Rannveig

Haustjakki og haustfögnuður

Fyrir stuttu skrapp ég á stórglæsilegan haustfagnað Bestseller þar sem við fengum að fá smjörþefinn af haustinu hjá þeim en haustfagnaðurinn var haldinn á Mathúsi Garðabæjar. Ég hef ekki farið leynt með skoðanir mínar á matnum þar enda ekki annað hægt en að vera hrifin/n af honum! 🙂 

Við fengum litla kynningu á nýrri línu sem var að koma í Vero Moda en sú lína heitir Aware og leggur áherslu á klassískar gæða og tímalausar flíkur sem eru unnar úr endurnýjan- eða endurnýtanlegum efnum. Við fengum einn bol úr Aware línunni með okkur heim frá boðinu og ég er varla búin að fara úr mínum síðan hann er svo þægilegur. Mig langaði síðan að sýna ykkur betur nýja haustjakkann minn úr Vila sem ég féll einmitt fyrir á haustfagnaðinum ásamt Aware bolnum mínum en fyrst langaði mig að sýna ykkur nokkrar myndir sem ég smellti af á fagnaðinum sjálfum. Þið getið smellt á myndirnar til að stækka þær.

Dressið mitt er síðan mjög mikið ég þar sem það einkennist af klassískum og þægilegum sniðum og er að sjálfsögðu svart og hvítt… en ekki hvað!

Objcarol Coatigan var bara að lenda í Vila en hann er hinn fullkomni haustjakki fyrir mig. Hann er ekki of hlýr og ekki of kaldur enda er hann fóðraður að innan og loðinn að utan. 

Áferðin á honum er rosalega skemmtileg enda pínu eins og sloppur að utan – I love it!

Hvíti bolurinn er síðann hinn fallegi Aware bolur sem ég fékk í boðinu en hann er hvorki meira né minna en gerður úr trefjum sem eru unnar úr plöntum sem eru fljótar að endurnýja sig eins og Eucalyptus og kallast Tencel. Bolurinn mun brotna algjörlega niður í umhverfinu þegar honum er fargað en efnið er virkilega mjúkt viðkomu. Eins og ég segi – ég er varla búin að fara úr honum frá því ég fékk hann svo ég skellti mér í Vero Moda í gær og nældi mér í einn svartan og einn gráan Aware bol. Bolurinn er í stærð Large fyrir þá sem vilja vita en ég vil alltaf hafa svona stuttermaboli vel víða á mér.

Buxurnar sem ég er í eru síðan hinar dásamlegu Play Jeggings frá Oroblu. Þetta eru búnar að vera uppáhalds buxurnar mínar í sumar alveg klárlega! Ég var búin að lofa að sýna ykkur þær betur þegar ég keypti þær en mig minnir að ég hafi ekki gert það enn! Ég tók mínar í small og þær smellpassa eins og flís við rass. Hér er ég búin að bretta upp á þær til að sýna skóna aðeins en þær ná annars alveg niður fyrir ökla.

Klassískt og þægilegt dress – svona líður mér best! 🙂

 Rannveig H.

Fylgdu mér á Facebook og Instagram (rannveigbelle)

 

OPI x ICELAND!!!

Þá er ég komin aftur á skrið eftir stutt en mjög gott frí og það er sko heldur betur mikið búið að ske! Ég missti nánast andlitið þegar ég sá að OPI var að gefa frá sér heila línu tileinkaða Íslandi svo ég get hreinlega ekki annað en sýnt ykkur hana í þessar fyrstu færslu minni eftir sumarfríið 😀

Iceland línan frá OPI er haustlínan þeirra í ár en hún inniheldur 12 mismundandi liti ásamt einu litlu setti af  fjórum lökkum en litirnir eru allir innblásnir af íslenskri náttúru og þjóð. Það hefur því aldrei verið jafn gaman fyrir mig að lesa heitin á litunum eins og nú en þau vísa öll í íslenska náttúru og menningu. Ég mæli því klárlega með því að þið rennið í gegnum þau hér fyrir neðan því þau eru mjög skrautleg!

