Rannveig

Balayage sýnikennsla á Instagram í kvöld!

Í kvöld mun ég setja inn sýnikennslu á Instagram Stories hjá mér þar sem sýni ykkur hvernig ég notaði nýja Colorista Balayage settið frá L’Oréal til að gera í mig þessar sólkysstu og sumarlegu strípur í hárið. Fylgið mér því endilega á Instagram en þið finnið mig undir @rannveigbelle. Ég byrja að setja inn myndbönd á slaginu 20:00 😉

Rannveig H.

Fylgdu mér á Facebook og Instagram (rannveigbelle)

 

Nýir sheet maskar frá Origins!

Vá hvað ég varð spennt þegar ég fékk þessa maska í hendurnar! Það er svo dásamlegt að dekra við húðina með góðum maska og það er eitthvað við sheet maska eða tau maska sem gerir ferlið ennþá skemmtilegra. Origins hefur fljótlega orðið eitt af uppáhalds húðvörumerki mínu en ég á margar vörur frá þeim og nota þær allar í gríð og erg. Hjá Origins er mikil áhersla lögð á góð og náttúruleg hráefni sem mér finnst einstaklega heillandi og vörurnar þeirra hafa alltaf komið vel fram við húðina mína sem er virkilega viðkvæm og „pikkí“.

Flower Fusion sheet maskar hjá Origins eru nýir á nálinni en þeir komu í verslanir fyrir einhverjum tveimur vikum síðan. Eins og við mátti búast seldust maskarnir upp um leið enda á mjög þægilegu verði eða á bilinu 800-1000 krónur stykkið eftir sölustöðum. Maskarnir eru sex talsins og eiga allir að næra, mýkja og fylla húðina af raka við notkun. Þetta gera þeir með mismunandi tegundum af blómavaxi og ilmolíum en ilmolíurna fríska svolítið upp á vitin í leiðinni. Maskarnir henta öllum húðgerðum en tauið sem þeir eru gerðir úr er úr 100% bambustrefjum. Mig langaði að sýna ykkur betur hvern og einn maska fyrir sig svo þið getið áttað ykkur aðeins betur á úrvalinu og fundið þann sem ykkur líst best á.

Fyrstur er það Rose maskinn en hann er ætlaður til að gefa húðinni gott rakabúst. Maskinn byggir á rósum og ilmar því af þeim svo ef þið elskið rósir og húðinni ykkar vantar raka þá mæli ég með þessum.

Næstur er Raspberry en hann á að fríska upp á húðina. Ef að þið þjáist af þreyttri húð sem vantar aukið orkubúst þá ættuð þið að kíkja á þennan en hindberjailmurinn af honum á einnig að vera alveg einstaklega frískandi.

Orange Flower maskinn á að fá húðinni til að geisla en hann hjálpar henni að endurheimta og viðhalda ljóma. Appelsínuilmurinn af þessum minnir á ilminn af Ginzing línunni frá Origins en hún hefur lengi verið þekkt sem einstaklega frískandi.

Jasmine sheet maskinn mýkir húðina og er tilvalinn fyrir þá sem vilja aðeins vinna á móti grófri áferð húðarinnar. Maskinn ilmar svo að sjálfsögðu af Jasmine blómum.

Violet maskann prófaði ég einmitt í gær en hann er alveg dásamlegur! Hann ilmar af sætri violet lykt og hjálpar til við að næra húðina og veita henni fyllingu. Dásamlegur.

Síðast en ekki síst er það Lavender maskinn en hann sér um að róa húðina. Þessi er tilvalin til að nota fyrir eða á einhverjum stressandi degi þar sem að formúla maskans og Lavender ilmurinn bæði róa húðina og vitin.

Ég trúi nú ekki öðru en að flestir mínir lesendur viti hvernig sheet maskar líta út yfirhöfuð en mig langaði nú samt að leyfa þessari mynd að fylgja með færslunni fyrir þá sem vita það ekki 😉 Hér er ég með Violet maskann á mér en eins og þið sjáið er hann stútfullur af formúlu. Maskinn er látinn sitja á hreinni húð í 10 mínútur en á meðan maskinn er að vinna mæli ég með því að þið leggist niður í rólegheitunum, lokið augunum og njótið dásamlegu ilmolíanna frá maskanum. Það eru til margir leiðinlegri hlutir en það skal ég segja ykkur!

