Eldri færslur eftir merkjum fyrir augnhár

Miss K Lashes!

Það er aldeilis langt síðan ég bloggaði síðasta, en það er eingöngu vegna tímaleysis seinustu vikur. Bæði var ég að flytja úr húsinu mínu í Garðabæ í æðislega íbúð í Kópavogi og svo stofnaði ég mitt eigið fyrirtæki í leiðinni. Allt þetta gerði ég með börnin í sumarfríi hangandi í mér …. þið vitið hvernig þetta gengur fyrir sig.

En þeir sem þekkja mig vel vita að ég er algjört fiðrildi. Ég hef áhuga á svo mörgu og langar helst að gera allt í gær. Núna datt mér í hug að bæta við mig smá menntun í snyrtibransanum. Ég er förðunar og naglafræðingur en núna er ég einnig byrjuð að gera augnháralengingar.

Ég hef skrifað ófáar greinar um augnháralengingar og lofsamað þær eins og mér einni er lagið, þannig að afhverju ekki að byrja að gera þær sjálf?

Hún Inger snyrtimeistari sem ég hef alltaf farið til er að flytja til Ólafsfjarðar og ætlar að opna stofu þar. Mér fannst því tilvalið að biðja hana um að kenna mér að gera augnháralengingar og hún var svo yndisleg að taka mig að sér.

Eftir margra vikna æfingu, límd augu, grátur og hlátur stofnaði ég MISS K LASHES.

Hugmyndin var að byrja að vinna við þetta þann 6. ágúst. En um leið og ég bjó til FB síðu og Instagram fyrir Miss K um miðjan Júlí þá fór boltinn að rúlla. Mér var gjörsamlega HENT í djúpu laugina á met tíma og vá hvað það er búið að vera gaman. Er búin að læra svo ótrúlega mikið, kynnast svo skemmtilegu fólki og fyrst og fremst horfa á fyritækið mitt vaxa og blómstra sem er yndisleg tilfinning.

Ætla að nota tækifærið og þakka vinkonum mínum kærlega fyrir að hafa verið módel hjá mér þegar ég var að byrja að læra. Það er ekki gefið að vinkona manns nenni að sitja í stól hjá þér klukkutímum saman á meðan þú límir á hana augnhár á skjaldbökuhraða. En þetta gerðu þær og þær eiga stóran part í því að ég er komin með þá færni sem ég er með í dag.

Inger elskulegi mentorin minn er síðan engri lík enda með 4 ára reynslu í augnháralengingum! Ótrúlega fær og virkilega góður kennari. Hún var alltaf til staðar og peppaði mig upp þegar ég var að missa trúnna á sjálfri mér.

Og svo má ekki gleyma elsku mömmu sem passaði fyrir mig dögunum saman þegar ég var að byrja. Án hennar gengur ekkert upp í mínu lífi það er bara sannleikurinn!

Mig langar endilega að bjóða ykkur að fylgja Miss K Lashes á FB og á Instagram.

Takk elskulegu viðskiptavinir fyrir að vera svona yndislegar við mig á mínum fyrstu vikum í faginu. Þolinmæðin og jákvæðnin sem þið hafið sýnt mér gaf mér styrk til að halda áfram. Það er alltaf erfitt að gera eitthvað í fyrsta skipti og það er ótrúlega auðvelt að verða hræddur og hætta við. En þegar þú færð jákvætt viðmót verður allt auðveldara.

Ykkur er velkomið að panta tíma í augnháralenginu á FB síðu Miss K eða á Instagram!

 


Katrín Bjarka

Netfang: katrin@belle.is

Instagram: katrin.bjarkadottir

Facebook: www.facebook.com/katrinbjarkad

Á augnhárunum mínum

Ég er með sérstakar kröfur þegar kemur að maskörum og þess vegna tek ég mér alltaf ágætis tíma til að prófa nýja maskara þegar þeir koma á markað. Ég hef alltaf sagt að maður þarf að gefa nýjum maskörum góðan séns eftir að maður opnar þá því að oft tekur smá tíma fyrir þá til að virka nákvæmlega eins og þeir eiga að gera. Þetta er oftast vegna þess að það er mikið af formúlu í túpunni og þar af leiðandi mikið af vöru sem kemur á burstann við fyrstu notkun svo maður þarf að nota maskarann nokrum sinnum til að það minnki aðeins í túpunni og maður fari að fá eðlilegt magn af vöru á burstann. Ég er því búin að prófa þessa fegurð sem þið sjáið hér á myndinni í þó nokkurn tíma. Bold & Bad Lash er nýjasti maskarinn frá MAC og hann er búinn að vera á augnhárunum mínum frá því að ég fékk hann í hendurnar en hann er ekki bara fallegur á að líta heldur er hann einnig þrælgóður! Eigum við samt eitthvað að ræða þessar umbúðir… þær eru bara einum of flottar en orðin á umbúðunum eru skrifuð á með flauelsstöfum takk fyrir góðan daginn!

