Eldri færslur eftir merkjum fyrir Brúðkaup

Kjóllinn

Eins margir hafa kannski séð á instagram og eins og ég sagði í síðustu færslu þá er ég ekki alveg komin yfir brúðkaupið jafn fljótt og ég hélt og ætla að sýna ykkur örlítið meira frá því. Í þetta skiptið kjólinn minn. Það er risa ákvörðun að velja kjól, eða mér fannst það amk. Ég vissi ekki alveg í hvaða átt ég vildi fara, nema bara það að ég vildi hafa hann einfaldan. Ég fann minn svo, mjög óvænt, inn á missguided.uk og ákvað að prófa að panta hann með það í huga að breyta honum mögulega. Hann var alls ekki dýr svo ég ákvað að taka sénsinn á að prófa þetta.

Ég fór svo með hann í Eðalklæði þar sem þær sniðu hann að mér, breyttu hálsmálinu og bættu á hann steinum í mittið.
Ég var svo ótrúlega ánægð með útkomuna og hvernig þessi hugmynd lukkaðist. Dagbjört ljósmyndarinn okkar (mæli með síðunni hennar btw – dagbjortkristin.com) náði svo mörgum fallegum myndum af kjólnum.

Planið okkar var alltaf að hafa gott partý og ég veit ekki með ykkur en ég tengdi ekki alveg síðkjól og partý saman, og ákvað að fá mér samfesting til að vera í um kvöldið. Þetta var svo sjúklega þægilegt og ég mæli mjög með þessu fyrir þá sem nenna ekki að dansa, og í okkar tilfelli – fara í limbó,  í síðkjól. 

Ég pantaði samfestinginn líka á missguided.uk mjög ódýrt og fékk Eðalklæði til að sníða hann að mér. 

Bryndís Björt

02.02.18 í myndum

Hér eru nokkrar af uppáhalds myndunum mínum frá þessum besta degi.
Ljósmyndarar voru Dagbjört Kristín Helgadóttir og Jóhanna Hauksdóttir, sem eru algjörir snillar báðar tvær! 

Bryndís Björt

Brúðkaups skipulag frá a-ö

Nú elska ég að skipuleggja, eins og ég hef kannski sagt ykkur áður, og naut mín mjög við það að skipuleggja eitt stykki brúðkaup. Ég gerði laaangt word skjal með bókstaflega öllu sem mér datt í hug að þurfti að gera og langar að deila því helsta úr því með ykkur, því ég efast ekki um að það geti hjálpað einhverjum í svipuðu stússi. Ég fann nokkra svipaða lista og minn á netinu þegar ég var að gera þetta en breytti og bætti eftir mínu höfði. Svo þegar það fór að styttast í brúðkaupið gerði ég annan lista í miklu meiri smáatriðum til að fara eftir. Ég (og þá meina ég auðvitað ég og öll ómetanlega hjálpin sem við fengum) hefði ekki mögulega getað gert þetta án þess að hafa allt skrifað niður og getað gert eitt lauflétt tjékk við hvern hlut þegar hann var klár.

Fyrst gerði ég lista til að fylla út, svona um það hvað við vildum;

BASICS
Dagur:
Staður:
Athöfn (kirkja):
Veislusalur:
Budget:
Fjöldi gesta:
Þema:
Logo:

OKKAR LOOK
Hennar föt:
Hans föt:
Skart:
Skór:
Nærföt, sokkaband, sloppur:
Samfestingur:
Hár:
Förðun og neglur:
Yfirhafnir:

KIRKJAN
Prestur:
Píanó:
Hringaberi/blómabörn:
Hringapúði (tréplatti):
Dúllur úti (stjörnuljós):
Brúðarbíll:

VEISLAN
Veislustjórar:
Söngvari:
Ræður:
Skemmtiatriði/leikir:
Hljómsveit:
DJ:
Inniskór:

SALURINN
Borðauppröðun:
Gestabók:
Skjár:
Hljóðkerfi:
Þrif:
Snyrtiaðstaða á baði:

