Heiðrún

 

Hæ! Vanalega birti ég bara uppskriftir hérna á blogginu en mig langar að skella í  færslu sem er ekki uppskrift 🙂 
Siðustu ár hef ég ferðast mjög mikið til Ameríku. Mér finnst það alltaf jafn skemmtilegt. Þegar ég var krakki ferðaðist ég aldrei til USA en ferðaðist mikið um Evrópu sem var dásamlegt. Þegar ég var svo orðin eldri og farin að ferðast sjálf langaði mig að prófa eitthvað nýtt og þá prófaði ég að fara til Ameríku. Síðan þá hef ég eiginlega farið á hverju ári.
Þar sem ég elska allt sem viðkemur eldamennsku og bakstri þá kemur það kannski ekki á óvart en eitt það skemmtilegasta sem ég geri þegar ég er í Ameríku er að fara í matvörubúðir. Ég elska hvað það er mikið úrval af allskonar vörum sem ekki eru til heima. Ferðafélagar mínir gera vanalega grín að mér því mjög oft er það þannig að ég ferðast heim með fullt af allskonar matvöru 🙂 Þess vegna langaði mig að búa til smá lista yfir það sem ég kaupi mér alltaf þegar ég fer til Ameríku, þessar vörur eru í uppáhaldi hjá mér! Ef einhver ykkar er á leið til USA þá getiði vonandi nýtt ykkur þennan lista 😉 
Fljótlega ætla ég svo að skrifa aðra færslu um Ameríku en þá ætla ég ekki að skrifa um matvörur heldur annað sem mér finnst ómissandi þegar ég ferðast til USA 🙂 

 

-Krydd úr Trader Joe’s

Trader Joe’s er uppáhaldsmatvörubúðin mín í USA, ég elska hana! Elska úrvalið þar af hollum vörum! Ég gæti í alvöru eytt heilum degi í þessari búð bara að skoða. Ef þið eigið leið þangað þá verðiði eiginlega að kaupa þessi krydd!

Everything but the bagel – Hrikalega gott krydd. Það er mjög gott ofan á allskonar eggjarétti eða avacado. Svo hef ég líka prófað að strá því yfir salat sem er mjög gott. Uppáhaldskryddið mitt þessa stundina!

BBQ Rub and Seasoning with Coffee and Garlic – Okey þetta krydd hljómar kannski skringilega. BBQ krydd með kaffi og hvítlauk! Þetta krydd er samt æði á grillkjötið, ég drekk ekki kaffi og þoli ekki kaffibragð og var þess vegna smá smeik við að prófa þetta en vá hvað það er gott! Tryllt á grillað lambakjöt og nautakjöt, sumarlegt og gott!


Chili Lime Seasoning – Ótrúlega gott krydd, sérstaklega á kjúkling! Líka gott að strá þvi yfir tómatsalat.

 

Onion salt – Annað krydd sem er í uppáhaldi hjá mér, ótrúlega gott í matargerð og ég nota það mjög mikið!

 

-Mio Energy
Ég kaupi mér alltaf þessa drykki þegar ég fer til USA. Ég set 2-3 dropa af vökvanum í glas og blanda vatni við. Bæði hægt að kaupa með koffíni og án þess. Mér finnst þetta algjör snilld, fæ mér stundum glas af þessu ef sykurþörfin er að fara með mig (það eru 0 kaloríur í drykknum). Ég kaupi mér samt alltaf sama bragðið, er búin að smakka margar mismunandi tegundir og þær eru allar mjög fínar en það er eitt bragð sem mér finnst langbest þannig mér finnst óþarfi að kaupa öðruvísi tegundir. Það sem ég kaupi mér alltaf heitir Wicked Blue Citrus (Sjá á myndinni hér að neðan).