Maskarinn sjálfur er tvískiptur en hann inniheldur tvo maskarabursta! Ekki nóg með það heldur eru tvær mismunandi formúlur í maskaranum þar sem að ein formúla fylgir stærri burstanum sem er ætlaður fyrir efri augnhárin og seinni formúlan fylgir neðri burstanum sem er ætlaður fyrir neðri augnhárin. Litli burstinn er staðsettur í lokinu á maskaranum og stingst niður í stóra burstann. Ég nota sjaldan maskara á neðri augnhárin nema þá bara þegar ég er að gera smokey augnförðun svo ég nota alltaf minni burstann til að bera maskara alveg yst á efri augnhárin mín og greiða þannig vel úr þeim þegar að ég er búin að nota stærri burstann. 

Hér getið þið séð mig með maskarann á augunum. Ég vil alltaf að maskarar gefi mér smá þykkt og mikla lengd og Bold & Bad Lash frá MAC gefur mér það svo sannarlega. Maskarinn smitast ekki þegar ég er með hann yfir daginn og svo er mjög auðvelt að taka hann af sér á kvöldin. Það eru einhverjar allra mestu tiktúrur sem ég er með þegar kemur að maskörum – ég vil að hann haldist á allan daginn en að það sé auðvelt að taka hann af sér þegar að því kemur. Ég þoli ekki að þurfa að nudda maskara af mér og því finnst mér þessi æðislegur. Mæli með!

Eruð þið búin að prófa þennan?

 Rannveig H.

Fylgdu mér á Facebook og Instagram (rannveigbelle)

 

Lengri augnhár með drottningu maskaranna!

IMG_2964

3_synishorn_send_til_profunar_ekki_kostudÞá er komið að einni splunkunýrri og sjóðheitri umfjöllun um nýja uppáhalds hversdagsmaskarann minn sem hefur gert ó svo mikið fyrir mín augnhár. Eruð þið ekki alveg örugglega til í þetta því ég get alveg lofað ykkur því að þessi maskari mun hitta beint í mark hjá mörgum ykkar?!

IMG_2966

Við ætlum aðeins að fjalla um nýjustu viðbótina við maskarflóðið frá Helenu Rubinstein. Maskarinn heitir Lash Queen Wonder Black Mascara og er sérstaklega hannaður til þess að þétta og örva vöxt augnháranna við hverja notkun. Maskarinn er svartur, gefur rosalega náttúruleg augnhár, molnar ekki og endist heilan vinnudag án þess að smitast á augnlokið eða undir neðri augnhárin sem í sjálfu sér er nóg fyrir mig til að geta kallað maskarann góðan. Maskarinn gerir samt svo miklu miklu meira en ég kem betur inn á það hér rétt á eftir. Maskaratúpan sjálf er eins og hið fínasta stofustáss en túpan er alveg fagur gulllituð en endanum á henni hefur verið dýft ofan í svart lakk. Fáránlega flott hönnun.

Eitt maskaratrix sem mig langaði að skjóta hér inn í óháð þessum maskara er að vera alltaf pínu þolinmóður þegar þú ert að prófa nýja maskara í fyrsta skiptið. Við fyrstu notkun virka maskarar sjaldnast eins og þeir eiga að gera því oft er svo mikil formúla í túpunni sjálfri. Gefið nýjum maskörum því nokkur tækifæri áður en þið dæmið hann en það tók mig til dæmis næstum viku að venjast þessum. Eftir þessa viku var aðeins farið að minnka í túpunni og maskarinn var byrjaður að virka eins og hann á að gera og þá var sko ekki aftur snúið. 

IMG_2967

Bursthausinn er spíral mótaður en þið getið séð á þessari mynd að burstinn er alveg snúinn. Ég skal vera fyrst til að viðurkenna það að ég var smá stund að venjast burstanum en um leið og ég komst upp á lagið með að nota hann fannst mér hann æðislegur. Burstinn á að hjúpa hvert einasta augnhár við hverja stroku og að mínu mati nær hann því alveg ótrúlega vel. Mér finnst hann meira að segja ná að grípa öll litlu augnhárin mín sem hjálpar til við að láta augnhárin virðast þéttari og meiri. Formúlan sjálf inniheldur síðan serum sem inniheldur pro-keratin og ceramider sem auka hárvöxt augnháranna með hverri notkun. Helena Rubenstein segir að maður eigi að sjá sjáanlegan mun á augnhárunum eftir 4 vikur og ég ákvað því að taka maskarann í heilmikla prófun og prófa þessa staðhæfingu.

