Katrín

Hvað er svefn?

Hve mikið þarf að sofa?

Hvernig er best að bregðast við svefnvandamálum?

 Þið sem þekkið mig og lesið bloggin mín vitið að ég er algjört bókanörd. Í þessari færslu ætla ég að segja ykkur frá nýjustu bókinni sem ég hef verið að lesa. Þetta er bók sem enginn ætti að láta framhjá sér fara vegna þess að hún nær til okkar allra.

Bókin SVEFN eftir Dr. Erlu Björnsdóttur.

,,Svefn er ein af grunnstoðum heilsu, ásamt næringu og hreyfingu. Svefnvandamál eru algeng í hröðu nútímasamfélagi en óreglulegar svefnvenjur og skortur á svefni geta haft margvísleg áhrif á líkamlega og geðræna heislu“.

Nú er sumarið á enda og allir að koma til baka í rútínu. Það besta sem þú getur gert fyrir sjálfan þig til að byrja haustið á réttum nótum er að taka svefnmynstrið í gegn.


,,Ferðalag frá vöku til svefns gerist ekki á einu augabragði. Þegar flugvél lendir eftir vel heppnaða flugferð slökkva flugstjórar á öllum tækjum…..svipað ferli á sér stað þegar líkaminn nær lendingu eftir annasaman dag. Hitastig hans lækkar og smám saman hægist á hjartslætti og öndun. Það slaknar á vöðvum, blóðþrýstingur lækkar og líkaminn slekkur á vökukerfum sínum samkvæmt ákveðnu regluverki. Fljótt hægist á framheila, þeim hluta heilans sem geymir rökhugsun og skynsemi. Þegar við liggjum á milli svefns og vöku geta hversdagslegir hlutir orðið að óyfirstíganlegum hindrunum og jafnvel haldið fyrir okkur vöku….Áhyggjur næturinnar hverfa síðan eins og dögg fyrir sólu að morgni dags þegar framheilinn hefur störf á nýjan leik. Það gefur því auga leið að þegar komið er upp í rúm á kvöldin er ekki skynsamlegt að ætla sér að leysa úr flóknum eða erfiðum málum.“ – Erla Björnsdóttir


Þessi bók kom mér þvílíkt á óvart og hefur nýst mér ótrúlega vel. Hún er bæði fróðleg og skemmtileg, lumar á góðum ráðum og setur skýrar línur um hvað hægt sé að gera til að auka svefngæði. Þar má nefna mikilvægi þess að hafa reglu á máltíðum, vegna þess að svengd getur truflað svefninn og því getur létt snarl á kvöldin verið skynsamlegt.


,,Svefn ungbarna fer í gegnum sömu svefnstig og svefn fullorðinna en svefnsmynstur þeirra er þó mjög frábrugðið þar sem börn eyða hlutfallslega mun lengri tíma í léttum svefni og draumsvefni…..Nokkuð algengt er að ungabörn gefi frá sér hljóð þegar þau sofa, stundum er jafnvel eins og þau séu að gráta. Það er mikilvægt fyrir foreldra að vera meðvitaðir um þetta, því hætt er við að þeir haldi að barnið sé vaknað og taki það jafnvel upp og trufli þannig hið eðlilega svefnmynstur“ – Erla Björnsdóttir


Allt sem þú þarft að vita um svefn barna finnur þú í þessari bók. Afhverju þau eru að vakna á nóttunni, hvernig daglúrum á að vera háttað ásamt ráðleggingu um hvernig barnið getur sofnað sjálft. Eitt sem mér fannst mjög merkilegt og ég hef notað mikið seinustu vikur er hvernig þú getur breytt vondum draumum eða hreinlega eytt þeim! Dóttir mín er gjörn á að fá martraðir en þessi taktík sem Erla kennir í bókinni sinni þrælvirkar og hefur reynst okkur mjög vel.


,,Svefnvandamál eru algeng hjá þeim sem stunda vaktavinnu og rannsóknir hafa sýnt að vaktavinnufólk fær allt að sjö klukkustundum styttri svefn á viku en aðrir. Tíðni vandamála á borð við svefnleysi og einbeitingaskort er þó nokkuð hærri en gengur og gerist hjá fólki sem stundar reglulega vinnu“- Erla Björnsdóttir


Þessi bók opnaði augun mín fyrir því hversu mikilvægur svefn er og hvernig ég sem foreldri get sett gott fordæmi fyrir börnin mín. Hvað góðar kvöldvenjur skipta ótrúlega miklu máli fyrir fjölskylduna mína og hversu nauðsynlegt það er að hlusta á líkamann sinn og taka mark á honum.

Ég gæti haldið endalaust áfram því þessi bók er stútfull af gullmolum!

En í staðin ætla ég að hvetja þig til að splæsa í eintak því hver veit nema sú fjárfesting eigi eftir að borga sig margfallt til baka. Betri svefn, betra líf.

Bókin er til í öllum helstu bókabúðum landsins. Þú getur nálgast bókina HÉR. 


Katrín

  Þú finnur mig á Instagram & facebook (katrinbelle.is)

 

 

0 athugasemdir

Skildu eftir athugasemd

Netfangið þitt mun ekki vera birt

 

Fylgdu okkur á


Follow