Bryndís Björt

Brúðkaup

HÆ! Mig langar að taka smá hlé frá interior færslunum og ætla að hafa hálfgert brúðkaupsþema í febrúar hér á síðunni, svona af því tilefni að við héldum okkar þann 2. feb sl.
Í undirbúningnum komst ég að því hvað það er að ótrúlega mörgu að huga og margt að ákveða, amk eins og við gerðum þetta. Mig langar því að fara yfir okkar helstu skref í þessu öllu saman og sýna ykkur aðeins frá okkar degi!
Í þessari fyrstu brúðkaupsfærslu ætla ég bara að byrja á byrjun, pinterest. Fljótlega eftir að við trúlofuðum okkur fórum við að plana hægt og rólega og ég eyddi ófáum stundum á pinterest og sótti mér allskonar innblástur og gerði mér moodboard áður en lengra var haldið.

     

Hvítt, gull, grátt og plöntugrænt varð semsagt þemað, og ég vildi hafa mikið af kertum og seríum enda vetur og dimmt úti!

Hér eru svo nokkrar myndir frá 2.2.18! Það er líka hægt að finna fleiri í instagram highlights hjá mér; @bryndisbjort. Fyrirfram sorry með snapchat gæðin – þetta eru mest myndir sem ég tók úr hóp story-inu sem við vorum með. Ég mun eflaust gera færslu með betri myndum, og þá frá ljósmyndara, þegar þær koma til okkar!

         

Annars vona ég að þið séuð til í þessa tilbreytingu með mér hérna og að þetta muni jafnvel nýtast einhverjum sem er að plana eitt stk. wedding!

Bryndís Björt

Lagt minimalískt á borð

Mér finnst alltaf svo gaman að sjá fallega lagt á borð, sérstaklega þegar það er ekki of mikið í gangi. Til að slútta janúar minimalismanum ætla ég að láta fylgja hér fallega, en einfaldlega, skreytt borð.

Eitt af því sem fylgir þegar maður ákveður að gifta sig er að fólk fer að spyrja hvernig stelli maður sér að safna. Við höfðum ekki beint skoðun á þessu enda ekki að safna neinu sérstöku, en, tókum þá ákvörðun að setja á óskalistann eitt slíkt. Það sem varð fyrir valinu var svart stell frá Bitz, en sbr. myndirnar hér að ofan þá finnast mér dökk stell vera að koma mjög vel út! 
Stellið er semsagt frá danska hönnuðinum Christian Bitz og kemur í svörtum, gráum og grænum litum. Einstaklega fallegt, og auðvelt að blanda saman litunum!

 

Nú eru hins vegar bara 5 dagar í brúðkaup svo ég verð aðeins off hér á síðunni á næstunni.
Sé ykkur bara næst, gift kona!!! 

Bryndís Björt

Zen heima

Eins og ég hef áður komið inná er Zen hugtakið og spekin í kringum það eitt af því sem einkennir minimalíska hönnun. Hugtakið kemur frá Japan og tengist Búddisma, og leggur áherslu á gildi hugleiðslu og innsæi.

Friður og ró. Mér finnst þetta vera að virka best í svefnherbergjum og á baðherbergjum, enda eru það rýmin sem maður er helst að taka því rólega í, og zen hönnunin hjálpar svo sannarlega til með að mynda rólega og góða stemningu að mínu mati.

 

Bryndís Björt

 

 

Japönsk hönnun – innlit

Í þessu innliti var innblástur arkitektsins (Sergey Makhno sem kemur frá Úkraínu) japanskur minimalismi þegar hann hannaði þetta heimili fyrir sig og fjölskyldu sína. Sergey hannaði mörg húsgögnin sjálfur og var bæði undir áhrifum úkraínskar og japanskar hönnunar og varð þetta úkoman – sem mér finnst virkilega áhugaverð.

Myndir eftir Andrey Avdeenko

Mér finnst svo gaman að skoða innlit og bara hönnun almennt sem er framandi og ólík því sem ég er vön að sjá. Þó þetta sé ekki akkurat eins og ég myndi hanna mitt eigið heimili þá  getur hönnun sem kemur á óvart veitt ótrúlega mikinn innblástur.