Fyrsta notkun og eftir fjórar vikur (engin augnhárabrettari notaður, bara maskarinn)

Ég veit ekki með ykkur en ég sé alveg heilmikinn mun á efri augnhárunum mínum og ég var ekki með stutt augnhár fyrir notkun. Ég finn líka rosalega fyrir muninum sem að gefur eiginlega bestu myndina af því hversu mikið maskarinn er búin að gera fyrir augnhárin mín. Þið getið náttúrulega ekki fundið fyrir breytingunni sem að ég finn, því miður, svo að myndin verður að duga sem sönnunargagn 😉 Augnhárin mín eru orðin töluvert lengri en þau voru og það er ekkert annað sem ég hef gert nema skipta út gamla maskaranum mínum og byrja að nota þennan. 

IMG_2965

Alveg hreint æðislegur maskari sem er búinn að eignast fastan stað í snyrtibuddunni minni og þá er sko mikið sagt því ég er mjög dugleg að svissa á milli hluta þar. Maskari sem að gerir það sem hann segist ætla að gera og maður getur hreinlega ekki beðið um meira en það! 🙂

Rannveig H.

Fylgdu mér á Facebook og Instagram (rannveigbelle) til að fá nýjustu færslurnar beint í æð!

 

Lancôme Grandiôse nýjungar

img_1895

3_synishorn_send_til_profunar_ekki_kostudÍ Lancôme hátíðarförðuninni minni (HÉR) sem ég birti fyrir stuttu síðan notaði ég nýja Grandiôse maskarann og eyelinerinn frá Lancôme en mig langaði að sýna ykkur vörurnar aðeins betur í sér færslu. Þið sáuð ágætlega hvað vörurnar gátu gert í hátíðarförðuninni en alls ekki nóg að mínu mati 😉

img_1896

Margir kannast eflaust við upprunalega Grandiôse maskarann sem kom á markað hér heima árið 2014 en núna er kominn í verslanir ný útgáfa af maskaranum… Grandiôse Extrême! Upprunalegi Grandiôse maskarinn átti að lengja og þykkja augnhárin en þessi gerir það sama nema enn ýktara auk þess að vera extra svartur!

img_1894

Þeir sem þekkja þann upprunalega vita að maskaragreiðan er með sveigðan háls sem á að auðvelda ásetningu og sjá til þess að maskarinn fari alveg frá rót augnháranna og út til enda þeirra. Með henni á líka að vera auðvelt að ná til augnháranna sem eru innst í augnkróknum. Hárin á burstanum sjálfum er síðan raðað tvö og tvö saman til skiptis frá einni röð til annarrar til að aðskilja og greiða vel úr augnhárunum en inni á milli eru hálf hár sem eiga að gefa meiri mýkt og nákvæmni. Endingin í þessari formúlu á síðan að vera betri en á þeim upprunalega þar sem þessi inniheldur latex en ég kem aðeins inn á endinguna hér rétt fyrir neðan 🙂

img_1893

Ásamt maskaranum kom þessi flotti eyeliner sem er æðislegur til að gera inn fullkomna spíss! Skaftið á þessum er hægt að beygja í þá átt sem að hentar notandanum og auðveldar því ásetninguna þar sem maður er ekki að fetta og bretta upp á hendina til að ná á ákveðna staði.

img_1898

Linerinn er alveg kolsvartur og alveg mattur! Hann gefur því ótrúlega flotta og eðlilega línu meðfram efri augnhárarótinni en að sjálfsögðu má ýkja hana með að því þykkja línuna og setja á hana spíss. Það gerði ég einmitt á myndinni hér fyrir neðan.

img_1899

Hér sjáið þið mig með bæði linerinn og maskarann. Endingin á báðum vörunum er eiginlega fáránlega góð en maskarinn haggast ekki alla daginn sama hvað ég er að gera! Ég fór meira að segja með hann í spinning um daginn og hann leit bara nákvæmlega eins út eftir tímann og hann gerði fyrir hann. Eyelinerinn endist síðan lygilega vel á augnlokinu mínu en ég á oftast í mestu vandræðum með að ná honum af því hann festist svo vel á augnlokinu! Hann er því rosalega endingagóður, smitar ekki og helst kolsvartur allan daginn. Það sama má segja með maskarann en hann hvorki molnar né smitar út frá sér. 10 stig fyrir endingu frá mér!

img_1897

Virkilega flottar nýjungar í Grandiôse línuna og ég hugsa að allar íslenskar konur sem hafa prufað upprunalega maskarann og vilja eiga hann enn ýktari og svartari eiga eftir að falla kylliflatar fyrir þessum. Mæli með!

