Eldri færslur eftir merkjum fyrir Bjartsýni

Ný byrjun eftir bugun.

Eftir bugun síðustu mánuði hefur lífsneistinn minn kveiknað aftur. Get ekki sagt að síðustu mánuðir hafa verið einfaldir og þetta hefur verið áskorun. Ég hef fallið í þunglyndi vegna mikils missis, fallið í mikil veikindi og verið algjörlega buguð. Brosið hefur samt alltaf verið til staðar, en er það ekki málshátturinn: brosa í gegnum tárin. Stundum hefur brosið verið ekta en oft bara ég að reyna að vera hress og ekki brotna niður.

Eins og við flest öll göngum í gegnum áföll í lífinu þá er það hvernig við komum út hinum megin sem skiptir máli. Ég finn að ég er sterkari og veit að ég get tekið því sem kemur í framtíðinni. En framtíðin var orðin frekar svört í huganum mínum lengi vel, sem er mjög ólíkt mér þar sem ég hef alltaf verið bjartsýn og jákvæð. Alltaf litið á framtíðina með björtum augum og vitað fyrir vissu að allt eigi eftir að fara vel. Þarna var ég farin að efast um það og sá bara fyrir mér slæmu hlutina sem líklegast biðu, velti mér upp úr hlutunum og átti erfitt með að vera glöð. Það var ástæðan fyrir að ég gerði bloggið um 5 aðferðir til að öðlast hamingju, þarna var ég að reyna að vera hamingjusöm aftur, finna aðferðir og reyna að nota sjálf. Sumar aðferðirnar gengu vel og ég fann að ég varð glaðari en aðrar eins og að missa sig ekki í mat/sætindi til huggunar, var ekki að ganga fyrir mig. Ég féll fyrir sykurpúkanum og var oft með magapínu, og það olli mér bara meiri óhamingju.

Mér fannst sem of mikið slæmt væri að koma yfir okkur á sama tíma, þetta myndi bara halda áfram en það var bara hörmuleg tilviljun. Nú tel ég að það hafi verið til ýta á mig til að verða sterkari og allt þetta var einfaldlega lífsreynsla.

Það eru svo margir í kringum mig núna að ganga í gengum vonda hluti og ég dáist að styrk þeirra. Þið eruð öll hetjur!

Nú hefur hulunni verið lyft af huganum mínum, finn að ég er glaðari, sterkari, jákvæðari og ég er loksins aftur orðin bjartsýn á framtíðina. Er farin að plana aukna hreyfingu, betra matarræði og ég henti sykurpúkanum öfugum út! Lífið er gott og það er meðal annars okkar hugarfar sem gerir það gott, hvað sem kemur fyrir þá er það mikilvægasta hvernig við tæklum það, aldrei að gefast upp og líta alltaf á björtu hliðarnar. Þær eru þarna og ég fann þær aftur.

 

 

 

Fylgdu okkur á


Follow