Heiðrún

Jæja nú styttist í bolludaginn! Ef ég á að vera alveg hreinskilin þá er bolludagurinn ekki í neinu sérstöku uppáhaldi hjá mér. Frá því ég var lítil þá hefur mér fundist þessar týpísku bolludags-bollur frekar vondar og borða vanalega ekki eina einustu! Í dag er reyndar hægt að fá ótrúlega mikið úrval af girnilegum bollum í bakaríum landsins sem er algjör snilld! Mig langaði samt rosalega að prófa að búa til öðruvísi bollur og þar sem ég verð ekki á landinu á bolludeginum þetta árið ákvað ég að flýta honum aðeins. Ég bauð fjölskyldunni í bollukaffi um liðna helgi og gerði nýja tegund af bollum sem ég hef aldrei smakkað. Ég bjó til æðislegan vanillubúðing og fyllti bollurnar með honum og toppaði þær svo með ótrúlega góðum súkkulaði-glassúr! Uppskriftin er frekar auðveld, það sem aðallega gæti klikkað er búðingurinn en ef ekki er farið nákvæmlega eftir uppskriftinni gæti hann skilið sig eða orðið kekkjóttur. Þessar bollur voru rosa góðar, meiraðsegja mér fannst þær góðar og þá er mikið sagt 😉 Eins og þið sjáið á myndunum gerði ég venjulegar bollur en ég gerði líka éclair úr helmingnum af deiginu. Éclair sjáið þið betur hér.

IMG_5619

IMG_5625

IMG_5627

IMG_5633

IMG_5639

IMG_5646

IMG_5653

IMG_5654

1. Bollurnar:               

½ bolli (eða 125 gr) nýmjólk

½ bolli (eða 125 gr) vatn

115 gr íslenskt smjör

¼ tsk sykur

¼ tsk salt

1 bolli (eða 140 gr) hveiti

5 stór egg við stofuhita

2. Vanillubúðingur:

6 eggjarauður

2 bollar nýmjólk

¾ bolli (eða 160 gr) sykur

1 matskeið vanilludropar

¼ bolli (eða 35 gr) hveiti

55 gr íslenskt smjör

3. Súkkulaðiglassúr:

130 gr suðusúkkulaði

75 gr smjör

2 msk síróp

2 msk heitt vatn

 

AÐFERÐ:

1. Bollurnar:

Setjið bökunarpappír á 2 ofnplötur.

Hitið ofninn í 200 gráður.

Pískið öll eggin saman í skál. Setjið til hliðar.

Blandið saman mjólkinni, vatninu, smjörinu, sykri og salti í djúpan pott. Hitið þar til fer að sjóða. Mikiðvægt að passa að blandan brenni ekki við.

Þegar blandan er byrjuð að sjóða lækkið þá hitann í miðlungshita.

Hellið hveitinu ofan í blönduna. Blandan þykknar mjög fljótt og þess vegna er mikilvægt að hræra mjög vel í blöndunni þegar hveitinu er bætt við. Haldið áfram að hræra í 1-2 mínútur þar til blandan verður líkari deigi.

Færið deigið í aðra skál og hrærið á miðlungshraða með rafmagnshrærivél. Hrærið í 1-2 mínútur.

Bætið eggjunum (sem búið er að píska vel saman) smátt og smátt við blönduna á meðan þið hrærið með rafmagnshrærivélinni. Ekki setja öll eggin í einu, setjið frekar í smáum skömmtum (4-5 skömmtum) og hrærið vel á milli. Áður en þið setið næsta skammt af eggjum við deigið skuluð þið vera búin að hræra fyrri skammtinn alveg við deigið. Það gæti gerst í þessu skrefi að deigið virðist ætla að skilja sig, haldið bara áfram að hræra, þá ætti deigið að lagast. Að lokum ætti blandan að verða orðin nokkuð þykk.

Setjið deigið í sprautupoka og veljið stút sem er ekki of lítill. Það er líka alveg hægt að nota bara tvær skeiðar, þarf ekki endilega að setja deigið í sprautupoka.

Sprautið deiginu á smjörpappírinn. Gerið ráð fyrir að deigið muni stækka töluvert þannig það er óþarfi að sprauta of miklu deigi fyrir hverja bollu (fínt að miða við að hver bolla sé ca. í sömu stærð og golfbolti). Ef þið viljið láta bollurnar líta út eins og éclair þá þarf að nota sprautupokann og sprauta ca. 5 cm.

Setjið inn í ofn og bakið í ca 20 mínútur. Þetta skref fer þó eftir því hvernig ofn þið eigið. Í upprunalegu uppskriftinni er talað um að baka eigi bollurnar í 15 mínútur við 220 gráðu hita og lækka svo hitann niður í 190 gráður og láta bakast í 25 mínútur. Í mínum ofni bakaði ég bollurnar í tæplega 20 mínútur á 200 gráðum.

2. Vanillubúðingur:

Pískið eggjarauðurnar, sykurinn og hveitið saman í stórri skál.

Hitið mjólkina í potti á miðlungshita þar til hún fer að sjóða. Passið að hún brenni ekki við.

Hellið mjólkinni við eggjarauðublönduna  og haldið áfram að hræra vel saman. Notið písk.

Þegar þið eruð búin að hræra/píska heitri mjólkinni saman við eggjarauðurnar, sykrurinn og hveitið, setjið þá blönduna aftur í stóran pott. Blandan ætti að vera frekar þunn.

Hitið blönduna í pottinum þar til hún fer að sjóða. Á meðan þið gerið það er mikilvægt að hræra í blöndunni. Um leið og þið hættið að hræra fer blandan að brenna við í botninn. Ég mæli með því að nota spaða úr gúmmí.  Passið að hræra vel úr botninum. Blandan ætti að fara að þykkna. Hrærið áfram í 2-3 mínútur og takið svo af hitanum.

Bætið smjörinu og vanilludropunum við heita blönduna. Leyfið smjörinu alveg að bráðna og hrærið saman.

Núna ætti búðingurinn að vera tilbúinn. Setjið hann í skál eða annað box og lokið með plastfilmu. Setjið búðinginn í ísskápinn þar til þið notið hann.

3. Súkkulaðiglassúr:

Setjið öll hráefnin í pott og hitið saman við vægan hita. Leyfið að kólna.

 

Að lokum:

Leyfið bollunum ykkar að kólna alveg áður en þið fyllið þær af vanillubúðing.

Setjið búðinginn í sprautupoka. Sprautið búðingnum inn í bollurnar, magn fer alveg eftir smekk. Ég sprauta búðingnum vanalega inn á 2-3 mismunandi stöðum á bollunni, ef bollan er í stærri kantinum. Passið líka að nota ekki of stóra sprautu. Passið bara að setja ekki það mikinn búðing að hann fari út um allt.

Setjið glassúrinn ofan á bollurnar með skeið eða dýfið efri hluta þeirra ofan í glassúrinn.

-Heiðrún

0 athugasemdir

Skildu eftir athugasemd

Netfangið þitt mun ekki vera birt

 

Fylgdu okkur á


Follow