-Frostþurrkuð ber
Ég hef ekki ennþá fundið frostþurrkuð ber hérna á Íslandi þannig ég kaupi mér oft þannig þegar ég fer til USA. Þau eru hrikalega góð, sérstaklega jarðaberin! Bragðast eins og nammi nema bara hollari 😉 Kaupi þau vanalega í Target eða í Trader Joe’s.

-Fiber One súkkulaði brownies
Þessir brownie bitar eru geggjaðir! Ég elska þá! Ég kaupi alltaf 2 pakka af þessum kökum þegar ég fer til USA (Held þeir séu reyndar líka til í Bretlandi). Hver kaka er bara 90 kaloríur, kannski ekkert hollasta millimál sem til er en það er samt svo gott að grípa í þessa bita þegar sykurþörfin bankar upp á. Þessar kökur eru til með allskonar bragði en mér finnst súkkulaðibrownies vera bestar.

 

-m&m caramel
Þegar ég fer til Ameríku kem ég alltaf heim með smááá nammi, svona til að eiga á erfiðum dögum 😉 Er einhver sem fer í frí til USA og kemur bara ekki með neitt nammi heim með sér?! M&m caramel er klárlega í uppáhaldi hjá mér, þetta nammi er guðdómlega gott, ef þú ert á leið til USA þá er must að kaupa karamellu m&m!

 

-Hvítlauksbrauð frá Red Lobster
Ég kaupi nánast alltaf mix til að búa til hvítlauksbrauð eins og þau sem maður fær á Red Lobster. Red Lobster er veitingastaðarkeðja í USA sem sérhæfir sig í sjávarréttum. Það besta við matinn hjá þeim er að þeir bera alltaf hvítlauksbrauð á borðið á meðan beðið er eftir matnum. Þetta hvítlauksbrauð er eitt það besta og þess vegna finnst mér geggjað að geta keypt mix í matvörubúð og eldað það svo heima. Mæli klárlega með!


 

-Poppkrydd
Ég hef aldrei verið neitt sérstaklega mikill poppaðdáandi. Mér finnst fínt að fá mér poppkorn svona af og til en fæ mér mjög sjaldan samt. Í fyrra var ég stödd á ráðstefnu í Los Angeles og rakst þar á í Target poppkrydd sem mér fannst hljóma frekar spennandi. Það voru til allskonar braðgtegundir og ég endaði á því að kaupa mér einn dunk af hverri tegund sem voru til í þeirri búð. White cheddar, nacho cheese, ranch, bacon cheddar og garlic parmesan voru tegundirnar sem ég keypti. Ég skal alveg viðurkenna það að ég hef aldrei poppað jafn oft eins og þegar ég átti þessi krydd, það var svo hrikalega gott að strá því yfir poppið mitt! Ég fer aftur til USA í sumar og þá ætla ég að gera allsherjar leit af poppkryddi! Þau eiga að fást í Target og Walmart 😉 

 

-Heath
Annað nammi sem fær oft að koma með mér heim til Íslands eftir Ameríkudvöl. Ég elska allt sem inniheldur Daim og mér finnst þetta súkkulaði eiginlega vera ameríska útgáfan af Daim, hættulega gott!

-Jack Daniel’s BBQ Pork Rub
Ég er pínku kryddperri og þess vegna kaupi ég alltaf einhver krydd þegar ég fer til USA. Kryddin hér fyrir ofan kaupi ég öll í Trader Joe’s en þetta krydd hér að neðan hef ég til dæmis keypt í Walmart. Þó svo að kryddið heiti Pork Rub þá nota ég það oftast þegar ég elda kjúkling. Hrikalega gott að strá þessu kryddi yfir kjúklingaleggi og setja svo inn í ofn. Ég hef líka prófað að nota það þegar ég hægelda svínakjöt og það var líka mjög gott. Klárlega eitt af uppáhaldsmatarvörunum mínum frá USA!

 

 

-Heiðrún

0 athugasemdir

Skildu eftir athugasemd

Netfangið þitt mun ekki vera birt

 

Fylgdu okkur á


Follow