SKREYTINGAR
Skreytingar í kirkju:
Brúðarbíll:
Inngangur:
Myndaveggur (bakgrunnur):
Fordrykkur:
Dúkar:
Loft:
Svið:
Borðbúnaður:
Háborð:
Borðskreytingar:
Gjafaborð:
Eftirréttarborð:
Nafnspjöld og borðnúmer:
Brúðhjónaglös:
Blöðrur:
Partýbúnaður: plastglös og diskar
Gamlar myndir af okkur:
Aðrar skreytingar:

MATUR
Veisluþjónusta:
Fordrykkur + forforréttur:
Forréttur:
Aðalréttur:
Eftirréttur:
Brúðkaupskaka:
Drykkir með mat:
Bar:
Næturmatur:

ÞJÓNUSTA
Ljósmyndari:
Vídjó:
Boðskort og annað til að prenta:
Söngvari í kirkju:
Þjónar:
Brúðkaupsnótt:
Brúðkaupsferð:

TÓNLIST
Lag inn í kirkju:
Lag út í kirkju:
Tónlist í athöfn:
Fyrsti dansinn lag:
Hljómsveitar lög:
DJ lög:

ANNAÐ
Hashtag:
Óskalisti:
Þakkarkort:

 

Svo var það to do listinn með því sem þyrfti að gera á hverju tímabili fyrir sig;

12-10 mánuðir

Velja dag

 
Gera gestalista  
Bóka kirkju  
Bóka sal  
Bóka prest  
Velja veislustjóra  
Bóka söngvara  
Ákveða budget  
Ákveða þema  
Fara í kjólamátun  
Bóka ljósmyndara  
Bóka vídjó  
Bóka veisluþjónustu  
Byrja að plana brúðkaupsferð  
Bóka brúðkaupsnóttina

 

9-6 mánuðir

Ákveða blómaskreytingar og vönd

 
Kaupa kjólinn  
Byrja að panta skreytingar á netinu  
Ákveða brúðkaupsköku  
Bóka DJ  
Bóka brúðkaupsferð  
Ákveða rautt og hvítt  

5-3 mánuðir

Fara með kjólinn til saumakonu  
Fá frí í vinnu  
Ákveða matseðil  
Prófa kökuna  
Gera kostnaðaráætlun   
Myndaveggur  
Panta fleiri skreytingar  
Kaupa brúðarskó  
Kaupa samfesting  
Útbúa boðskort og setja í prentun  
Senda boðskort  
Bóka rútu  
Byrja að kaupa áfengi  
Bóka þjóna  
Bóka þrif á sal  
   

8-6 vikur

Staðfesta allar bókanir sem hafa verið gerðar  
Minnka samfesting  
Funda með ljósmyndara  
Ákveða nánar hvernig athöfnin fer fram  
Gera óskalista  
Hjúskaparvottorð  
Kaupa stjörnuljós  
Panta gestabók  
Prófa hár og förðun  
Vera klár með flestar skreytingar  
Kjóllinn 100% klár  

Prenta nafnspjöld og borðnúmer

 

5-2 vikur

Ákveða sætisröðun  
Gera FB hóp  
Hafa samband við þá sem hafa ekki svarað boðskorti  
Hafa rútu klára  
Emergency kit  
Skoða veður  
Gera hlutverka skjal fyrir þjóna og aðra  

 

Undir lokin gerði ég svo mjög detailaðan lista yfir það sem var eftir, hér er smá sýnishorn af honum enda verkefnin síðustu dagana eflaust mjög misjöfn;

– Funda með vídjómanneskju, ljósmyndara, þjónum, veisluþjónustu o.fl.
– Skreyta salinn
– Prenta út myndir og fá gamlar myndir úr albúmum
– Kaupa allt hráefni sem var eftir
– Skrifa bréf til hvors annars
– Staðfesta allar bókanir
– Hafa allar greiðslur klárar
– Polaroid myndir fyrir gestabók
– Hringar í pússun

… og margt fleira enda milljón hlutir sem koma upp svona í lokin, alveg sama hversu gott skipulagið er held ég 😉

Vonandi nýtur einhver góðs af!