Allir maskarnir eru vel blautir þegar þeir koma upp úr pokanum svo nýtið endilega allan vökvan sem er í honum og nuddið vökvanum vel inn í húðina eftir að sheet maskinn er tekinn af. 

Ég ætla svo að taka annað sheet maska dekur í kvöld og mig grunar að Jasmine maskinn verður fyrir valinu. Hvaða maska líst ykkur best á?

Rannveig H.

Fylgdu mér á Facebook og Instagram (rannveigbelle)

 

Brunch á Mathús Garðabæjar

Við hjónaleysing gerðum okkur glaðan dag á 17.júní og fórum í brunch á Mathúsi Garðabæjar. Ég er bara búin að heyra fólk dásama þennan stað svo ég ákvað að koma karlinum á óvart og bauð honum í brunch. Ég tók myndavélina mína með til að fanga stemninguna á staðnum og daginn okkar sem var einstaklega góður. Við fórum svo í 17.júní boð eftir brunchinn en ég get nú ekki sagt að við borðuðum mikið í því boði né það sem eftir var af deginum því við fórum eiginlega bara rúllandi út af Mathúsinu. Ég ætla að leyfa myndunum að tala mestmegnis fyrir mig nema ég hafi eitthvað brjálæðislega merkilegt að segja 🙂

Þetta fannst mér fáránlega gott… enda drakk ég tvo 🙂

Eins og þið sjáið vantaði ekki úrvalið á hlaðborðinu og því ekki að furða að við höfum farið rúllandi út um dyrnar.

Skál!

Fyrsta ferð. Heimagerða smjörið á brauðinu var alveg fáránlega gott og það var kjúklingaspjótið og Pulled Pork borgarinn líka. Ég held að mér hafi finnst jógúrtið síst en það vantaði kannski dass af hunangi í það til að fá smá sætu upp á móti jógúrtbragðinu.

Myndarlegasti maðurinn sem ég þekki og svo er hann líka svo góðhjartaður að hann gaf mér leyfi til að birta mynda af sér í færslunni þó hann hafi nú ekki tekið Þrastarlundarpósið!❤️

Ég gat nú varla borðað þetta ég var svo svakalega södd! En ég reyndi allavega og sé ekki eftir því.

Svo gekk skrúðgangan framhjá glugganum á meðan við borðuðum svo tæknilega séð tók ég þátt í skrúðgöngu á fyrsta skipti á ævinni held ég barasta, allavega sem ég man eftir! 😉

Það kostaði 3600 krónur á manninn í þennan brunch og mér finnst það bara rosaleg vel sloppið miðað við gæðinn og magnið sem maður fær. Við munum klárlega endurtaka ferð okkar aftur svo ég segi bara þar til næst Mathús Garðabæjar!

P.S. Allt um förðunina mína má finna HÉR.

Rannveig H.

Fylgdu mér á Facebook og Instagram (rannveigbelle)

 

Í Glamour

Aldrei þessu vant þá keypti ég mér tímarit! Kannski ekki stórfréttir fyrir ykkur en ég kaupi mér aldrei svona blöð og les þau því í samræmi við það… Ég held ég lesi þau bara oftast þegar ég sit á biðstofum eins og örugglega margir aðrir íslendingar 😉 Í þessum mánuði gerði ég þó undantekningu og keypti Glamour þar sem að nokkrar myndir eftir mig birtust í grein í blaðinu.

Í blaðinu er að finna viðtal við förðunarfræðinginn Sir John sem kom til landsins nú á dögunum á vegum Reykjavík Makeup School til að halda Master Class námskeið. Hann svarar nokkrum spurningum í viðtalinu en fjórar myndir sem ég tók af námskeiðinu fylgja greininni. Námskeiðið var alveg æðislegt og Sir John greinilega mikill snillingur, fagmaður fram í fingurgóma en á sama tíma alveg svakalega hógvær. Ég dáist alveg að honum og sat bara með stjörnur í augunum á milli þess sem ég smellti af myndum fyrir L’Oréal sem sponsaði námskeiðið með flottum gjafapoka.

