Eldri færslur eftir merkjum fyrir Interior

Concrete wall

Eitt trend sem ég hef verið svolítið skotin í uppá síðkastið eru veggir málaðir eins og þeir séu úr steypu. Mér finnst þetta vera að koma ótrúlega vel út í stofu- og svefnrýmum, sérstaklega á veggjum þar sem er arinn. Það væri eflaust fallegt að gera kertaarinn og mála hann í sama lit og hafa hann upp við vegginn. 

Mér skilst að helstu málningabúðir á Íslandi séu að selja fínar málningar í að gera svona, án þess að hafa skoðað það sjálf. Svo er hægt að finna leiðbeiningar m.a. á pinterest um hvernig er best að ná þessari útkomu þegar maður er að mála!

Bryndís Björt

Þurrkaður vöndur

 

Brúðarvöndurinn minn fékk áframhaldandi líf!
Einhvernveginn náðist að geyma hann eftir að ég kastaði honum, og þurrka. Mér finnst hann taka sig voða vel út í vasa í stofunni hjá mér.

Bryndís Björt

Hann er minn!

Færslan er ekki kostuð

Jibbí! Hann er loksins minn! Þið vitið ekki hversu lengi mig hefur langað í þennan blessaða Acapulco stól frá OK Design en núna stendur hann á stofugólfinu hjá mér. Ég hefði tekið mynd af honum sjálf til þess að sýna ykkur en ég er ekki alveg búin að ákveða hvar hann á að vera og svo erum við á svo miklum brauðfótum í þessari í búð að ég þori eiginlega ekki alveg að koma mér almennilega fyrir… En flottur er hann! Ég sagði við sjálfa mig þegar ég flutti út til Danmerkur að nú myndi ég sanka að mér einhverjum flottum dönskum hönnunarhlutum til þess að flytja með mér heim en í einu og sömu vikunni fann ég þennan Iittala vasa á flóamarkaði og keypti Acapulco stólinn með leðursessu á danska blandinu fyrir brot af kostnaðinum. Nokkuð heppileg vika myndi ég segja en þið trúið ekki hvað ég hlakka til að geta eignast íbúð (þó það sé eflaust svolítið langt í það) og gera allt nákvæmlega eins og ég vil hafa það inn í henni. Þá mun stóllinn sko fá flottan samastað en hann er svo klassískur og flottur, og furðu þægilegur!

-RH / @rannveigbelle

Zen heima

Eins og ég hef áður komið inná er Zen hugtakið og spekin í kringum það eitt af því sem einkennir minimalíska hönnun. Hugtakið kemur frá Japan og tengist Búddisma, og leggur áherslu á gildi hugleiðslu og innsæi.

Friður og ró. Mér finnst þetta vera að virka best í svefnherbergjum og á baðherbergjum, enda eru það rýmin sem maður er helst að taka því rólega í, og zen hönnunin hjálpar svo sannarlega til með að mynda rólega og góða stemningu að mínu mati.

 

Bryndís Björt

 

 

Hvað er minimalismi?

Hugtakið ,,minimalismi“ kom fyrst fram á seinni hluta 20. aldar (um 1960) og var þá notað til að lýsa skúlptúrum og list. Síðan þá hefur hugtakið breiðst út og getur nú átt við allt frá lífstíl, tísku og tónlist til hönnunar og arkitektúrs. Í kringum 1980 kom minimalískur arkitektúr fram og snerist um að minnka viðfangsefnið niður í aðeins nauðsynlega þætti þess. Því átti sér stað mikil einföldun, en einfaldleikinn er einmitt stórt hugtak innan minimalismans. Þá spila hreinar línur og náttúruleg lýsing einnig stór hlutverk.

 

    

   

 

Þessi stíll sótti mikinn innblástur í hefðbundna japanska hönnun og hugtakið Zen, og heimspekina á bakvið það. Einnig tengist hann hollensku listahreyfingunni De Stijl (1917-1931) sem þróaði hugmyndir um tjáningu með notkun grunnþátta svo sem beinna lína og yfirborða. 

Þá má nefna arkitektinn Ludwig Mies van der Rohe sem sagði ,,less is more“ eða ,,minna er meira“ til að lýsa sinni aðferð að raða aðeins því nauðsynlega til að ná fram raunverulegum einfaldleika. 

 

Minimalísk hönnun og arkitektúr er því í grunninn einfaldleikinn; hreinar og beinar línur, hlutlaus litapalletta og endurtekning forma. Náttúruleg lýsing er svo notuð til að undirstrika einföld rými, minimalísk húsgögn og praktísk efni.

