Heiðrún

Súkkulaðikaka með mjúkri miðju

Hæ! Langt síðan ég hef kíkt inn á bloggið, sumarfríið í fullum gangi og nóg að gera 🙂 Ætla að setja inn uppskrift í dag af uppáhaldinu mínu! Það er fátt betra en góð súkkulaðikaka með mjúkri miðju sem lekur út úr kökunni þegar skorið er í hana, hrikalega gott! Ég hef oft reynt að baka svona kökur en það hefur svo oft mistekist hjá mér að ég var eiginlega hætt að reyna en um daginn fann ég uppskrift sem mér fannst svo girnileg að ég ákvað að prófa aftur og það heppnaðist fullkomlega!

Súkkulaðikaka með mjúkri miðju
Skrifa umsögn
Prenta
Hráefni
 1. 170 gr suðusúkkulaði
 2. 115 gr smjör
 3. 35 gr hveiti
 4. 60 gr flórsykur
 5. Salt á hnífsoddi
 6. 2 stór egg
 7. 2 stórar eggjarauður
Aðferð
 1. Hitið ofninn í 220 gráður
 2. Mér finnst best að nota álform þegar ég baka þessar kökur. Smyrjið álformið og dustið smá kakódufti yfir formið, þá verður mun auðveldara að má kökunni úr forminu.
 3. Bræðið saman smjör og súkkulaði, passið að það brenni ekki við
 4. Hrærið saman þurrefnunum, hveiti, flórsykri og salti í skál
 5. Í annarri skál, hrærið þá saman eggjunum og eggjarauðunum
 6. Hellið þurrefnunum, eggjahrærunni og súkkulaðinu saman og hrærið með sleif
 7. Deigið verður frekar þykkt
 8. Setjið deigið í muffinsformin eða álbakka/form.
 9. Bakið í 12-14 mínútur ef þið notið muffinsform, ef þið notið hinsvegar álbakka eða álform þá er nóg að baka kökurnar í aðeins 8-10 mínútur.
Tekið úr Sallys baking addiction
BELLE | Allt milli himins og jarðar http://www.belle.is/

-Heiðrún

Ruccola pesto

Ég verð að viðurkenna að ég er ekki hrifin af ruccola. Það er eitthvað við bragðið sem mér finnst alls ekki gott. Hinsvegar elska ég grænt pestó og gæti borðað það í hvert mál! Þegar mamma var með stórt fjölskyldumatarboð um daginn sagði hún mér að hún ætlaði að búa til ruccola pestó, mér fannst það alls ekki hjóma spennandi og sagði við hana að það gæti ekki verið gott! Ég neyddist svo til að draga orð mín til baka því þetta pestó var hrikalega gott! Ég gat ekki hætt að borða það! Ég prófaði að setja það yfir salatið mitt, ég prófaði að borða það með nautalund (vá hvað það var gott!) og svo setti ég það líka á naan brauð. Mæli svo sannarlega með þessu pestói. 

Ruccola pesto
Skrifa umsögn
Prenta
Ruccola pesto
 1. 100 gr Ruccola (klettasalat)
 2. 100 gr parmesan ostur
 3. 30-40 gr möndlumjöl
 4. 0,5-1 dl olífuolía
 5. Safi úr einni sítrónu
 6. Salt og pipar
Aðferð
 1. Allt sett í matvinnsluvél, Mér finnst betra að hafa pestóið frekar gróft þannig ég hef það ekki of lengi í matvinnsluvélinni.
BELLE | Allt milli himins og jarðar http://www.belle.is/

-Heiðrún

 

Sumarlegt kartöflusalat

Ég er mjög hrifin af kartöflusalötum, mér finnst svo ótrúlega þægilegt að geta búið það til aðeins fyrr, áður en ég byrja að elda, og geymt það í ísskáp. Ég hef prófað mig áfram með mismunandi kartöflusalöt og um daginn bjó ég til eitt (með góðri hjálp 😉 sem var klárlega eitt það besta! Vanalega er ég mest fyrir klassískt kartöflusalat með mæjó, sýrðum rjóma, beikon og graslauk en þetta er alveg komið á listann sem besta kartöflusalat sem ég hef gert! Passar vel með grillkjötinu í sumar (ef sumarið lætur einhverntímann sjá sig þar að segja ;).

