Eldri færslur eftir merkjum fyrir húðvörur

Three Part Harmony frá Origins

Vörurnar í færslunni fékk ég sendar til að prófa. Færslan er ekki kostuð.

Ég spurði á Instagram hvort þið mynduð vilja sjá umsögn af nýjustu vörunum úr Three Part Harmony línunni frá Origins og það kom mér á óvart hversu margir voru spenntir fyrir því! Ég ákvað því að skella í eitt blogg þar sem ég segi ykkur aðeins betur frá vörunum en ég er búin að vera með þær í notkun núna frá því í febrúar. Eins og alltaf tek ég myndir af vörunum áður en ég byrja að prófa þær og þess vegna eru þær svona splunkunýjar, fallegar og fínar á þessum myndum 😉

En aðeins um línuna sem vörurnar tvær eru hluti af. Three Part Harmony línan frá Origins er hönnuð til þess að blása lífi aftur í húðina með því að nýta kraft Tazetta liljunnar. Vörurnar eiga að endurnýja húðina, koma henni í betra jafnvægi og gefa húðinni aukna glóð og heilbrigðan ljóma. Með því að tækla þessi þrjú atriði heldur Origins því fram að húðin fái unglegra yfirbragð. Þar sem ég er enn með svona nokkuð unga húð þá get ég því miður ekki sagt til um það en ég get þó sagt ykkur frá því hvernig línan virkaði mig en fyrir þá sem ekki vita þá er ég 25.ára. Húðlínan hentar öllum húðgerðum, þurri, blandaðri og olíumikilli húð.

Fyrsta varan sem er ný í línunni er Tri-Phase Essene Lotion. Þegar ég fékk þessa vöru í hendurnar var ég ekki alveg viss um hvað hún gerði. Þetta er ekki hreinsir en þetta er ekki tóner. Ég var því smá tíma að átta mig á henni en í stuttu máli sagt þá er er þetta í rauninni bara nærandi lotion/vökvi fyrir húðina.

Fyrir notkun byrjar maður á því að hrista flöskuna vel svo að lögin þrjú sem varan samanstendur af blandist öll vel saman. Þetta er alltaf pínu sárt því flaskan er svo falleg á litinn þegar að lögin eru aðskilin en… c’est la vie 😉 Vöruna setur maður síðan í bómull og strýkur henni yfir andlitið bæði kvölds og morgna. Varan gefur húðinni fallegan ljóma og mér fannst hún róa mína húð og næra þegar að hún var extra þurr og strekkt eftir kuldann sem var hérna í Danmörku í febrúar/mars. Þessi mun því vera í vopnabúrinu mínu þegar að veturinn snýr aftur en mér finnst hún henta betur þegar það er kalt úti eða þegar húðin er í ójafnvægi frekar en þegar það er 24 stiga hiti úti, eins og er í Danmörku akkúrat núna, og húðin er nokkuð fín. 

Seinni varan sem er ný í Three Part Harmony línunni er Day Night Eye Cream Duo. Ég varð ástfangin af hugmyndinni af þessari vöru alveg um leið og ég sá hana en eftir að ég prófaði hana þá varð ég ástfangin af vörunni sjálfri!

Í einni tvískiptri krukku má finna tvær gerðir af augnkremum þar sem eitt þeirra er gert til þess að bera á augnsvæðið á morgnanna en hitt er gert til þess að bera á augnsvæðið á kvöldin.

Morgun-augnkremið er bleikt á litinn með ljósbláum perlugljáa en það birtir yfir augnsvæðinu á morgnanna svo maður virðist vera töluvert hressari og útsofnari en maður er í raun og veru. Ég er ekki frá því að ég fái pínulitla kælitilfinningu þegar ég ber það á mig en tilfinningin er það lítil að maður tekur varla eftir henni. Nætur-augnkremið er síðan algjör lúxus! Það er mjúkt eins og smjör og róar og nærir augnsvæðið alveg frá fyrstu notkun. Frá því ég byrjaði að nota það fyrst hef ég ekki orðið þurr á augnsvæðinu og þá er sko mikið sagt! Kremið er líka mjög drjúgt en ég þarf einungis að nota kremið einu sinni til tvisvar í viku og frá því að ég byrjaði að nota kremið í febrúar þá er ég kannski búinn með næstum 1/4 af dollunni. 

