Rannveig

Færslan er ekki kostuð

Mig langaði að deila með ykkur smá snilld sem ég fann í nóvember og hef verið að nota óspart síðan þá! Svona til þess að gefa ykkur smá baksögu þá er fátt sem mér finnst leiðinlegra en að fara í ræktina (nema kannski að ryksuga). Ég get alveg skroppið í tíma eins og spinning og mér finnst það alveg ágætt en bara þetta „concept“ að fara í ræktina heillar mig ekki og hefur aldrei gert. Ég tók því þá ákvörðun á seinasta ári að byrja að þjálfa mig upp á öðruvísi hátt. Síðasta haust byrjaði ég því að fara út í göngutúr á hverjum einasta degi með góða hljóðbók í eyrum því mér finnst miklu skemmtilegra að ganga rösklega heldur en að hlaupa. Í nóvember langaði mig síðan að fara að þjálfa mig meira og ákvað að HIIT eða High-intensity Interval Training væri eitthvað fyrir mig. Það myndi koma brennslunni á fullt, þjálfa þá vöðva sem ég vildi stinna og tæki ekki langan tíma. Þess vegna uppgötvaði ég Fitness Blender og hlustiði nú…!

Fitness Blender er vefsíða sem er alveg ókeypis og inniheldur fjöldan allan af æfingarmyndböndum með æfingum sem er hægt að gera heima í stofu! Þú getur valið nákvæmlega hvaða tegund af æfingu þú vilt gera, hvaða þjálfara þú vilt hafa, hversu lengi æfingin á að vera, hversu erfið hún á að vera, hvort hún á að vera með tækjum eða ekki og svo framvegis. Vægast sagt algjör snilld og ég skil eiginlega ekki hvernig þetta getur verið ókeypis!

HÉR er til dæmis uppáhalds æfingin mín. 15 mínútna HIIT prógram sem reynir á allan líkamann og hressir mig all svakalega við en ég reyni að gera æfinguna annan hvern dag. Ég er ekkert sérstaklega mikið að hugsa um að grenna mig, heldur bara að hreyfa mig og vera hraust án allra öfga og því er þetta prógram fullkomið fyrir mig.

Vonandi mun þessi síða bara gagnast fleirum en mér fannst algjör snilld að deila henni með ykkur hérna í janúar þegar allir eru að reyna að komast í kjólinn eftir jólin! 😉

P.S. Ég er síðan að vinna í nýjustu Bachelor færslunni akkúrat núna en hún kemur örugglega ekki inn fyrr en á morgun til þess að gefa fleirum tækifærið að horfa á þáttinn. Þar til þá❤️

-RH / @rannveigbelle

0 athugasemdir

Skildu eftir athugasemd

Netfangið þitt mun ekki vera birt

 

Fylgdu okkur á


Follow