Rannveig

Þriðji í Bachelor

Ný vika nýr bachelor! Ég ætlaði nú bara að gera svona færslu annað slagið en alltaf finnst mér jafn ómögulegt að sleppa bara úr þætti svo hér erum við stödd eftir þriðja Bachelor þáttinn og þriðju færsluna!

VARÚÐ Spennispillar VARÚÐ

Fyrsta stefnumótið, hópstefnumót eða glowstefnumót. Talandi um Glow þá er ég nýbyrjuð að horfa á þá þætti á Netflix og þeir lofa góðu! Bara búin með tvo samt 🙂 En aftur að Bachelor! 

Er það bara ég eða er Bachelorinn sjálfur, hann Arie voðalega lítið búinn að vera í þáttunum? Mér finnst hann eiginlega aldrei vera í mynd, eiginlega aldrei segja neitt og þátturinn er eiginlega bara um stelpurnar… og þá meira en venjulega. Kannski er hann bara rólegri og ég tek minna eftir honum eða eitthvað, veit ekki.

En glímudeitið var… jaaa… ég held að Arie hafi bara hitt naglann á höfuðið þegar hann sagði: Today’s going to be one of those dates that is uncomfortable for all of us. Held samt að það hafi verið sérstaklega óþægilegt fyrir Bibiana og Tia sem voru alveg ekki að fatta það að Glow-konan var í karakter…

Becca M. fékk síðan hópstefnumóts rósina og Krystal var ekki sátt. Ég er hinsvegar ekkert sátt út í Krystal þannig að þetta kemur út á sléttu… Án djóks þessi rödd sem hún gerir alltaf þegar hún er að tala við Arie fer alveg með mig. Ef ég væri hann þá væri ég bara WTF talaðu venjulega!

Svo er það þetta hér:

Er hún bara í þessu til þess að skapa nafn fyrir sjálfa sig og þess vegna er hún að haga sér svona? Það væri allavega ekki í fyrsta skipti í sögu Bachelor.

Svo var það heimsins vandræðalegasta stefnumót með Lauren S. sem endaði líka svona glimrandi vel… Fyrst mundi ég ekkert hver þetta var og svo fattaði ég að þetta var Social Media Managerinn sem nuddaði á honum tærnar í fyrsta þættinum… Var það ekki annars?

Stefnumótið var allavega klippt þannig að það var eins og Arie hafi ekki komið einu einasta orði inn í samræðurnar þeirra þar sem að Lauren blaðraði bara og blaðraði um sjálfa sig, allt og ekkert. Vinkona mín, sem er jafn mikill Bachelor nörd og ég (HÆ RAKEL!) hafði síðan orð á því við mig að Arie hafi í alvörunni borðað á stefnumótinu þeirra!!! Nei hættu nú þetta er í fyrsta skipti þar sem ég hef séð einhvern einstakling borða á stefnumóti í Bachelor áður… það gerist aldrei!!

Lauren S. var síðan send heim… skiljanlega svo sem.

Svo var það hundastefnumótið… Nei ég meina svona í alvörunni… Hundastefnumót… Really?

Þar var Annalise með aðra hræðilega lífreynslu til þess að deila með okkur. Í síðasta þætti voru það klessubílarnir, núna voru hundarnir tæklaðir. Ég var alveg spennt fyrir að sjá hvað yrði í næsta þætti eeeeeen…

Arie sendi hana heim daginn eftir þegar hún eignlega bað hann um að kyssa sig en hann vildi það ekki… grænar bólur það var svo vandræðalegt.

Það var líka næstum því jafn vandræðalegt þegar að Bibiana var búin að gera svaka setup úti til þess að fá Arie til að tala við sig en hann fór bara þangað með allar hinar stelpurnar en ekki hana. Class act… Held samt að þetta hafi verið svo mikið planað hjá framleiðendunum.

Mér er síðan farið að lítast bara ágætlega á Chelsea, hún er allavega alveg farin frá því að vera „the villain“ eins og mig var farið að gruna í síðasta þætti. Sá titill er alfarið kominn yfir á Krystal!

