Eldri færslur eftir merkjum fyrir Breytingar

Umbreyttu eldhúsinu með einföldum breytingum!

Hér fylgja ýmis ráð til að hressa upp á heildarlúkkið í eldhúsinu. Mjög einfaldir hlutir en gera svo mikið. Myndir frá PINTEREST og flest af vörum úr LAGERHAUS sem er ein uppáhaldsbúðin mín hér í Svíþjóð.

EINFALDAÐU!

Þarftu virkilega 30 gaffla, 20 hnífa, tugatals tuskur og annað sem liggur bara upp í eldhússkápunum hjá þér eða yfirtekur uppþvottavélina ?( þar sem flestir ná sér bara í nýjan gaffall og hníf, þar til allt er búið í skúffunni! ) Farðu yfir skúffurnar heima hjá þér og minnkaðu magnið á eldhúsáhöldunum, efast um að margir haldi veislur svo oft að þeir þurfi á öllu þessu að halda. Það eru ekki að koma 30 gestir heim til þín og þessi hnífapör eru bara að taka pláss. Sama á við um tuskurnar, hjá mér allaveganna margfaldast þær bara hvert ár, þegar ég kaupi aðeins fleiri trefjatuskur í búðinni annan hvern mánuð, þar sem ég hef ekki nennt að þrífa þær sem ég á eða finnst þær bara vanta heim. Hentu helminginum og neyddu þig til að þrífa þær sem þú átt. Það er góð tilfinning að hreinsa út úr skápunum.

FEGRAÐU ELDHÚSIÐ!

Það sem liggur oftast frammi í eldhúsinu hjá flestum okkar er uppþvottalögur, uppþvottaburstar og viskastykki. Með því að kaupa fallegar flöskur fyrir uppþvottalöginn, hengja upp flott viskastykki og finna eitthvað skemmtilegt til að setja uppþvottburstann í, þá allt í einu verður allt svo hreinlegt og fallegt ( og hlutirnir verða ekki fyrir okkur í eldhúsinu eða við þurfum ekki að fela þá inn í skápum )

ALLT SEM ER GRÆNT, GRÆNT FINNST MÉR VERA FALLEGT!

Gerðu það grænt! þá meina ég ekki að henda grænum lit á allt eldhúsið, heldur að bæta við plöntum og kryddjurtum og hafa á nokkrum vel völdum stöðum í eldhúsinu. Þetta gerir heildarlúkkið svo ferskt og aðlaðandi.

MIKILVÆGI SKURÐARBRETTIS!

Vandaðu valið á skurðarbretti, veldu eitthvað sem gleður augað ( og er vel nothæft ) og hafðu það síðan frammi á eldhúsbekknum fyrir allra augum! Fallegt skurðarbretti og jafnvel einn bakka með.

Annars mæli ég með því að halda eldhúsinu minimalísku, minna er meira og vandið valið á því sem er frammi. Get lofað því að þið eigið eftir að elska heildarlúkkið þegar það sem þið sjáið er eitthvað sem þið völduð sjálf og fannst fallegt. Skiptir mestu máli að halda í ykkar stíl og njótið að eyða tíma í eldhúsinu!

Auður E.

Èg er einnig á Facebook. Endilega fylgið mér og mínum framtíðarbloggum þar!

 

Þvertoppur

Ég hætti ekki við að breyta til, skál fyrir mér! Ég samt var samt mjög nálægt þvi þegar ég settist í stólinn, en lét verða af því. Ég fór á hárgreiðslustofuna Funky á Akureyri og ég mæli svo innilega með þeim. Allir starfsmennirnir þar eru ekkert smá hressir og skemmtilegir og brjálæðislega hæfileikaríkir. Ég fer aftur þangað, ekki spurning! 

