Katrín

Mér finnst vera komin tími fyrir mánaðarlega bókabloggið!

Ég les aðalega draugabækur og hrollvekjur, þannig að ef þú ert með viðkvæmt hjarta þá myndi ég láta það vera að lesa næstu tvær bækur sem ég ætla að fjalla um í þessari grein.

Fyrsta bókin sem ég tek fyrir í dag heitir ,,It Found Me“ og er eftir Stephanie Boddy.
Stephanie er breskur höfundur sem hefur gefið út 7 bækur. Hún segist sjálf elska hrollvekjur og þessi bók ásamt þeirri á undan eru byggðar á sönnum atburðum sem fjölskyldan hennar varð vitni af.  Þessi bók er gefin út í október árið 2014 og kemur í beinu framhaldi við fyrstu bókina ,,The House on Poultney Road“ sem ég fjallaði um í annarri færslu. Ef þú misstir af henni geturðu lesið umfjöllun HÉR. 

It Found Me er með 4 og 1/2 stjörnu á Goodreads og 12 umsagnir. Þrátt fyrir að umsagnirnar séu fáar fær hún alltaf 5 stjörnur frá öllum. Ég held að þessi bók sé falinn demantur sem fáir vita af.

Ég vildi óska þess að Stephanie Boddy myndi gefa út fleiri bækur. Þetta eru einu bækurnar sem ég hef gefið 5 stjörnur á Goodreads. Í þessari sögu fylgjum við húsfreyjunni Ellen sem við þekkjum úr fyrri bókinni. Nú eru börnin flutt að heiman og Richard eignmaður hennar er látin. Ellen býr því ein á Poultney Road. En við vitum að hún er aldrei ein… því það er eitthvað í húsinu sem við sjáum ekki – en það sýnir sig á næturnar og Ellen er ofstótt af svartklædda manninum sem situr við rúmstokkinn hennar á kvöldin.

Við fylgjumst líka með Eric (sem var ungur strákur í fyrstu bókinni) son Ellenar og eignkonu hans Yvonne. Eric er fegin að vera fluttur frá Poultney Road og ætlar að hefja nýtt líf með konu sinni og dætrum. Hann hefur þó alltaf áhyggjur af móður sinni sem býr ein í ,,draugahúsinu“. Fljótlega kemst Eric að því að nýja húsið hans er ansi líkt því gamla og áður en hann veit af eru dætur hans byrjaðar að tala um fólk sem engin annar sér. Þau komast svo að því að húsið geymir skelfileg leyndarmál.

Þessi bók er fallega fléttuð saman – algjörlega áreynslulaust. Ég var skíthrædd á meðan ég var stödd inni í þessari sögu, inni í þessum óhuggulega heimi en ég gat ekki hætt. Það kom fyrir nokkur kvöld að ég þorði ekki að fletta á næstu blaðsíðu, þar sem ég lá í myrkrinu með Kindle-inn minn. Ég var ekki andlega tilbúin að takast á við það sem koma skyldi. Svartklædda manninn sá ég í margar vikur eftir að ég hafði lokið lestrinum. Mér fannst hann vera falinn í öllum dimmum hornum í húsinu mínu þannig að ég svaf með kveikt ljós dagana á eftir…. það gerist ekki oft að ,,paranormal“ bækur sitji svona í mér en bækurnar hennar Stephanie gerðu það báðar. Ég vona að ég fái að sjá eitthvað nýtt frá henni á komandi mánuðum eða árum.
It Found Me er 192 bls sem er í styttri kantinum en þú verður að hafa lesið fyrstu bókina áður en þú tekur upp þessa. Alls ekki fyrir viðkvæmar sálir!

 

Næsta bók sem ég ætla að fjalla um heitir The Harrowing og er eftir Alexöndru Sokoloff.
Hún er fædd og uppalin í Kaliforníu og hefur unnið til verðlauna og verið tilnefnd margoft fyrir bækur sínar. The Harrowing var gefin út 22. ágúst árið 2006 þannig að hún er 11 ára gömul. Hún fær 3 og 1/2 stjörnu frá lesendum á Goodreads og 280 umsagnir. Þetta er fyrsta bókin sem ég les eftir Alexöndru og ég hef lesið eina aðra. Hún skrifar bæði ,,paranormal“ sögur og glæpasögur (sem ég persónulega hef lítin áhuga á).

Ég verð að segja að þessi bók kom mér á óvart og ég endaði á að gefa henni 4 stjörnunar á Goodreads sem er ansi gott.

Bókin fjallar um Robin sem er í heimavistaskóla. Allir nemendurnir eru að fara heim í fjögra daga frí en hún ákveður að vera eftir í skólanum ásamt fjórum öðrum nemendum sem hún þekkir ekki. Öll eru þau eins ólík og hægt er en einmannaleiki og stormurinn sem skellur á gerir það að verkum að þau sækjast í félagsskap hvors annars. Fljótlega átta þau sig á að þau eru ekki ein og þessi gamli skóli hefur að geyma óhugguleg leyndarmál sem þau hefði átt að láta vera.

Karaktersköpunin í bókinni er virkilega góð og Alexandra nær að byggja upp spennu sem heldur manni allan tímann. Bókin er 256 bls að lengd og mér fannst hún ekki mega vera styttri. Þetta er bók sem er erfitt að leggja frá sér og hún er mjög ,,scary“ á köflum, en þetta er ekki bók sem hræðir úr þér líftóruna. Ég persónulega myndi kalla þetta svona þægilegan lestur. Hún veldur þér óhug en líf þitt raskast samt ekkert. Við tengjumst aðal karakternum henni Robin mjög vel og eftir að lestrinum lauk þá fann ég fyrir söknuði. Þá er um að ræða góða bók.

Ég mæli með þessari bók fyrir þá sem eru að feta sín fyrstu fótspor í ,,paranormal“ bókum. Ef draugabækur heilla þig ekki þá myndi ég samt kíkja á þennan höfund því hún er með fjölbreytt úrval.

Læt þetta duga í bili , en ég tek fyrir tvær aðrar skugglegar bækur í apríl þannig að endilega fylgist með! Þið getið líka fylgt mér á Goodreads og séð allar bækurnar sem ég hef safnað saman þar, en þær eru allar í þessum dúr.


Katrín

  Þú finnur mig á Instagram , facebook & snapchat!
(katrinbelle.is)

0 athugasemdir

Skildu eftir athugasemd

Netfangið þitt mun ekki vera birt

 

Fylgdu okkur á


Follow