Ég vona að þið hafið gaman af að sjá aðeins öðruvísi innlit hjá mér annað slagið hérna inni!

Bryndís Björt

 

 

Hvað er minimalismi?

Hugtakið ,,minimalismi“ kom fyrst fram á seinni hluta 20. aldar (um 1960) og var þá notað til að lýsa skúlptúrum og list. Síðan þá hefur hugtakið breiðst út og getur nú átt við allt frá lífstíl, tísku og tónlist til hönnunar og arkitektúrs. Í kringum 1980 kom minimalískur arkitektúr fram og snerist um að minnka viðfangsefnið niður í aðeins nauðsynlega þætti þess. Því átti sér stað mikil einföldun, en einfaldleikinn er einmitt stórt hugtak innan minimalismans. Þá spila hreinar línur og náttúruleg lýsing einnig stór hlutverk.

 

    

   

 

Þessi stíll sótti mikinn innblástur í hefðbundna japanska hönnun og hugtakið Zen, og heimspekina á bakvið það. Einnig tengist hann hollensku listahreyfingunni De Stijl (1917-1931) sem þróaði hugmyndir um tjáningu með notkun grunnþátta svo sem beinna lína og yfirborða. 

Þá má nefna arkitektinn Ludwig Mies van der Rohe sem sagði ,,less is more“ eða ,,minna er meira“ til að lýsa sinni aðferð að raða aðeins því nauðsynlega til að ná fram raunverulegum einfaldleika. 

 

Minimalísk hönnun og arkitektúr er því í grunninn einfaldleikinn; hreinar og beinar línur, hlutlaus litapalletta og endurtekning forma. Náttúruleg lýsing er svo notuð til að undirstrika einföld rými, minimalísk húsgögn og praktísk efni.

Þar hafiði það! Í lokin, og í takt við minimalíska þemað í janúar, langar mig að láta fylgja nokkra punkta sem eru taldir einkenna minimalískan lífstíl, eins hádramatískt og þetta hljómar sumt þá held ég samt að svona pælingar geti gert manni gott. 

Losa sig við hluti sem veita óánægju

Fylgja ástríðunni og markmiðum

Skapa meira, neyta minna

Áhersla á heilsu

Vaxa sem einstaklingar

Finna tilgang

 

Ég held að maður hefði alveg gott að því að losa sig við óreiðu á einhverju sviði í lífinu og hafa einfaldleikann að leiðarljósi. Einföld hönnun heillar mig amk alltaf!

 

Bryndís Björt

Bel Air heimili Kim & Kanye

Byrjum þetta nýja ár á nokkrum myndum frá heimili vina minna Kim og Kanye, eða amk því heimili sem þau virðast eiga í nýjustu seríu Keeping Up – sem mér skilst að sé hins vegar bara bráðbirgða heimili þeirra (eðlilega). 

Í síðustu þáttum um Kardashian fjölluna hef ég tekið svolítið eftir heimili Kim og minimalísk hönnunin (kannski sérstaklega í samanburði við önnur hús sem birtast í þáttunum, sem ég er ekki að elska) hefur gripið augað mitt. Þetta eru stór og björt rými – með fáum, stílhreinum húsgögnum. 

Við erum auðvitað að tala um mjög grand minimalisma hér, en það er magnað hvað færri hlutir geta oft sagt meira en fleiri.

Ég byrja árið á þessum myndum og pælingum vegna þess að í janúar verður ákveðið þema í gangi á síðunni minni. Minimalísk hönnun. Ég stefni á að setja inn ýmislegt tengt þessum stíl á næstunni og vona að þið munuð hafa gaman af! 

Bryndís Björt

2017 // 2018

Áramótin sjálf! Skemmtilegasta kvöld ársins að mínu mati.

Þetta kvöld finnst mér alltaf gaman að líta til baka og horfa á árið sem er að klárast. 2017 var með skemmtilegri árum sem ég hef upplifað. Ég ferðaðist mikið í byrjun árs, byrjaði í nýrri vinnu sem mér finnst ótrúlega skemmtileg og átti milljón góðar stundir með vinum og fjölskyldu. Set hér nokkrar uppáhalds myndir frá árinu!