Fleiri voru ekki Bachelor pælingar mínar þessa vikuna. Þar til næst!

-RH / @rannveigbelle

Snilld fyrir fólk eins og mig… sem nennir ekki í ræktina

Færslan er ekki kostuð

Mig langaði að deila með ykkur smá snilld sem ég fann í nóvember og hef verið að nota óspart síðan þá! Svona til þess að gefa ykkur smá baksögu þá er fátt sem mér finnst leiðinlegra en að fara í ræktina (nema kannski að ryksuga). Ég get alveg skroppið í tíma eins og spinning og mér finnst það alveg ágætt en bara þetta „concept“ að fara í ræktina heillar mig ekki og hefur aldrei gert. Ég tók því þá ákvörðun á seinasta ári að byrja að þjálfa mig upp á öðruvísi hátt. Síðasta haust byrjaði ég því að fara út í göngutúr á hverjum einasta degi með góða hljóðbók í eyrum því mér finnst miklu skemmtilegra að ganga rösklega heldur en að hlaupa. Í nóvember langaði mig síðan að fara að þjálfa mig meira og ákvað að HIIT eða High-intensity Interval Training væri eitthvað fyrir mig. Það myndi koma brennslunni á fullt, þjálfa þá vöðva sem ég vildi stinna og tæki ekki langan tíma. Þess vegna uppgötvaði ég Fitness Blender og hlustiði nú…!

Fitness Blender er vefsíða sem er alveg ókeypis og inniheldur fjöldan allan af æfingarmyndböndum með æfingum sem er hægt að gera heima í stofu! Þú getur valið nákvæmlega hvaða tegund af æfingu þú vilt gera, hvaða þjálfara þú vilt hafa, hversu lengi æfingin á að vera, hversu erfið hún á að vera, hvort hún á að vera með tækjum eða ekki og svo framvegis. Vægast sagt algjör snilld og ég skil eiginlega ekki hvernig þetta getur verið ókeypis!

HÉR er til dæmis uppáhalds æfingin mín. 15 mínútna HIIT prógram sem reynir á allan líkamann og hressir mig all svakalega við en ég reyni að gera æfinguna annan hvern dag. Ég er ekkert sérstaklega mikið að hugsa um að grenna mig, heldur bara að hreyfa mig og vera hraust án allra öfga og því er þetta prógram fullkomið fyrir mig.

Vonandi mun þessi síða bara gagnast fleirum en mér fannst algjör snilld að deila henni með ykkur hérna í janúar þegar allir eru að reyna að komast í kjólinn eftir jólin! 😉

P.S. Ég er síðan að vinna í nýjustu Bachelor færslunni akkúrat núna en hún kemur örugglega ekki inn fyrr en á morgun til þess að gefa fleirum tækifærið að horfa á þáttinn. Þar til þá❤️

-RH / @rannveigbelle

Nýi „gamli“ vasinn minn: Flóamarkaðskaup

Það sem ég var lukkuleg með mig í gær! Haldiði að ég hafi ekki bara rekist á Vintage Avena vasa frá Iittala þegar ég skrapp í „Góða hirðinn“ hér í Herlev í gær! Mig grunar að þær sem eru að sjá um verslunina hafi ekki vitaða að þetta var Iittala vasi þar sem hann var ekki læstur inni í glerskáp með öllum hinu „merkjavörnum“ en Iittala augað mitt var ekki í nokkrum vandamálum með að greina það. Ég veit ekki hvort að það er jákvætt eða bara sorglegt…🤔

Avena vasinn er hannaður árið 1968 af Tapio Wirkkala sem er sá sami og hannaði Ultima Thule línuna frá Iittala en vasinn er hættur í sölu og fæst því ekki lengur. Ég er því fáránlega glöð að ég hafi komið auga á hann á miðju borðinu með glermunum og hann kostaði mig ekki nema 80kr danskar sem er sirka 1400 kall íslenskar! Núna þarf ég bara að finna einhvern fallegan stað fyrir hann 🙂

-RH / @rannveigbelle

Mitt ljómakombó og burstinn sem ég nota

Vörurnar í færslunni fékk ég í gjöf til að prófa

Mig langaði að sýna ykkur ljómakombóið sem ég er búin að vera að nota í allan desember og hefur hjálpað mér að ná alveg svakalega fallegum en eðlilegum ljóma. Það eru einhverjar tiktúrur í mér þessa dagana með ljóma, ég vil bara hafa hann sem eðlilegastan og náttúrulegastan og ég er að reyna að dreifa þeim boðskap sem víðast! Auðvitað sýnist sitt hverjum með þennan ýkta ljóma en ég hef fundið að það hentar mér og mínu andlitsfalli ekki.