-Rannveig H.

Fylgdu mér á Facebook og Snapchat (rannveigbelle) til að fá nýjustu færslurnar beint í æð!

 

– Eylure appið –

eylureapp

faerslan_er_ekki_kostudÞegar ég var að skoða aftan á einn pakkann af nýju Eylure augnhárunum rak ég augun í auglýsingu um appið þeirra. Eylure er sem sagt með app sem hægt er að hlaða niður í hvaða snjalltæki sem er en í appinu er hægt að hlaða inn mynd af sér til að prófa augnhárin sem að Eylure hefur upp á að bjóða. Mér fannst þetta alveg sjúklega sniðug hugmynd! Það er þá hægt að prufa augnhárin á andlitinu áður en maður fjárfestir í þeim til að koma í veg fyrir það að kaupa augnhár sem að fara ekki þinni augnumgjörð. Virkilega sniðugt!

Hér er hægt að sækja appið í App Store 
Hér er hægt að sækja appið í Google Play

-Rannveig H.

Fylgdu mér á Facebook og Snapchat (rannveigbelle) til að fá nýjustu færslurnar beint í æð!

 

– Eylure til Íslands! –

untitled-1

3_synishorn_send_til_profunar_ekki_kostudÞað er ótrúlegt að sjá hversu stór snyrtivörumarkaðurinn er orðinn hér á landi og sú þróun virðist engan endi ætla að taka! Fyrir mína parta er ég mjög ánægð enda forfallinn snyrtivörusjúklingur en nýjasta merkið sem er væntanlegt til landsins og fer í sölu á morgun er augnháramerkið Eylure! Ég fékk í hendurnar í gær nokkur stórglæsileg augnhár frá þeim og núna kemur ekkert annað til greina en að læra að setja á sig augnhár! Ég hef nefnilega ekkert verið neitt sérstaklega góð í því hingað til nema þau séu þá hálf eða „singles“ 🙂

untitled-2

Eylure merkið er yfir 65 ára gamalt og var víst eitt af fyrstu augnháramerkjunum í heiminum. Ég las mér til um merkið á netinu og saga þess er ekkert annað en heillandi! Merkið var stofnað af bræðrunum David og Eric Aylott sem voru förðunarfræðingar í kvikmyndabransanum en þeir unnu með stjörnum á borð við Katherine Hepburn. Sophia Loren og Ingrid Bergman. Ástæðan fyrir tilkomu Eylure var einfaldlega þörfin fyrir vörunni en bræðurnir byrjuðu á því að búa til sín eigin augnhár til að ýkja augnumgjörð stjarnanna og notuðu þá hártopps-/hárkollulím til að festa þau á augnlokin. Þetta gekk betur en þeir bjuggust við og út frá þessu fæddist merkið. Bræðurnir voru líka þeir fyrstu sem kynntu fljótandi eyeliner fyrir Bretlandi en það er önnur saga 😉

untitled-4

Merkið er með ótrúlegt magn af augnhárum í boði en maður verður eiginlega að sjá úrvalið til að trúa því þar sem mörg þeirra eru mjög ólík öðrum augnhárum sem ég hef séð persónulega. Það koma líka í sölu allskonar sniðugir aukahlutir fyrir augnhárin eins og „eyelash applicator“, augnhárabrettari og augnháralím svo eitthvað sé nefnt.

Eins og ég minntist aðeins á hér fyrir ofan þá fara augnhárin í sölu á morgun (fimmtudag 24.nóv) og verður komu þeirra fagnað í Lyf & Heilsu Kringlunni kl. 5 til 9 ásamt því að forsala verður á nýja demantasvampinum frá Real Techniques. Ég sýni ykkur hann að sjálfsögðu betur í sér færslu bráðum en hann fer í almenna sölu 1.des 😉

-Rannveig H.

Fylgdu mér á Facebook og Snapchat (rannveigbelle) til að fá nýjustu færslurnar beint í æð!

 

Fylgdu okkur á


Follow