Rannveig

Gleðilegt nýtt ár elsku lesendur! Ég vona að þið hafið nú haft það sem allra best yfir áramótin og notið vel með ykkar nánustu við hlið. Ég hafði það alveg ofboðslega gott og tók glamúrinn upp á næsta stig með þessum áramótakjól sem ég fékk í Zöru.

Hvert einasta ár strengi ég áramótaheit en í ár ákvað ég að heitið mitt yrði einfalt og hnitmiðað þó eflaust getur verið erfitt að fylgja því endrum og eins. Mitt áramótaheit í ár er að gera meira af því sem ég elska og minna af því sem eykur vanlíðan. 

Þegar ég lít tilbaka á árið 2017 þá hefur það verið frekar glatað bara til að vera alveg hreinskilin. Mikið um vonbrigði og sorg en að sjálfsögðu hefur gott leynst á milli. Ég tek því fagnandi á móti 2018 þar sem ég ætla að reyna að njóta komandi stunda með mínum nánustu, standa með sjálfri mér og gera það sem veitir mér gleði. 

Ég ætla líka að einbeita mér að því hérna á blogginu á þessu ári að fræða frekar en kynna ef svo má að orði komast. Ég hef alltaf lagt mikla áherslu á það að fara vel yfir nýjar vörur og mig langar að halda áfram að gera það nema á annan hátt. Þótt ég segi sjálf frá þá er ég yfirfull af fróðleik um snyrtivörur og mér finnst ég einfaldlega ekki hafa deilt nógu mikið af þeim fróðleik hér inni. Síðasta mánuðinn hef ég því einbeitt mér meira að sýnikennslum á blogginu, sem ég mun halda áfram að gera og ég vona að þið hafið haft og munuð hafa gaman að því. Ég er líka með skemmtileg plön fyrir Instagramið mitt svo fylgið mér endilega til þess að missa ekki af komandi nýjungum þar. Þið finnið mig undir @rannveigbelle. Mig langar líka að deila lífinu í Köben meira en ég er ekki almennilega komin á skrið þar svo ég hef í rauninni ekkert haft til þess að deila með ykkur. Vonandi fer það nú að breytast.

Ég hef enga sérstaka tilfinningu fyrir þessu ári og ég er bara spennt fyrir þeirri staðreynd. Ég vona að árið 2018 verði okkur öllum gott! 2018 – besta árið hingað til?

-RH (Finnið mig á Instagram: @rannveigbelle)

0 athugasemdir

Skildu eftir athugasemd

Netfangið þitt mun ekki vera birt

 

Fylgdu okkur á


Follow