Sumarlegt kartöflusalat
Fyrir 6
Skrifa umsögn
Prenta
Kartöflusalat
 1. 1-1,5 kg kartöflur
 2. 1 krukka sólþurrkaðir tómatar
 3. 1/2 - 1 krukka fetaostur
 4. Graslaukur eftir smekk
Dressing á salatið
 1. 1 dl hvítvínsedik
 2. 2 dl ólífuolía
 3. 2 tsk kornótt og gróft dijon sinnep
 4. 1/2 tsk salt
 5. 1/2 tsk grófmalaður pipar
Kartöflusalat
 1. Kartöflurnar eru soðnar og þær skornar í bita þegar þær hafa kólnað aðeins.
 2. Sigta olíu frá og saxaið sólþurrkuðu tómatana.
 3. Sigta olíu frá fetaosti
 4. Blandið sólþurrkuðum tómötum og fetaosti saman við kartöflurnar. Hellið dressingunni yfir og hrærið varlega saman. Líka hægt að gera kvöldið áður en bera á salatið fram, geymið þá í ísskáp yfir nótt en berið fram við stofuhita.
Dressing
 1. Piskað öllu saman og smakkið til hvort þurfi meira salt og pipar
BELLE | Allt milli himins og jarðar http://www.belle.is/

-Heiðrún

Ert þú á leiðinni til Ameríku?

 

Hæ! Vanalega birti ég bara uppskriftir hérna á blogginu en mig langar að skella í  færslu sem er ekki uppskrift 🙂 
Siðustu ár hef ég ferðast mjög mikið til Ameríku. Mér finnst það alltaf jafn skemmtilegt. Þegar ég var krakki ferðaðist ég aldrei til USA en ferðaðist mikið um Evrópu sem var dásamlegt. Þegar ég var svo orðin eldri og farin að ferðast sjálf langaði mig að prófa eitthvað nýtt og þá prófaði ég að fara til Ameríku. Síðan þá hef ég eiginlega farið á hverju ári.
Þar sem ég elska allt sem viðkemur eldamennsku og bakstri þá kemur það kannski ekki á óvart en eitt það skemmtilegasta sem ég geri þegar ég er í Ameríku er að fara í matvörubúðir. Ég elska hvað það er mikið úrval af allskonar vörum sem ekki eru til heima. Ferðafélagar mínir gera vanalega grín að mér því mjög oft er það þannig að ég ferðast heim með fullt af allskonar matvöru 🙂 Þess vegna langaði mig að búa til smá lista yfir það sem ég kaupi mér alltaf þegar ég fer til Ameríku, þessar vörur eru í uppáhaldi hjá mér! Ef einhver ykkar er á leið til USA þá getiði vonandi nýtt ykkur þennan lista 😉 
Fljótlega ætla ég svo að skrifa aðra færslu um Ameríku en þá ætla ég ekki að skrifa um matvörur heldur annað sem mér finnst ómissandi þegar ég ferðast til USA 🙂 

 

-Krydd úr Trader Joe’s

Trader Joe’s er uppáhaldsmatvörubúðin mín í USA, ég elska hana! Elska úrvalið þar af hollum vörum! Ég gæti í alvöru eytt heilum degi í þessari búð bara að skoða. Ef þið eigið leið þangað þá verðiði eiginlega að kaupa þessi krydd!

Everything but the bagel – Hrikalega gott krydd. Það er mjög gott ofan á allskonar eggjarétti eða avacado. Svo hef ég líka prófað að strá því yfir salat sem er mjög gott. Uppáhaldskryddið mitt þessa stundina!

BBQ Rub and Seasoning with Coffee and Garlic – Okey þetta krydd hljómar kannski skringilega. BBQ krydd með kaffi og hvítlauk! Þetta krydd er samt æði á grillkjötið, ég drekk ekki kaffi og þoli ekki kaffibragð og var þess vegna smá smeik við að prófa þetta en vá hvað það er gott! Tryllt á grillað lambakjöt og nautakjöt, sumarlegt og gott!