Bryndís Björt

 

Boðskort

 

Boðskortin okkar.
Ég setti þau upp í word, bæði textann og logoið aftaná, og fékk Héraðsprent til að prenta í þremur mismunandi litum. Héraðsprent er prentsmiðja á Egilsstöðum og ég bara verð að fá að mæla með þeim hérna. Þjónustan þeirra var frábær, þetta var með þægilegustu fyrirtækjum sem ég dílaði við í undirbúningnum. Ég ætlaði fyrst að láta prenta kortin í Reykjavík fyrst við búum þar en eftir lítil og léleg svör frá nokkrum prentsmiðjum í bænum prófaði ég að tala við þau hjá Héraðsprent og fékk skjót svör og kortin voru tilbúin, nákvæmlega eins og ég hafði séð fyrir mér, eftir örfáa daga.

Við ákvaðum svo að halda áfram með þetta þriggja lita dæmi og höfðum borðnúmerin og nafnspjöldin í sama stíl, og Héraðsprent sá að sjálfsögðu um það líka. Þau prentuðu líka fyrir okkur gestabókina og svona ,,finnið sætin ykkar“ spjald. 

Ef þið eruð að leita að fyrirtæki til að prenta boðskort og slíkt, þá mæli ég með Héraðsprent – gott verð og minnsta mál að láta senda! Við höfðum svo polaroid myndavélar hjá gestabókinni þar sem fólk gat tekið mynd af sér og skilið eftir kveðjur, mæli mjög með því líka, sjúklega gaman að skoða bókina daginn eftir og það verður örugglega bara skemmtilegra eftir því sem lengra líður.

Bryndís Björt

 

Brúðkaup

HÆ! Mig langar að taka smá hlé frá interior færslunum og ætla að hafa hálfgert brúðkaupsþema í febrúar hér á síðunni, svona af því tilefni að við héldum okkar þann 2. feb sl.
Í undirbúningnum komst ég að því hvað það er að ótrúlega mörgu að huga og margt að ákveða, amk eins og við gerðum þetta. Mig langar því að fara yfir okkar helstu skref í þessu öllu saman og sýna ykkur aðeins frá okkar degi!
Í þessari fyrstu brúðkaupsfærslu ætla ég bara að byrja á byrjun, pinterest. Fljótlega eftir að við trúlofuðum okkur fórum við að plana hægt og rólega og ég eyddi ófáum stundum á pinterest og sótti mér allskonar innblástur og gerði mér moodboard áður en lengra var haldið.

     

Hvítt, gull, grátt og plöntugrænt varð semsagt þemað, og ég vildi hafa mikið af kertum og seríum enda vetur og dimmt úti!

Hér eru svo nokkrar myndir frá 2.2.18! Það er líka hægt að finna fleiri í instagram highlights hjá mér; @bryndisbjort. Fyrirfram sorry með snapchat gæðin – þetta eru mest myndir sem ég tók úr hóp story-inu sem við vorum með. Ég mun eflaust gera færslu með betri myndum, og þá frá ljósmyndara, þegar þær koma til okkar!

         

Annars vona ég að þið séuð til í þessa tilbreytingu með mér hérna og að þetta muni jafnvel nýtast einhverjum sem er að plana eitt stk. wedding!