Til að draga þetta allt saman í nokkur orð þá eru þetta virkilega flottar vörur en ef ég ætti að mæla með einu af tvennu þá myndi ég klárlega prufa augnkremið. Það gerði meira fyrir mína húð en lotion-ið og ég gríp einhvern veginn oftar í það. Annars hefur Origins so far ekki klikkað hjá mér en ég er á fullu núna að prófa Mega Mushroom maskann – spoiler alert – hann er ÆÐI!

-RH / @rannveigbelle

Afhverju Paula’s Choice?

 

 

DropperAf því að hver einasta vara er hönnuð með það í huga að vinna á sértækum húðvandamálum. Hvort sem þú ert að berjast við óvelkomnar hrukkur eða feita og bólótta húð þá ættir þú að geta fundið lausn hjá Paula´s Choice. Úrvalið er mikið og því borgar sig að fá ráðgjöf sérfræðings.

,,Þessi gagnsemi er rökstudd með því að vísa í heimildir við hverja vöru, rannsóknagreinar sem birst hafa í virtum fræðitímaritum um húðsjúkdómafræði, lyfjafræði, lífefnafræði o.s.frv.  Þetta eru óháðar rannsóknir sem sýna fram á að tiltekin efni hafi góð áhrif á starfsemi húðar eða dragi úr tilteknum húðvandamálum.“ – Tigerlily.is

 

ProductgroepAf því að pakkningarnar eru hannaðar með það í huga að vernda vöruna sem best, fyrir sólarljósi og sýklum. Það er því aðalega notast við ógegnsæaar túpur eða pumpur. Þetta skiptir mig miklu máli. Ég þoli ekki krem í krukkum þar sem ég þarf að fara með puttana ofaní eða notast við sérstaka sköfu sem fylgir með. Þar hafa bakteríur greiða leið ofan í rándýra kremið mitt!

Af því að öllum gagnslausum efnum er sleppt. Engin ilmefni, engin litarefni og ekkert alkahól.

 

Leaping-BunnyAf því að vörurnar eru ekki prófaðar á dýrum. Þetta skiptir mig alltaf máli og á að skipta þig máli líka! Við viljum ekki kaupa vörur sem eru prófaðar á dýrum – aldrei!

 

faerslan_er_ekki_kostud-5Ég hef alltaf verið að kljást við húðvandamál. Sem barn var það exem og sem unglingur voru það bólur sem fylgdu mér til fullorðinsára. Það var ekki fyrr en í kringum tvítugt þar sem ég tók þá ákvörðun að hefja Decutan lyfjameðferð sem varði í 9 mánuði. Loksins þá losnaði ég við bólurnar. Eftir að ég átti börnin mín fór að kræla á nokkrum bólum aftur og í dag held ég þeim niðri með því að nota vandaðar húðvörur sem henta minni húðgerð og getnaðarvarnarpillunni Diane mite.
Ég vann í snyrtivörudeild um tíma með flottustu merkjunum og þar hafði ég tækifæri á að prófa mig áfram með allskonar krem sem áttu að gera kraftaverk. Ég var líka svo lánsöm að fara á snyrtivörukynningar þar sem ég fékk fræðslu um húðvörur og virkni þeirra. Útaf því að ég hef alltaf verið með vandamálahúð þá hefur  húðumhirða og húðvörur orðið eitt af mínum aðal áhugamálum. Í gegnum tíðina hef ég eitt mörg hundruð þúsundum í krem, meðferðir á snyrtistofum og viðtöl við húðlækna. Ég verð því að viðurkenna að ég verð alltaf pínulítið reið þegar ég sé auglýsingar um húðvörur sem lofa bólum burt eftir þrjá mánuði eða eitthvað álíka. Ég féll fyrir öllum þessum söluræðum á sínum tíma því ég þráði ekkert heitar en að losna við þennan ömurlega kvilla!