Chili Lime Seasoning – Ótrúlega gott krydd, sérstaklega á kjúkling! Líka gott að strá þvi yfir tómatsalat.

 

Onion salt – Annað krydd sem er í uppáhaldi hjá mér, ótrúlega gott í matargerð og ég nota það mjög mikið!

 

-Mio Energy
Ég kaupi mér alltaf þessa drykki þegar ég fer til USA. Ég set 2-3 dropa af vökvanum í glas og blanda vatni við. Bæði hægt að kaupa með koffíni og án þess. Mér finnst þetta algjör snilld, fæ mér stundum glas af þessu ef sykurþörfin er að fara með mig (það eru 0 kaloríur í drykknum). Ég kaupi mér samt alltaf sama bragðið, er búin að smakka margar mismunandi tegundir og þær eru allar mjög fínar en það er eitt bragð sem mér finnst langbest þannig mér finnst óþarfi að kaupa öðruvísi tegundir. Það sem ég kaupi mér alltaf heitir Wicked Blue Citrus (Sjá á myndinni hér að neðan).

-Frostþurrkuð ber
Ég hef ekki ennþá fundið frostþurrkuð ber hérna á Íslandi þannig ég kaupi mér oft þannig þegar ég fer til USA. Þau eru hrikalega góð, sérstaklega jarðaberin! Bragðast eins og nammi nema bara hollari 😉 Kaupi þau vanalega í Target eða í Trader Joe’s.

-Fiber One súkkulaði brownies
Þessir brownie bitar eru geggjaðir! Ég elska þá! Ég kaupi alltaf 2 pakka af þessum kökum þegar ég fer til USA (Held þeir séu reyndar líka til í Bretlandi). Hver kaka er bara 90 kaloríur, kannski ekkert hollasta millimál sem til er en það er samt svo gott að grípa í þessa bita þegar sykurþörfin bankar upp á. Þessar kökur eru til með allskonar bragði en mér finnst súkkulaðibrownies vera bestar.

 

-m&m caramel
Þegar ég fer til Ameríku kem ég alltaf heim með smááá nammi, svona til að eiga á erfiðum dögum 😉 Er einhver sem fer í frí til USA og kemur bara ekki með neitt nammi heim með sér?! M&m caramel er klárlega í uppáhaldi hjá mér, þetta nammi er guðdómlega gott, ef þú ert á leið til USA þá er must að kaupa karamellu m&m!

 

-Hvítlauksbrauð frá Red Lobster
Ég kaupi nánast alltaf mix til að búa til hvítlauksbrauð eins og þau sem maður fær á Red Lobster. Red Lobster er veitingastaðarkeðja í USA sem sérhæfir sig í sjávarréttum. Það besta við matinn hjá þeim er að þeir bera alltaf hvítlauksbrauð á borðið á meðan beðið er eftir matnum. Þetta hvítlauksbrauð er eitt það besta og þess vegna finnst mér geggjað að geta keypt mix í matvörubúð og eldað það svo heima. Mæli klárlega með!


 

-Poppkrydd
Ég hef aldrei verið neitt sérstaklega mikill poppaðdáandi. Mér finnst fínt að fá mér poppkorn svona af og til en fæ mér mjög sjaldan samt. Í fyrra var ég stödd á ráðstefnu í Los Angeles og rakst þar á í Target poppkrydd sem mér fannst hljóma frekar spennandi. Það voru til allskonar braðgtegundir og ég endaði á því að kaupa mér einn dunk af hverri tegund sem voru til í þeirri búð. White cheddar, nacho cheese, ranch, bacon cheddar og garlic parmesan voru tegundirnar sem ég keypti. Ég skal alveg viðurkenna það að ég hef aldrei poppað jafn oft eins og þegar ég átti þessi krydd, það var svo hrikalega gott að strá því yfir poppið mitt! Ég fer aftur til USA í sumar og þá ætla ég að gera allsherjar leit af poppkryddi! Þau eiga að fást í Target og Walmart 😉 

 

-Heath
Annað nammi sem fær oft að koma með mér heim til Íslands eftir Ameríkudvöl. Ég elska allt sem inniheldur Daim og mér finnst þetta súkkulaði eiginlega vera ameríska útgáfan af Daim, hættulega gott!

