Rannveig

IMG_0360

Ég ákvað að fara óhefðbundnu leiðina í ár þegar kemur að því að merkja jólagjafirnar. Oftast hef ég merkt alla mína pakka með merkispjöldum sem ég kaupi í Ikea eða álíka en í ár langaði mig að gera eitthvað öðruvísi svo ég kom sjálfri mér í föndurgírinn. Mig langaði að gera merki sem að fólk gæti endurnýtt í eitthvað annað því að þessum hefðbundnu spjöldum er oftar en ekki bara hent í ruslið.

IMG_0002

Ég ákvað því að búa til persónulegt jólaskraut fyrir hvern og einn sem fær gjöf frá mínu heimili og eftir miklar pælingar ákvað ég að búa til stafaskraut. Hugsunin á bakvið skrautið var að sjálfsögðu sú að stafirnir myndu merkja gjafirnar en bónusatriðið er að á komandi árum væri hægt að skreyta jólatréið eða annað með upphafsstöfum fjölskyldumeðlimanna. Eini gallinn er sá að viðtakendurnir verða bara að muna frá hverjum pakkarnir koma! Það er líka hægt að redda því með að merkja aftan á hvern staf með svörtum penna frá hverjum gjöfin er.

Stafina bjó ég til úr köldu postulíni eftir uppskrift sem ég fann á netinu nema ég skipti maísmjöli út fyrir kartöflumjöl. Það er að sjálfsögðu hægt að nota hvað sem er til að búa til stafina hvort sem það er fimo leir, trölladeig eða venjulegur leir svo lengi sem að efniviðurinn verður harður þegar hann þornar. Mótið fyrir stafina keypti ég í Tiger en það inniheldur ekki íslenska stafi. Ég bjó nú samt til Þ með því að breyta aðeins P-inu sem fylgdi í pakkanum svo það er vel hægt að redda sér 🙂

IMG_0355

Þegar að kalda postulínið þornar verður það hálfglært ef að þið hafið ekki bætt málningu við deigið, en það er hægt að bæta við nokkrum dropum af hvítri málningu (eða hvaða lit sem er) til að losna við þennan hálfglæra eiginleika. Ég ákvað hinsvegar að mála mína stafi með gylltri málningu sem ég fékk í A4 eftir að þeir voru þornaðir og fór svo létt yfir stafina með glimmernaglalakki til að það myndi glitra fallega á þá undir jólatréinu. Það sést ekkert alltof vel á þessum myndum en það er einstaklega fallegt þegar að marglituðu jólaseríurnar lýsa upp glimmerið á stöfunum, mjög jólalegt!

IMG_0361

Götin gerði ég í stafina áður en þeir þornuðu og þegar þeir voru tilbúnir þræddi ég í gegnum þau gróft band sem ég fékk líka í Tiger. Það er síðan hægt að þræða fallegan borða í gegnum þau í staðin, fer allt eftir ykkar smekk og í hvernig stíl pakkarnir ykkar eru.

Ég er ótrúlega ánægð með skrautið og vona svo sannarlega að þetta endi á jólatréinu hjá fólkinu mínu en ekki í ruslinu eftir að pakkinn hefur verið opnaður 😉

Ég sýni ykkur svo hvernig pakkarnir líta út hjá mér þetta árið en fyrst þarf ég bara að koma mér í það að byrja að pakka inn! Jólin eru bara allt í einu komin og það er ekki seinna vænna en að byrja!

-Rannveig H.

2 Athugasemdir

Skildu eftir athugasemd

Netfangið þitt mun ekki vera birt

 

Fylgdu okkur á


Follow