Það er kannski ekki furða að í mínu GO TO ljómakombói þessa dagana er að finna vöru frá Becca en merkið hefur heldur betur slegið í gegn síðan það kom til landsins síðasta haust. Ég hef allavega ekki lagt niður vörurnar frá þeim því þær gefa svo ofboðslega fallega og fjölbreyttan ljóma. Uppáhalds formúlan mín frá þeim núna í augnablikinu er einmitt Poured formúlan en hún er mitt á milli þess að vera púður og krem.

Eftir að ég hef sett á andlitið létt lag af farða eða smá hyljara tek ég Sigma F79 burstann og set með honum þunnt lag af Becca Shimmering Skin Perfector Poured í litnum Pearl efst á kinnbeinin mín og aðeins upp á gagnaugað og undir augabrúnina í einskonar c-lag. Þessi bursti er þéttur og góður og blandar því vel úr vörunni á húðinni svo hann er alveg fullkominn til þess að bæði taka upp og dreifa úr Becca Poured formúlunni.

Þar sem að Pearl liturinn er nánast bara hvítur og því örlítið of ljós fyrir mig ef ég er með einhverja augnförðun, eins og smokey, hef ég verið að bæta fínmalaðu gylltu ljómapúðri ofan á hann og gera þá tóninn í ljómanum aðeins hlýrri og örlítið meira áberandi. Ég mun á endanum eignast Moonstone í Poured formúlunni, ég ætlaði að kaupa mér hann þegar ég var á Íslandi en bara hreinlega gleymdi því. Þar til nota ég þetta ráð og til þess gyllta ljómapúðrið úr Love Contours All pallettunni frá NYX. Þau ljómapúður sem eru í þeirri pallettu eru æði þó ég var minna hrifin af augnskuggunum í henni en það er líka bleikt ljómapúður í pallettunni ásamt þessu gyllta og stundum finnst mér voða fallegt að blanda þeim saman. Til þess að bera púðrið á nota ég bara lítinn púðurbursta sem er svolítið laus í sér og ekki of stífur en ég gríp oftast bara þann sem ég hef við hendina.

Hér vinstra megin sjáið þið mig með Becca ljómann á kinnbeinunum sem ég bar á með Sigma burstanum en vinstra megin er ég búin að bera NYX ljómapúðrið yfir. Mér fannst ég ekki alveg ná þessu nógu vel á mynd en í nýrri færslu hjá mér þar sem ég skrifa um Costco kragann minn er ég með sama ljóma á andlitinu og þar er hægt að sjá betur hversu fallegur, áberandi en samt náttúrulegur þessi ljómi, þetta ljómakombó er. Færsluna getið þið séð HÉR.

-RH /@rannveigbelle

Fyrir brothættar neglur

Vörurnar eru gjöf/sýnishorn

Ég er búin að vera í tómum vandræðum með neglurnar mínar alveg frá því ég kom til Íslands í byrjun desember en ég held að það sé kuldanum að kenna. Bæði er húðin mín búin að vera rosalega þurr og í miklu ójafnvægi en einnig eru neglurnar mínar búnar að vera svakalega brothættar og „stökkar“. Einn daginn var ég bara að laga mig til í sætinu mínu þegar að ég braut nögl svo það þarf svo sannarlega ekki mikinn kraft til þess að fá þær til að flagna. Þegar ég kom aftur til DK ákvað ég að taka neglurnar mínar í gegn og klippti þær alveg niður til þess að leyfa þeim að vaxa langar og heilbrigðar aftur.