Mæli með!

Rannveig H.

Fylgdu mér á Facebook og Instagram (rannveigbelle)

 

Auðveld brúðarförðun með Softlight frá Smashbox

Eins og ég var búin að lofa langaði mig að birta hér auðvelda brúðarförðun með Smashbox Softlight pallettunni sem ég fjallaði um í síðustu viku. Þá færslu er hægt að sjá HÉR. Ég ákvað að nota bleiku, bronsuðu og mauve tónana úr pallettunni til að gera rómantíska augnförðun en rómantísk förðun er að sjálfsögðu fullkomin fyrir stóra daginn 😉

Mig langaði að gera brúðarförðun sem myndi henta mörgum, væri ekki of ýkt og umfram allt rosalega mjúk og falleg. Mér finnst alltaf aðalatriðið þegar kemur að brúðarförðunum að húðin sé sem náttúrulegust og fær þá í staðin þá hjálp sem hún þarf til að jafna lit hennar og gefa henni heilbrigðan ljóma. Það var þá það sem ég hafði í huga þegar ég lagði af stað með þessa förðun.

Frá hægri til vinstri: Dr.Hauschka Bronzing Powder, Smashbox Cover Shot Softlight, MAC Painterly Paint Pot, Bobbi Brown Extra Lip Tint Bare Pink, Mac Fix+, MAC Strobe Cream Redlight, Makeup Geek Americano, RIMMEL Wake Me up Concealer, MAC Full of Joy, Estée Lauder Sumptuous Bold Volume Mascara, Smashbox Camera Ready BB Water.

Hér getið þið séð allar vörurnar sem ég notaði. Mig langaði að hafa húðina jafn mjúka og rómantíska og augnförðunina svo ég notaði virkilega léttar og ljómandi vörur á hana. Ég byrjaði á því að setja Strobe kremið frá MAC á allt andlitið og gerði síðan augnförðunina. BB vatnið frá Smashbox fór síðan yfir allt andlitið mitt og RIMMEL hyljaran notaði ég undir augun. Ég festi BB kremið og hyljarann með lausu glæru púðri sem sést reyndar ekki hér á myndinni en það gerði ég til að allt myndi haldast á sínum stað það sem eftir var af deginum. Ég notaði Bronzing púðrið frá Dr.Hauschka til að gefa húðinni smá hlýju og síðan fannst mér ekki koma annað til greina en að para kinnalitinn saman við bleiku augnskuggana á augnlokinu. Full of Joy kinnaliturinn frá MAC er alveg rosalega skemmtilegur þar sem hann hefur í sér lithverfan bleikan tón og er ljómandi. Glöggir taka kannski eftir því að á myndinni sjáið þið ekkert ljómapúður en það er einmitt vegna þess að ég notaði Softlights pallettuna frá Smashbox til að birta yfir húðinni minni! Ég notaði efstu tvo litina saman og ég er að segja ykkur það náttúrulegri ljóma finnið þið ekki! Fullkominn ljómi fyrir brúðarfarðanir. Á varirnar setti ég svo Bare Pink litinn úr vorlínu Bobbi Brown en hann er bæði léttur og nærandi fyrir varirnar.

En eigum við ekki að fara aðeins betur yfir það hvernig ég gerði augnförðunina? Ég byrjaði að sjálfsögðu á því að grunna á mér augnlokið og til þess notaði ég Painterly Paint Pot frá MAC. Næst tók ég dökkbrúnan mattan augnskugga í litnum Americano frá Makeup Geek og setti hann yst á augnlokið og dróg hann aðeins inn í glóbusinn. Mig langaði að dýpka aðeins skygginguna yst á augnlokinu svo ég notaði þennan dökka lit fyrst að það var enginn litur sem er svo dökkur í Softlight pallettunni. Til að blanda út þennan dökka lit tók ég Beach House úr Smashbox pallettunni og blandaði hann vel inn í húðina. Þann lit setti ég líka í glóbuslínuna. Næst tók ég Aglow og setti á mitt augnlokið. Innst á auglokið setti ég Spectacle og bleytti burstann minn með Fix+ frá MAC til að gera hann extra litsterkan. Í innri augnkrók blandaði ég svo litunum Spectacle og Keeper en það er einmitt sama kombó og ég notaði sem ljómapúður. Á neðri augnháralínuna setti ég Americano yst síðan blöndu af Spectacle og Keeper á restina af augnháralínunni. Ég blandaði þessum litum svo saman með Beach House. Til að ýkja aðeins efri augnhárlínuna áður en ég setti á mig Estée Lauder maskarann bar ég þunna línu af Americano meðfram augnhárunum í staðin fyrir eyeliner. Ég pressaði síðan litinn létt niður með litlaputta svo hann myndi ekki smitast.