Hér sjáið þið öll lökkin 12 en þau eru frá vinstri til hægri: I’ll have a Gin and Tectonic, Aurora Berry-alis, Reykjavík Has All The Hot Spots, One Hekla of a Color, Icelanded a Bottle of OPI, Krona-logical Order, That’s What Friends Are Thor, Suzi & The Artic Fox, Turn On The Northern Lights!, Less is Norse, Check Out the Old Geysirs og This Isn’t Greenland.

Hér getið þið svo séð myndir af hverjum og einum lit betur en þeir eru samt ekki í sömu röð og litirnir á myndinni hér fyrir ofan.

OPI gaf síðan frá sér þetta fallega myndband með línunni og maður getur eiginlega ekki annað en fyllst stolti af því að kom frá þessu fallega litla landi. Það er hvergi betra að vera en hér… þó það þurfi kannski að breytast smá hjá mér á næstunni 😉

Ég veit ekki með ykkur en þessi lína heillar mig alveg upp úr skónum og það er ekki bara af því að hún er innblásin af Íslandi. Mér finnst þetta ein flottasta haustlína sem hefur komið frá OPI í langan tíma enda er hún stútfull af einstökum litum og þá heilla mig súkkulaðibrúnu og pastel hautlitirnir mest. Ég á samt eiginlega bara í vandræðum með að velja uppáhaldslitinn en ef ég þyrfti að velja ætli það yrði þá ekki One Hekla of a Color… og Krona-logical Order.

 Rannveig H.

Fylgdu mér á Facebook og Instagram (rannveigbelle)

 

Varaliturinn fyrir sumarfríið!

Góðan dag! Það er greinilega komið smá sumar í mig því mér finnst ég vera orðin voðalega löt við að skrifa… allavega svona miðað við vanalega. Eftir þessa færslu ætla ég því að skreppa í stutt sumarfrí og alveg að reyna að taka mig úr sambandi frá umheiminum næstu tvær vikurnar. Það er allt á haus í lífinu mínu akkúrat núna (og ekki á neikvæðan hátt þá 😉 ) þannig að það gæti komið ein færsla frá mér um það bara svona til að leyfa ykkur að fylgjast með hvað er í gangi en annars ætla ég bara að vera í fríi 🙂

Í dag hinsvegar langar mig að sýna ykkur þennan fáránlega flotta varalit frá MAC sem ég er búin að vera að teygja mig mikið í undanfarnar vikur.

Eins og alltaf tek ég myndir af vörum áður en ég prófa þær svo ekki fá þær ranghugmyndir að varliturinn sé svona ósnertur út í dag því það er svo sannerlega ekki raunin 😉 Liturinn heitir Bunny Beams og kemur úr Color Rocker línunni sem kom í sölu í MAC fyrr í sumar. Línan kom í takmörkuðu magni svo ég er kannski pínu sein að fjalla um hana en ég fór nú samt í MAC um daginn og þá sá ég að Bunny Beams var ennþá uppi svo ég ákvað bara að fjalla um hann samt þar sem ég er svo hrifin af honum!

Varaliturinn er mattur og er svona mitt á milli þess að vera kaldtóna bleikur eða fjólublár. Hann passar því fullkomlega við litarhaft þeirra sem eru frekar kaldtóna eins og ég. Varaliturinn er típískur MAC varalitur – rosalega þægilegur á vörunum og endist lengi þar sem hann er mattur. Virkilega flottur litur til að hafa með í sumarfríið!

Annars þá bara heyrumst við aftur eftir ekkert of langan tíma en þar til þá vona ég bara að þið njótið sumarsins elsku lesendur!❤️

Rannveig H.

Fylgdu mér á Facebook og Instagram (rannveigbelle)

 

Förðun með Max Factor

Fyrir viku síðan fór ég á relaunch hjá Max Factor eins og ég sagði ykkur frá hér á blogginu og fékk með mér nokkrar vörur heim í poka. Ég ákvað því bara að skella í heilt Max Factor lúkk en þetta er í fyrsta skipti sem ég nota almennilega vörur frá þeim. Sumar vörurnar slógu alveg í gegn hjá mér meðan aðrar voru kannski ekki alveg eins og ég vildi hafa þær en allt í allt var ég mjög sátt með lúkkið sem ég gerði.