-Jack Daniel’s BBQ Pork Rub
Ég er pínku kryddperri og þess vegna kaupi ég alltaf einhver krydd þegar ég fer til USA. Kryddin hér fyrir ofan kaupi ég öll í Trader Joe’s en þetta krydd hér að neðan hef ég til dæmis keypt í Walmart. Þó svo að kryddið heiti Pork Rub þá nota ég það oftast þegar ég elda kjúkling. Hrikalega gott að strá þessu kryddi yfir kjúklingaleggi og setja svo inn í ofn. Ég hef líka prófað að nota það þegar ég hægelda svínakjöt og það var líka mjög gott. Klárlega eitt af uppáhaldsmatarvörunum mínum frá USA!

 

 

-Heiðrún

Eplafranskar með saltkaramellusósu

Hæ! Ég var að fara í gegnum gamlar myndir í tölvunni minni um daginn og fann þá myndir sem ég tók fyrir næstum því 2 árum af eplafrönskum með saltkaramellusósu sem ég gerði. Ég var búin að steingleyma þeim, sem mér finnst mjög skrítið því þær eru hrikalega góðar! Ég ætla að deila uppskriftinni af þeim með ykkur í dag!

Eplafranskar með saltkaramellusósu
Skrifa umsögn
Prenta
Eplafranskar
 1. Smjördeig
 2. 40 gr smjör
 3. 2 stór græn epli
 4. 2-3 msk púðursykur
 5. Dass af kanilsykri
 6. 100 grömm suðusúkkulaði
Karamellusósan
 1. 1 poki af rjóma-karamellukúlum frá Nóa
 2. 2-4 msk rjómi
 3. Dass af salti
Eplafranskar
 1. Smjörið brætt á pönnunni og eplin sett út í. Þau eru steikt þar til þau fara að mýkjast.
 2. Púðursykrinum er síðan bætt við og hann bræddur saman við.
 3. Dass af kanilsykri næst bætt við, sirka 1-2 matskeiðar.
 4. Að lokum, þegar eplin eru orðin mjúk og hráefnin hafa blandast vel saman, er blandan látin standa í nokkrar mínútur áður en söxuðu suðusúkkulaði er bætt út í. Hrært saman þar til súkkulaðið er að mestu leiti bráðnað.
 5. Fletjið smjördeigið (2 plötur) út eins mikið og þið getið. Setjið fyllinguna á hálft smjördeigið og „lokið“ því svo.
 6. Skerið í ræmur, ca 5 sm á lengd og 1 cm á breidd. Notið gaffal til að þrýsta á hliðarnar til að loka eins og hægt er.
 7. Pískið egg og penslið á eplafranskarnar.
 8. Bakið við 180°C þar til eplafranskarnar verða fallega brúnar á litinn.
Karamellusósan
 1. Bræðið karamellukúlurnar á lágum hita. Passið að þær brenni ekki við.
 2. Bætið rjómanum út í þegar kúlurnar eru alveg bráðnaðar og hrærið vel. Áferðin á kúlunum breytist þegar rjómanum er blandað við.
 3. Að lokum bætið þið saltinu við. Smakkið til.
BELLE | Allt milli himins og jarðar http://www.belle.is/

-Heiðrún

 

Kaka með vanillusmjörkremi

Oh mér finnst ég byrja allar færslur á því að biðjast afsökunar á því hvað það sé langt síðan ég setti síðast inn uppskrift! Þessi færsla verður ekkert öðruvísi því það eru næstum 2 mánuðir síðan ég setti inn uppskrift! Síðustu vikur hafa verið frekar skrítnar og ég hef varla hugsað um bloggið þar sem það hefur verið svo margt annað í huga mér. En svona í tilefni þess að það sé kominn föstudagur og það eru bjartir tímar framundan þá ætla ég að skella inn uppskrift af köku sem er í uppáhaldi hjá mér. Þetta er nú ekkert sérstaklega flókin uppskrift, frekar klassísk bara enda held ég að flestir hafi bakað kökur með smjörkremi. Mér finnst þetta smjörkrem sem ég gef uppskrift af hér á eftir vera besta smjörkrem sem ég hef smakkað. Þegar ég bý það til er ég vanalega búin að borða svo mikið af því upp úr skálinni að ég hef ekki lyst á kökunni sjálfri!  