Ég er allavega voðalega lukkuleg með þessa förðun og ég er að elska það að taka förðunarmyndir í náttúrulegri dagsbirtu með nýju vélinni minni! Ég er reyndar líka að elska það að mála mig þegar ég sé hvað ég er að gera en ég málaði mig alltaf nánast blindandi áður en ég fór í laserinn um daginn. Það er því aldrei að vita nema það fari að birtast fleiri svona færslur hjá mér. Vonandi elskið þið það bara jafn mikið og ég! 😉

Rannveig H.

Fylgdu mér á Facebook og Instagram (rannveigbelle)

 

Fullkomin brúðarpalletta

Ég held það sé enginn annar tími á árinu sem er jafn vinsæll fyrir brúðkaup eins og sumartíminn. Ég skil það bara alveg rosalega vel þar sem veðrið er líklegra til að leika við mann og allar myndir af deginum sjálfum verða bjartar og fallegar sem og brúðkaupið sjálft. Ég er kannski ein af þeim skrítnu en mér finnst haustin eitthvað svo heillandi þegar kemur að brúðkaupum en það er bara ég 🙂 Í tilefni þess að eflaust margir eru að fara að ganga niður gólfið þetta sumarið langaði mér að sýna ykkur eina fullkomna brúðarpallettu!

Pallettan kemur frá Smashbox og er úr Cover Shot línunni þeirra. Gerðin af pallettunni heitir Softlight og inniheldur átta mjúka litatóna sem eru ekkert annað en fullkomnir til að nota í brúðarfarðanir.

Litirnir eru allir ljómandi án þess þó að vera shimmer eða glimmer augnskuggar. Þeir hafa einhvern fínan ljóma yfir sér og þaðan kemur án efa nafn pallettunnar. Þeir eru því svona mitt á milli þess að vera mattir og ljómandi en það er frekar erfitt að útskýra áferðina á pallettunni svona í orðum en þið getið kíkt á hana og potað aðeins í hana á sölustöðum Smashbox ef þið eruð forvitin. Ég mæli með því.

Litirnir í pallettunni eru allt frá því að vera ferskjutóna, mauve litaðir, bronsaðir og gylltir svo allar brúðir eða bara hver sem er ættu að geta fundið sér léttan tón í pallettunni sem hentar þeirra smekk. Efstu tveir litirnir í pallettunni eru stærri en þeir sem eru fyrir neðan en þeir eru það því þetta eru vinsælir litir sem hægt er að nota í hvaða förðun sem er en þeir eru einnig tilvaldir til að nota til að setja léttan ljóma efst á kinnbeinin.

Hér getið þið séð litaprufur af öllum litunum en hér er greinilegt hversu léttir og mjúkir litirnir eru. Það er mikilvægt að kaupa ekki þessa palletu með það í huga að þið fáið brjálæðisleg litsterka augnskugga því það er ekki tilgangurinn með pallettunni. Litirnir eiga að vera léttir, mjúkir og náttúrulegir sem gerir það að verkum að þeir henta mögulega best ljósri húð. Efstu tveir litirnir í hendinni minni eru efstu tveir litirnir í pallettunni en þeir eru ekkert annað en sjúkir! Þessi bleiki hefur einhvern einstakan lithverfan tón í sér sem ég er viss um að myndi setja punktinn yfir i-ið í hvaða brúðarförðun sem er. Hann er án efa uppáhalds liturinn minn í pallettunni.