Til þess að dekra aðeins við neglurnar bar ég TLC eða Treat Love & Color lakk á neglurnar frá Essie. TLC lökkin eiga að styrkja neglurnar, laga áferðina á þeim og fegra yfirborðið ásamt því að gefa nöglunum léttan lit. 

Ég þarf svo sannarlega á því að halda þessa dagana þar sem neglurnar mínar hafa verið að flagna auðveldara en nýbakað Croissant… er það skrítin myndlíking?.. kannski sleppa henni bara? Æj nei leyfum henni að fljóta með svo þið skiljið hversu mikið neglurnar mínar hafa verið að flagna 😉 Liturinn sem ég er með á nöglunum hérna er TLC í Loving Hue sem er fölbleikur og létt sanseraður. Ég er með tvær umferðir af honum á nöglunum en ég hef prófað lakkið einu sinni áður. Það entist vel á nöglunum mínum og gaf þeim fallegan lit en þá voru neglurnar mínar það heilbrigðar að ég hugsa að ég sjái mikinn meiri mun á nöglunum mínum núna en ég gerði þá. Ég hlakka til að sjá hvort að lakkið hjálpi ekki til við að laga neglurnar mínar eftir kalda íslenska veðrið.

Ég leyfi ykkur að fylgjast með hvenig lakkið virkar á Instagram Story hjá mér þegar vika er liðin frá því ég setti það á. Þið finnið mig undir @rannveigbelle þar, fylgið mér endilega! 🙂

-RH / @rannveigbelle

Annar í Bachelor

Jæja þá er fjörið byrjað! Þriðjudagskvöld eru aftur orðin skemmtileg! Off topic… finnst einhverjum öðrum en mér þriðjudagar bara vera allra leiðinlegustu dagarnir? Aníveis… Hver horfði á nýjasta Bachelor þáttinn? Mig langaði að halda áfram að deila með ykkur nokkrum hugleiðingum frá mér

VIÐVÖRUN Spennuspillar VIÐVÖRUN

Ókei fyrsta deit Becca K! Ég sver ég mundi ekkert eftir þessari píu frá fyrsta þættinum og svo horfði ég á einhver Youtube myndbönd hjá Jimmy Kimmel, Ellen og fleirum og þá voru allir bara að spá því að hún myndi vinna… og ég mundi EKKERT eftir henni. En hún fékk fyrsta deitið, sem mér fannst reyndar mjög skrítið deit… hún var bara eitthvað að máta kjóla. Svo gaf hann henni eyrnalokka og var að fara að setja þá í eyrun hennar þegar hún spurði hvort hann hafði gert þetta áður og hann svaraði játandi. Bjargaði sér síðan fyrir horn og sagði… já í mömmu… Eins trúverðugt og það kann að vera. Mér leist samt ágætlega á hana en æj ég veit ekki, fannst vanta eitthvað, fannst þau ekki alveg smella saman í mínum Bachelor haus. Vanalega er ég alltaf búin að pikka út þann sem vinnur eftir fyrsta þáttinn, og oftast hef ég rétt fyrir mér en núna er ég alveg blankó.

Ég er svona 90% viss um það að það er búið að svissa „the villain“ titilnum frá Chelsea sem var í fyrsta þættinum og hann er núna kominn yfir á Krystal. Það er bara eitthvað við þessa píu sem er ekki alveg að smella saman. Er það síðan bara ég eða er ekki pínu skrítið að gaurinn býður þér heim að fara að skoða barnamyndir og myndbönd af sjálfum sér á fyrsta deiti? Mér fannst það meira að segja meira skrítið en þegar þau hittu fjölskylduna hans í korter.

Svo þetta blessaða hópstefnumót. Voru ekki fleiri stelpur á þessu deiti en hafa verið á hópdeitum áður? Ég gat svo nú ekki annað en hlegið af „bumper car“ dramnu hjá Annaliese, ég meina kommon það var nú pínu fyndið! 

