Eldri færslur eftir merkjum fyrir barnateppi

Boho barnateppi

_MG_5459

faerslan_er_ekki_kostudMig langaði að sýna ykkur barnateppi sem ég prjónaði um daginn og hefur fengið viðurnefnið tveggja daga teppið hjá mér og það ekki af ástæðulausu! 😉

_MG_5504

Uppskriftina að teppinu keypti ég á Ravelry HÉR en hún er á norsku. Teppið er ótrúlega fljótlegt og svakalega auðvelt og það þarf furðulega lítið garn í það en ég notaði tæpar þrjár dokkur ef ég man rétt.

_MG_5533

Garnið sem ég notaði er frá Rowan og heitir Chunky en mér sýndist á heimasíðunni þeirra að það garn sé hætt í framleiðslu en í uppskriftinni er mælt með tveimur öðrum tegundum af garni sem gott væri að nota. Aðalatriðið er að garnið sé nógu gróft því að prjónastærðin sem notuð er fyrir teppið er númer 10. Teppið er stærra á breiddina en það er á lengdina en það er að sjálfsögðu hægt að aðlaga það með því að prjóna mynstrið eins oft og þú vilt til að fá rétta lengd.

_MG_5511

Teppið er engan veginn ætlað til að halda hlýju á einu né neinu enda frekar gisið til þess. Það hentar þó vel til að skreyta barnavagna, bílstóla, rimlarúm og annað eða þá bara til að leggja yfir barnið í sófakúri.

_MG_5487

Hér getið þið séð betur smáatriðin í teppinu sem stendur svo sannarlega undir nafni sem Boho teppi. Einn punktur sem ég get gefið ykkur ef þið ætlið að prjóna teppið er varðandi tjullið neðst. Mér fannst það vera svolítið stutt þegar ég fylgdi uppskriftinni svo ég klippti mína spotta helmingi lengri en sú lengd sem var gefin upp þar og mér fannst það koma mikið betur út.

_MG_5459

Ég mæli klárlega með þessu teppi því maður er enga stund að skella í eitt svona ef manni er boðið í skírn með stuttum fyrirvara eða barn fæðist á undan áætlun. Það er nefnilega alltaf svo gaman að gefa eitthvað handgert og þá tala ég nú ekki um ef verkið tekur stuttan tíma 🙂

-Rannveig H.

Fylgdu mér á Facebook til að fá nýjustu færslurnar beint í æð!

 

 

Fylgdu okkur á


Follow