Í pokanum var að finna sjúklega fallegan sægrænan sanseraðan eyeliner og það kom ekki annað til greina en að nota hann í förðunina. Ég ætlaði að blanda honum út á allt augnlokið en þar sem hann þornaði fyrr en ég bjóst við ákvað ég frekar að gera frekar skarpt eyeliner lúkk þar sem eylinerinn er svona mitt á milli þess að vera notaður sem eyeliner og að vera notaður sem augnskuggi. Lúkkið sem þið sjáið hér á myndunum var því útkoman. Mér finnst þetta lúkk alveg lúmskt töff en það er frekar svona „editorial“ legt.

Face Finity All Day Flawless 3 in 1 Foundation, Color Corrector Sticks, Creme Puff Blusher í litnum Lavish Mauve, Khol Eye Liner Pencil í litnum Brown, Excess Intensity Lasting Eyeliner, Eyebrow Pencil í litnum Hazel, Masterpiece High Precision Liquid Eyeliner, 2000 Calorie Mascara.

Hér sjáið þið svo vörurnar sem ég notaði. Ég byrjaði á því að nota öll litaleiðréttingarstiftin þeirra til að litaleiðrétta andlitið mitt en þetta gerði ég einkum þar sem að farðinn átti að duga sem hyljari líka en ég vildi gefa honum smá aðstoð. Ég setti örlítið af bleika stiftinu undir augun ásamt því gula, græna litinn setti ég við nefið mitt til að fela roðann þar og fjólubláa stiftið setti ég á hökuna, kinnarnar og á mitt ennið til að birta yfir þeim svæðum. Ég blandaði síðan öllu út með fingrunum en ég myndi mæla frekar með því að þið blandið litunum með rökum svampi því ég held að það muni virka betur fyrir þessi stifti. Næst gerði ég augun mín á meðan ég lét litaleiðréttinguna alveg þorna fyrir farðaásetninguna.

Ég grunnaði auglokin mín með Painterly Paint Pot frá MAC (eins og alltaf) og fór síðan að setja bláa eyelinerinn á augnlokið. Ég teiknaði það form sem ég vildi hafa og blandaði síðan aðeins út skilin með hreinum blöndunarbursta. Til að fylla inn í formið sem ég teiknaði setti ég nóg af eyelinernum á fingurinn og pressaði litnum á augnlokið. Við það hitnaði aðeins eyelinerinn og varð extra litsterkur. Í efri vatnslínuna mína setti ég blá eyelinerinn en í neðri vatnslínuna setti ég brúna eyelinerinn. Ég tók síðan kinnalitinn á lítinn Duo Fiber blöndunarbursta og blandaði honum aðeins út í kringum augun til að fá meiri dýpt í förðunina. Mauve liturinn af kinnalitnum og blái eyeliner liturinn passa skemmtilega saman finnst mér og komu mjög vel út á augunum. Þegar ég var búin að þessu setti ég örfína línu alveg upp við efri augnhárin mín af Masterpiece High Precision fljótandi eyelinernum og setti svo 2000 Calorie maskarann á augnhárin. Þá gat ég loks klárað andlitið mitt en það eina sem ég gerði þar var að setja á mig farða, smá laust púður undir augun og svo mótaði ég kinnarnar mínar með kinnalitnum. Á varirnar setti ég svo varalitinn Simply Nude en aulinn ég gleymdi að hafa hann með á vörumyndinni 🙂

Þetta var þá útkoman. Það er rosalega skemmtilegt að nota vörur ekki alveg eins og þær eiga að vera notaðar eins og þið sjáið að ég gerði með kinnalitinn og eyelinerinn en maður á alltaf að vera óhræddur að leika sér með snyrtivörur – það er nefnilega alltaf hægt að þvo þær af!