Í dag læt ég sko aldeilis ekki bjóða mér hvað sem er. Ég er alveg til í að eyða smá pening í vörur ef ég veit að þær virka. Þess vegna byrja ég oft á að kaupa mér aðeins eina vöru í einhverri húðlínu sem ég er spennt fyrir. Ef ég kaupi mér t.d. hreinsi þá bið ég um prufu af rakakremi, næturkremi, tóner eða sýrum í sömu línu. Þú færð mestan árangur ef þú notar húðvörur í sömu línunni því þær eru hannaðar með það í huga að vinna saman.

Ég rakst á vörurnar frá Paula´s Choice á Facebook. Ég hafði prófað vörur úr þessu merki áður og mér líkaði vel þannig að ég hafði samband og bað um ráðleggingar. Eftir að hafa útskýrt hverju ég væri að leita eftir var mér bent á vörulínuna RESIST.

Eftirfarandi vörur er ég að nota dagsdaglega núna. Ég mæli eingöngu með húðvörum sem ég hef prófað sjálf og líkað vel við. Ég er ótrúlega dómhörð þegar kemur að húðvörum eins og gefur að skilja eftir allt mitt basl í gegnum tíðina.

RESIST Optimal Results Hydrating Cleanser
Verð: 4.690 kr – sjá HÉR.

Þetta hreinsikrem er í uppáhaldi því þetta þrífur allt. Farða af andliti og augum, dauðar húðfrumur og umfram fitu í húðinni. Þetta er silkimjúkt og þrífur húðina vel án þess að þurrka hana upp. Ég hef oftast ekki mikla trú á hreinsikremum sem eru ætluð fyrir andlit og augu. Oftast þarf maður alltaf að nota augnfarðahreinsi eftirá. En ég prófaði þennan hreinsi þegar ég var náttúrulega förðuð og allt fór af og ég þurfti ekkert meira. Ég prófaði hann síðan aftur þegar ég var mjög mikið máluð og ég verð að viðurkenna að þessi hreinsir náði meirihlutanum af. Ég þurfti aðeins að fara yfir augun með augnfarðahreinsi til að ná alveg öllu en ég var líka mjög mikið förðuð þannig að ég taldi þetta gott. Hreinsirinn kemur með pumpu sem skammtar manni rétt magn fyrir hverja hreinsun.

RESIST Daily Smoothing Treatment 5% AHA
7.690 kr – sjá HÉR.

Þetta er létt rakakrem með ávaxtasýrum. Kremið inniheldur 5% glycolic sýru (AHA) sem fjarlægir dauðar húðfrumur af yfirborði húðar, og 0,5% salicylic sýru (BHA) sem hreinsar einnig húðina djúpt ofan í svitaholurnar. Þetta á að vera áhrifaríkt á öldrunarmerki, hrukkur, litabletti og bólur. Það er án ilm-og litarefna og örvar kollagenframleiðslu.
Ég get alveg vottað það að þetta er virkilega gott og áhrifaríkt krem. Það smýgur hratt inn í húðina og skilur eftir sig silkimjúkt yfirbragð og tilfinninguna að húðin þín sé vel nærð. Ég hef ekki fengið neina ertingu eða bólur við notkun á þessu kremi. Húðin mín er töluvert mýkri og þurrkublettir sem ég var með í kinnunum eru horfnir.

RESIST Weekly Resurfacing Treatment 10% AHA
Verð: 8.290 kr – sjá HÉR.

