalti.
Ís
 1. Egg og sykur eru þeytt vel saman þar til blandan verður gul og létt.
 2. Blandið karamellunni varlega við blönduna. Karamellan þarf helst að vera við stofuhita þegar henni er blandað við. Það þýðir samt að karamellan verður orðin frekar þykk og þess vegna er frekar erfitt að hræra hana við eggin og sykurinn. Mér finnst best að nota písk til að hræra karamellunni við. Það er allt í lagi þó öll karamellan blandist ekki öll við blönduna, það er nefninlega svo gott að hafa karamellubita í ísnum 🙂
 3. Stífþeytið rjómann.
 4. Blandið rjómanum varlega við karamellublönduna með sleif.
 5. Setjið í form og inn í frysti yfir nótt.
BELLE | Allt milli himins og jarðar http://www.belle.is/

-Heiðrún 

 

 

Frosið jógúrt: Uppskrift

HEIMAGERT

Þetta er örugglega einfaldasta holla góðgæti sem hægt er að gera. Kannski ekkert skemmtilegt að þrífa blandarann eftir á en gúrmið gerir það vel þess virði 😉

1-42

Það besta við heimagert frosið jógúrt (fyrir utan hvað það er gott) er hversu laust það er við mikla óhollustu. Jógúrtið er því mjög barnvænt góðgæti svo það má alveg gefa börnum svona ís ef við fáum einhverja sólríka og heita sumardaga næstu mánuði. Ég notaði ber í mitt frosna jógúrt en það er að sjálfsögðu hægt að nota hvaða ávexti sem er eins og til dæmis banana eða ananas.

Það sem þið þurfið til að búa til ís fyrir einn er:

1 bolli af frosnum blönduðum berjum. Berin verða að vera alveg gagnfreðin svo þið fáið ís en ekki boost þegar þið blandið öllu saman

1/2 bolli eða 2 stórar matskeiðar af grískri jógúrt

3 teskeiðar af fljótandi hungangi. Hér má smakka til og bæta við eða minnka eftir smekk

1/2 til 1 teskeið af sítrónusafa. Hér má einnig smakka til og bæta við eða minnka eftir smekk

Þetta er síðan allt sett í blandara og maukað þar til þið fáið mjúka og slétta áferð á blönduna. Það er að sjálfsögðu hægt að stækka uppskriftina og setja jafnvel í gamalt ísbox og geyma inni í frysti eins og hvern annan ís nema þessi yrði þá í hollari kantinum 🙂

1-21

 

Ég stalst meira að segja til að búa mér svona til og borðaði í morgunmat í síðustu viku. Ís í morgunmat… ekki slæmt það! Nú getum við bara beðið og vonað eftir heitum sumardögum svo við getum gætt okkur á frosnu jógúrti í sólinni, væri það ekki draumur!

-Rannveig H.

 

Fylgdu okkur á


Follow