Eigið þið ykkur einhverja Max Factor vöru sem þið standið við og ég hreinlega verð að prófa? Látið mig vita því mig langar endilega að kynnast merkinu betur 🙂

Rannveig H.

Fylgdu mér á Facebook og Instagram (rannveigbelle)

 

TAX FREE óskalistinn

Ég er svo mikið að reyna að halda aftur af mér á Tax Free í Hagkaup núna en mig langar svo mikið að kaupa mér eitthvað til að bæta í sístækkandi snyrtivörusafnið mitt! Ég er að reyna að halda aftur af mér því ég ætla að kaupa Jaclyn Hill augnskuggapallettuna þegar hún kemur aftur í sölu og það eru alveg 35 augnskuggar í henni! Ég er búin að vera alveg vitlaus í augnskugga frá því ég losnaði við gleraugun mín (ég þarf að fara að skrifa færsluna um það ferli bráðum) og mig langar helst bara að gera einhverja svaka augnförðun á hverjum einasta degi og eiga alla augnskugga sem til eru! En það er alltaf hollt að leyfa sér að dreyma og hér sjáið þið því TAX FREE óskalistann minn 🙂

Urban decay Moondust palletta

Smashbox Cover shot palletta í litnum Golden Hour

Real Techniques Ready Set Glow

Real techniques Fresh Face Favorites

Clinique Beyond Perfecting Foundation + Concealer

Colorista Washout í litnum Purple

YSL Mon Paris ilmur

Öll sumarlínan frá Essie!

Eins og þið sjáið er nóg á óskalistanum hjá mér og þar efst á toppi trónir Moondust pallettan og öll sumarlínan frá Essie en hún er ekkert annað en tjúlluð! Mig langar svo lúmskt að skella nokkrum fjólubláum Colorista Washout strípum í mig í sumarfríinu og sjá hvernig það kemur út! Aldrei að vita nema ég geri það og sýni ykkur útkomuna 🙂

Rannveig H.

Fylgdu mér á Facebook og Instagram (rannveigbelle)

 

KKW Beauty Contour Dupe!!

Þær sitja ekki auðum höndum Kardashian systurnar en nýlega stofnaði Kim Kardashian sitt eigið snyrtivörumerki líkt og systir hennar Kylie og heitir merkið KKW Beauty. Fyrsta varan sem kemur frá merkinu var þetta contour/skyggingar og highlight/ljóma sett sem þið sjáið á myndinni hér fyrir ofan ásamt bursta og svampi. Settið kostar hvorki meira né minna en 48 dollara! Í pakkanum eru tveir skyggingarlitir, einn dökkur og einn ljósari, tveir lýsingarlitir, einn mattur og einn ljómandi.

Stiftin eru vægast sagt búin að vera mjög umdeild síðastliðna daga þar sem bróðurparturinn af umsögnum sem þau eru búin að fá hafa verið lélegar. Stiftin eru bókstaflega að brotna í höndunum á fólki enda ekki að furða þar sem maður fær fáránlega lítið af vöru fyrir verðið sem maður er að borga en ég skal brjóta niður fyrir ykkur kostnaðinn hér á eftir. Formúlan sem slík hefur fengið ágætis dóma en fólk getur ekki litið framhjá öðrum gæðum sem einfaldlega eru ekki til staðar. Flestir segja að þetta sé vara sem hefur verið flýtt út á markaðinn til þess að koma merkinu af stað og til að græða pening. Burstinn á víst að vera bara la la og svampurinn á víst að vera hræðilegur. Ég get að sjálfsögðu ekkert sagt til með það og sérstaklega ekki þar sem ég hef ekki prófað vöruna sjálf en mér finnst þetta allt vera rosalega grunsamlegt og um að gera að rannsaka hlutina svo maður hoppi ekki um borð í „hype“ lestina án þess að vita neitt. Hér er því niðurbrotinn kostnaður á vörunni miðað við gengi dollarans í dag (102,56 kr). 