Þetta er ótrúlega öflug ávaxtasýra 10% AHA sem nota á vikulega. Hún á að vera áhrifarík á öldrunarmerki, hrukkur, litabletti og sólarskemmdir. Ávaxtasýran ásamt sérvalinni blöndu af andoxunarefnum örva kollagenframleiðslu, stinna húð, jafna húðlit og draga úr hrukkum og sólarskemmdum.  Sefandi efni draga úr roða, bólgum og ertingu í húð.  
Ég veit að ávaxtasýrur virka. Þegar ég var sem verst í húðinni fyrir nokkrum árum fór ég oft í ávaxtasýrumeðferðir á snyrtistofum og ég sá alltaf mun á húðinni. Glycolic sýrur hafa minnstu sameindina af AHA fjölskyldunni og fer þess vegna hraðast inn í húðina. Rannsóknir hafa sýnt fram á að notkun dregur úr fínum línum, hrukkum og gefur húðinni heilbrigðara útlit. Þið getið frætt ykkur betur um þessar gerðir af ávaxtasýrum á veraldarvefnum en ég kýs að nota þær vegna þess að ég veit hversu öflugar þær eru.

 

RESIST Barrier Repair Moisturizer with Retinol
Verð: 7.590 kr – sjá HÉR.

Þetta rakakrem nota ég kvölds og morgna. Það er áhrifaríkt á öldrunarmerki, hrukkur, litabletti og rósroða. Kremið inniheldur retínól sem er eitt áhrifaríkasta efnið við öldrunarmerkjum á húð.  Retínól er skylt A-vítamíni og er einnig andoxunarefni, og hefur þann eiginleika að geta fest sig á nánast hvaða húðfrumu sem er og breytt starfsemi hennar þannig að hún hagar sér eins og heilbrigð ung húðfruma.
Ég er hrifin af þessu rakakremi vegna þess að ég fæ ekki bólur af því (sem gerist mjög oft þegar ég nota rakakrem) og ég finn ekki fyrir ertingu af neinu tagi. Það er lyktar-og ilmefnalaust og eins og svo margar vörur frá Paula´s Choice þá eru pakkningarnar með pumpu og því færðu alltaf réttann skammt hverju sinni. Það kemur í veg fyrir sóun. Mér finnst þetta rakakrem veita húðinni minni fallegan ljóma og hún er miklu mýkri. Þegar húðin mín er svona vel nærð þá er miklu auðveldara að setja á hana farða og hann kemur betur út.

Ég get alveg fullyrt það að þetta eru mínar uppáhalds vörur í dag og ég mæli 100% með þeim. Það er netverslunin Tigerlily.is sem er með umboðið hér og landi og hún Linda Rós veitir þér fyrsta flokks þjónustu. Hún er bæði Snyrti-og hjúkrunarfræðingur með mikla þekkingu og góða þjónustulund. Það var ég sem hafði samband við hana og bað um að fá að skrifa um Paula´s Choice afþví að ég vissi að hér væri um gæðavörur á ræða á góðu verði.

Ef þið eruð með einhverjar spurningar þá getið þið sent henni póst á tigerlily@tigerlily.is og hún svarar ykkur um hæl.

 

Kæru þjáningasystur (eða bræður) í bólubaráttunni. Ef að þið eruð virkilega slæm og hafið verið í langan tíma skuluð þið ekki hika við að panta ykkur tíma hjá húðlækni strax og hefja einhverskonar meðferð í samráði við hann. Ekki eyða tíma og peningum í að prófa ykkur áfram oftast þá borgar það sig ekki því miður. Ég vil taka það fram að ég er að tala um fólk sem var í svipuðum sporum og ég undirlagt af bólum og kýlum sem meiða og hafa virkilega mikil áhrif á lífsgæði þín.