Það eru engir mattir litir í pallettunni svo það gæti verið að þið þurfið að bæta þeim við förðunina ef þið viljið dýpri skyggingu en það er samt vel hægt að nota brúnu litina í pallettunni í skyggingar. Ég ætla síðan að taka mig til og birta brúðarförðun bráðum með þessari dásemd til að þið getið fengið innblástur frá henni ef þið eruð í brúðarfarðana hugleiðingum 🙂 

P.S. Ef þið eruð að pæla í að nota þessa í brúðarförðun mæli ég að sjálfsögðu með því að nota góðan augnskuggagrunn eins og til dæmis Painterly frá MAC til að tryggja að augnförðunin haldist á sínum stað allan daginn og allt kvöldið!

Rannveig H.

Fylgdu mér á Facebook og Instagram (rannveigbelle)

 

Litaleiðrétting með L’Oréal

Þá er komið að fyrstu færslunni minni með nýju myndavélinni minni! Ég er ennþá að læra inn á hana en markmiðið með kaupunum á henni var að geta tekið myndir sem eru meira „true to life“ eins og maður segir á góðri ensku. Þetta er líka lítil og nett vél sem gerir mér lífið auðveldara þegar kemur að förðunarmyndatökum… en nóg um það og að færslu dagsins! Þegar ég fór á Sir John námskeiðið um daginn fékk ég með mér heim mjög veglegan gjafapoka frá L’Oréal og Reykjavík Makeup School en í honum leyndist þessi litaleiðréttinga palletta frá L“Oréal sem heitir Infallible Total Cover. Ég var laaaang spenntust fyrir þessari þegar ég sá að hún leyndist í pokanum enda hefur hún verið á óskalistunum í mjög langan tíma.

Fyrir þá sem ekki vita þá hjálpa litaleiðréttinga pallettur manni að jafna út allar lita misfellur í húðinni þannig að hún fái heilbrigðara og frísklegra útlit. Litaleiðrétting hefur verið heitasta trendið í förðunarheiminum undanfarið ár og ég held að nánast öll helstu förðunarmerkin eru komin með einhverskonar litaleiðréttingarvöru í úrvalið hjá sér.

Í Total Cover pallettunni er að finna fimm mismunandi liti en tveir af þeim eru notaðir til litaleiðrétta húðina en hinir þrír eru notaðir til þess að hylja og móta andlitið. Græni liturinn í pallettunni jafnar út roða í húðinni en sá fjólublái birtir yfir þeim svæðum sem þarfnast smá upplyftingar. Hyljararnir þrír í pallettunni eru síðan allir í mismundandi litatónum svo það er bæði hægt að nota þá til að hylja baugu eða önnur lýti á andlitinu og til að móta það.

Mig langaði að sýna ykkur hvernig ég nota pallettuna fyrir mína húð en það er að sjálfsögðu mikilvægast að þið horfið á ykkar eigin húð og áttið ykkur pínu á hvaða svæði þarf að litaleiðrétta. Ef að litur er settur á stað þar sem hann þarf í rauninni ekki að vera þá verður hann oft meira áberandi en hann yrði annars og hefur þá í raun þveröfug áhrif en þið sjáið hvað ég meina hér rétt á eftir. Á myndinni hér fyrir ofan getið þið hinsvegar séð að ég er pínu rauð í kringum nefið og á kinnunum. Ég er síðan með smávægileg fjólublá baugu undur augunum og dálítið þreytta húð yfirhöfuð. Ég er svo með afgang af bólu á miðju enninu sem er að sjálfsögðu rauð.

Á þau svæði sem eru rauð ber ég græna litinn á til að eyða út þessum roða. Þess vegna set ég græna litinn á kinnarnar, bæði á nefið og í kringum það sem og á bóluna mína á miðju enninu. Undir augun setti ég síðan ljósasta hyljarann sem hefur pínu gulan undirtón í sér sem að núllar út fjólubláa litinn undir augunum mínum. Fjólubláa litinn úr pallettunni set ég síðan á víð og dreif um andlitið þar sem ég vil lyfta húðinni aðeins upp og gefa henni extra búst.

