Rannveig

/- For my english readers, you can find the google translate button in the footer below

Jæja er ekki kominn tími til að ég fari aðeins yfir Jaclyn Hill pallettuna mína!? Þessa er ég núna búin að nota að ég held í yfir mánuð og því komin með nokkuð góð tök á henni og flestum augnskuggunum sem leynast í henni. Mér finnst afar ólíklegt að þið hafið ekki rekist á Jaclyn Hill x Morphe pallettuna á einhverju Instagram rápi en pallettan hefur verið ein sú umtalaðasta síðan hún kom á markað. Pallettan selst upp í hvert skipti sem fyllt er á hana á Morphe síðunni og því svolítil heppni að ég hafi getað nælt mér í hana en það var sko ekki auðvelt skal ég segja ykkur!

Fyrst þegar að pallettan kom út ætlaði ég að sjálfsögðu að næla mér í eitt stykki enda búin að bíða ekkert smá lengi eftir henni. Þá kom í ljós að það eru paraben í pallettunni og þar sem ég er með ofnæmi fyrir þeim var pallettan úr sögunni fyrir mig. Þegar pallettan var svo orðin uppseld kom í ljós að vitlaus innihaldsefni höfðu verið sett á síðuna og það eru í rauninni engin paraben í henni… Ég varð vægast sagt pirruð en líka glöð því þá gat ég keypt mér pallettuna. Ég beið því þar til pallettan fór aftur í sölu nokkrum vikum síðar og gat með miklum erfiðleikum nælt mér í hana. Ef þið ætlið að næla ykkur í pallettuna næst þegar fyllt er á, borgið þá bara strax í gegnum paypal því Morphe síðunni er eitthvað voðalega illa við íslensk kort. Pallettan var komin til mín á einhverjum tveimur vikum svo sendingin var fljót en mjög dýr! Kostaði mig einhverja 25 dollara ef ég man rétt.

En þá að pallettunni sjálfri! Pallettan inniheldur 35 liti á öllu litrófinu frá fjólubláum yfir í appelsínugulan. Áferðirnar á augnskuggunum sjálfum eru einnig margar en þær eru mattar, glansandi, mettalic, shimmer og svo er líka einn augnskuggi sem inniheldur glimmer. Þetta er fyrsta augnskuggapallettan frá Morphe sem ég hef prófað og þar sem ég hef haft frekar neikvætt álit á merkinu varðandi viskiptahætti þeirra og svo sem jákvætt álit frá „business standpoint“ þá hafði ég ekki miklar væntingar fyrir pallettuna en vá hvað hún kom mér á óvart! Ég elska hana!!!

Hér getið þið séð litaprufur af öllum litunum. Sumir af augnskuggunum í pallettunni standa sig betur en aðrir en allir augnskuggarnir sem eru með glansandi áferð bera höfuð og herðar yfir möttu augnskuggana. Þeir minna mest á foiled augnskuggana frá Makeup Geek ef þið hafið prufað þá en þegar líða tekur á daginn eiga þeir til að smita aðeins út frá sér upp á efra augnlokið. Það er samt bara það sem gengur og gerist með svona kremaða og mjúka augnskugga svo það pirrar mig ekkert. Möttu litirnir eru síðan eins misjafnir og þeir eru margir. Sumir blandast ótrúlega auðveldlega og vel meðan að aðrir eiga það til að „skip-a“ á auglokinu, þ.e.a.s. myndast pínu bil á milli litsins þegar verið er að blanda honum út. Þetta á sérstaklega við um dekksta brúna litinn Central Park. Það fannst mér pínu fúlt því þetta er eini dökkbrúni liturinn í pallettunni sem er ekki of hlýtóna. Pallettan í heildina litið er frekar hlýtóna svo ef þið elskið ekki hlýtóna augnskugga þá er þessi palletta kannski ekki alveg fyrir ykkur. Uppáhaldsliturinn minn í pallettunni er klárlega Faint en hann er frekar kaldtóna kampavíns bleikur en ég elska að nota hann bara einan og sér á augnlokið svo flottur er hann. Ég hefði kannski viljað sjá örlítið meiri litamun á efstu fjórum litunum á hendinni minni á myndinni hér fyrir ofan en þessi pör af litum svipa eiginlega of mikið til hvors annars svo það er erfitt að sjá mun á þeim þegar þeir eru komnir á augun.

Pallettan kostar 38 dollara + 25 dollara sirka í shipping svo ég var að greiða einhvern 8000 kall fyrir hana komna heim að dyrum með tolli og öðrum gjöldum. Hver augnskuggi í pallettunni er því frekar dýr en þar sem ég er svona ánægð með hana og hef varla notað aðra pallettu síðan að ég fékk þessa, finnst mér pallettan bæði hafa verið biðinnar og peninganna virði. Þið verðið síðan svolítið að meta hvort hún sé þess virði fyrir ykkur.

Ég mæli allavega með henni 🙂

 Rannveig H.

Fylgdu mér á Facebook og Instagram (rannveigbelle)

 

2 Athugasemdir

Skildu eftir athugasemd

Netfangið þitt mun ekki vera birt

 

Fylgdu okkur á


Follow