Katrín

  Þú finnur mig á Instagram , facebook & snapchat!
(katrinbelle.is)

Lancôme ljómabombur: Énergie de Vie

IMG_3435

3_synishorn_send_til_profunar_ekki_kostudEins og þið örugglega vitið legg ég mjög mikla áherslu á að prófa vörur og þá sérstaklega húðvörur í nógu langan tíma til að sjá hvaða áhrif vörurnar hafa á húðina mína. Núna er ég búin að vera að prófa Lancôme Énergie de Vie vörurnar í tæpan mánuð en ég birti mynd af línunni á Instagram þegar ég byrjaði að prófa þær. Ég tel mig því geta sagt nokkuð vel til um hvað vörurnar geta gert og hvernig þær eru búnar að virka fyrir mig 🙂

En fyrst smá um línuna sjálfa. Énergie de Vie er lína sem er hönnuð til að henta öllum húðgerðum og á að koma í veg fyrir sjáanleg einkenni þreytu og fylla húðina af orku. Ég sjálf er með blandaða húð, þurr á kinnum og olímikil á T svæðinu svo hafið það bakvið eyrað þegar þið lesið áfram. Línan á að gefa húðinni aukið ljómabúst en hún er ekki ætluð til að hægja á einkennum öldrunar og þess vegna hentar hún mjög vel ungri húð og þá sérstaklega mínum aldurshóp þar sem maður er aðeins of ungur til að byrja á því að nota öldrunarkrem en vantar samt góð krem sem skila sínu. Vörurnar eru sérstaklega hannaðar til að nota saman og eru innblásnar af kóreskum húðrútínum þar sem mörg lög af léttum húðvörum eru sett hver ofan á önnur til að gefa húðinni hina fullkomu áferð.

IMG_3436

Ég er með þrjár vörur úr línunni til að sýna ykkur betur en tvær þeirra eru ekki í fullri stærð svo þær líta ekki alveg eins út í fullri stærð og þær líta út á þessum myndum. Énergie de Vie The Smoothing & Plumping Pearly Lotion er ein af þeim en hana sjáið þið á myndinni hér fyrir ofan. Ég var smá stund að átta mig á þessari vöru og hvernig ég ætti að nota hana en þetta er fyrsta skrefið í minni Énergie de Vie húðrútínu. Til að lýsa vörunni á sem bestan máta myndi ég segja að hún er eins og þykkt vatn… eins furðulega og það hljómar. Í vatninu er að finna örlitla olíudropa sem að veita húðinni raka og undirbýr hana fyrir daginn með því að vekja hana og gera hana örlítið þrýstnari. Vöruna ber ég á mig með því að setja nokkra dropa í lófann og strjúka létt yfir andlitið en það geri ég eftir að ég er búin að hreinsa á mér húðina. Það er sérstaklega gott að bera þetta á sig á morgnana þar sem varan inniheldur goji ber, sítrónumelissu og E vítamín.

IMG_3438

Eftir að hafa sett á mig Énergie de Vie The Smoothing & Plumping Pearly Lotion og gefið því nokkrar sekúndur til að þorna ber ég á mig Énergie de Vie The Smoothing & Glow Boosting Liquid Moisturizer. Ég verð bara að segja það hér og nú að áferðin á þessum vörum er alveg ótrúleg og hreinlega lygileg miðað við virknina en áferðin er alltaf bara eins vatn. Þetta rakakrem er bara eins og serum en samt er það rakakrem. Það smýgur ótrúlega hratt inn í húðina og maður finnur ekkert fyrir því á sér. Kremið gefur húðinni minni fáránlega mikinn raka sem er ótrúlegt því það hefur allt aðra áferð en öll önnur rakakrem sem ég hef prófað. Eins og Perly Lotion-ið inniheldur þetta krem einnig goji ber, sítrónumelissu og E vítamín sem eiga að lífga við húðina og gefa henni ljóma.