Ég dreifði næst vel úr litunum með fingrunum en það er að sjálfsögðu hægt að nota bursta eða rakan svamp til að dreifa úr vörunni. Eins og þið sjáið þá hefur græni liturinn nú þegar dregið töluvert úr roðanum í húðinni minni. Fjólublái liturinn er aðeins meira áberandi á sumum svæðun en ég hafði viljað hafa hann en það þýðir bara, eins og ég kom inn á hér fyrir ofan, að ég hafði ekki þurft að setja jafn mikið af honum á þessi svæði og ég gerði.

Þegar ég er búin að leyfa öllu að þorna í góðar tvær til þrjár mínútur ber ég á mig farða eins og venjulega. Ég notaði farðann Infallible 24H Matte frá L’Oréal til að halda í L’Oréal þemað. Hér getið þið greinilega séð hversu mikill munur er á húðinni minni! Liturinn hennar er miklu jafnari og ég lít töluvert frísklegri út.

Litirnir í pallettunni eru mjög kremkenndir og mjúkir en þeir þorna samt þannig að þeir blandist nánast ekkert saman við farðann þegar að hann er settur á. Þetta þýðir að litaleiðréttingin helst á þeim stöðum sem þú settir hana á sem er að sjálfsögðu algjört lykilatriði þegar kemur að litaleiðréttingu. Virkilega flott palletta frá L’Oréal að mínu mati sem er líka mjög byrjendavæn fyrir þá sem eru að stíga sín fyrstu skref í litaleiðréttingu.

Hafið þið prófað að litaleiðrétta húðina?

Rannveig H.

Fylgdu mér á Facebook og Instagram (rannveigbelle)

 

Skotin í Essie!

Góðan sunnudag elsku lesendur! Mikið er ég til í þennan sunnudag eitthvað þar sem mér sýnist sólin skína alveg ágætlega þessa stundina. Ég fór beinustu leið í tölvuna að skrifa þessa færslu þannig ég veit ekki alveg hvort það sé svona líka fínt gluggaveður úti eða hvort að sólinni fylgi einhver hiti. Ég vona að seinni valmöguleikinn sé réttur 🙂

Fyrst að sólin skín langaði mig að sýna ykkur fjóra af mínum uppáhalds Essie sumarlitum! Hvernig líst ykkur á það? 😉 Það er eitthvað svo fallegt við það að geta skartað fallegu lakki á nöglunum á sólríkum sumardögum og þegar sagt er að lakkið fullkomni lúkkið þá get ég ekki annað en verið því hjartanlega sammála.

Mínir uppáhalds sumarlitir frá botni til topps eru Tea & Crumpets, Sunday Funday, Sand Tropez og Bikini So Teeny. Það er aldrei leiðinlegt að skarta fallegum sanseruðum lit á nöglunum og því finnst mér Tea & Crumpets svona líka hrikalega fallegur sumarlitur. Sunday Funday hefur síðan lengi verið einn af mínum uppáhalds en hann inniheldur örfínar glimmeragnir alveg eins og Bikini So Teeny (sem þarf vart að kynna) sem gefa honum sama skemmtilega heildarlúkk. Sand Tropez er síðan uppáhalds nude lakkið mitt en það hentar mínum húðlit einstaklega vel þar sem það er ekki of líkt honum.

Á sumrin gleymi ég svo að sjálfsögðu ekki Quick-E dropunum mínum en þessir litlu undradropar fá lakkið til að þorna á innan við tveimur mínútum sem er auðvitað algjör snilld um sumarið þegar maður er mikið á ferðinni.

Þar hafið þið það! Þetta eru mínir uppáhalds Essie sumarlitir þetta sumarið. Hverir eru ykkar? 🙂

Rannveig H.

Fylgdu mér á Facebook og Instagram (rannveigbelle)

 

Dress up: Jennar skyrtukjóll

Ef þú vilt gleðja mig… gefðu mér þá góða skyrtu! Skyrtur eru bara svo bilaðislega þægilegar og svo passa þær fyrir öll tilefni. „There is nothing not to love“ þegar kemur að góðri skyrtu 😉 Þegar ég sá Jennar skyrtuna á Facebook síðu Vero Moda í gær gat ég ekki annað en brunað út í Kringlu til að ná mér í eitt eintak.

