Katrín

vorurnar_eru_i_einkaeiguEf það er eitthvað sem við mömmurnar könnumst einstaklega vel við þá er það að við reynum alltaf að hugsa mjög praktískt! Íris Rut dóttir mín er þriggja ára og Alexander sonur minn er fæddur í ágúst 2016. Það fyrsta sem ég hugsaði þegar ég fékk þær fréttir að ég ætti von á strák var ,, okey þá er eins gott að byrja að kaupa föt í hlutlausum litum fyrir dömuna svo að drengurinn geti nú örugglega notað flíkina seinna.

Praktíski hugsunarhátturinn er frábær og ég beiti því sverði óspart í mínum daglegu ákvörðunum og kannski séstaklega þegar kemur að mér sjálfri. Ég þarf ekki annað en að líta inn í fataskápinn minn til þess að sjá raunveruleikann hanga ljóslifandi fyrir augum mér. Allir svörtu síðermabolirnir sem ég ákvað að kaupa í H&M vegna þess að svartur er mjög öruggur litur sem passar við allt og auðvitað urðu síðerma fyrir valinu því það er kalt á Íslandi. Tvennar gallabuxur, einar klassískar og svo þessar fínni. Svörtu elegant buxurnar sem fara vel í vinnunni, nokkrar sokkabuxur svartar að sjálfsögðu og örugglega 11 stykki af hlýrabolum í jarðlitum sem ég nota innan undir svörtu síðu peysurnar sem ég elska. Nokkur pör af skóm, allir svartir, allir klassískir, allir eins. Allt mjög praktískt.

Mér var boðið að gerast höfundur hjá Belle.is. Mitt umfjöllunarefni mun snúast um fjölskyldulífið, mömmudekur, heilbrigðan lífsstíl og tísku. En hvernig get ég fjallað um tísku? Fötin mín eru ,,mömmuföt´´. Þau eru algjör snilld til að hangsa í heima þegar ég þarf að vera snögg í snúningum eða þegar taubleian er týnd og Alexander gubbar eftir gjöf en eru þau efni í blogg? Ég vissi svarið.

Það er auðvitað bara eitt í stöðunni þegar þú ert búin að koma þér út í eitthvað sem þú segist vera með á hreinu en fattar að svo er ekki,  þú ferð að rannsaka! Ég henti börnum í ból snemma, settist fyrir framan tölvuna og fór að lesa mig til um nýjustu tískuna, nýjustu trendin, nýjustu litina og nýjustu sniðin. Ég skoðaði vinsælustu netverslanirnar, nýjustu sendingarnar, horfði á heimildarmyndir um tískugoð IRIS og  kynnti mér öll heitustu nöfnin. Áður en ég vissi af var klukkan yfir miðnætti þannig að ég lagðist upp í rúm. En hausinn á mér stoppaði ekki.  Ég lá andvaka alla nóttina að hugsa um sögu tískunnar lengst aftur í tímann, hugsaði um gullskóna með slaufunni sem ég átti sem barn og elskaði. Ég velti fyrir mér mismunandi menningarheimum og svo allt í einu fattaði ég eitthvað sem ég hef heyrt alveg ótrúlega marga segja og tala um en hef aldrei áttað mig almennilega á sjálf. ,,Lífið er alltof stutt til þess að klæða sig leiðinlega´´. Ég svaf í rúmlega tvo tíma þessa nótt en ég vaknaði með börnunum mínum endurnærð morguninn eftir. Ég var svo spennt að halda rannsókn minni áfram. Í öllum þessum hversdagleika, sjá um börnin, elda matinn, borga reikninga, vinna og þrífa húsið þá gleymdi ég því að ég hef alveg bullandi áhuga á tísku! Ég gleymdi því að ég á áhugamál og alveg nokkur meira að segja!! Ég gef mér bara aldrei tíma til þess að njóta þeirra.

Ég er því búin að taka ákvörðun. Að sjálfsögðu þarf ég að vera praktísk, ég er ekki búin til úr peningum en það er ekki þar sem sagt að ég geti ekki víkkað sjóndeildarhringinn minn aðeins þegar kemur að fatavali á sjálfan mig. Ég ætla ekki að kalla þetta áramótaheit, tímasetningin er algjör tilviljun en mitt markmið þetta árið er að breyta út af mínum hefbundna ef ég má segja ,,boring´´ stíl og prófa eitthvað nýtt. Nýja liti, nýtt snið og jafnvel gægjast inn í fleiri búðir en Vero Moda þegar leið mín liggur í Smáralindina. Ég ákvað að halda uppá þetta, dusta rykið af þessu gamla áhugamáli mínu og fagna með ferð inná www.newlook.com og skella mér á tvenn skópör. Þessi skópör eru alls ekki praktísk og alveg séstaklega ekki á þessum árstíma. En það kemur fyrir að ég skelli mér út á lífið, í veislur, matarboð eða hitting af einhverju tagi með vinum og þá þykir nauðsynlegt að klæðast betri skófatnaði.

Ég kynni fyrstu ópraktísku skóna þetta árið, en það voru bleikir flauels skór sem urðu fyrir valinu að þessu sinni. Silkimjúkir, virkilega elegant með 11 cm hæl. Ég hef aldei áður átt svona mjúka skó og þrátt fyrir háan hæl þá faðma þeir fótinn svo vel að þú finnur fyrir öryggi. Mér líður svolítið eins og ég sé orðin fullorðin þegar ég klæðist þeim og loksins tilbúin að vera bara ég sjálf.

img_0816

Eftir að ég hafði gerst svo djörf svo að skella bleikum flauels skóm í körfuna mína þá varð ég örlítið óörugg og hörfaði til baka svona eins og gengur og gerist þegar maður prófar nýja hluti og fer út fyrir þægindarrammann. Þannig að svartir skór voru það næst, en þeir eru opnir, mjög ,,classy´´ með 11 cm hæl og virka við allt. Það sem heillaði mig mest eru gylltu smáatriðin í sólunum og sylgjunni sem gerir það að verkum að þig langar til að horfa á skóna endalaust. Bandið utan um öklann gefur þeim elegant lúkk.

img_0824

Ég geng sátt frá þessum kaupum með örlítin spennuhnút í maganum en bros á vör. Nú bíð ég bara spennt eftir boðskorti í næstu veislu (helst ekki barnaafmæli).


Katrín

  Þú finnur mig á Instagram , facebook & snapchat!
(katrinbelle.is)

 

1 Athugasemd

Skildu eftir athugasemd

Netfangið þitt mun ekki vera birt

  1. Flott blogg hjá þér Katrín.
    set algjörlega = merki við svarta fataskápinn kannski ætti maður að fara útfyrir þægindinn í litavali og velja eitthvað annað en svart

 

Fylgdu okkur á


Follow