IMG_3437

Síðast en ekki síst er það Énergie de Vie The Overnight Recovery Sleeping Mask. Þetta er vara sem ég verð að eignast stóru stærðina af enda algjörlega dásamleg. Maskinn er algjör rakabomba og ég set hann annað slagið á húðina mína á kvöldin til að gefa henni aukið rakabúst. Þegar ég vakna daginn eftir ásetninguna er húðin mín alveg endurnærð en maskinn er bæði kælandi og svakalega rakagefandi. Eins og hinar tvær vörurnar bráðnar gleáferðin á maskanum yfir í hálfgert vatn þegar hann kemst í snertingu við húðina og smýgur fljótt inn í hana. Ég hugsa að þessi eiginleiki sé uppáhalds hluturinn minn við línuna – allt smýgur inn í húðina alveg um leið og maður setur það á sig og það er aldrei eins og maður sé með mörg eða þykk lög af húðvörum á sér. Maskinn sjálfur kemur í veg fyrir rakamissi húðarinnar yfir nóttina og inniheldur einnig goji ber, sítrónumelissu og E vítamín.

IMG_3435

Ég verð að segja að það er langt síðan að húðin mín hefur haldist í jafn miklu jafnvægi og hún er búin að vera þessar undanfarnar vikur. Á þessum vikum er ég eingöngu búin að vera að nota þessar húðvörur fyrir utan húðhreinsana mína og ég get því með sanni sagt að það sé þessum vörum að þakka. Ég er hvorki búin að finna fyrir þurrki né útbrotum á andlitinu og það er í sjálfu sér algjör unaður að nota vörurnar. Ég mun án alls vafa kaupa þær þegar ég er búin með þetta sem ég á heima enda er ég gjörsamlega ástfangin upp yfir haus af þeim. Ef þið eruð yngri eða í sama aldurshóp og ég og ykkur vantar frábærar húðvörur til að gefa ykkur aukinn ljóma og koma húðinni í gott jafnvægi þá mæli ég klárlega með því að þið kíkið á þessar!

Rannveig H.

Fylgdu mér á Facebook og Instagram (rannveigbelle) til að fá nýjustu færslurnar beint í æð!

 

Fyrir þurrkupésa

untitled-1

3_synishorn_send_til_profunar_ekki_kostudJæja þá get ég loksins skrifað um Origins vörurnar sem ég er búin að vera prófa núna í meira en mánuð! Ég vildi prófa vörurnar extra vel þar sem ég hef aldrei prófað neitt frá merkinu áður. Ég held samt svei mér þá að ég sé eina manneskjan á landinu sem hefur ekki prófað neitt frá Origins en núna er búið að kippa því í liðinn! 😉 

untitled-3

Fyrir þá sem ekki vita þá er Origins nýkomið í verslanir hér heima en ég var svo heppin að fá að prófa þrjár vörur frá merkinu. Mig langar að segja ykkur betur frá tveimur af þeim hér í þessari færslu sem gæti eiginlega ekki verið betur tímasett hjá mér þar sem kuldinn er aðeins farinn að bíta í kinnar og tími til kominn að taka fram rakabombur. Origins Make a Difference er lína sem að er einmitt ætluð til að fylla húðina af raka og endurnýja þurra og þreytta húð. Línan er ætluð öllum húðtýpum eða olímikilli, þurri eða venjulegri húð. Ég er sjálf með blandaða húð og nota því mest rakakremið sem þið sjáið hér á myndunum og heitir Make a Difference Plus+ Rejuvenating Moisturizer (reynið að segja það hratt þrisvar í röð!) á þau svæði sem ég er hvað þurrust á. Oftast er það á svæðinu undir augunum og á kinnunum. Hreinsimjólkina sem þið sjáið einnig á myndunum og heitir Make a Difference Rejuvenating Cleansing Milk nota ég hinsvegar á allt andlitið eftir að ég hef tekið farðann af mér. Mýkri hreinsimjólk held ég barasta að ég hafi aldrei prufað en hún er alveg yndisleg í notkun! 

