Katrín

Ertu að spá í að prófa augnháralengingar fyrir jólin? Ef svo er þá skaltu halda áfram að lesa…..

Ég hef ágætis reynslu af þessum lengingum. Ég hef farið víða og prófað margar gerðir. Mig langar til að spara þér tíma og peninga og segja þér hvert þú átt að fara og við hverju þú átt að búast.

Þegar ákvörðun hefur verið tekin þá……

Í fyrsta lagi, eru tvær dömur í þessum bransa sem gera þetta vel. Það er Inger sem er eigandi stofunnar Beauty By Inger. Hún er staðsett á hárgreiðslustofunni Traffic í Holtagörðum. Síðan er það hún Þórey sem er snyrtifræðingur á Blue Lagoon Spa í Glæsibæ. Gaman að segja frá því að þessar tvær störfuðu eitt sinn saman á stofunni Makeover í Hafnafirði.  Ekki taka neina sénsa, haltu þig við þessar dömur og þú verður ekki fyrir vonbrigðum.

* Ég hef prófað nokkrar stofur og í eitt skiptið gekk ég út eins og dragdrottning.Þannig að vandaðu valið vel vinkona!

Í öðru lagi, þá fer þetta ekki illa með þín eigin augnhár. Ég var með lengingar ,,straight“ í 2 ár. Þegar ég lét fjarlægja þær þá voru mín augnhár öll á sínum stað. En þau vísuðu niður, enda búin að bera gervihár í langan tíma. Það var samt mjög fljótt að jafna sig. Augnháralengingar virka þannig að stök augnhár eru límd á þín eigin. Þú getur valið um lengd og þykkt háranna. Ég er alltaf pínu öfgakennd þegar kemur að þessu og er með stærð 12 (minnir mig, læt Inger sjá um þetta)!

Í þriðja lagi, þá er nauðsynlegt að hugsa vel um hárin og fylgja ráðleggingum. Ég t.d. nota ekki maskara dagsdaglega þegar ég er með lengingar. Það er algjör óþarfi (en það má). Ég greiði í gegnum hárin á morgnana með hreinum augnhárabursta og alltaf eftir sturtu. Þú mátt ekki nudda augun eða líma gerviaugnhár yfir lengingarnar (ég gerði það einu sinni og fékk skammir) 😉 Reyndu líka að forðast að sofa á andlitinu, það er svosem ekki gott fyrir neinn.

Í fjórða lagi, þá máttu ekki nota neinar vörur með olíu því það leysir upp límið.

Í fimmta lagi, þá þarftu að fara reglulega í lagfæringu. Það er svo misjafnt hjá mér, stundum fer ég á þriggja vikna fresti og stundum læt ég líða fjórar vikur. Hef verið með lengingar í 6 vikur án þess að laga! Fór samt til Spánar í sjóinn og ég veit ekki hvað og hvað. Þegar það er komin tími á lagfæringu þá byrja ég að nota maskara til að fela.

Á myndinni er ég nýkomin úr lengingu, enginn maskari. 

Það tekur sirka 60-90 mínútur að fá nýtt sett. Lagfæring tekur 30-60 mínútur en þá eru öll laus hár tekin og ný hár sett þar sem vantar.

Það er alls ekki vont að fá augnháralengingar og þú finnur ekki fyrir því að vera með þetta á þér. Kannski fyrst, en það venst fljótt.

Hjá Inger kostar nýtt sett 11.900 kr og lagfæring 7000-9900 kr (fer eftir því hve mikið þarf að laga).

Mér finnst þetta algjör snilld t.d. um jólin þegar ég er á leiðinni í mörg matarboð og nokkur jólahlaðborð. Þá sparar þetta mér tíma og fyrirhöfn. Mér finnst gaman að því að ,,poppa“ aðeins uppá útlitið svona um hátíðarnar.

Ef þú vilt skoða myndir af lengingum eftir Inger þá skaltu kíkja á FB síðuna hennar HÉR.

Ég vil samt taka það skýrt fram
……að mér finnst alls ekki nauðsynlegt að vera með augnháralengingar. Ég er ekki að fá mér þetta til að fullnægja útlitsdýrkun samfélagsmiðla. Mér finnst ég alveg jafn sæt og falleg hvort sem ég er ómáluð með mín eigin augnhár eða máluð með lengingar. Ungar stelpur verða að átta sig á því að allt svona extra glingur er ekki nauðsynlegt til að líta vel út! Stelpur eru samt alltaf stelpur og við höfum margar hverjar áhuga á einhverju svona. Vertu samt vakandi fyrir því á hverju ykkar ákvörðun byggist. En það er allt í lagi að hafa gaman að þessu og taka hlutunum ekki of alvarlega 🙂


Katrín

  Þú finnur mig á Instagram & facebook

 

 

0 athugasemdir

Skildu eftir athugasemd

Netfangið þitt mun ekki vera birt

 

Fylgdu okkur á


Follow