Bryndís Björt

Auðveld brúðarförðun með Softlight frá Smashbox

Eins og ég var búin að lofa langaði mig að birta hér auðvelda brúðarförðun með Smashbox Softlight pallettunni sem ég fjallaði um í síðustu viku. Þá færslu er hægt að sjá HÉR. Ég ákvað að nota bleiku, bronsuðu og mauve tónana úr pallettunni til að gera rómantíska augnförðun en rómantísk förðun er að sjálfsögðu fullkomin fyrir stóra daginn 😉

Mig langaði að gera brúðarförðun sem myndi henta mörgum, væri ekki of ýkt og umfram allt rosalega mjúk og falleg. Mér finnst alltaf aðalatriðið þegar kemur að brúðarförðunum að húðin sé sem náttúrulegust og fær þá í staðin þá hjálp sem hún þarf til að jafna lit hennar og gefa henni heilbrigðan ljóma. Það var þá það sem ég hafði í huga þegar ég lagði af stað með þessa förðun.

Frá hægri til vinstri: Dr.Hauschka Bronzing Powder, Smashbox Cover Shot Softlight, MAC Painterly Paint Pot, Bobbi Brown Extra Lip Tint Bare Pink, Mac Fix+, MAC Strobe Cream Redlight, Makeup Geek Americano, RIMMEL Wake Me up Concealer, MAC Full of Joy, Estée Lauder Sumptuous Bold Volume Mascara, Smashbox Camera Ready BB Water.

Hér getið þið séð allar vörurnar sem ég notaði. Mig langaði að hafa húðina jafn mjúka og rómantíska og augnförðunina svo ég notaði virkilega léttar og ljómandi vörur á hana. Ég byrjaði á því að setja Strobe kremið frá MAC á allt andlitið og gerði síðan augnförðunina. BB vatnið frá Smashbox fór síðan yfir allt andlitið mitt og RIMMEL hyljaran notaði ég undir augun. Ég festi BB kremið og hyljarann með lausu glæru púðri sem sést reyndar ekki hér á myndinni en það gerði ég til að allt myndi haldast á sínum stað það sem eftir var af deginum. Ég notaði Bronzing púðrið frá Dr.Hauschka til að gefa húðinni smá hlýju og síðan fannst mér ekki koma annað til greina en að para kinnalitinn saman við bleiku augnskuggana á augnlokinu. Full of Joy kinnaliturinn frá MAC er alveg rosalega skemmtilegur þar sem hann hefur í sér lithverfan bleikan tón og er ljómandi. Glöggir taka kannski eftir því að á myndinni sjáið þið ekkert ljómapúður en það er einmitt vegna þess að ég notaði Softlights pallettuna frá Smashbox til að birta yfir húðinni minni! Ég notaði efstu tvo litina saman og ég er að segja ykkur það náttúrulegri ljóma finnið þið ekki! Fullkominn ljómi fyrir brúðarfarðanir. Á varirnar setti ég svo Bare Pink litinn úr vorlínu Bobbi Brown en hann er bæði léttur og nærandi fyrir varirnar.

En eigum við ekki að fara aðeins betur yfir það hvernig ég gerði augnförðunina? Ég byrjaði að sjálfsögðu á því að grunna á mér augnlokið og til þess notaði ég Painterly Paint Pot frá MAC. Næst tók ég dökkbrúnan mattan augnskugga í litnum Americano frá Makeup Geek og setti hann yst á augnlokið og dróg hann aðeins inn í glóbusinn. Mig langaði að dýpka aðeins skygginguna yst á augnlokinu svo ég notaði þennan dökka lit fyrst að það var enginn litur sem er svo dökkur í Softlight pallettunni. Til að blanda út þennan dökka lit tók ég Beach House úr Smashbox pallettunni og blandaði hann vel inn í húðina. Þann lit setti ég líka í glóbuslínuna. Næst tók ég Aglow og setti á mitt augnlokið. Innst á auglokið setti ég Spectacle og bleytti burstann minn með Fix+ frá MAC til að gera hann extra litsterkan. Í innri augnkrók blandaði ég svo litunum Spectacle og Keeper en það er einmitt sama kombó og ég notaði sem ljómapúður. Á neðri augnháralínuna setti ég Americano yst síðan blöndu af Spectacle og Keeper á restina af augnháralínunni. Ég blandaði þessum litum svo saman með Beach House. Til að ýkja aðeins efri augnhárlínuna áður en ég setti á mig Estée Lauder maskarann bar ég þunna línu af Americano meðfram augnhárunum í staðin fyrir eyeliner. Ég pressaði síðan litinn létt niður með litlaputta svo hann myndi ekki smitast.