untitled-2

Make a Difference línan inniheldur plöntu sem hefur oft fengið viðurnefnið „Risaeðluplantan“ en heitir í raun Rose of Jericho. Plantan getur lifað í miklum þurrk í fleiri fleiri tugi ára en lifnar alltaf aftur við um leið og hún kemst í raka. Það er því ekki að furða að hún skuli hafa verið notuð í þessa línu þar sem að plantan getur viðhaldið lífi sínu þrátt fyrir mörg ár af þurrki. Þetta er eitt af því sem mér finnst vera hvað áhugaverðast við Origins merkið. Hvert eitt og einasta innihaldsefni í vörunum hefur einhverjum tilgangi að þjóna en meira að segja ilmurinn er virkt efni sem að gerir eitthvað gagn annað en að gefa bara góða lykt. Ég er ekki frá því að þessar vörur hafa reddað húðinni minni sem var aðeins farin að skrælna upp en frá því að ég byrjaði að nota þær og þá sérstaklega kremið hef ég ekkert þurft að nota augnkrem og þá er sko mikið sagt þar sem það var áður nauðsynjavara í húðrútínu minni! Eftir þessa flottu reynslu af þeim vörum sem ég hef fengið að prófa er Origins óskalistinn orðinn nokkuð langur en efst á honum trónir Out of Trouble maskinn! Hann á víst að vera æðislegur til að setja á húðina ef hún er að brjótast út í bólum 🙂

-Rannveig H.

Fylgdu mér á Facebook og Snapchat (rannveigbelle) til að fá nýjustu færslurnar beint í æð!

 

Öðruvísi maskar

_MG_0600-2

vorurnar_i_faerslunni_eru_synishorn_eda_i_einkaeiguÉg veit ekki með ykkur en sjálf nota ég oft helgarnar til að gera virkilega vel við húðina mína. Það er eitthvað svo róandi við það að taka smá andlitsdekur á frídögum enda hefur maður oft ekki tíma í slíkt á annasömum vinnudögum. Húðdekur er því á dagskrá hjá mér þennan sunnudag og eftir brúðkaupsveisluna sem ég fór í í gær held ég að ekki veiti af! Dekrið mitt í kvöld mun innihalda tvo vægast sagt óvenjulega maska en mig langaði rétt svo að sýna ykkur þá og segja ykkur aðeins frá þeim en ég hef aldrei prófað þá áður svo þetta verður spennandi tilraunakvöld hjá mér!

Fyrstur á dagskrá er Advanced Night Repair Concentrated Recovery PowerFoil Mask frá Estée Lauder! Þetta er svokallaður „sheet“ maski úr áli en sum ykkar hafða eflaust tekið eftir umfjöllunum um þessum ágæta maska síðustu mánuði enda mjög sérstök vara hér á ferð. Maskinn býr yfir sömu eiginleikum og Advance Night Repair serumið frá merkinu nema tvöfalt sterkari. Húðin á því að vera vel nærð og full af raka eftir notkun svo það verður spennandi að sjá hvort hann mun gera mikið fyrir húðina mína.

Næstur á dagskrá er rósavaramaski frá Sephora. Ég er rosalega forvitin að prófa þennan og sjá bæði hvernig hann lítur út og hvað hann gerir. Maskinn á að veita vörunum mikinn raka ásamt því að mýkja þær. Maskinn er venjulegur „sheet“ maski nema fyrir varirnar og hann á leggja yfir lokaðan munninn og leyfa honum að liggja þar í um 15 mínútur.. Sem sagt ekki setja þennan á þig ef þú þarft að tala eitthvað næstu 15 mínúturnar 😉

Það verður svo sannarlega dekurkvöld í kvöld – hlakka til! 😀

-Rannveig H.

Fylgdu mér á Facebook til að fá nýjustu færslurnar beint í æð!

 

 

Fylgdu okkur á


Follow