Auður

Ég á bara eitt líf, við eigum öll bara eitt líf. Þessu virðumst við oft gleyma. Um 25 ungmenni hafa látist á þessu ári vegna ofneyslu fíkniefna og lyfseðilskyldra efna og Einar Darri Óskarsson var einn þeirra. Erlendir sem íslenskir rapparar upphefja þessi lyf í lögum sínum og mörg ungmenni taka þessum efnum léttvæglega og þetta er orðið eitthvað tísku fyrirbrigði. Hugsunin gæti verið að þessi lyf séu eitthvað sem þau geta hætt að taka þegar þau vilja eða hugsa sem svo að það mun ekkert slæmt gerast við þau. Þetta er rangt. Svo rangt, það er auðvelt að taka ofskammt af þessum lyfjum og það er ekki auðvelt að hætta, þessi efni eru einfaldlega lífshættuleg. Nú þekki ég ekki þessi lyfseðilskyldu efni af eigin raun og er bara að reyna að koma mér í hugarheim þessara ungmenna. En ég hef verið í kringum neyslu og í kringum þá sem eiga við fíkn að etja og þetta er ekkert grín.

Einar Darri var einungis 18 ára þegar hann dó, hress ungur strákur, dugnaðarforkur í skóla og ekkert benti til þess að hann misnotaði lyf, hann lést af völdum ofskammts af Oxycontin þann 25 maí síðastliðinn á heimili sínu. Einar var einn af fjölskyldunni minni þrátt fyrir að ekki vera blóðskyldur, ég þekkti hann því miður ekki vel sjálf en móður hans Báru hef ég þekkt næstum allt mitt líf og er hún móðir frænku minnar Andreu. Í jarðarförinni var kistan við hliðina á móður hans og hún hafði hendina á kistunni alla athöfnina, þetta var sonur hennar og hún var til staðar fyrir hann eins og hún var allt hans líf. Ekkert foreldri á að þurfa að fylgja barninu sínu til grafar. Amma mín sem var mjög veik á spítala af völdum krabbameins þegar jarðarförin var haldin, var mjög náin Einari og var hann eitt af bónusbarnabörnunum hennar. Hún sagði við móður hans að hún ætlaði að fara að passa upp á hann. Amma lést daginn eftir jarðarförina og efumst við ekki um að hún hafi haldi loforð sitt.

Andrea Ýr Arnardóttir og Bára Tómasdóttir.

Andrea Ýr Arnarsdóttir og Bára Tómasdóttir

Fjölskylda og vinir Einars Darra stofnuðu minningarsjóð sem ætlaður er fyrir ungmenni í fíkniefnavanda. Og mæli ég með því að allir styrki hann. Þið finnið hann á facebook hér með nánari upplýsingum um sjóðinn.

Reikningsnúmer: 0354-13-200240

Kennitala: :160370-5999

Tekið af síðu minningarsjóðsins:

Minningarsjóður Einars Darra, stendur fyrir og styrkir baráttuna #egabaraeittlif sem berst gegn fíkniefnum, með áherslu á misnotkun lyfja meðal ungmenna á Íslandi.
Markmið baráttunnar #egabaraeittlif
 • Sporna við og draga úr misnotkun fíkniefna, með áherslu á lyf
 • Opna umræðuna um misnotkun lyfja hér á landi
 • Auka þekkingu almennings á eðli og umfangi misnotkunar lyfja
 • Opna umræðu um vöntun á bættum meðferðarúrræðum

 

Einnig mæli ég með að þið nælið ykkur í #Ég á bara eitt líf armböndin. Þau hafa verið til dreifingar á ýmsum stöðum og munu framtíðar dreifingarstaðsetningar og dagsetningar koma seinna meir inn á minningarsíðuna. Armböndin eru kærleiksgjöf frá Minningarsjóði Einars Darra. Og tilgangurinn með þeim er að minna okkur öll á að við eigum bara eitt líf, förum vel með það. Þeir sem vilja styrkja er bent á minningarsjóðinn. 

Við stöndum öll saman í baráttunni gegn misnotkun lyfja!

 

 

5 Athugasemdir

Skildu eftir athugasemd

Netfangið þitt mun ekki vera birt

 1. Góðan daginn, ég vil gjarnan fá að kaupa tvö armbönd er það hægt í gegnum þessa síðu? Kv. Guðrún

  1. Góðan daginn Guðrún,

   Takk fyrir fyrirspurnina. Armböndin kosta ekkert, þau eru gefins kærleiks gjöf frá Minningarsjóði Einars Darra. En það er verið að dreifa þeim á ýmsum stöðum kringum landið og munu framtíðar dreifingarstaðsetningar og dagsetningar koma seinna meir inn á minningarsíðu Einars Darra. Mæli með að kíkja inn á þá síðu og fylgjast með þar 🙂 Er með hlekk á síðuna á blogginu annars heitir hún bara minningarsíða Einars Darra, ætti að vera auðvelt að finna á facebook. Ef þú vilt síðan styrkja sjóðinn þá er Reikningsnumerið : 0354-13-200240 kennitala: 160370-5999.

   Kær kveðja,
   Audur Elín

  1. Sæll Ívar,

   Það eru nokkrar stærðir af armbandinu. Endilega kíktu á minningarsíðu Einars Darra á facebook, þar eru allir helstu dreifingastaðir nefndir 🙂

   Kær kveðja,
   Audur Elín

 

Fylgdu okkur á


Follow