Ég er allavega voðalega lukkuleg með þessa förðun og ég er að elska það að taka förðunarmyndir í náttúrulegri dagsbirtu með nýju vélinni minni! Ég er reyndar líka að elska það að mála mig þegar ég sé hvað ég er að gera en ég málaði mig alltaf nánast blindandi áður en ég fór í laserinn um daginn. Það er því aldrei að vita nema það fari að birtast fleiri svona færslur hjá mér. Vonandi elskið þið það bara jafn mikið og ég! 😉

Rannveig H.

Fylgdu mér á Facebook og Instagram (rannveigbelle)

 

Fullkomin brúðarpalletta

Ég held það sé enginn annar tími á árinu sem er jafn vinsæll fyrir brúðkaup eins og sumartíminn. Ég skil það bara alveg rosalega vel þar sem veðrið er líklegra til að leika við mann og allar myndir af deginum sjálfum verða bjartar og fallegar sem og brúðkaupið sjálft. Ég er kannski ein af þeim skrítnu en mér finnst haustin eitthvað svo heillandi þegar kemur að brúðkaupum en það er bara ég 🙂 Í tilefni þess að eflaust margir eru að fara að ganga niður gólfið þetta sumarið langaði mér að sýna ykkur eina fullkomna brúðarpallettu!

Pallettan kemur frá Smashbox og er úr Cover Shot línunni þeirra. Gerðin af pallettunni heitir Softlight og inniheldur átta mjúka litatóna sem eru ekkert annað en fullkomnir til að nota í brúðarfarðanir.

Litirnir eru allir ljómandi án þess þó að vera shimmer eða glimmer augnskuggar. Þeir hafa einhvern fínan ljóma yfir sér og þaðan kemur án efa nafn pallettunnar. Þeir eru því svona mitt á milli þess að vera mattir og ljómandi en það er frekar erfitt að útskýra áferðina á pallettunni svona í orðum en þið getið kíkt á hana og potað aðeins í hana á sölustöðum Smashbox ef þið eruð forvitin. Ég mæli með því.

Litirnir í pallettunni eru allt frá því að vera ferskjutóna, mauve litaðir, bronsaðir og gylltir svo allar brúðir eða bara hver sem er ættu að geta fundið sér léttan tón í pallettunni sem hentar þeirra smekk. Efstu tveir litirnir í pallettunni eru stærri en þeir sem eru fyrir neðan en þeir eru það því þetta eru vinsælir litir sem hægt er að nota í hvaða förðun sem er en þeir eru einnig tilvaldir til að nota til að setja léttan ljóma efst á kinnbeinin.

Hér getið þið séð litaprufur af öllum litunum en hér er greinilegt hversu léttir og mjúkir litirnir eru. Það er mikilvægt að kaupa ekki þessa palletu með það í huga að þið fáið brjálæðisleg litsterka augnskugga því það er ekki tilgangurinn með pallettunni. Litirnir eiga að vera léttir, mjúkir og náttúrulegir sem gerir það að verkum að þeir henta mögulega best ljósri húð. Efstu tveir litirnir í hendinni minni eru efstu tveir litirnir í pallettunni en þeir eru ekkert annað en sjúkir! Þessi bleiki hefur einhvern einstakan lithverfan tón í sér sem ég er viss um að myndi setja punktinn yfir i-ið í hvaða brúðarförðun sem er. Hann er án efa uppáhalds liturinn minn í pallettunni.

