Eldri færslur eftir merkjum fyrir bleika slaufan

251.000 krónur til Bleiku slaufunnar!

Í dag labbaði ég stolt inn um dyrnar hjá Krabbeinsfélaginu og afhenti þeim 251.000 krónur sem söfnuðust við sölu á prjónuðu slaufunum mínum! Ég er eiginlega orðlaus yfir viðbrögðunum sem ég fékk frá ykkur kæra fólk en mig hefði aldrei grunað að það yrði tekið svona vel í þetta hjá mér. Í byrjun setti ég mér hátt markmið um að safna 200.000 krónum en fór svona líka langt yfir það þökk sé ykkur. Mér fannst ómetanlegt að fá frá ykkur í pósti falleg orð og að heyra sögurnar sem margar ykkar sendu mér um ykkar baráttu við krabbamein. Það er svo sannarlega mikilvægt að taka höndum saman til að safna fyrir svona málefni og ég er ótrúlega stolt af mínu og ykkar framlagi. Frá mínum innstu hjartarótum segi ég takk fyrir stuðninginn þetta er búið að vera alveg æðislegt ferli?

Ykkar Rannveig?

Fylgdu mér á Facebook og Snapchat (rannveigbelle) til að fá nýjustu færslurnar beint í æð!

 

Prjónuð slaufa fyrir Bleiku slaufuna

_mg_3784-2

Ef það er eitthvað málefni sem liggur mér næst þá er það Bleika slaufan. Í ár langaði mig að gera eitthvað öðruvísi en að fjárfesta einungis í einni slaufu en mig langaði að leggja fram stærri hjálparhönd þar sem þetta átak býr svo sannarlega í hjarta mínu. Brjóstakrabbamein er sjúkdómur sem hefur komið alltof oft við sögu í minni fjölskyldu en í hvert einasta skipti sem október gengur í garð og ég fæ að næla bleiku slaufuna í kápuna mína líður mér eins og ég sé að styðja við bakið á þeim fjölskyldum sem eru að ganga í gegnum það sama núna og við fjölskyldan gengum í gegnum þá. 

_mg_3730-2

Það er svo ótrúlega mikilvægt að finna fyrir stuðningi á þessum tíma sem óvissan ríkir en ég man að ég var ekkert alltof dugleg við það sjálf þegar að móðir mín greindist. Mesta óvissan á því tímabili var í kringum október og ég man hvað mér leið rosalega vel að geta nælt bleiku slaufunni í úlpuna mína því mér leið eins og ég væri að hjálpa jafnvel þótt ég gæti ekkert gert. Bleika slaufan hjálpaði mér því rosalega mikið á einu erfiðasta tímabili sem ég hef nokkurn tíman upplifað sem þó sem betur fer endaði vel og því langaði mig að leggja mitt af mörkum í ár.

_mg_3739-2

Þegar að bókin mín Slaufur kom út prjónaði ég handfylli af bleikum slaufum og var á leitarstöðinni á bleika deginum og gaf þeim konum sem mættu í skoðun eina slaufu. Þær vöktu mikla athygli og í ár tók ég því þá ákvörðun að prjóna hvorki meira né minna en 100 slaufur og selja til styrktar átaksins. Ég lagði fram allan kostnað og vinnu svo að hver einasta króna sem mun safnast við sölu slaufunnar mun renna óskert til Bleiku slaufunnar.

_mg_3804-2

Þetta er mín leið til að leggja hönd á plóg því ég veit fyrir víst að það vantar sárlega fjármagn þegar kemur að meðhöndlun á brjóstakrabbameini og biðlistar í dag eru orðnir alltof langir fyrir þá sem þurfa að komast í skoðun. Hver einasta króna skiptir máli og því langar mig að reyna að safna dágóðri summu með ykkar hjálp. Ein slaufa kostar að lágmarki 2.000 krónur hjá mér en að sjálfsögðu má leggja meira fram en það og borga eins mikið og þið viljið fyrir slaufuna svo lengi sem það er yfir 2.000 krónunum.

_mg_3723-2

Ef þið hafið áhuga á að kaupa slaufu þá getið þið sent mér tölvupóst á netfangið rannveig@belle.is. Ég mun þá senda ykkur reikningsnúmer tilbaka og þið getið millifært ykkar framlag inn á þann reikning. Eftir að millifærsla hefur átt sér stað fáið þið senda kvittun frá mér á netfangið ykkar og þið sýnið hana þegar þið sækið slaufuna ykkar. Slaufurnar eru afhendar hjá Krabbameinsfélaginu í Skógarhlíð 8 en þær hjá Krabbameinsfélaginu voru svo yndislegar að vilja hjálpa mér með þetta. Ég mun svo afhenda þeim upphæðina sem hefur safnast í lok mánaðarins.

_mg_3788-2

Slaufurnar má svo nota sem nælur en ég hef oft sett mína í síða keðju og notað sem men um hálsinn. Vonandi takið þið vel í þetta hjá mér og vonandi söfnum við sem mest í sameiningu. Margt smátt gerir eitt stórt!?

#fyrirmömmu & #fyrirömmu

Ykkar Rannveig?

Fylgdu mér á Facebook til að fá nýjustu færslurnar beint í æð!

 

Við erum bleik í október!

untitled-design-38

Einhverjir hafa eflaust tekið eftir smávægilegri lita- og logobreytingu sem átti sér stað hjá okkur í morgun en við ætlum að sjálfsögðu að taka þátt í bleikum október með Bleiku slaufunni og erum því orðin bleik! Verið þess vegna viðbúin fyrir fullt af skemmtilegum bleikum færslum þennan mánuðinn en við hvetjum ykkur að sjálfsögðu til að skottast út í búð og fjárfesta í að minnsta kosti einni bleikri slaufu. Margt smátt gerir eitt stórt og Bleika slaufan er svo sannarlega málefni sem varðar okkur öll. 

bleikaslaufan_1980x727

Í ár er einblínt á brjóstakrabbamein en aðal áherslan er lögð á konur frá aldrinum 40-69 ára þar sem sá hópur er í hvað mestri áhættu þegar kemur að brjóstakrabbameini. Hverri einustu krónu af söfnunarféinu í ár er síðan varið óskert til endurnýjunar á tækjabúnaði til leitar að brjóstakrabbameini.

Kaupum bleiku slaufuna í október #fyrirmömmu því hún er nú best!

-Rannveig H.

Fylgdu mér á Facebook til að fá nýjustu færslurnar beint í æð!

 

 

Fylgdu okkur á


Follow