Þó það sjáist kannski ekkert alltof vel á þessum myndum þá keypti ég skyrtuna mína í gráu en hún er líka til í ljósbláu. Ég tók myndirnar þegar það var aðeins farið að skyggja svo þess vegna virðist hún vera blárri á þessum myndum en hún er í raun og veru. Nánast allur fataskápurinn minn er grár yfirhöfuð svo það var ekki erfitt val fyrir mig að velja hvort ég myndi vilja gráa eða bláa skyrtu. Ég er bara of hrifin af gráu!

Skyrtan er úr einskonar hör efni nema það er aðeins léttara og þynnra svo ef ykkur vantar flotta sumarskyrtu þá er þessi klárlega málið! Það er síðan hægt að hneppa skyrtunni alveg upp í háls eða opna hana alveg svo það er pínu hægt að leika sér með hana.

Love it❤️

Rannveig H.

Fylgdu mér á Facebook og Instagram (rannveigbelle)

 

Glamglow Minis

Það er ekkert sem hressir húðina mína jafn mikið og góður maski. Þessar tíu mínútur þegar ég er með maskann á mér reyni ég að nýta í algjöra slökun, til að hreinsa hugsan frá vinnu og öðru og hlaða batteríin. Svo er ekki verra að húðin fái endurhleðslu í leiðinni 😉 Nýlega kom á markað hér heima minni útgáfur af Glamglow möskunum sem eru alveg tilvaldir á svo margan hátt. Það er þá til dæmis hægt að kaupa minni gerðina áður til að prófa maskann og ef hann virkar vel þá er hægt að fjárfesta í stærri stærðinni. Síðan er þessi stærð af möskum líka fullkomin í ferðatöskuna í sumar því að húðin fer svo sannarlega ekki í frí þó að hugurinn geri það 🙂

Ég á þrjár típur af möskum í minni stærðinni og mig langaði að segja ykkur aðeins frá hverjum og einum þeirra og hvað þeir gera fyrir húðina.

Fyrstur er svarti upprunalegi maskinn frá Glamglow sem byrjaði allt þetta Glamglow ævintýri. Þennan á ég í stærri stærð svo ég er ekki ennþá búin að opna þennan litla því ég er að spara hann 🙂 Svarti maskinn heitir Youthmud og á að vera „facial“ í krukku. Maskinn hreinsar í burtu dauðar húðfrumur, sléttir úr húðinni og gefur henni heilbrigðan ljóma.

Í maskanum sjálfum er að finna fíngerð korn ásamt telaufum sem sjá til þess að maskinn geri það sem hann segist ætla að gera.

Næstur er það Powermud sem er rosalega sterkur hreinsimaski. Þessi er það sterkur að ég myndi alls ekki mæla með að setja hann á húðina um leið og þið komið úr sturtu heldur leyfið húðinni að loka sér alveg áður. Ég hef brent mig á einmitt þessu og það var ekki þægilegt! Svo notið maskann rétt 😉

Maskinn inniheldur svokallaða mud to oil tækni sem að djúphreinsar húðina og hreinsar hana af öllum óhreinindum.

Síðast en ekki síst er það Thirstymud! Þessi maski er ekkert annað en himnaríki í krukku. Maskinn stútfyllir húðina af raka en það er bæði hægt að setja lag af honum á húðina til að taka af eftir nokkrar mínútur en einnig er hægt að setja þunnt lag af honum á húðina og skilja hann þar eftir yfir nótt.

Maskinn ilmar eins og bland af karamellu og kókos og hann lítur líka bara út eins og þétt dulce de leche karamella sem manni langar eiginlega bara að borða frekar en að smyrja á andlitið.

Mér finnst rosalega sniðugt að geta keypt maskana frá Glamglow í minni umbúðum því þá get ég líka leyft mér að prófa fleiri gerðir af möskunum án þess að kaupa stóru stærðina. Algjör snilld og svo eru þeir líka bara svo krúttaðir!

Rannveig H.

Fylgdu mér á Facebook og Instagram (rannveigbelle)

 

 

Fylgdu okkur á


Follow