Skúffukaka með smjörkremi
Skrifa umsögn
Prenta
Skúffukakan
 1. 200 gr hveiti
 2. 280 gr sykur
 3. 1 og ¼ tsk matarsódi
 4. 1 tsk salt
 5. 50 gr kakó
 6. 125 gr smjörlíki - lint
 7. 3 egg
 8. 1 tsk vanilludropar
 9. 100 ml mjólk
Smjörkremið
 1. 120 gr íslenskt smjör - við stofuhita
 2. 60 gr smjörlíki - við stofuhita
 3. 1 tsk vanilludropar (mjög gott að nota fræ úr vanillustöng í staðinn)
 4. 1 egg
 5. 350 gr flórsykur
 6. 2-4 msk rjómi (hægt að nota mjólk)
 7. Salt á hnífsoddi
Skúffukakan
 1. Hrærið saman sykri, smjörlíki, vanilludropum og eggjum.
 2. Sigtið hveiti, matarsóda, salt og kakó saman og blandið við.
 3. Hellið mjólkinni út í og hrærið allt saman.
 4. Kakan er bökuð við 180 gráður í 25-30 mín eða þar til þú getur stungið prjón í hana og hann kemur hreinn út.
Smjörkremið
 1. Öllum hráefnum nema rjóma er hrært saman.
 2. Bætið rjómanum út í á meðan kremið er hrært, einni og einni skeið í einu. Notið meiri rjóma ef ykkur finnst kremið vera of þunnt.
 3. MIKILVÆGT: Hrærið kremið lengi, ca 10-15 mínútur, á háum hraða. Því lengur sem kremið er hrært, því betra verður þar. Það verður meira "fluffy" ef það er hrært svona lengi.
 4. Þegar ykkur finnst kremið nógu fluffy og létt skellið því þá á kalda kökuna.
BELLE | Allt milli himins og jarðar http://www.belle.is/

-Heiðrún

Pekanhnetu-snakk

Hæ, gleðilegt nýtt ár! Langt síðan ég hef hent inn uppskrift, það hefur verið frekar mikið að gera á nýju ári og ég hef haft lítinn tíma í eldhúsinu en vonandi fer það nú allt að róast hjá mér. Mér finnst eins og það séu liðnir margir mánuðir síðan ég bakaði eitthvað gott þannig núna verð ég bara að fara að skella í eina djúsí köku! En í dag ætla ég að gefa ykkur ótrúlega góða uppskrift af pekanhnetu snarli. Þetta snakk er voða sniðugt til dæmis í saumaklúbbinn eða ef þið eruð að fá gesti en svo er líka bara voða gott að skella í eina uppskrift ef ykkur langar í eitthvað gott nasl. Mæli algjörlega með!

Pekanhnetusnakk
Skrifa umsögn
Prenta
Hráefni
 1. 60 gr smjör
 2. 2 msk teriaky sósa (betra að nota þykka sósu)
 3. 2 og 1/2 msk púðursykur
 4. 250-300 gr pekanhnetur
 5. Sesamfræ eftir smekk (notað til að þykkja blönduna).
Aðferð
 1. Setjið smjör, teriaky sósu og púðursykur í pott. Hitið þar til blandan fer að malla.
 2. Hrærið pekanhnetunum vel saman við blönduna. Bætið svo sesamfræjum við.
 3. Setjið bökunarpappír á ofnplötu. Hellið hnetunum á plötuna. Dreifið út hnetunum. Passið að hneturnar séu ekki margar klesstar saman.
 4. Bakið við 180°C í um það bil 10-12 mín. Fylgist þó vel með hnetunum og passið að þær brenni ekki.
 5. Leyfið hnetunum að kólna áður en þær eru bornar fram. Hrærið í þeim annað slagið á meðan þær eru að kólna.
BELLE | Allt milli himins og jarðar http://www.belle.is/