Og svo þetta…. nei… bara nei… held ég þurfi ekki að segja neitt mikið meira…

Bibiana var svo bara alveg að missa það allan þáttinn. Veit ekki hvort að hún hafi fattað það hvernig Bachelor virkar áður en hún fór í þáttin en ég meina… It’s good TV! Hún lét Krystal líka heyra það sem fór tvisvar sinnum að tala við Arie á rósarkvöldinu þótt hún væri með rós. Ég skil kannski einu sinni en varð nú að vera sammála því að tvisvar er einum of.

Svo þegar að gellan sem ég hef ekki hugmynd um hvað heitir var send heim og ætlaði bara að fara án þess að kveðja, hann fór á eftir henni og vá hvað ég kunni vel að meta það. Líkaði bara ennþá betur við hann eftir það!

Kræst sumt hljómar svo fáranlega þegar ég skrifa það en dj*****  hef ég samt gaman að þessu! 😉 

Svo er það þetta hér….

Ég veit ekki alveg með þetta… er verið að reyna að halda Bachelor in Paradise brjálæðinu gangandi á veturna núna… Hvað finnst ykkur, er þetta eitthvað sem þið eruð spennt fyrir / munuð horfa á???

-RH / @rannveigbelle

Costco kraginn

Ég er mjög fljótfær Stundum get ég verið svolítið fljótfær. Munið eftir því þegar ég sýndi ykkur flotta svarta faux fur loðkragann sem ég keypti í Vero Moda í fyrra? Við flutningana út til Köben hef ég greinilega losað mig við hann á einn hátt eða annan, að öllum líkindum þegar ég tók Kon Mari aðferðina á fataskápinn minn. Að sjálfsögðu sá ég síðan eftir því þegar að veturinn kom en þá átti ég engan kraga. Daginn eftir að ég uppgötvaði þetta og var þá búin að leita að kraganum mínum hátt og lágt fór ég í Costco. Að sjálfsögðu fór ég í Costco, ég myndi búa þar ef ég gæti en þegar ég var í Costco kom ég auga á þessa kraga hér!

Færslan er ekki kostuð – Kragarnir eru í einkaeigu

Þetta var svona „meant to be“ myndi ég segja og það sem ég var glöð að koma auga á þá! Kraginn kostar ekki nema rétt undir 1500 kallinn og er til í bæði gráu og svörtu.

Kragarnir eru hlýjir og þægilegir og svo finnst mér þeir líka bara vera ofboðslega töff. Það er algjör snilld að bæta þessu yfir yfirhöfnina sína til þess að gera hana bæði hlýrri og glæsilegri.

Ég fór í Costco í síðustu viku áður en ég fór heim til Danmerkur aftur og þá var ennþá nóg til af krögunum en samt ekki þannig að þeir verða til mikið lengur svo ef ykkur langar í einn eða báða þá myndi ég kíkja sem allra fyrst😊

-RH (Instagram @rannveigbelle)

Time’s up!

Ég ætlaði að skrifa færslu eins og ég geri alltaf eftir helstu verðlaunahátíðirnar, þar sem ég fer yfir mínar uppáhaldsfarðanir frá kvöldinu og spái og spöglera í helstu trendin sem sáust á rauða dreglinum. Mér fannst það einhvern veginn ekki viðeigandi í dag þar sem svo margir merkilegri hlutir áttu sér stað á kvöldinu þar sem að konurnar í kvikmyndabransanum stóðu saman gegn ójafnrétti, klæddust svörtu og sögðu Time’s up!  Ég er svo stolt af því að vera kona í dag og að sjá byltinguna sem kynsystur mínar hafa komið af stað hvort sem hún á sér stað í sviðsljósinu eða ekki. Ég finn hlutina breytast og það gleður mig alveg rosalega, en þetta er bara byrjunin og enn er langt í land. Mig langar því frekar að sýna ykkur nokkra af merkilegustu atburðum Golden Globe hátíðarinnar sem átti sér stað í gær í stað þess að fara yfir farðanirnar en ég get þó sagt ykkur förðunaráhugafólkinu það að kaldir tónar og þá sérstaklega gráir og fjólubláir voru í aðalhlutverki þegar kom að förðunum kvöldsins.

Ræðan hennar Oprah

Það er ekki annað hægt en að fyllast innblástri þegar maður hlustar á ræðunna hennar Opruh síðan í gær.