    

Gleðilegt nýtt ár allir saman, ég vona að allir eigi geggjað kvöld og mæti klárir inn í 2018.
Ég er amk sjúklega spennt fyrir nýju ári, aðallega af því í febrúar ætlum við Björgvin að gifta okkur. Ég hef ekkert skrifað um það hér á síðunni áður, en við erum búin að vera á fullu í undirbúningi síðustu mánuði. Nú er rétt rúmur mánuður í brúðkaupið og við að leggja lokahönd á allt saman. Ég stefni á að setja inn einhverjar færslur um brúðkaupið, undirbúninginn og fleira – ef það er áhugi fyrir slíku.

 

Bryndís Björt

 

2018 markmið

Nú fer 2017 að klárast og nýtt ár alveg að hefjast. Áramótaheit hafa alltaf verið partur af nýju ári hjá mér, hvort sem ég hef skrifað þau niður eða haft þau í hausnum. Mér hefur fundist betra að skrifa þau niður á stað sem ég get kíkt reglulega á, því maður er jú alltof gjarn á að gleyma þeim. Seinni ár hef ég frekar horft á þetta sem markmið fyrir árið og ég ákvað að í ár myndi ég deila með ykkur nokkrum af þeim markmiðum sem ég hef sett mér fyrir árið 2018. 

Ég er mjög skipulögð týpa og hef oft óeðlilega gaman að því að setja mér markmið eða plan fyrir framtíðina, og þá alveg svona 3 ár fram í tímann.. eins skrítið og sumum gæti fundist það. Þó svo að planið og markmiðin breytist auðvitað mjög reglulega, þá hef ég bara það gaman að þessu að það truflar mig ekki að þurfa að breyta planinu stundum. 
Markmið sem ég set mér fyrir hvert ár skipti ég oftast upp eftir árstíðum eða í rauninni önnum: vörönn, sumar og haustönn.
Þetta skiptist svo oft hjá mér í nokkurs konar undirflokka. Ég er með markmið sem tengjast skóla eða vinnu, tengslum við vini og fjölskyldu, fjármálum, ferðalögum og sjálfri mér. 

Hér eru nokkur markmið sem mér fannst ekki of persónuleg til að setja hér inn, þetta hjálpar mér mjög að hafa yfirsýn yfir það sem ég vil afreka á hverri önn á árinu og byggist allt á langtímamarkmiðum sem ég er (ofc) líka með skrifuð hjá mér 😉

2018

Vorönn

– Stunda nám með vinnu
– Taka 2 advanced diploma verkefni í the Interior Design Institute
– Fara til USA í heimsókn til skiptinemafjöllunnar
– Æfa dans
– Fara oftar á tónleika, í leikhús eða svoleiðis fjör

Sumar

– Vinna og safna pening
– Ferðast um Ísland
– Eiga oftar frumkvæði að vinkonuhittingum
– Fara á lunga, bræðsluna & þjóðhátíð
– HM í Rússlandi???

Haustönn

– Halda áfram í námi með vinnu
– Æfa eitthvað
– Koma á góðu skipulagi á heimilinu og halda rútínu
– Fara í frekara nám í innanhússhönnun
– Vera duglegri að heimsækja ættingja
– Vera heima um jólin

Mig langar líka að taka fram að þetta á eflaust eftir að breytast hjá mér, ég vil bara sýna hvernig ég haga markmiðasetningu og mögulega gefa hugmyndir!

 

Bryndís Björt

Gleðileg jól!!!!

      

Mig langaði bara að hoppa hérna inn og óska ykkur öllum gleðilegra jóla. Ég mun eyða þeim í Boston sem er algjör snilld. Njótið kvöldsins og eigið góðar stundir <3

Bryndís Björt

Innlit – einfaldar jólaskreytingar

Einstaklega fallegt heimili sem birtist í Bo Bedre. Einfaldar jólaskreytingar heilla mig þessi jólin og eins og ég hef sagt áður þá er einfaldleikinn eiginlega þema jólanna minna í ár. Mér fannst þetta innlit því mjög við hæfi, ótrúlega látlausar skreytingar en mér finnst í þessu tilfelli minna klárlega vera meira.

Bryndís Björt

 

Fylgdu okkur á


Follow