-Heiðrún

Bríeost-og eplabaka

Næsta uppskrift sem ég vil deila með ykkur er uppskrift sem kemur mikið á óvart! Ég bjóst ekki við miklu en vá, þessi baka er ótrúlega góð! Og ekki verra hvað hún er einföld. Ég nota lauksultu frá costco sem ég keypti fyrr í vetur. Ég hef reyndar ekki farið í costco í smá tíma núna og veit því ekki alveg hvort hún sé ennþá til en hún kemur pottþétt aftur ef hún er ekki til. Ég er allavega búin að kaupa nokkrar krukkur síðan costco opnaði í vor og ég elska þessa sultu! Hún er líka ótrúlega góð með öðrum mat, ég nota hana til dæmis alltaf þegar ég elda hamborgara! Ég mæli sannarlega með þessari böku, hún er virkilega góð og gæti hentað vel á veisluborð um jólin. Hentar líka í saumaklúbbinn 🙂 

Bríeost-og eplabaka.
Skrifa umsögn
Prenta
Hráefni
 1. 1 pakki frosið smjördeig
 2. 1/3 krukka rauðlaukssulta úr Costco
 3. 2 epli
 4. 2 Bóndabríe
 5. Timian
Aðferð
 1. Afþýðið smjördeigið.
 2. Hitið ofninn í 180-200 gráður.
 3. Takið smjördeigsplöturnarplöturnar og leggið á ofnplötu. Fletjið út þannig að smjördeigsplöturnar tengjast og festast saman. Getið líka hnoðað plötur saman og flatt deigið út þannig.
 4. Skerið grunna krossa í deigið út um allt til að það lyfti sér minna í ofninum.
 5. Forbakið í 15 mínútur.
 6. Afhýðið eplin, takið kjarnar úr og skerið í þunnar sneiðar.
 7. Skerið ostinn líka í þunnar sneiðar.
 8. Takið smjördeigið úr ofninum og smyrjið lauksultu vel á alla bökuna.
 9. Raðið eplum og osti yfir laukinn.
 10. Stráið að lokum Timian yfir.
 11. Bakið í ca. 25 mínútur eða þar til osturinn er bráðnaður og farin að brúnast smá.
 12. Skerið í sneiðar og berið fram heitt eða kalt.
BELLE | Allt milli himins og jarðar http://www.belle.is/

-Heiðrún

Súkkulaðifyllt appelsínubrauð

Jæja þá er komið að næstu uppskrift! Mig langar að deila með ykkur uppskrift af æðislegu súkkulaðifylltu appelsínubrauði sem sæmir sér vel á hvaða veisluborði sem! Brauðið er ótrúlega fallegt og þó svo að það virðist flókið þá er alls ekki erfitt að skella í það! Ég mæli sannarlega með þessari uppskrift 🙂 Þið getið breytt súkkulaðifyllingunni ef þið viljið leika ykkur aðeins með uppskriftina og sett þá fyllingu sem þið viljið, ég ætla til dæmis næst að prufa að nota Nutella, það hlýtur að vera mjög gott.

Súkkulaðifyllt appelsínubrauð
Skrifa umsögn
Prenta
Brauðið
 1. 1 bréf af geri
 2. 1/3 bolli + 2 matskeiðar appelsínusafi
 3. Rifin börkur af einni appelsínu
 4. 1/3 bolli Olífuolía
 5. ½ bolli fljótandi hunang
 6. 2 egg + 1 egg til að pensla með
 7. 1 ½ tsk salt
 8. 4 og 1/4 bolli hveiti
Súkkulaðifylling
 1. 130 gr suðusúkkulaði
 2. 110 gr smjör
 3. 1/3 bolli sykur
 4. 2 matskeiðar kakó
Aðferð
 1. Hitið appelsínusafann smá í örbylgjuofni þannig að hann sé við ca. líkamshita. Hellið gerinu út í safann og látið standa í smá tíma eða þar til gerið er uppleyst
 2. Blandið síðan saman við hunangi , appelsínuberki, olíu og eggjum.
 3. Í annarri skál blandið þið saman salti og hveiti.
 4. Bætið vökvanum útí og hnoðið saman. Látið standa við herbergishita í 1 klst og setjið svo í ísskáp yfir nótt, má alveg vera í 8-24 klst. Daginn eftir takið deigið út og látið það ná stofuhita (getur tekið 2-3 klst).
 5. Búið til fyllinguna. Bræðið saman smjörið og súkkulaðið og blandið síðan sykrinum og kakóinu við. Geymið við stofuhita meðan þið gerið deigið tilbúið
 6. Þegar deigið er tilbúið skiptið því í tvo hluta og fletjið út hvern fyrir sig, berið súkkulaði á og rúllið upp í rúllu. Gerið eins við hinn hlutann.
 7. Skerið hlutana í tvo bita þannig að þú sért með 4 hluta til að flétta.
 8. Fléttið brauðið, setjið á smjörpappír og leggið viskustykki yfir. Látið lyfta sér í um það bil 1 klst. Penslið með eggi og bakið við 190 gráður í 35-45 mínutur. Ef brauðið dökknar of fljótt er gott að leggja álpappír yfir restina af tímanum.
BELLE | Allt milli himins og jarðar http://www.belle.is/