Það eru engir mattir litir í pallettunni svo það gæti verið að þið þurfið að bæta þeim við förðunina ef þið viljið dýpri skyggingu en það er samt vel hægt að nota brúnu litina í pallettunni í skyggingar. Ég ætla síðan að taka mig til og birta brúðarförðun bráðum með þessari dásemd til að þið getið fengið innblástur frá henni ef þið eruð í brúðarfarðana hugleiðingum 🙂 

P.S. Ef þið eruð að pæla í að nota þessa í brúðarförðun mæli ég að sjálfsögðu með því að nota góðan augnskuggagrunn eins og til dæmis Painterly frá MAC til að tryggja að augnförðunin haldist á sínum stað allan daginn og allt kvöldið!

Rannveig H.

Fylgdu mér á Facebook og Instagram (rannveigbelle)

 

Brúðarlínan frá Essie

_MG_8352

3_synishorn_send_til_profunar_ekki_kostudÉg er búin að bíða rosalega spennt eftir að skrifa þessa færslu en í henni langar mig að sýna ykkur nýju brúðarlínuna frá Essie! Línan er væntanleg í verslanir á næstunni en það er um að gera að fylgjast með Essie á Facebook til að vita nákvæmlega hvernær hún mætir því síðan er rosa dugleg að birta nýjar upplýsingar þar. Línan kemur í verslanir í takmörkuðu magni en hún er gullfalleg eins og þessar myndir sem ég tók sýna vel!

_MG_8350

Á hverju ári setur Essie á markað svokallaða brúðarlínu þar sem litirnir endurspegla vinsælustu brúðkaupslitina en litavalið í ár er sérstaklega fallegt. Ég er til að mynda töluvert hrifnari af þessari línu heldur en línunni sem var í fyrra þótt hún hafi líka verið flott. Það er samt einn litur í þessari línu sem mér finnst bera höfuð og herðar yfir hina en þið verðið að lesa lengra til að komast að því hver það er 😉

_MG_8387

Fyrsti liturinn er nú þegar kominn í verslanir en það er liturinn Mrs Always -right. Þetta er verulega fallegur litur en ég myndi lýsa honum sem klassískum „dusty rose“. Hann kemur út aðeins rauðari á þessum myndum en hann er í raun og veru svo þið vitið af því 🙂

_MG_8447-2

Hér sjáið þið litinn betur á nöglinni. Hann þekur rosalega vel og þegar ég set hann á mig þarf ég bara eina umferð. Virkilega fallegur litur sem henta brúðum sem vilja vera með neglur í stíl við rósrauða brúðarvöndinn.

_MG_8404

Liturinn Steal his name er þessi klassíski bleiki brúðarlitur. Hann er ekki heill svo liturinn hentar til dæmis vel sem grunnlitur fyrir „french manicure“. Lakkið gefur létta þekju svo ef þið viljið fá heilan lit þurfið þið líklegast tvær eða fleiri umferðir af þessu því það er í rauninni ekki ætlað til þess.

_MG_8445-2

Hér sjáið þið litinn á nöglinni. Hann hentar einstaklega vel fyrir hina látlausu brúður sem vill vera með náttúrulegar og vel snyrtar neglur á stóra deginum.

_MG_8409

Næstu þrír litir sem ég ætla að sýna ykkur eru litir sem ég gæti vel hugsað mér að skarta ef ég væri að fara að gifta mig. Þetta tjúllaða fjólubláa lakk ber heitið Groom Service og er ljós fljólublátt, næstum því pastellitað.

_MG_8453-2

Lakkið er heilt svo það þekur vel en ég myndi segja að það þyrfti svona eina til tvær umferðir af því til að ná fullri þekju. Þessi litur hentar vel brúðinni sem er tilbúin að taka áhættu og stíga út fyrir boxið.

_MG_8417

Liturinn Between the seats er grátóna hvítur sem er með flottustu hvítu lökkum sem ég hef séð! Liturinn er meira fílabeinshvítur en eitthvað annað svo hann hentar fullkomlega sem brúðarlakk.