Natalie Portman – All male

Natalie Portman benti listilega vel á þá staðreynd að einungis karmenn voru tilnefndir í flokknum fyrir besta leikstjóra. Það hefur löngum verið sannað að erfiðara er fyrir konur að komast í leikstjórastólinn en karla og fyrir minn smekk er löngu kominn tími til að breyta því! 

Jessica Chastain og Chris Hemsworth – MYNDBAND

Komu inn á launamun kynjanna þegar þau tilkynndi bestu leikonuna í kvikmynd. 

Barbra Streisand – 34 ár – MYNDBAND!

Barbra Streisand benti á þá sorglegu staðreynd að í þau 74 ár sem að Golden Globe hátíðin hefur verið haldin hefur einungis ein kona – hún sjálf unnið verðlaun fyrir bestu leikstjórn! Það var fyrir 34 árum! Ég á bágt með því að trúa að í 34 ár og hvað þá árin á undan því hafi engin kona átt skilið verðlaun fyrir góða leikstjórn. 

Ræðann hennar Laura Dern

Ég gæti ekki verið meira sammála henni!

The power of women

Það er svo sannarlega ótrúlegt hvað konur geta afrekað ef þær bara standa saman!

-RH (Instagram: @rannveigbelle)

Áramótaförðunin mín 2017

Áramótaförðinin mín þetta árið var frekar einföld þar sem ég var í svo miklum glamúrkjól að ég vildi ekki að þetta yrði allt saman „too much“ ef svo má að orði komast. Ég kaus því að gera svona „lived in smokey“ þar sem að smokey förðunin er ekki of fullkomin heldur frekar svona greasy og hrá. Núna þegar ég skrifa það þá hljómar það ekkert sérstaklega geðslega en það kom samt mjög vel út! Ég setti síðan kaldtónan silfur glimmer augnskugga í innri augnkrók til þess að tengja lúkkið saman við kjólinn minn og að sjálfsögðu nóg af kolsvörtum maskara.

Ég ákvað síðan að hafa húðina mína vel ljómandi til þess að kjóllinn myndi ekki gjörsamlega gleypa mig svo lítið af farða en mikið af ljóma varð fyrir valinu! Uppáhalds ljómatvennan mín sem ég er búin að nota óspart í desember rataði því á kinnbeinin mín en ég ætla mér að sýna ykkur þessa tvennu ásamt burstanum sem ég nota betur í færslu í næstu viku. Á varirnar setti ég síðan Nuit & Jour varalitinn frá Lancome sem er minn allra uppáhalds nude litur en hefur verið týndur hjá mér í næstum því ár en ég fann hann síðan í síðustu Íslandsheimsókn í vasanum á einum pels sem ég skildi eftir heima þegar ég flutti. Mikið var ég glöð þá! 🙂

-RH (Instagram: @rannveigbelle)

Glæsileg byrjun á 2018

Hvað er betra en að byrja árið 2018 á þeim fréttum að leigusalinn er búinn að setja húsið á sölu og flutningar eru því að öllum líkindum væntanlegir! Það er því hressandi húsnæðisleit í vændum hjá okkur parinu núna í byrjun árs. Ég hef svo sem ekkert á móti því að flytja á annan stað í Danmörku og vera kannski nær miðbænum en við erum núna en ég var samt svo tilbúin að koma bara heim frá Íslandsförinni, aðeins að anda og átta mig á aðstæðum í rólegheitunum án þess að þurfa að stressa mig á einhverju svona. 2018 byrjar því frekar brösulega en vonandi fer þetta bara allt vel.

En ef þið vitið um einhvern eða ef þið sjálf eruð að leita að traustum leigjendum fyrir íbúð í Kaupmannahöfn eða þá hafið einhverja reynslu af íbúðarkaupum í Kaupmannahöfn þá megið þið endilega hafa samband við mig og senda mér póst á rannveig@belle.is. Öll hjálp er mjög vel þegin!❤️

-RH (Fylgið mér á Instagram @rannveigbelle) 

 

Fylgdu okkur á


Follow