Hérna koma svo nokkrar myndir af breytingunni. 

image

image

image

 

 

Bless síða hár

Ég er aldrei að velta hlutunum lengi fyrir mér áður en ég tek ákvörðun. Þegar ég er að skoða föt þá er ég snögg að ákveða hvort ég kaupi þau eða ekki. Og þegar ég er á veitingastað þá er ég ekki með valkvíða nema í mesta lagi eina mínútu. Ekkert vesen. En þegar kemur að hárinu á mér hinsvegar…

Það er kannski þess vegna sem það endar oftast með því að verða rosalega sítt, og allir endar jafn síðir, af því ég fresta öllum breytingum á því. Svo stend ég fyrir framan spegilinn á morgnana og reyni að greiða úr öllu þessu hári, blóta því í sand og ösku og tek ákvörðun um að breyta til. Gera eitthvað klikkað. Seinna um daginn er ég á sömu skoðun en asnast að speglinum áður en eg tek upp símann og hringi á næstu hárgreiðslustofu sem endar með því að ég byrja að finna upp kosti við síða, flókna, óviðráðanlega hárið mitt.

NÚNA í þessari viku pantaði eg tíma á hárgreiðslustofu svo núna verður ekki aftur snúið! En að sjálfsögðu fór ég að efast um ákvörðun mína um leið og gekk svo langt að ég tók helling af myndum af mér, þar sem hárið var í aðalhlutverki, bara svona „svo ég gæti skoðað þær seinna meir og þá hugsanlega látið það síkka aftur og verða eins“. Spes, ég veit, en ég get ekki verið sú eina!
Þetta er því síðasta færslan með mitt síða hár (þetta á samt ekki að hljóma eins dramatískt eins og mér finnst þetta hljómar hahaha) og læt því fylgja þessar klassísku hárpósumyndir. Sem ég er jú orðin þrælvön í að taka þar sem ég tek þær í hvert skipti áður en ég fer í klippingu. Á myndunum er ekkert búið að eiga við hárið, einungis búið að þvo það og láta það þorna.
Stay tuned til að sjá nýja hárið á MORGUN!

image

 

 

 

Belle.is stækkar – Vilt þú vera með?

Ég verð að segja að ég er með pínu fiðring í maganum yfir þessari færslu. Það er nefnilega svoleiðis að þegar margir mánuðir hafa farið í undirbúningsvinnu þá er alltaf pínu óraunverulegt þegar að dagurinn rennur upp sem maður kjaftar frá leyndarmálinu. Fyrir nokkrum mánuðum síðan settist ég niður, tók upp blað og penna og hófst handa við að plana framtíð Belle.is. Það hefur alltaf verið ætlun mín að stækka síðuna en ég ákvað þó að stíga lítil skref í einu og opnaði því fyrst síðuna eins þið þekkið hana í dag. Á komandi mánuðum munu þó verða breytingar á þessu! Undanfarnar vikur hjá mér hafa einkennst af gríðarlega mikilli forritunarvinnu sem var og er fyrsta skrefið í áætlun minni til að stækka og betrumbæta síðuna. Annað skrefið er ég að stíga í dag.

Mig langaði aldrei að vera ein með bloggsíðu – að mínu mati er það bara ekki jafn skemmtilegt og að vera hluti af heild. Þess vegna mun ég í dag opna fyrir umsóknir fyrir þá sem vilja slást í hóp með Belle.is og gerast fastir pennar á síðunni. Það skiptir engu máli hver þú ert, hvort þú sért karlkyns eða kvenkyns, hvort þú hefur verið að blogga í nokkur ár eða hefur verið að íhuga að byrja. Belle.is mun verða stærri og sterkari á komandi mánuðum en til þess að ná því markmiði þarf frábært fólk sem er tilbúið til að slást í lið með mér!

Ad_Belle

Ég er ótrúlega spennt fyrir þessum breytingum og treystið mér þegar ég segi hversu flott síðan mun verða þegar breytingarnar ganga í gegn. Að lokum langaði mig að hvetja ykkur til að deila færslunni ef þið vitið um einhverja einstaklinga sem gætu haft áhuga á þessu hlutverki, því fleiri umsóknir sem berast því betra!

Ég hlakka ótrúlega mikið til að sjá allt sem þið hafið upp á að bjóða og sýna ykkur breytingarnar sem ég hef upp á að bjóða. Þetta verður eitthvað! 🙂

-Rannveig H.

 

Fylgdu okkur á


Follow