Varan sjálf = 48 dollarar

Sendingarkostnaður = sirka 10 dollarar

Tollur og önnur gjöld = 1428 krónur

Samtals = 7376 krónur

Magn vöru í grömmum = sirka 3,6 grömm

Þannig að fyrir hvert gramm af vöru ertu að borga rúmlega 2000 krónur!!!

Ég veit ekki með ykkur en mér finnst það fáránlegt verðlag fyrir svona lítið magn en maður verður líka að hafa í huga að það er verið að borga fyrir KKW nafnið alveg eins og þegar kemur að Kylie snyrtivörunum. Vörurnar eru dýrari því að það kostar að nota nafnið þeirra. Fyrir ykkur eins og mig sem finnst þetta aaaaaaaðeins og mikið af því góða langaði mig að koma með tilögu að „dupe-i“ eins og maður segir á góðri ensku eða ódýrari vöru sem að gerir það sama og KKW Contour settið. Vörurnar koma frá Maybelline og eru meira en helmingi ódýrari fyrir mikið meira en helmingi meira magn!

Hér sjáið þið tvennuna sem getur áorkað nákvæmlega því sama og KKW Contour stiftin. Þetta er Master Contour stiftið og Master Strobing stiftið frá Maybelline. Bæði koma í tveimur litatónum svo hægt er að finna tón sem hentar vel þínu litarhafti. Hér sjáið þið verðið samanborið við hitt.

Master Contour = sirka 7 grömm kosta 1599 (Hagkaup ekki tax free þó það sé tax free núna 😉)

Master Strobing Stick = sirka 7 grömm kosta 1249 (Hagkaup ekki tax free þó það sé tax free núna😉)

Þannig að fyrir hvert gramm af vöru ertu að borga rúmlega 200 krónur – það er 10x minna enn fyrir KKW vöruna!

 

Contour stiftið er tvískipt eins og þið sjáið á þessar mynd en öðru megin er skyggingarlitur og hinu megin er mattur lýsingarlitur. Formúlan er rosalega mjúk og blandast auðveldlega og gefur mjög náttúrulega „varla þarna“ skyggingu alveg eins og KKW Beauty stiftin eiga að gera. Strobing stiftið er síðan rosalega mjúkt líka og gefur svakalega fallegan og mikinn ljóma sem hægt er að byggja upp eða tóna niður.

Countour stiftið mitt er í litnum Light og Strobing stiftið er í litnum Light – Iridescent. Contour stiftið er fullkomið fyrir mitt litarhaft en það er ekki of hlýtóna og alls ekki of kaldtóna þannig að það lúkki grátt. Strobing stiftið er síðan með fallegan bleikan undirtón í sér sem hentar vel köldu litarhafti eins og mínu.

Hér getið þið svo séð skref fyrir skref hvernig ég nota vörurnar til að móta andlitið mitt. Það er hægt að smella á myndirnar til að sjá þær betur. Ég byrjaði með farða á andlitinu og bar síðan Contour stiftið á andlitið mitt, bæði ljósa og dökka litinn. Ég setti dökka litinn á ennið, undir kinnbeinin, á hliðarnar á nefninu mínu og meðfram kjálkanum. Ljósa litinn setti ég í einskonar þríhyrning undir augun og undir skyggingarlitinn undir kinnbeininu. Ég blandaði síðan skyggingar litinn út með RT Bold Metals Contour bursta og ljósa litinn með RT Bold Metals Blush bursta. Eftir þetta setti ég Strobing stiftið ofan á kinnbeinin og blandaði úr því með fingrinum og Blush burstanum. 

Hérna sjáið þið svo útkomuna – mjög náttúruleg „varla þarna“ mótun. Að mínu mati er því algjör óþarfi að blæða í KKW settið, nema náttúrulega að það muni veita ykkur gleði en fyrir okkur hin þá er auðveldlega hægt að ná sömu útkomu mun ódýrara! 🙂

Rannveig H.