Þar hafiði það! Í lokin, og í takt við minimalíska þemað í janúar, langar mig að láta fylgja nokkra punkta sem eru taldir einkenna minimalískan lífstíl, eins hádramatískt og þetta hljómar sumt þá held ég samt að svona pælingar geti gert manni gott. 

Losa sig við hluti sem veita óánægju

Fylgja ástríðunni og markmiðum

Skapa meira, neyta minna

Áhersla á heilsu

Vaxa sem einstaklingar

Finna tilgang

 

Ég held að maður hefði alveg gott að því að losa sig við óreiðu á einhverju sviði í lífinu og hafa einfaldleikann að leiðarljósi. Einföld hönnun heillar mig amk alltaf!

 

Bryndís Björt

Bel Air heimili Kim & Kanye

Byrjum þetta nýja ár á nokkrum myndum frá heimili vina minna Kim og Kanye, eða amk því heimili sem þau virðast eiga í nýjustu seríu Keeping Up – sem mér skilst að sé hins vegar bara bráðbirgða heimili þeirra (eðlilega). 

Í síðustu þáttum um Kardashian fjölluna hef ég tekið svolítið eftir heimili Kim og minimalísk hönnunin (kannski sérstaklega í samanburði við önnur hús sem birtast í þáttunum, sem ég er ekki að elska) hefur gripið augað mitt. Þetta eru stór og björt rými – með fáum, stílhreinum húsgögnum. 

Við erum auðvitað að tala um mjög grand minimalisma hér, en það er magnað hvað færri hlutir geta oft sagt meira en fleiri.

Ég byrja árið á þessum myndum og pælingum vegna þess að í janúar verður ákveðið þema í gangi á síðunni minni. Minimalísk hönnun. Ég stefni á að setja inn ýmislegt tengt þessum stíl á næstunni og vona að þið munuð hafa gaman af! 

Bryndís Björt

Innlit – einfaldar jólaskreytingar

Einstaklega fallegt heimili sem birtist í Bo Bedre. Einfaldar jólaskreytingar heilla mig þessi jólin og eins og ég hef sagt áður þá er einfaldleikinn eiginlega þema jólanna minna í ár. Mér fannst þetta innlit því mjög við hæfi, ótrúlega látlausar skreytingar en mér finnst í þessu tilfelli minna klárlega vera meira.

Bryndís Björt

Skrifstofu hönnun

Mér hefur alltaf fundist skrifstofu hönnun mjög heillandi. Móttökur hafa ótrúlega mikið að segja fyrir viðskiptavini fyrirtækja og þess vegna finnst mér skipta svo miklu máli að hönnunin sé falleg. Það sama má segja um fundarherbergi, þar er svo mikilvægt að fólki líði vel og spilar hönnunin stóran part í því, amk að mínu mati – í vel hönnuðu rými finnst mér vera bæði betra að hugsa og framkvæma!

Bryndís Björt

Október moodboard

Með október kemur haustið og allt sem því fylgir – styttri og kaldari dagar og haustlitirnir allt í einu mættir. Með þessu fylgir svo margt sem mér finnst skemmtilegt, haust tískan er alltaf jafn spennandi og að geta kveikt á kertum á kvöldin er eitthvað svo kósý. 
Hér er því eitt stykki moodboard með húsgögnum og hlutum sem ég held að njóti sín vel á þessum tíma árs.

1. Stólar – Söstrene grene

2. Teppi – Epal

3. Plöntustandur – Söstrene grene

4. Motta – Módern

5. Púðar – H&M home

6. Kerti – H&M home

 

Bryndís Björt

 

Veggfóður

Jæja góðan daginn og gleðilegt næstum því haust!

Þennan föstudaginn ætla ég að bjóða uppá veggfóðurs innblástur en það er hugmynd sem ég hef verið svolítið skotin í uppá síðkastið. Ég hef oftast tengt veggfóður við gamla tíma, eða hótel og veitingastaði, jafnvel barnaherbergi, en sjaldan önnur rými á heimilum. Myndirnar hér að neðan sýna að það er svo sannarlega hægt að nota þau í margt sniðugt og frumlegt.

 

Ég leitaði uppi búðir á íslandi sem selja veggfóður og komst að því að þær eru þónokkrar – ég læt linka fylgja með á þeim sem ég fann í fljótu bragði fyrir áhugasama.

Parket og gólf, Epal, Bólstrarinn, Litaver.

Annars eftir góða pásu í sumar er ég klár í haustið og spennt að fara á fullt hér á síðunni, og vona að þið séuð það líka!

Bryndís Björt

 

Fylgdu okkur á


Follow