_MG_8458-2

Hér sjáið þið litinn á nöglinni. Liturinn er heill svo ein til tvær umferðir af þessum ættu að duga til að þekja vel. Liturinn hentar óákveðnu brúðinni sem veit ekki alveg hvaða lakk skal velja en vill lit sem passar við allt. Ég veit að þessi litur kom í mjög takmörkuðu upplagi til landsins og þegar ég segi mjög takmörkuðu þá meina ég mjög takmörkuðu! Ef þið viljið eignast þennan þá skuluð þið hafa hraðar hendur þegar línan kemur í sölu því þess mun fara fljótt.

_MG_8427

Síðast enn alls ekki síst er komið að uppáhaldslitnum mínum og þeim lit sem mér finnst bera höfuð og herðar yfir alla hina! Þetta er liturinn Passport to happiness og er sanseraður mintugrænn. Ég hef aldrei séð neitt lakk áður sem líkist þessu svo ég féll kylliflöt fyrir því um leið og ég bar það augum!

_MG_8468-2

Ég held  að þetta yrði sá litur sem yrði fyrir valinu hjá mér fyrir giftingu því hann er svo svakalega fallegur og einstakur. Liturinn þekur vel en það gæti þurft tvær umferðir af honum til að fá 100% þekju á nöglina. Þessi litur hentar vel brúðinni sem vill neglur sem eru jafn mikill hluti af dressinu og brúðarslörið.

_MG_8373

Það er einn litur úr línunni sem kom ekki til landsins en það er liturinn Coming Together. Ég verð samt að segja að ég sakna hans lítið þegar að restin af línunni er svona falleg! Allt í allt er þetta æðisleg lína sem hentar einstaklega vel brúðum, blómastelpum eða bara okkur hinum sem elskum flott naglalökk 😉

-Rannveig H.

Fylgdu mér á Facebook til að fá nýjustu færslurnar beint í æð!

 

Rósahárband

 

37

Jæja þá er sá tími ársins kominn, nú fara fermingarnar að ganga í garð! Eflaust eru margar fermingarstúlkur á fullu í allskonar pælingum tengdum kjólnum og hárinu og ég veit ekki hvað og hvað. Ég man að ég var sjálf með rosalegar pælingar og ofhugsaði þetta alveg í gegn. Fyrir þær stúlkur sem eru að pæla í því hvernig þær eiga nú að hafa hárið langaði mig að deila með ykkur uppskriftinni að þessu bóhem rósahárbandi sem passar alveg pottþétt vel við fermingarkjólinn 🙂

harbanddid1

 

Hárbandið er heklað og má finna uppskriftina að því hér. Það tekur enga stund að gera bandið svo að fermingarstúlkan getur eflaust hent í eitt stykki sjálf ef henni finnst gaman að gera eitthvað í höndunum. Ég notaði kambgarn til að gera rósirnar en það er svolítið þykkt fyrir svona hárband svo að rósirnar verða frekar stórar og grófar Ef þið viljið fá fíngerðari rósir þá er um að gera að skipta bara um garn og nota eitthvað aðeins fínna. Það gæti til dæmis komið rosalega vel út að kaupa silkigarn og hekla rósir úr því.

114

 

Þegar ég var að fikta með hárbandið og taka myndir af því datt mér í hug að vefja því utan um snúðinn sem ég var með í hárinu og það kom svona rosalega vel út eins og þið sjáið á myndinni. Það gæti jafnvel verið flott að nota það í brúðargreiðslu ef verið er að fara að halda útibrúðkaup í sólinni í sumar (vonandi í sól allavega frekar en rigningu).

Ef ykkur vantar leiðbeiningar um hvernig á að sauma rósirnar á bandið sjálf þá skuluð þið endilega kíkið á myndbandið hér á síðunni þar sem ég sýni hvernig ég geri slaufuhárband. Ég notaði sömu tækni þar og hér til að festa rósirnar á borðann. Síðan væri vel hægt að henda í eitt svoleiðis í staðin fyrir rósarhárband þar sem slaufur eru víst hluti af fermingartískunni núna 🙂

undirskrift

 

Fylgdu okkur á


Follow