Fylgdu mér á Facebook og Instagram (rannveigbelle)

 

Max Factor relaunch

Í dag skrapp ég á stutta hádegiskynningu hjá Max Factor ásamt nokkrum öðrum og skemmti mér mjög vel. Max Factor hefur verið í sölu hér á landi í dágóðan tíma en nú hafa nýir eigendur tekið við merkinu og á heldur betur að taka það í gegn og því vel við hæfi að hafa relaunch!

Það er áhugaverð saga sem að liggur á bakvið merkið en fyrir þá sem ekki vita heitir merkið eftir rússneska efna- og förðunarfræðingnum Max Factor. Hann vann með mörgum af skærustu stjörnunum á gullöld Hollywood, stjörnum eins og Marilyn Monroe, Ava Gardner, Jean Harlow og Marlene Dietrich. Það var svo árið 1916 sem hann hóf að selja augnskugga og augabrúnablýanta en það var í fyrsta skipti sem að slíkar vörur voru í boði fyrir almenning utan kvikmyndabransans. Fjórum árum síðar fæddist Max Factor vörulínan. Max Factor var auk þess sá fyrsti sem kynnti orðið „make-up“ í orðaforða allra förðunarsnillinga og lifir það orð enn virkilega góðu lífi í dag myndi ég segja 😉 Mér fannst það alveg svakalega áhugavert en auðvitað hefur einhver fundið upp á því orði einhverntíman og núna veit ég hver! Þekking Max Factor og hæfileikar hans urðu til þess að hann hlaut heiðursverðlaun á Óskarnum fyrir framlög sín til kvikmyndabransans þegar kemur að förðun en hann á einnig stjörnu á The Hollywood Walk of Fame. Svo er líka gaman að segja frá því að Max Factor er langafi Davis og Dean Factor stofnanda Smashbox!

Það er stundum svo dásamlegt að kynna sér aðeins betur merki sem maður í rauninni vissi lítið sem ekkert um og ég veit ekki með ykkur en mér finnst þessi saga alveg æðisleg og svakalega heillandi!

Hér eru nokkrar myndir sem ég tók á kynningunni í dag bara að gamni 🙂

Við fórum svo ekki tómhent heim en ég fékk þessa gullmola með mér í poka og hlakka rosalega til að pota aðeins í allt og segja ykkur betur frá ef mér líkar vel.

Þar til næst!❤️ 

Rannveig H.

Fylgdu mér á Facebook og Instagram (rannveigbelle)

 

Hvernig á að nota Paint Pot?

Ein af mínum allra dáðustu snyrtivörum er án efa Pro Longwear Paint Pot frá MAC í litnum Painterly. Ég geri ekki eina einustu augnförðun án þess að nota Painterly fyrst sem þið hafið eflaust tekið eftir í sýnikennslunum hjá mér hér á blogginu 😉 En hvað er Paint Pot? Í þessari færslu langar mig að fara aðeins yfir hvað Paint Pot er og hvernig það er hægt að nota vöruna því það er nefnilega hægt að nota hana á svo margan mismunandi hátt.

Ég kynntist Paint Pot fyrst þegar ég keypti mér Painterly fyrir nokkrum árum eftir að hafa horft á Youtube myndbönd frá Kathleen Lights þar sem hún mælti með litnum sem fullkomnum augnskuggagrunn fyrir ljósa húð. Þá var ekki aftur snúið og ég hef ekki notað annan augnskuggagrunn síðan þá. En hvað er eiginlega Pro Longwear Paint Pot?

Í stuttu máli sagt þá eru Paint Pot einfaldlega mjúkir kremaugnskuggar sem endast ótrúlega lengi á augnlokinu án þess að renna í línur. Það má nota Paint Pot á óteljandi vegu enda er hægt að leika sér með vöruna alveg fram og tilbaka en hér getið þið lesið hvernig mér finnst best að nota hana.

1. Eitt og sér 

Það er að sjálfsögðu hægt að nota Paint Pot-in frá MAC ein og sér enda margir litir til að velja úr. Fyrir snögga augnförðun er algjör snilld að skella á augnlokið smá lit með fingrinum og blanda úr honum upp á við. Litirnir hafa flestir hverjir góða dýpt og því æðislegt að nota þá bara eina og sér. Hér á myndinni er ég einungis með Litinn Groundwork á augnlokinu.