-Heiðrún 

Dásamleg eftirréttarkaka

Jæja ekki nema þrír mánuðir frá síðustu færslu! Afsakið þetta bloggleysi, stundum þarf maður bara smá pásu. Ég skal alveg viðurkenna það að ég var eiginlega komin með smá leið á því að vera endalaust að baka og elda og taka myndir fyrir síðuna. Þessi bloggpása var einmitt það sem ég þurfti því eins og staðan er í dag er ég full af hugmyndum og ætla að reyna að vera dugleg næstu vikur að koma þeim í framkvæmd, baka eitthvað skemmtileg fyrir jólin og þess háttar. Ég ætla að byrja á því að deila með ykkur uppskrift af ljúffengri eftirréttarköku sem gæti verið tilvalin um jólin! Ég hef prófað kökuna bæði frosna (ískaka) og kalda (geymd í ísskáp). Persónulega fannst mér hún betri frosin og mæli því með henni þannig.

Ísterta
Skrifa umsögn
Prenta
Marengsbotninn
 1. 4 eggjahvítur
 2. 250 gr sykur
 3. 1 tsk eddik
 4. 2 tsk Maizena
 5. 4 msk kakó
Ísinn
 1. 600 ml rjómi
 2. 1 dós condensed sykruð mjólk (400g) (sæt mjólk, sjá á mynd hér að ofan)
 3. Korn úr 1x vanillustöng
 4. 3 msk kakó
 5. 100 gr súkkulaðidropar (konsum) - saxaðir
 6. 50 gr súkkulaðidropar sem skraut - saxaðir
Marengsbotninn
 1. Hitið ofninn í 150 °C.
 2. Þekkið smelluform með smjörpappír, ca 20 cm breitt. Látið smjörpappírinn ná uppá hliðarnar alveg.
 3. Stífþeytið eggjahvítur og bætið sykri smátt og smátt í meðan þið hrærið.
 4. Bætið við Ediki og maizena.
 5. Hellið kakó í gegnum sigti í stífþeyttar eggjahvíturnar og hrærið saman með sleif, blandið vel.
 6. Setjið marensinn í formið og bakið í 1 klst.
 7. Látið kóna alveg í forminu þegar botninn er tilbúinn. Þegar marensinn er orðin kaldur þá byrjið þið á ísnum.
Ísinn
 1. Þeytið saman rjómann og mjólkina (stundum betra að þeyta rjómann fyrst til hálfs og blanda svo mjólkinni við) þar til orðið stíft.
 2. Hrærið fræinn úr vanillustönginni við blönduna.
 3. Skiptið ísnum í tvo hluta.
 4. Hrærið súkkulaðidropana við annan hlutann og sigtað kakóið í hinn hlutann.
 5. Setjið hvíta hlutann fyrst á marensinn og síðan þann brúna varlega ofan á.
 6. Hrærið aðeins í ísblöndunum með prjóni til að blanda þeim saman, sjá mynd hér að ofan.
 7. Setjið plast yfir kökuna og frystið í minnst 8 klst eða lengur.
Annað
 1. Mjög gott að bera fram með einhversskonar sósu, ég hef til dæmis búið piparmintusósu (uppskrift kemur seinna)
BELLE | Allt milli himins og jarðar http://www.belle.is/

-Heiðrún

 

Fylgdu okkur á


Follow