2. Sem augnskuggagrunn

Þið finnið engan betri aungskuggagrunn en Paint Pot frá Mac. Eins og ég skrifaði hér fyrir ofan þá eru þau til í mörgum litum svo það er bæði hægt að nota sterka liti til að ýkja augnskuggana sem þið leggið ofan á og gera þá ennþá litsterkari eða það er hægt að nota húðlitaða liti eins og Painterly til að fela rauð og æðaber augnlok en á sama tíma lengja líftíma augnskuggans. Ég fjallaði vel um Painterly á sínum tíma hér á síðunni en hann bæði heldur vel í augnskuggann svo hann endist lengur og gerir það auðveldara fyrir mann að taka hann af þegar dagurinn er búinn. Þið getið lesið nánar um Painterly HÉR.

Hér á myndinni er ég með litinn Groundwork sem augnskuggagrunn og notaði pallettuna Burgundy Times Nine frá MAC til að gera flott og einfalt rauðtóna smokey.

3. Sem eyeliner

Þar sem að Paint Pot eru longwearing (endast lengi) á húðinni er tilvalið að nota þau sem eyeliner. Þau virka þá eins og gel eyelinerar, auðvelt að vinna með þá og endast lengi á augnlokinu. Litaúrvalið skemmir síðan ekki fyrir ef að nota á Paint Pot sem eyeliner og geta þau sett punktinn yfir i-ið á hvaða lúkki sem er.

Paint Pot þorna tiltölulega fljótt á augnlokinu en samt ekki það fljótt að það sé ekki hægt að vinna með vöruna. Ef þið hinsvegar eruð búin að eiga Paint Pot-ið svolítið lengi þá á það til að þorna upp eins og með flesta aðra kremaugnskugga eða gel eyelinera en þá mæli ég með því að bleyta aðeins upp í því með Fix+ svo formúlan verði aftur mjúk og kremkennd.

Vonandi hefur þetta hjálpað ykkur að skilja aðeins Paint Pot-in frá Mac! Ég hef allavega augastað á nokkrum litum í viðbót við safnið mitt en næst á listanum eru Bare Study og Indianwood 🙂

Rannveig H.

Fylgdu mér á Facebook og Instagram (rannveigbelle)

 

Neglur vikunnar #9

Loksins kom blíðviðrisdagur! Ég geri mér nú samt fyllilega grein fyrir því að ég bý á Íslandi og sólin gæti farið eftir 10 mínútur en ég ætla nú samt að reyna að njóta hennar meðan ég get! Síðustu dagar hjá mér hafa vægast sagt verið crazy og ég er meira og minna búin að sofa allan gærdaginn en núna fer loksins að róast aðeins hjá mér… allavega í nokkrar vikur en ég segi ykkur betur frá því síðar 🙂 Í dag langar mig hinsvegar að sýna ykkur gullfallegt og sumarlegt lakk frá Sally Hansen sem ég eignaðist um daginn.

Liturinn á lakkinu er 546 Get Juiced og hann minnir helst á bleikan kórallit en lakkið sjálft er alveg háglansandi. Ég trúði því varla þegar ég naglalakkaði mig hversu glansandi það var því að lakkið segist vera gel-shine ásamt mörgu en oft er það ekki raunin þegar kemur að prófunum hjá mér en það var svo sannarlega ekki raunin með þetta lakk. Þið sjáið til dæmis vel á nöglunum mínum á þessari mynd hversu glansandi lakkið er – ég speglast næstum því í því!

Æðislegt lakk frá Sally Hansen og sæmir sér vel sem neglur vikunnar að þessu sinni. Annars vona ég bara að þið eigið yndislegan dag elsu lesendur. Komandi vika mun vera stútfull af spennandi snyrtivörunýjungum hér á síðunni hjá mér svo fylgist með! 😉

Rannveig H.

Fylgdu mér á Facebook og Instagram (rannveigbelle)

 

 

Fylgdu okkur á


Follow